15.11.1965
Efri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Mig undraði sannast sagna nokkuð allstór hluti í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., þar sem hann var að tala um, af hvaða orsökum sú brtt. væri hér flutt við húsnæðismálal. að sexfalda fasteignamat í stað þess að þrefalda það, vegna þess að það hafi ekkert það gerzt, sem réttlætti þessa breytingu, og ræddi síðan margt um það, að þeir samningar, sem hefðu verið gerðir við verkalýðsfélögin á liðnu vori, hefðu ekki haft nein þau útgjöld í för með sér, að ástæða væri til þessara breytinga, og þess vegna væru í rauninni engin rök fyrir þeim. Að vísu sló hann svo nokkuð yfir í aðra sálma og sagði, að það mundi þá vera sennilega helzt vegna þess, að það hefði vantað peninga til þess að mæta þörfunum frá í fyrra, sem þetta kæmi til, það væri þá heppilegra að segja það.

Ég held, að það hafi aldrei neitt annað verið sagt. Það hefur enginn haldið því fram, hvorki ég né hæstv. félmrh., að þetta væri flutt vegna neinna skuldbindinga frá því í sumar við verkalýðsfélögin, og ég held, að það hljóti allir hv. þm. að hafa skilið það nákvæmlega, hvað hér er við átt. Bæði gerði ég mjög rækilega grein fyrir því í fjárlagaræðu minni, að það væri nauðsynlegt að afla þessa fjár til að mæta útgjöldum vegna húsnæðismála, einmitt þeim útgjöldum, sem fallizt var á að taka á ríkissjóð með samkomulagi við verkalýðsfélögin í fyrra. Það var tekið fram einnig við 1. umr. þessa frv. hér, og það stendur í grg. frv., að þetta sé gert vegna samninganna frá í fyrra, þannig að hér er um svo augljósa hluti að ræða, að við ættum ekki að þurfa að vera að karpa um það. Það er vitanlega alveg á hreinu, að hér er verið að afla fjár til þess að mæta þeim kröfum, sem gerðar voru til ríkissjóðs og samþ. var að taka á ríkissjóð með samkomulagi við verkalýðsfélögin í fyrra, — útgjöldum, sem gert var ráð fyrir að mæta þá og er þegar í l. um húsnæðismálastofnun með því að þrefalda gildandi fasteignamat. Og það var gert ráð fyrir, að það nægði, enda er hvergi nein fjárveiting til, það er ekki nein fjárveiting í fjárl. til þess að mæta þessum útgjöldum. Það er engin fjárveiting til eða fjáröflun til þessara þarfa nema það, sem segir í l. um húsnæðismálastofnunina. Það er eini staðurinn, þar sem þessi fjáröflunarheimild er til staðar, og þess vegna verður vitanlega að ganga út frá því, að það væri ætlazt til, að þessari fjáröflun yrði náð með þessum hætti. Það er heldur enginn ágreiningur um, að það hafi verið gengið út frá því í samningunum við verkalýðsfélögin í fyrra, að þetta yrði gert með fasteignagjöldum á einhvern hátt. Það hefur enginn mótmælt því. Og það verður sannast sagna að teljast mjög eðlileg leið að hafa þá aðferð, sem hér hefur verið gert, að leggja þetta á eignir í kaupstöðum og kauptúnum í stað þess að láta alla borgara landsins greiða þetta, þar sem vitað er, að húsnæðismálalöggjöfin og aðstoð vegna hennar gildir eingöngu fyrir byggingar í kaupstöðum og kauptúnum. Hér er af þessum sökum, að mér finnst, mjög eðlileg og réttlát fjáröflun, mun réttlátari en það að leggja þetta á borgarana alla í einhverjum almennum sköttum, sem á hvort sem er ekki að koma til góða nema hluta þeirra.

Hv. þm. endurtók það, sem ég var nokkuð hissa á, að hér væri í rauninni um orðaleik að ræða að tala um, að nokkur munur væri á því að margfalda fasteignamat eða taka fasteignaskatta. Ég skil nú satt að segja ekki í hv. þm. að halda þessu fram. Þetta getur í vissum tilfellum að vísu verið svo, ef eignir manna eru í báðum tilfellum skuldlausar. En sá er grundvallarmunurinn á fasteignasköttum og eignarskatti, að þegar um er að ræða fasteignaskatt, er hann lagður á eignina. Enda þótt maðurinn skuldi allt í henni og eigi ekkert í henni, þá verður hann að borga fasteignaskatt. En þegar um eignarskatt er að ræða, er aðeins um nettóupphæðina að ræða. Ég verð þá að telja, að það sé í rauninni miklu eðlilegri og sanngjarnari viðmiðun til skattlagningar heldur en fasteignaskatturinn. Fasteignaskattur er nánast aðstöðugjald, og það hefur verið talið eðlilegt, að bæjarfélögin hefðu það, og það er engin ætlun að breyta því. En eins og ég tók fram áðan og ég held, að engum hafi nokkurn tíma dottið í hug, hefur aldrei staðið til að afnema eignarskatt af fasteignum og afhenda sveitarfélögunum þann tekjustofn. Við getum svo deilt um það, hvort eignarskattur á yfirleitt að vera til eða ekki, það er önnur saga. Meðan svo er, held ég, að það hafi engum hugkvæmzt, að hann eigi að afhendast sveitarfélögunum, og ég held, að við hljótum öll að geta verið sammála um það, að á þessu er verulegur grundvallarmunur.

Hv. þm. hélt því fram, að með hliðsjón af þeim málsatvikum, sem hér lægju til grundvallar, væri með þessu ekki verið að afla fjár til húsnæðismálastofnunarinnar, heldur til þess að standa undir sérþörfum ríkissjóðs. Þetta er alls ekki rétt. Ef það hefði verið gengið út frá því í 1. um húsnæðismálastofnun, að þreföldun fasteignamatsins ætti að nægja, er það rétt, þá hefði ekki þurft að gera neitt frekar til þess að afla hér fjár. Nú er hins vegar gengið út frá fastri upphæð, þ. e. 40 millj., og það kemur á daginn, að það munar um helming eða meira, að sú upphæð nægi til þess að mæta þessum þörfum. Um það verður ekki deilt, enda þótt deila megi um nokkrar millj. til eða frá, sem er alveg rétt og hv. þm. sagði og hefur alltaf verið tekið fram af skattyfirvöldum einnig, að það væri gersamlega ómögulegt að áætla þessa upphæð nákvæmlega. Ég vil hins vegar taka það fram, svo að það valdi ekki misskilningi, að það væri auðvitað hægt að sjá, hvað þessi þreföldun gefur. Það er hægt að sjá það nokkru eftir á, þegar búið er að fara í gegnum öll einstök framtöl ársins í ár, en það er ómögulegt á þessu stigi, þegar menn hafa aðeins fyrir sér almennar niðurstöður eignarskattsins, að sjá nákvæmlega, hver þessi upphæð er. En ég vil taka það skýrt fram, að það er auðvitað hægt að sjá það með nákvæmri skoðun á hverju framtali eftir á, hvaó þetta hefur verið. Og mér finnst það nokkuð vera að deila um keisarans skegg að vera að tala um það, að af því að það sé ekki hægt að sjá þetta nákvæmlega, sé í rauninni ekki grundvöllur til þess að veita þessa heimild. Ég hef gert grein fyrir því, að þó að það kunni að muna nokkrum millj. til eða frá og ég hefði sjaldan vitað, að skattar væru á lagðir svo nákvæmlega, að það væri fyrir fram vitað upp á krónu, hverju sú skattlagning kynni að nema, að þó að þetta væri ekki nákvæmlega vitað, er hægt að fara það nærri því, að það eru líkur til þess, að þessi sexföldun, sem hér er farið fram á, nægi til þess að standa straum af því, sem var ætlunin að ná með þeirri þreföldun, sem samþ. var í fyrra, en því miður vegna margra atvika, sem ég hef áður gert grein fyrir og ég heyrði einnig, að hv. 3. þm. Norðurl. v. skildi fullkomlega, var óraunhæf og náði ekki nema helmingi þess, sem til var stofnað. En ég sé ekki, að það þurfi að koma mönnum ákaflega á óvart, að till. sem þessi komi hér fram, úr því að það var gert ráð fyrir því að afla þeirrar heildarupphæðar, sem lá þegar fyrir í fyrra, þegar umr. voru um fasteignamatið þá og þann eignarskattsauka, sem gert var ráð fyrir og átti þá að mæta þessum 40 millj. að fullu.

Varðandi það, að það sé algerlega óþinglegt að hafa orðalag frv. þannig að setja sexfaldað í staðinn fyrir þrefaldað, held ég, að mætti nú í mörgum tilfellum kannske finna svipað dæmi þess í löggjöf, þar sem er breytt einstökum orðum í stað þess að taka upp heilar greinar. Ég er ekki að segja, að það sé endilega til fyrirmyndar, en ég held, að það sé víðs fjarri, að það sé hægt að segja, að það sé nokkurt brot á reglum um uppsetningu frv. og óeðlileg vinnubrögð að hafa þá tilhögun á, því að þetta er í öðru hverju frv., sem kemur hér fyrir þingið um breytingar á lagabálkum, að tekin eru upp einstök atriði, og að það mun vefjast fyrir nokkrum að átta sig á því, hvað það merkir, það held ég ekki heldur að hafi við mikið að styðjast.

Ég held, herra forseti, að ég hafi ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, en vonast til, að það sé öllum hv. þm. ljóst, að þessi tekjuöflun, sem hér er um að ræða, er til þess að mæta þeim kröfum, sem féllu á ríkissjóð með samkomulagi við stéttarfélögin frá í fyrra og ekki tókst þá að afla fjár til með þeim hætti, sem til var stofnað, þannig að fjáröflun skortir algerlega til þess að mæta þessu, án þess að sérstakar ráðstafanir séu gerðar. Það skal hins vegar tekið fram, að það er alls ekki ætlun manna að fara að nota þetta til hækkunar fasteignamatsins til eignarskatts á þessu ári, auka við það, heldur að þetta taki gildi á næsta ári. og þá verður að sjálfsögðu ríkissjóður í ár að bera hallann af því, að hér hefur ekki tekizt að ná helmingi þess fjár, sem Alþ. ætlaði til þess að mæta þessum þörfum.