22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það verður að segja, að margt hefur orðið ljósara en áður um þetta mál við þær umr., sem fram hafa farið, enda eru þær orðnar talsvert langar, en það er heldur ekkert einkennilegt, vegna þess hversu þetta mál er allt stórt í sniðum, fjölþætt og grípur inn í margt.

Samt sem áður er enn þá margt óljóst í sambandi við þetta mál, m.a. vegna þess, hvað hæstv. ráðh. hafa verið tregir til þess að ræða einislega þær bendingar og aths., sem fram hafa komið um einstök atriði málsins. Vegna þess, hve hæstv. ráðh. hafa verið ógreiðir í svörum um ýmis atriði og skotið sér undan því að svara ýmsum þýðingarmiklum atriðum, hefur ekki orðið eins mikið gagn af umr. og ella.

Ég nefni það t.d.,sem hv. síðasti ræðumaður gat um og sem er mjög stórfellt atriði í þessu máli, og ég hef ekki enn orðið var við, að hafi verið upplýst í umr.: Hvað er gert ráð fyrir að afla mikils lánsfjár innanlands til Búrfellsvirkjunarinnar? Þetta er þó sannarlega ekki neitt smámál, vegna þess að það, sem dregið verður saman innanlands af fé til þess að leggja í virkjunina, það fé fer sannarlega ekki í annað. Það dregst sannarlega frá því, sem hægt er að leggja í annað. Það er ekkert smáatriði, að það komi fram, hversu mikið meira fjármagn muni þurfa að draga saman í virkjunina á næstu árum, ef álverksmiðjan er með en ef hún væri ekki með og Búrfellsvirkjun hagað samkvæmt því. Stórkostlegar bækur fylgja þessu máli, og einstök atriði geta farið fram hjá mönnum, en ég hef ekki getað komið auga á þetta í þeim fremur en hv. síðasti ræðumaður. Hæstv. ráðh. hafa ekki upplýst þetta hér, og vildi ég fara fram á, að þeir nú á elleftu stund í þessari hv. d. gæfu upplýsingar um þetta.

Ég tók eftir því, að tveir hv. meðmælendur frv. sögðu á dögunum, það var hv. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, og hv. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, að það lægi fyrir og væri yfirlýst frá hendi Framsfl., að ef staðsetningin á álverksmiðjunni hefði verið önnur, þ.e.a.s., ef álverksmiðjan hefði ekki verið við Faxaflóa, hefðu þeir fylgt málinu, eins og það lægi fyrir. Þetta er alveg rangfærsla á afstöðu Framsfl., eins og ég hygg, að einhver annar hafi þegar leiðrétt. Að vísu lítum við á það sem mjög þýðingarmikið meginatriði í málinu, hvernig staðsetningunni er háttað og teljum, að miklu minni vandkvæði hefðu verið í málinu, ef það hefði t.d. verið gert ráð fyrir að staðsetja verksmiðjuna á Norðurlandi, t.d. við Eyjafjörð, miklu minni vandkvæði en þau, sem verða. En samt sem áður höfum við ekki farið dult með, að þessir samningar, sem hér liggja fyrir, eru þannig vaxnir, að það hefði ekki nægt til þess, að fylgi okkar hefði orðið við þá, þó að staðsetningin hefði verið önnur og heppilegri frá okkar sjónarmiði séð. Þetta ætlaði ég satt að segja að hefði komið mjög greinilega fram, og ég skil ekkert í því, að hv. þm. skuli vera að hártoga þetta. Ég ætla, að það sé alveg ljóst af málflutningi okkar hér á hv. Alþ., hvernig þessu er varið, og það hefði ekki þurft að fara i neinar grafgötur um það.

Annars vil ég segja það varðandi staðsetninguna, eins og ég hef sagt áður og við fleiri félagar, að við teljum það stórfellda viðbótarhættu í málinu, að staðsetningin er ráðgerð á þessa lund, vegna þess, hvað það gerir miklu torveldara en ella að fást við byggðavandamálið, sem við eigum við að stríða. En það hefði að sjálfsögðu létt mikið baráttuna í því málí, ef verksmiðjan hefði t.d. verið staðsett við Eyjafjörð, og við höfum lagt mikla áherzlu á þetta og aldrei farið dult með. Við drögum það mjög í efa, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, að hæstv. ríkisstj. hafi lagt sig mikið fram til þess að fá þessu framgengt eða sýnt þá snerpu í því, sem hefði þurft að gera, hefði maður verið í einhverjum vafa um þetta, hygg ég, að hann hefði eyðzt eða rokið á brott við ræðu hæstv. iðnmrh. í dag, því að hann lét m.a. þannig um mælt, að ef til vill væri bezt að hafa þetta í fjölmenninu, því að með því yrðu áhrifin af þessu minnst. Síðan talaði hann eitthvað um það, hvað hefði gerzt, ef staðsetning hefði verið við Eyjafjörð, og hvort fólkið hefði ekki þá dregizt þangað úr næstu byggðum. Og því væri verr farið en heima setið. Ég geri ekki ráð fyrir því, að menn, sem hugsa svona, leggi mikið á sig til að skipa þessum málum á þá lund, sem okkur er að skapi, sem hefðum viljað hafa staðsetninguna á aðra lund.

Þessi hugsunarháttur, sem þarna kemur fram hjá hæstv. ráðh., er furðu einkennilegur og fornaldarlegur. Hann minnir mig á, að þegar við ýmsir hér á árunum vorum að byrja að berjast fyrir því að koma upp þorpi á Egilsstöðum á Austurlandi, voru til menn, sem hugsuðu alveg eins og hæstv. ráðh. virðist hugsa, ef taka á þessi orð hans í ræðunni í dag alvarlega, þeir sögðu sem svo: Þetta er hinn mesti háski einmitt fyrir byggðirnar á Austurlandi, alveg sérstaklega sveitabyggðirnar, því að þær munu tæmast í þetta þorp á Egilsstöðum. Þetta er hinn mesti bjarnargreiði fyrir þessar byggðir, sem þarna á að fara að efna til. Sem betur fór fékk ekki þessi fornaldarhugsunarháttur að ráða þar, því að menn þóttust sjá, að það, sem einmitt vantaði fyrir þessar byggðir, var það, sem nú er farið að kalla byggðakjarna á nýtízkumáli. Það var það, sem fyrst og fremst vantaði til þess að styðja sjálft dreifbýlið. Öll okkar reynsla hefur sýnt, að dreifbýlið þarf að styðjast við þéttbýlispunkt eða byggðakjarna, eins og farið er að kalla þá, og dreifbýlið helzt ekki við, nema hægt sé að koma upp slíkum þéttbýlissvæðum sem víðast í landinu. Hvað er það, sem Norðurland vantar núna helzt? Það vantar nógu öflug þéttbýlissvæði. Það vantar fyrst og fremst borg, borg á Norðurlandi. Það vantar borg við Eyjafjörð. Og það hefði einmitt getað komið til greina, að stóriðja hefði hjálpað til, að upp kæmi borg við Eyjafjörð, voldugur byggðakjarni, sem ekki mundi sjúga merginn úr Norðurlandi, heldur verða fyrst og fremst eins konar hjarta norðlenzkra byggða, eins og sá vísir, sem kominn er að byggðakjarna á Egilsstöðum á Austurlandi, er orðinn hjarta Fljótsdalshéraðs, ef svo mætti að orði komast, og ein þess helzta framtíðarvon, að þarna vaxi upp öflugur byggðakjarni, sem dreifbýlið styðjist við. Það er sannast að segja dálítið einkennilegt að heyra svona fornaldarröksemdir úr ráðherrastóli hér. Það, sem vantar mest víða úti um landið, eru þessir þéttbýliskjarnar, þar sem geta myndazt markaðir, markaðssvæði. Það stendur Norðurlandi mest fyrir þrifum, að þar vantar nógu öfluga markaðskjarna eða markaðssvæði.

Höfuðháskinn í öllu okkar byggðavandamáli er einmitt sá, að það er ekki til nema eitt stórt markaðssvæði á landinu, og þess vegna sækja flestar nýjar framkvæmdir í iðnaði og þjónustu einmitt inn á þetta eina svæði. Það er svo erfitt að fá hjólin til að snúast úti um landið, af því að kaupstaðirnir komast ekki enn sem komið er í þá stærð, að það muni verulega um þá sem markaðssvæði, m.a. til þess að hjólin geti svo snúizt fram, í byggðarlögunum í kring. Það er vafalaust mjög erfitt að koma skrið á þetta, nema með því að byggja upp útflutningsatvinnurekstur á þessum svæðum, því að flutningskostnaðurinn gerir það að verkum, að það er mjög erfitt að keppa þar við iðnað fyrir innlendan markað. Hann hefur sterkari aðstöðu, þar sem markaðssvæðið er stærst og þá hér við Faxaflóa. Þetta er sjálfur kjarni vandamálsins. Þess vegna hefði það vitanlega verið hvalreki, t.d. fyrir Norðurland, ef verksmiðja eins og þessi væri staðsett þar, og ekki bara fyrir þann landshluta, heldur fyrir landið allt, því að þetta er allsherjar vandamál, sem við eigum við að stríða.

Á hinn bóginn er engin sérstök aðkallandi þörf fyrir fyrirtæki eins og þetta einmitt hér við Faxaflóa, og það hygg ég að allir játi. Engin sérstök þörf er nú á því að bæta hér við eftirspurn eftir vinnuafli.

það er mjög athyglisvert, að þessi hugsunarháttur skuli koma fram hjá hæstv. ráðh., og hann sýnir að mínum dómi mjög eftilminnilega, að þetta mál hefur aldrei horft vænlega í höndum hæstv. núv. ríkisstj., aldrei horft vænlega, að mál af þessu tagi gæti orðið leyst farsællega.

Það er talað um, að í sambandi við byggðavandann, megi mikið hjálpast við þau átök, sem eigi að gera einmitt með fjármunum frá stóriðjunni. En ég held satt að segja, að þessi röksemdafærsla hljóti að vera byggð á einhverri fljótfærni eða á misskilningi, vegna þess að ef við tökum þær upplýsingar, sem liggja fyrir um þetta frá hæstv. ríkisstj. sjálfri, er ljóst, að frá stóriðjunni kemur ekkert til þess að hjálpa til í þessu næstu árin, og það verða þau árin, þegar stríðið verður harðast í samkeppni um vinnuaflið, og sogdælan verður einna sterkust inn á hið mikla þenslusvæði hér við Faxaflóann. Það er sem sé augljóst mál, að á árunum 1966, 1967, 1968 og 1969 kemur ekki ein einasta króna úr stóriðjunni til hjálpar í þessum vanda, ekki ein króna. Svo er ráðgert, að 1970 byrji að koma peningur inn í þetta mál, jafnvægismálið, og þá eigi það að verða 11.3 millj. á árinu 1970 eða sem svarar einum litlum mótorbát, sem þó hefði ekki burði til að fara á síld. Og 1971 komi sama fjárhæð eða sams konar bátur og svo enn 1972 sá þriðji. Þetta er þá það fjármagn, sem á að koma inn á allra næstu árum frá stóriðjunni til að hjálpa til að leysa þennan vanda. Það sem svarar andvirði þriggja lítilla mótorbáta á næstu 7 árum. Svo á þetta að fara eitthvað vaxandi framvegis, en ekki í þeim mæli, að hægt sé að telja það nokkuð, sem munar verulega um í samanburði við það mikla vandamál, sem þarna er við að glíma. Ég tala nú ekki um ósköpin, ef svo ætti á sama tíma að draga úr opinberum framkvæmdum víðs vegar um landið til þess að spara vinnukraft, kannske margfaldar þessar fjárhæðir. Það er þá ekki ástæða til að vera bjartsýnn um, að þetta hafi mikil áhrif, því miður.

Ég minntist á það áðan, að margt hefði upplýstst í þessum umræðum, en ýmislegt væri þó, sem ekki hefði enn komið fram, og nefndi ég dæmi þess. Ég ætla að minnast hér á örfá atriði, sem hefur borið á góma og rifja þau upp, vegna þess að mér er ljóst, að það er að draga að lokum umr. um þetta mál í þessari hv. d.

Ég hef lagt mikið kapp á það í þessum umr. og frá byrjun, er farið var að ræða um erlenda fjárfestingu á Íslandi í sambandi við stóriðju, lagt mikið kapp á að sýna fram á, að það er stórfelldur munur á atvinnurekstri útlendinga og íslenzkra aðila og að atvinnurekstur erlendra aðila getur aldrei gert sama gagn í þjóðarbúinu og atvinnurekstur Íslendinga sjálfra. Og ég vek athygli á því, þegar þessar umr. eru langt komnar í þessari hv. d., að þessu hefur ekki verið mótmælt. Þessu hefur ekki verið mótmælt. Meginatriðin eru þau, að hreinn arður af atvinnurekstri erlendra aðila í landinu rennur út úr landinu, kemur aldrei inn í landið. Enn fremur, að það fjármagn, sem út úr atvinnurekstrinum kemur og á að renna til þess að standa undir afskriftum, kemur heldur aldrei inn í landið, þannig að þau tæki, sem útlendingar eignast hér á þeim grundvelli, sem hér er ráðgerður, hverfa úr sögunni um leið og þau slitna. Eftir verður ekkert að lokum í því hreiðri, sem byggt er á þessa lund. Aftur á móti er atvinnurekstur íslendinga sjálfra þeirrar náttúru, að sá gróði, sem þar verður, safnast í fyrirtækjunum og byggir þau upp og verður grundvöllur að meiri og meiri atvinnurekstri í landinu og það fyrningarfé, sem inn vinnst í fyrirtækjunum, rennur einnig inn í fyrirtækin, til þess að þau endurnýi sig og stækki og eflist. Við vitum, að þessir fjármunir, sem koma undir þetta tvennt, gróða og fyrningarfé, eru þeir fjármunir, sem fyrst og fremst hafa staðið undir útþenslu í íslenzkum þjóðarbúskap.

Ég er að vekja athygli á þessu til að sýna það og reyna að fá sem allra flesta til að skilja það, að það er ekki hægt fullum fetum að tala um það sem eitthvert höfuðúrræði í íslenzkum atvinnurekstri að láta erlenda aðila reka hér fyrirtæki á þeim grundvelli, sem hér er gert ráð fyrir, eins og sumir menn gera, eins og t.d. hæstv. forsrh. gerir alveg sérstaklega, því að hann talar um það, sem hér er að gerast, eins og upphaf að einhverju nýju tímabili í atvinnusögu Íslendinga, hliðstæðu t.d. við það, þegar farið var að byggja hér upp sjávarpláss eða sjávarbyggðir og þjóðin hætti að vera eingöngu þjóð bænda og útróðrarmanna. Hæstv. forsrh. talar fullum fetum um það, sem hér er að gerast, eins og upphaf að nýrri öld. Og með þeim málflutningi gefur hæstv. ráðh. og þeir, sem hugsa eins og hann, mjög mikið tilefni til að vara við þeirri hættu, sem er á ferðinni, ef hæstv. ráðh. hefur bolmagn til þess á næstu árum að framkvæma þessa stefnu áfram, ekki aðeins varðandi þetta eina fyrirtæki, heldur fleiri. Hvar verðum við þá staddir eftir nokkra áratugi, ef þessi stefna á að verða jafnöflugur þáttur í okkar þjóðarbúskap á næstunni og t.d. uppbygging sjávarútvegsins með nýtízku sniði hefur orðið, en hæstv. ráðh. ber þetta tvennt saman.

Ég held, að það sé full ástæða til að stinga við fótum og ræða það ofan í kjölinn, hvert verið er að fara, ef þessari stefnu á að fylgja og þessi hugsunarháttur á að ráða ferðinni. Og hæstv. ráðh. skirrist ekki við að reyna hreinlega að hræða menn inn á þessa braut með því að mála hryllilegar myndir af því, sem gæti skeð, ef hér kæmu plágur og nálega hallæri. Og hæstv. iðnmrh. talaði um þá sem kjarkleysingja, sem ekki vilja fara inn á þessa braut, þeir væru búnir að missa kjarkinn, sem vildu halda áfram að byggja upp íslenzkt atvinnulíf á sama grundvelli og gert hefur verið á undanförnum áratugum með þeirri reynslu, sem við höfum haft af því og sannast að segja er ekkert slorleg. Hvað er verið að fara með þessu?

Það er lífsnauðsyn að vekja athygli á þeim grundvallarskoðanamun, — ég vil segja því regindjúpi, –sem staðfest er á milli skoðana þeirra, sem koma fram hjá hæstv. forsrh., og þess hugsunarháttar, sem ég tel mig talsmann fyrir. Ég hef alltaf viljað leggja sterka áherslu á, að ef farið væri inn á þá braut að leyfa erlendum aðilum að koma hér upp fyrirtæki, væri það sem alger undantekning frá meginreglunni, en ekki stefnubreyting og gert til þess að leysa einhvern tiltekinn vanda eða eitthvert tiltekið vandamál, sem við ættum við að glíma, og þyrftum að grípa til þessa úrræðis, því að önnur betri ráð væru ekki til. Og það er þessi hugsunarháttur og þessi stefna, sem Framsfl. hefur haldið fram, og það vantar ekki, að hann hefur verið ásakaður um tvískinnung fyrir það að standa ekki á gatnamótum og segja, að það kæmi aldrei til greina, að erlendur aðili gæti fengið að setja upp fyrirtæki á Íslandi. Það vantar ekki, að við höfum verið ásakaðir fyrir þetta, og að það væri tvískinnungur að geta hugsað sér, að slíkt kæmi til mála sem undantekning. En það er nú einu sinni svona, að lífið er ekki þannig vaxið, að það sé yfir höfuð annaðhvort um að ræða svart eða hvítt, það sé yfir höfuð annaðhvort um að gera allt eða ekkert, þvert á móti verður sífellt að velja og hafna.

Meginstefna okkar hefur verið eins og ég var að lýsa áðan, þegar ég var að ræða um mismuninn á innlendum og erlendum atvinnurekstri. Við höfum litið þannig á, að ekki ætti að koma til greina lakari kosturinn nema sem undantekning og þá, að sérstök nauðsyn bæri til. En nú er þetta boðað alveg fullum fetum sem framtíðarstefna og þessi framkvæmd sem byrjun á því að feta nýja braut, sem eigi að verða jafnfjölfarin, að því er manni skilst, og þær leiðir, sem hafa reynzt Íslendingum bezt í atvinnuuppbyggingu fram að þessu. Þarna er því regindjúp á milli, þarna kemur svo enn spurningin, sem skynsamlegt er að varpa fram einu sinni enn í þessum umr., þó að það hafi verið gert áður. Spurningin er þessi frá sjónarmiði mínu og sjónarmiði Framsfl.: Er þannig ástatt nú í okkar þjóðarbúskap, að það sé skynsamlegt eða knýjandi að gera undantekningu frá meginreglunni? Og þeirri spurningu vil ég svara neitandi, að það sé ekki ástæða til þess að gera þá undantekningu, sem hér er gert ráð fyrir með alúminsamningnum.

Ég nefni þá enn fyrst, að okkur vantar ekki verkefni. Því fer víðs fjarri, að okkur vanti verkefni og það heppileg verkefni. Það hefur margsinnis verið bent á, að vinnuaflsskortur er eitt helzta vandamál okkar, og það hefur verið bent á, að í öllum áttum eru menn með nýjar framkvæmdaáætlanir, sem ekki komast áfram, ekki sízt vegna skorts á vinnuafli. Það úir allt og grúir af áætlunum um að gera atvinnulífið fjölbreyttara, sem ekki komast í framkvæmd, m.a. af þessum sökum. Við vitum öll, hvernig ástatt er með ýmsa þýðingarmestu þætti opinberrar þjónustu, opinberra framkvæmda, t.d. í heilbrigðismálum, skólamálum og samgöngumálum, þar sem segja má, að allt sé orðið á eftir og þannig, að það standi eðlilegri þróun í þjóðfélaginu fyrir þrifum, hreinlega fyrir þrifum. Æskan fær ekki skólavist, tæknimenntunin er langt á eftir, það fást ekki peningar til að hrinda henni fram eins og þarf og ekki vinnuafi til þess að sinna því verkefni. Það sama er að segja um heilbrigðismálin og ekki betra. Hvernig er ástatt með vegamál og önnur samgöngumál? Þannig mætti lengi telja.

Okkur vantar ekki verkefni, hvorki í framleiðslugreinum né þjónustugreinum og margt af því, sem kemst ekki í framkvæmd vegna skorts á vinnuafli, er þannig vaxið, að það yrði alveg vafalaust miklu arðgæfara fyrir íslenzkt þjóðarbú en það, sem hér kemur til greina að láta erlenda aðila framkvæma í landinu. Þessu hefur í raun og veru alls ekki verið mótmælt í umr. Þetta hefur verið sagt áður, og því hefur ekki verið mótmælt. Menn endurtaka sömu fullyrðingarnar og halda sig við sama heygarðshornið, en þessu hefur ekki verið mótmælt, en þó er þetta aðalkjarni málsins. Er þá skynsamlegt að setja upp atvinnurekstur erlendra manna í landinu, þegar á því eru þessir annmarkar, sem ég hef verið að sýna fram á og enginn hefur mótmælt? Er það skynsamlegt, þegar við eigum kost fjöldamargra annarra heppilegra úrræða? Mér sýnist það ekki skynsamlegt. En þá kemur sú spurning, hvort það sé þá eitthvað alveg sérstakt, sem þarf að leysa með þessu, sem knýr menn áfram í dauðans ofboði á þessa lund, til þess að leggja út í þetta, þrátt fyrir alla þá erfiðleika, sem hljóta að verða því samfara í landi, sem býr við dunandi verðbólgu og ofþenslu á vinnumarkaði og annað slíkt. Hvað er það þá, sem rekur menn með slíkum ofsahraða samt sem áður til þess að fylgja því fram? Í raun og veru er ekki nema ein ástæða færð fram af þessu tagi. Ég er búinn að ræða um fagnaðarerindi hæstv. forsrh., sem er af öðrum toga, en hann virðist líta á þetta sem upphaf að stórfelldum framkvæmdum í þessa átt og virðist hafa í grundvallaratriðum aðra skoðun á þessu en ég vil vona flestir Íslendingar. En ástæðan er af því tagi, að það þurfi á þessu að halda til þess að leysa einhvern sérstakan vanda. Varðandi það hafa ekki verið færðar fram neinar röksemdir aðrar en þær, að þetta geri mögulegt að virkja á hagkvæmari hátt en ella væri mögulegt og þjóðin fái með þessum hætti ódýrari raforku en með öðru móti. Þetta er bókstaflega það eina, sem fylgismenn málsins hafa fært fram fyrir utan þennan almenna fagnaðarboðskap um nýja þjóðfélagshætti eða nýja atvinnumálastefnu. En þarna er sá galli á gjöf Njarðar, að það hefur verið sýnt fram á það af stjórnarandstæðingum í þessum umr. á þann hátt, að hæstv. ráðh. hafa ekki getað hrakið, að það eru engar líkur til þess, að Íslendingar geti búið við lægra raforkuverð með því að gera þennan samning en þeir gætu ella gert, þegar lítið er nokkuð fram í tímann. Það eru engar líkur til þess. Og þær röksemdir, sem færðar hafa verið fram fyrir þessu af mörgum hv. þm., hafa alls ekki verið hraktar af hæstv. ráðh., og þeir hafa ekkert annað haft fram að færa til svars við þessum röksemdum en að endurtaka fyrri fullyrðingar sínar um hinn mikla hag, sem af þessu ætti að verða.

Hæstv. ráðh. raforku- og landbúnaðarmála mun víst hafa þótt illa ganga að sýna fram á þetta, þann stórfellda gróða, sem ætti að verða af þessu fyrir Íslendinga í lækkuðu rafmagnsverði, og kom hann því til hjálpar hæstv. iðnmrh. og hélt hér ræðu, sem var þó í raun og veru aðeins endurtekningar á því, sem hæstv. iðnmrh. hafði áður tekið fram og notaði sömu tölurnar, sem búið var að hrekja. En niðurstaða hæstv. raforkumálaráðh. varð sú, að á þessu væri stórfelldur sparnaður, og hann nefndi í því sambandi marga tugi prósenta. En ég hef vitnað til þess áður i þessum umr. og vil gera það enn, að þessi hæstv. ráðh. raforkumála hefur látið skoðun sína í ljós áður um þessi efni, og það var í sambandi við það, þegar hér var til meðferðar frv. um virkjunina við Búrfell í maí í vor. Þá hafði hæstv. ráðh. aðra sögu að segja um þessi efni, því að þá sagði hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það verður þá að taka á sig óþægindi og lítið eitt dýrari raforku fyrstu árin, eftir að stórvirkjun yrði gerð, ef það yrði án alúmínverksmiðju, á meðan verið er að byggja markaðinn upp.“

Sem sé, niðurstaða þessa hæstv. ráðh. í maímánuði í vor var sú, að það yrði lítið eitt dýrari raforka fyrstu árin, eftir að stórvirkjunin væri gerð, ef það yrði án alúmínverksmiðju, á meðan verið væri að byggja markaðinn upp. En nú kemur þessi hæstv. ráðh. og segir, að það muni mörgum tugum prósenta á raforkuverðinu. Ég held satt að segja, að það verði að virða mönnum það til vorkunnar, bæði mér og öðrum, þó að þeir taki harla lítið mark á því, sem þessi hæstv. ráðh. segir um þessi efni, og þurfi því ekki að hafa fleiri orð um það.

Varðandi málsatriðin sjálf leyfi ég mér að vísa til þeirra röksemda, sem komið hafa fram af hendi ræðumanna Framsfl., bæði hér við þessar umr. og útvarpsumr. um vantraust á ríkisstj. En þar var sýnt fram á það, svo að ekki stóð steinn yfir steini í ágizkunum hæstv. iðnmrh., að þeir útreikningar, sem hann hafði komið fram með varðandi þessi efni, voru á sandi byggðir, byggðir á áætlunum og ágizkunum, m.a. því að gera ráð fyrir að virkja vatnsafl í framhaldi af virkjuninni við Búrfell, sem engin ákvörðun hefur verið tekin um og engin áætlun hefur verið gerð um nema lauslegt riss á hné sér. Samt sem áður hefur sú virkjun verið sett inn í dæmið, eins og hún væri ákveðin og vitað, hvað hún mundi kosta.

Það er staðreynd, að fáum árum eftir að búið er að virkja við Búrfell, ef álverksmiðjan verður höfð með, verður að leggja út í nýja virkjun handa Íslendingum sjálfum, sem yrði mun óhagstæðari en sú virkjun, sem álverksmiðjan á að njóta. Það mundi þýða í framkvæmdinni, að ef einhver lítils háttar lækkun kynni að verða á einhverju tímabili á raforku, væri þar aðeins raunverulega um lán að ræða, sem yrði að endurgreiða í hærra raforkuverði eftir stuttan tíma. En þó að þessar staðreyndir liggi fyrir og búið sé að hrekja þessa reikninga hæstv. ráðh., halda þeir enn áfram að berja höfðinu við steininn og hamra á því, að það hafi þurft að veita útlendingum leyfi til að byggja álverksmiðjuna til þess að fá hagkvæma virkjun. En það hefur hafzt upp úr þessum umr., að það liggur augljóslega fyrir allra augum, að það þarf alls ekki á slíku að halda. Það er hægt að virkja við Búrfell þá hagfelldustu virkjun, sem Íslendingar hafa nokkru sinni komið í framkvæmd, og gera það án álverksmiðjunnar, og með því móti verður það ekki óhagstæðara en þótt hún sé með. Hvað ætti þá að knýja okkur til þess að leggja inn á þessa braut, fyrst við ekki þurfum þess til þess að fá hagfellda virkjun, fyrst það verður ekki til þess að lækka raforkuverðið fyrir okkur sjálf?

Þá hefur verið rætt um, að þessi álverksmiðja gæti orðið mjög merkileg að því leyti til, að hún yrði upphaf að öðrum iðnaði í landinu. Ég hef leyft mér að spyrjast fyrir um það oftar en einu sinni í þau skipti, sem þetta mál hefur borið á góma, hvaða iðnaður það væri, sem ætti að byggja út frá álverksmiðjunni og hversu stórfelldur hann væri fyrirhugaður eða gæti orðið. En þessu hefur ekki verið svarað. Það hefur ekki verið gefið yfirlit um það, hvaða fyrirtæki það eru, sem þarna ætti að koma upp eða hversu stórbrotin þau væru og hvaða iðnaður úr alúmíni ætti svo aftur að byggjast á þeim, t.d. hvort það ætti þá að framleiða ýmsa muni úr alúmíni til útflutnings eða hvernig þetta væri hugsað. Ég þori ekki að gerast neinn spámaður í þessu. En ég hef hæstv. ráðh. og þá, sem eru mestir ákafamenn um framgang þessa máls, grunaða um það að gera nokkuð meira úr þessu en rök standa til, og ég byggi það á því, að í Noregi er mjög lengi búið að reka alúmínverksmiðjur og þær mjög stórar. En samt sem áður hefur lítið byggzt þar út frá þeim af iðnaði af þessu tagi. En ég er alveg viss um, að ef það liggur beint við og er auðvelt að gera slíkt, hefði hann verið kominn upp í mjög stórum stíl í Noregi, því að það hefur verið framleiðsla á áli þar, og hún hefur nú um æði langt skeið verið talsvert verulegur liður. Samt sem áður eru lítil brögð að því, að nýjar iðngreinir hafi byggzt þar utan á, en það væri mjög æskilegt og mjög þýðingarmikið, ef hæstv. ráðh. gæfu upplýsingar um það, hvað það er, sem þarna er í uppsiglingu.

Einn er sá þáttur í þessu máli, sem ræddur hefur verið, en samt sem áður er enn mjög óljós, og það er hæstv. ráðh. og hans félögum að kenna. Og það er þátturinn um gjaldeyristekjur. Auðvitað verða gjaldeyristekjur af þessu, því að þarna á að vinna æði margt fólk. Það eru nefndar hér tölur um gjaldeyristekjur, en sannast að segja er ómögulegt að botna í þeim tölum, og það er engin tilraun gerð af hendi hæstv. ráðh. og þeirra félaga til þess að gera þær tölur líklegar eða sennilegar. Þær tölur eru fullkomlega tortryggðar af hendi þeirra, sem vilja líta á þetta mál og vega kosti þess og galla. Það er sagt, að gjaldeyristekjurnar eigi að verða 300 millj. kr., en það hafa verið sett fram hér dæmi, reiknuð eftir því, hve margir eiga að starfa við þetta fyrirtæki samkv. upplýsingum stjórnarinnar sjálfrar, og þeim hefur verið reiknað það ríflegasta kaup, sem til greina getur komið, eins og nú er ástatt í landinu og þar ofan á settu þeir lið úr, sem mönnum getur dottið í hug, en samt sem áður fá menn ekki út tölur, sem nálgast nokkuð þessar gjaldeyristekjur, sem hæstv. ríkisstj. gefur í skyn að fljóti af fyrirtækinu. Ég vil því enn einu sinni spyrja hæstv. ráðh.: Á hverju er þessi tala byggð, þessar 300 millj. í gjaldeyristekjur? Á hverju er hún byggð? Við vitum, að gróði af fyrirtækinu á aldrei til landsins að koma, ekki afskriftafé eða neitt þess konar fé. Þeir, sem standa að þessu fyrirtæki, eiga ekkert að flytja inn í landið annað en það, sem þeir nota í vinnulaun og fyrir þjónustu í landinu sjálfu og raforku og skatta. Ekkert annað eiga þeir að flytja inn í landið. Og hvernig er þá þessi tala, 300 millj., fengin? Hvers vegna vill hæstv. ráðh. ekki segja það? Honum ætti að vera ljúft að skjóta sterkum stoðum undir þessa fullyrðingu, en því er það þá ekki gert? Því kemur hann ekki með þær stoðir? Menn undrast þetta og menn undrast líka, þegar hæstv. ráðh. og hans menn eru að bera saman þessi efni, bera fyrirhugaðar gjaldeyristekjur af þessu saman við gjaldeyristekjur af sjávarútvegi okkar, sem er okkar glæsilegasta atvinnugrein. Þar eru feikileg uppgrip, eins og við þekkjum. En þeir segja, að gjaldeyristekjur af sjávarútvegi með öll þau uppgrip, sem þar eru, og þar sem allur ágóði kemur inn í landið og allt afskriftafé og allt, sem af þessu flýtur, kemur inn í landið, séu miklu minni á mann en í álverksmiðjunni, sem aldrei kemur inn með sinn gróða og aldrei afskriftafé sitt eða neitt þvílíkt. Hvað er það, sem álverksmiðjan á að borga hér inn í landið? Vilja ekki þessir hæstv. ráðh. upplýsa það? (Dómsmrh: Þetta var sundurliðað allt saman við 2. umr.) það hefur þá farið fram hjá mér, hreinlega. Ég heyrði aldrei svarað þeim útreikningum, sem hv. 5.þm. Vestf. kom t.d. með varðandi þetta. Og það er ofvaxið skilningi mínum og ofvaxið skilningi annarra, að ég hygg, hvernig geta orðið svona miklu meiri tekjur af þessum rekstri, jafnvel þótt skattarnir verði talsverðar fúlgur. Íslenzkir atvinnurekendur borga feiknalega skatta, ekki síður. Á þá að borga þessu fólki, sem vinnur við alúmínverksmiðjuna, margfalt meira en menn hafa við íslenzkan sjávarútveg? Það hefur manni ekki skilizt, að ætti að gera. Ég skil ekki ástæðuna til þess, að verið er að hafa svona plögg á lofti, og hvers vegna verið er að troða skóinn niður af okkar sterkustu atvinnugrein, sjávarútveginum, með því að telja mönnum trú um aðra eins fjarstæðu og komið hefur hér fram í sambandi við útreikninga ríkisstj. um framlag sjávarútvegsins í þjóðarbúið. Ég skil ekki í hvaða skyni þetta er gert, nema það sé þá helzt til þess að undirbúa jarðveginn fyrir stórkostlega miklu meiri framkvæmdum í þá stefnu, sem hæstv. forsrh. talaði. En ráðherra talaði líka um það, hve stopult sé að byggja á fiski, sem syndir í sjónum. Hingað til hafa Íslendingar yfirleitt talið sig hafa góðar líkur til þess að veiða þann fisk, sem syndir í sjónum, og þó að hæstv. forsrh. vilji helzt líta svo á, að Íslendingar séu þannig gerðir, að þeir fái aldrei bein úr sjó, þá stenzt það ekki miðað við reynsluna. Menn hafa hingað til leyft sér það að gera ráð fyrir því, að það þyrfti að veiða fiskinn, hann gengi ekki upp á land og væri samt hægt að gera ráð fyrir því að hafa af honum einhver not. En hæstv. forsrh. virðist víst ekki björgulegt að gera ráð fyrir því að treysta á skepnu, sem syndir niðri í hafdjúpunum. Svo telja þessir menn sig vera bjartsýnismenn og kjarkmenn og aðrir séu haldnir minnimáttarkennd. En hafa menn vitað öflugri minnimáttarkennd en þá að telja ókleift að ná fiski, sem syndir í sjónum en er ekki kominn upp á land? Ég held satt að segja, að Íslendingar hefðu ekki komizt langt, ef margir hefðu hugsað eða hugsuðu eins og hæstv. forsrh. gerir.

Því hefur verið haldið fram, að þetta fyrirtæki væri grundvöllur að öðru meira og mikil þjóðfélagsstoð, en ég hef bent á, að það er einmitt einn höfuðgallinn á fyrirtækjum erlendra aðila, að þau geta aldrei orðið jafngóð og innlend. Það skapast ekki sams konar hreiður, ef maður mætti orða það svo, eins og þegar fyrirtæki innlendra manna eru byggð upp, og ég verð að segja það, að ef þessar umr., sem hér hafa nú orðið og verða framvegis í sambandi við þetta mál, gætu opnað augu Íslendinga og þá sérstaklega unga fólksins á Íslandi fyrir þeim reginmun, sem er á atvinnurekstri erlendra manna annars vegar og innlendra manna hins vegar, tel ég þessar umr. ekki unnar fyrir gýg af hálfu þeirra, sem eru andsnúnir þessu máli, jafnvel þótt þetta mál gangi fram, því að þá mundi ég vilja líta þannig á, að það yrði til þess, að það yrði minni hætta á því en ella, að hugsunarháttur hæstv. forsrh. verði ráðandi hér á næstunni í landinu.

Ég þykist nú vita, að þetta mál muni verða barið fram, og sannast að segja held ég, að það sé langt síðan hæstv. ríkisstj. negldi sig þannig á þetta mál, að hún hafi ekki talið sig eiga afturkvæmt frá því, ekki kjarkmeiri en hún er. Og það hygg ég, að þannig hafi farið fyrir hæstv. ríkisstj. einmitt vegna þeirrar minnimáttarkenndar, sem hún óneitanlega virðist bera í brjósti varðandi möguleika Íslendinga sjálfra til þess að gangast fyrir stórbrotnum framkvæmdum, því að ég hygg, að höfuðmeinsemdin í þessu öllu saman sé sú, að hæstv. ríkisstj. hafi þegar í upphafi máls síns bitið það í sig, að henni væri ókleift að hrinda fram nægilega öflugri virkjun án þess að hengja stóriðju þar aftan í. Hæstv. ríkisstj. hafi of snemma byrjað að opna sig fyrir erlendum aðilum, sem hún ætlaði sér að leita til varðandi lánsfjármagn, of snemma opnað sig í þessu tilliti og látið þá aðila verða vara við þennan hugsunarhátt og þeir svo gengið óspart á lagið og geirneglt ríkisstj. á þá lund, að hún hefur ekki haft manndóm til þess að rífa sig lausa. Og þetta hygg ég, að muni hafa gerzt fyrir nokkrum árum og raunar þegar í upphafi málsins, og nokkuð er það, að allt, sem skeð hefur síðan hæstv. ríkisstj. afhenti alþm. þetta mál haustið 1964 eða rétt fyrir jólin, allt, sem skeð hefur síðan, bendir hreinlega til þess, að þá hafi hæstv. ríkisstj. verið búin að ákveða öll aðalatriði þessa máls, því að hún hefur ekki talið sig geta hlustað á uppástungur um neinar breytingar, hvorki varðandi staðsetningu né annað, sem varðaði höfuðatriði málsins. Þetta bendir eindregið í þá átt, að þá hafi stjórnin þegar í stað verið búin að festa sig á málinu og aldrei getað rifið sig út úr þeim farvegi síðan, jafnvel þó að hún hefði viljað. Og það hygg ég, að muni oft hafa hvarflað að mörgum í stjórnarliðinu, að til þess bæri brýna nauðsyn að rífa sig út úr málinu. En hæstv. ríkisstj. hefur því miður aldrei talið sér það fært. Og ógæfan stafar að verulegu leyti af þeim hugsunarhætti, sem fram hefur komið í þessum umr.

Ég skal nú láta lokið þessu máli. En ég vildi á þennan hátt rifja upp í örfáum orðum nokkur aðalatriði málsins og benda á nokkrar niðurstöður í máli okkar, sem höfum mælt gegn þessu frv., niðurstöður sem eru þýðingarmiklar og ekki hefur verið hægt að hrekja.

Ég vil leyfa mér að vonast eftir því, að hæstv. ráðh. — ég sé nú, að hann er farinn, — svari þeim fsp., sem til hans hefur verið beint og enn er ósvarað, m.a. þeirri, hversu mikils lánsfjár á að afla innanlands til Búrfellsvirkjunarinnar.