23.04.1966
Efri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er mitt hlutskipti hér sem iðnmrh. að fylgja úr hlaði hér í þessari deild þessu frv. til l. um lagagildi samnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium um álbræðslu í Straumsvík. Um þetta mál hafa eins og kunnugt er orðið allmiklar umr. bæði við meðferð málsins í Nd. og eins í sambandi við nýlega afstaðnar vantraustsumr. hér á Alþ., svo að ég geri ekki ráð fyrir, að menn telji þess þörf, að ég, við þessa 1. umr., geri mjög ítarlega grein fyrir efni og einstökum gr. málsins.

Í aðalatriðum er efni frv. að fara fram á lögfestingu á samningi milli ríkisstj. og Swiss Aluminium, sem undirritaður var 28. marz s.l. hér í Reykjavík. Og þessi fylgisamningur, sem ætlazt er til eða óskað er eftir að fái lagagildi, hann fylgir svo frv, á íslenzku og ensku. Aðrir samningar fylgja hér málinu, sem ekki er ætlað að hafi lagagildingu, en hafa verulega þýðingu í sambandi við málið, þ.e. fyrst og fremst raforkusölusamningurinn, og það er samningur um hafnargerð í Straumsvík, og það eru aðstoðarsamningar milli væntanlegs hlutafélags um álbræðsluna og svissneska fyrirtækisins Alusuisse, og það er samningur um framkvæmdatryggingu milli ríkisstj. og Alusuisse, sem einnig hefur verið undirritaður. Einnig fylgja samþykktir og stofnskrá hugsanlegs hlutafélags, ÍSALs, eða Íslenzka álfélagsins, eins og það er kallað.

Ég vil aðeins leyfa mér að víkja örfáum orðum að meðferð þessa máls, því að það vill svo til, að ég hef sætt nokkurri gagnrýni, bæði fyrr og síðar, um meðferð málsins, og mér hefur nú jafnan fundizt sjálfum, að það væri nokkuð ómakleg gagnrýni, þegar á allt er litið.

Málið hefur átt nokkuð langap aðdraganda, þ.e. fyrir fimm árum síðan, þá var fyrst af þáv. hæstv. iðnmrh. skipuð stóriðjun. til þess að athuga möguleikana á stóriðju í einu formi eða öðru. Starfsemi þeirrar n. hneigðist fljótt að möguleikunum á því að ná samningum við erlend fyrirtæki um álbræðslu á Íslandi, eins og fram hefur komið. Það mun svo hafa verið í lok ársins 1964, í nóv., þá afhenti ríkisstj. öllum alþingismönnum ítarlega skýrslu frá stóriðjun. um málið, eins og það þá stóð, og einnig ítarlegar skýrslur frá sérfræðingum frá Raforkumálaskrifstofunni í sambandi við hugsanlegar virkjanir, stórvirkjanir í Þjórsá og á ýmsum öðrum stöðum, og var gerð grein fyrir ýmsum möguleikum og rannsóknum, sem fram höfðu farið á því sviði. Áður en til þessa kom hafði málið verið til umr. oftar en einu sinni í þinginu, og um vorið hafði ég sérstaklega svarað fyrirspurn, sem beint var til iðnmrh. um það, hvað liði þessum viðræðum bæði um alúminíumverksmiðju og olíuhreinsunarstöð.

Þessi plögg voru á þessu stigi málsins afhent í trúnaði, vegna þess að það var ekki alveg ljóst nema að það kynni að skerða að einhverju leyti viðskiptalega aðstöðu okkar um sum atriði málsins, ef þau lægju þá opinberlega fyrir. Svo var það um áramótin eða strax upp úr þeim, að ég átti viðræður við stjórnarandstöðuna um þátttöku í sérstakri n. til þess að fylgjast með undirbúningi málsins. Sú n., sem var þmn., hóf starfsemi í febrúarmánuði með þátttöku Framsóknarflokksins, 2 fulltr. hans í n. og 2 fulltr. frá stjórnarfl., og svo á síðara stigi málsins komu tveir fulltr. frá Alþb. inn í málið, en sjálfur var ég form. þessarar n.

Þessi n. fylgdist síðan með allri framvindu þessa máls á hinum ýmsu stigum þess. Og það var alltaf hugsun mín og tilgangur og ríkisstj. í heild að vinna að þessum málum, eftir því sem verða mætti, fyrir opnum tjöldum, og í maímánuði lagði ríkisstj. fram ítarlega skýrslu um gang álmálsins þá, og kom hún til umr. hér. Hún var lögð fram 5. maí 1965 og var rædd í þinginu 7. maí.

Á síðast liðnu ári var fyrst að því komið, að hægt væri að fara að forma samninga eða uppkast að samningum, og þá voru Svisslendingum send frumdrög að samningum frá samningamönnum ríkisstj., sem haft höfðu með þetta mál að gera. Síðan bárust svo önnur uppköst frá þeim, og allmargir fundir voru haldnir á síðast liðnu ári, og um alla þessa fundi var þmn. ljóst, og henni var gerð grein fyrir niðurstöðum fundanna. Hún ræddi efni uppkastanna fyrir og eftir fundina, og áður en málið var lagt fyrir Alþ. hafði öllum þm. verið sendir samningarnir í fjölrituðu formi bæði aðalsamningurinn og aðrir samningar, sem hér fylgja þessu máli.

Það hefur oft verið vitnað til fordæma annarra í sambandi við meðferð þessa máls og ekki sízt Norðmanna, og mér hefur oft fundizt, þegar ég hef verið ásakaður eða ríkisstj. fyrir meðferð þessa máls, að það væri mjög ólíku saman að jafna. Ég hef ekki séð ástæðu til þess að gera það að umtalsefni sérstaklega, en ég vil þó á þessu stigi málsins vekja athygli á því, að um meðferð svipaðra eða hliðstæðra mála hefur verið farið með allt öðrum hætti hjá nágrönnum okkar Norðmönnum, en Svisslendingarnir eiga þar dótturfyrirtæki, hina margumtöluðu Husnesverksmiðju.

Í stórum dráttum var gangur þess máls sá, að viðræður hófust við franskt fyrirtæki á árinu 1960. Hið svissneska fyrirtæki kom svo inn í þessar viðræður á árinu 1961, og þá var um það að ræða að mynda hlutafélag, norskt hlutafélag, sem hins vegar þessi erlendu fyrirtæki væru meirihlutahluthafar í. Niðurstaðan varð svo sú á síðara stigi málsins, að það varð Swiss Aluminium, sem varð langstærsti aðilinn og allt að því einkaaðill þessa fyrirtækis. Það var gert ráð fyrir því, að það væri 100 millj. norskra kr. hlutafé og að Norðmenn ættu að eiga 50% í því, en útboð á hlutafénu fór í handaskolum og var m.a. ekki stutt af þeim bönkum í Noregi, sem rætt hafði verið við, svoleiðis að það var sáralítið, sem var lagt fram af Norðmanna hálfu. Ég held, að það hafi ekki verið nema eitthvað um 5 millj. kr., og eins og núna standa sakir, held ég, að það sé ekki fjarri lagi, að það sé um 80%, sem Swiss Aluminium á í þessu fyrirtæki.

En þarna áttu sér stað viðræður við bæði Swiss Aluminium og þetta franska fyrirtæki, og það voru í raun og veru gerðir samningar við Swiss Aluminium síðar, samkomulag gert um að stofna þetta hlutafélag og það með leyfi iðnmrh. löngu áður en málið nokkurn tíma kom inn í þingið og meira að segja með þeim hætti, að meðlimum í ríkisstj. var ekki einu sinni kunnugt um það, sem samið hafði verið um.

Það var upphaflega hugsunin, að Kreditbankinn norski aðstoðaði við stofnun þessa félags, en á síðara stigi málsins snerist hann eiginlega öndverður í málinu og taldi samningana allt of óhagstæða, sem er nú allt annað heldur en við höfum heyrt talað um undir meðferð þessa máls, og taldi, að fyrirtækið væri ekki — eins og bankinn sagði, það væri ekki hagkvæmt fyrirtæki miðað við þær upplýsingar, sem bankinn hafði á því stigi málsins.

Eftir þessar aðvaranir bankans varð samkomulag á miðju ári 1962 milli Swiss Aluminium og þeirra aðila, sem hlut áttu hér að máli í iðnmrn., og félagið var svo stofnað 26. júní 1962, og 29. júní var samkomulag undirritað milli iðnmrn. og hins erlenda aðila með fyrirvara um rafmagnsverð, en sá háttur er á hafður, að Stórþingið ákveður það. Svo voru gerðir aðstoðarsamningar milli þessa norska fyrirtækis, sem tilsvarar ISAL hér, en var að langmestum hluta eign Alusuisse, eins og þeir aðstoðarsamningar, sem fylgja þessu máli, en algerlega án vitundar norska iðnmrn., og ég held, að það hafi ekki verið fyrr en ári síðar, að norskum stjórnvöldum varð ljóst um þessa aðstoðarsamninga.

Málið var svo fyrst í nóvembermánuði lagt fyrir Stórþingið og afgreitt þar í desembermánuði 1962.

Síðan var farið að hræra alvarlega upp í þessu máli aftur, þegar stjórnarskiptin urðu í Noregi á árinu 1963, og þá var óskað eftir, að Stórþingið fengi sérstaka skýrslu um málið. Það endaði með því, að aðstoðarsamningarnir voru „opphevede“, eins og þar segir, þeir voru felldir úr gildi. Ég veit að vísu ekki, hversu mikil áhrif það hefur haft að fella þá úr gildi, en það vakti fyrir þeirri nýju stjórn, sem tók við eftir íhaldsstjórnina, eða samsteypustjórn, sem var um skamman tíma á árinu 1963, að endurskoða þessa samninga, og Trygve Lie tók þá við meðferð málsins úr höndum þess iðnmrh., sem hafði verið. Þegar ég seinast vissi til, — ég hafði samband um þetta mál við sendiherra Íslands í Osló í nóvembermánuði s.l. höfðu þessir samningar ekki enn verið endurskoðaðir og engin breyting verið á þeim gerð frá því, sem upphaflega hafði verið, hvað sem svo skal verða. Það kemur fram í skýrslunni til Stórþingsins hjá Gerhardsen forsrh., í októbermánuði 1963, að ríkisstj. hafði ekki haft hugmynd um þessa samningagerð, og hann átaldi iðnmrh. fyrir að hafa ekki gert ríkisstj. grein fyrir þeim aðvörunum, sem bankinn hafði haft fram að færa í sambandi við þessi mál, og ekki látið iðnn. þingsins heldur í té vitneskju um þessi mál, sem hann taldi, að hefði orðið til þess, að málið mundi hafa fengið allt aðra meðferð.

Hér er vissulega ólíku saman að jafna um meðferð málsins hér. Ekki einasta hefur ríkisstj. á hverjum tíma vitað um alla meðferð málsins, heldur, eins og ég segi, hafa þm. úr öllum flokkum, stjórnarandstöðunni líka, fylgzt með stig af stigi, hvernig framvinda málanna hefur verið, hvernig eitt samningsuppkastið hefur tekið við af öðru og hvaða breytingum það hefur tekið. Hins vegar verður maður að gera sér grein fyrir því, að þegar lagður er fyrir samningur á milli aðila, innlendra og erlendra, eins og hér er um að ræða, hefur ekki verið hægt að hafa annan háu á því en þann, sem nú er hafður á, og að óska staðfestingar á slíkum samningi.

Það hefur auðvitað margt komið fram undir meðferð málsins í þmn., sumt hefur verið hægt að taka til greina og leiðrétta og sumt ekki. Það var auðvitað höfuðtilgangur málsins með því, að stjórnarandstaðan fengi aðstöðu til þess að fylgjast með málinu, að hún gæti hreyft aths. undir meðferð þess og látið fram koma ábendingar af sinni hálfu, ef hún óskaði þess, og stundum hef ég lýst því yfir í þmn., að ég mundi beita mér fyrir athugun á því máli, og stundum, að ég gæti ekki við það ráðið. Það er t.d. um staðsetninguna, sem lögð var megináherzla á af hálfu Framsfl. Þegar skýrsla ríkisstj. var lögð fram í maímánuði, var gerð grein fyrir því, að sú athugun, sem fram hefði farið á því að staðsetja verksmiðjuna fyrir norðan, hefði skilað neikvæðum árangri, og ég skal ekki tefja tímann á að fara nánar út í það.

Ég skal nú koma að nokkrum meginatriðum, sem helzt hafa sætt gagnrýni í samningsgerðinni almennt, án þess að ég telji þörf á því að fara út í einstakar greinar samningsins. Og þá langar mig til þess að víkja fyrst að raforkusamningnum.

Það hefur verið gagnrýnt, að raforkuverðið væri allt of lágt. Því hefur verið haldið fram, að það væri bersýnilegt, að það mundi leiða til þess, að almenningur á Íslandi yrði að greiða hærra raforkuverð heldur en ella væri. Það hafa verið gagnrýnd endurskoðunarákvæði samningsins og bæði þau og raforkuverðið hefur verið borið saman við það, sem gerist í Noregi. Nú eru í grg. málsins ítarlegar upplýsingar um raforkuverðið, þar sem það kemur glöggt fram, að raforkuverðið stendur fyllilega undir þeim kostnaði af Búrfellsvirkjun, sem stafar af þeirri stærð, sem er tengd við álbræðsluna. Hitt hefur aldrei verið neitt launungarmál — og eins og þegar menn eru að tala um það núna, að það sé játað, að verðið sé lægra en í Noregi, — það hefur aldrei verið launungarmál, að við höfum átt í erfiðleikum með að fá verðið upp í 2.5 mill, en það voru 3.2 mill í Noregi. Það er ýmis önnur aðstaða að vera með álbræðslu hér á landi heldur en í Noregi, og hefur það haft áhrif á þetta verð. Þetta gefur að skilja, og menn skilja það ekki sízt, ef það er athugað, að þegar um það var rætt við þetta fyrirtæki að staðsetja álbræðsluna við Eyjafjörð, þá töldu fyrirsvarsmenn þess aðstöðuna vera það miklu hagstæðari hér fyrir sunnan heldur en við Eyjafjörð, að rafmagnsverðið yrði þá að vera lægra.

Ekkert er óeðlilegt að hliðstæð rök liggi til grundvallar því, að rafmagnsverðið sé lægra hér heldur en í Noregi, en um þetta hefur að vísu verið nokkur samkeppni, og ég hef vikið að því áður, að Norðmenn leggja mikið kapp á það núna að virkja sín fallvötn og vera búnir að gera það nógu tímanlega svo að þeir íendi ekki í óhagstæðri samkeppni við kjarnorku, sem menn gera sér vonir um, að verði ódýrari innan tíðar, kannske innan 10–15–20 ára, ég skal ekki um það segja. Sama hugsun réði auðvitað afstöðu okkar til þess að reyna að komast að samkomulagi nú og eins nokkur ótti um það, að ef það ekki tækist, væri kannske ekki möguleiki á því seinna að fá menn til þess að hagnýta þá orku hér á Íslandi, sem við getum látið einhverjum stórfyrirtækjum eða stóriðjufyrirtækjum í té.

Ég vildi árétta það, sem kemur fram í grg. á bls. 109, í kaflanum um áhrif byggingar álbræðslu á raforkuverð og afkomu Landsvirkjunar, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé við það miðað, að allur stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar ásamt varastöðvum verði endurgreiddur á 25 árum með 6% vöxtum, kemur í ljós, að áætlaðar tekjur af rafmagnssamningnum við álbræðsluna munu á þessu tímabili endurgreiða 72% af stofnkostnaði virkjunarinnar. Hins vegar mun álbræðslan aðeins nota 61% af orku virkjunarinnar og 57% af afli hennar.“

Framsfl. hafði sett það fram í sínu máli og ályktun, sem miðstjórn flokksins gerði á s.l. vetri, að álbræðslan stæði undir sínum hluta af virkjunarkostnaðinum. En eins og málið liggur núna fyrir, gerir hún töluvert miklu meira en það að standa undir sínum hluta af virkjunarkostnaðinum, eins og þessar tölur bera með sér. Sé litið á þau lán, sem reiknað er með að taka til virkjunarinnar erlendis, munu tekjur af álbræðslunni að mestu standa undir vöxtum og afborgunum af þeim nema fyrstu árin. Við samanburð á tekjum af álbræðslunni, og þá er átt við tekjur af raforkusamningnum eingöngu, og afborgunum og vöxtum af erlendum lánum, kemur í ljós, að vextir og afborganir á 25 ára tímabili nema samtals 2260 millj. kr. en tekjur af álbræðslunni eða rafmagnssölunni 2670 millj. kr. Íslendingar fá þannig hina miklu orku, sem Búrfellsvirkjun framleiðir, til almenningsþarfa án raunverulegra byrða vegna lána í erlendum gjaldeyri.

Það hefur einnig verið gerður samanburður á rafvirkjun með og án álbræðslu og sýnt fram á það, að rafmagnsverðið til almennings þyrfti að vera 62% meira á árunum 1969–1975, ef álbræðslan væri ekki byggð, 22%meira á árunum 1976–1980 og 12% hærra á árunum 1981–1985. Og yfir allt tímabilið er þetta nálægt 30%, sem raforkan þyrfti að verða hærri til almennings.

Um þessa útreikninga hafa verið gerðar þær aths., að fyrstu 6 árin sé hluti af skattgjaldinu færður inn á rafmagnsverðið, og hef ég leiðrétt það. Í stað 700 millj. kr. hagstæðari afkomu Landsvirkjunar með álbræðslu heldur en án hennar, þá eru það um 680 millj. þ.e. án vaxta. Það sem saman safnast með vöxtum á þessu tímabili, yrðu 860 millj. miðað við 700 millj. á 6% vöxtum. Hér munar ekki miklu, en þá er að vísu sagt, þetta fær bara ekki staðizt, vegna þess að virkjunin fer svo mikið fram úr áætlun. Nú vil ég í fyrsta lagi segja það, að fari virkjunin fram úr áætlun, fer hún eins fram úr áætlun að sínu leyti, þó að ekki sé byggð nein álbræðsla, og rafmagnsverðið hækkar þar af leiðandi af þeim sökum einnig til almennings í því tilfelli. En hitt hefur verið sýnt fram á og er sýnt fram á í gögnum málsins, að það er mjög lítil ástæða til þess, að þær áætlanir, sem nú liggja fyrir um kostnaðinn af Búrfellsvirkjun, standist ekki.

Á bls. 226 er gerð grein fyrir stofnkostnaði 105 mw. Búrfellsvirkjunar, og þar er l. liðurinn, byggingarmannvirki og stíflubúnaður og lagnir og flutningsgjöld o.s.frv., sem er langstærsti liðurinn, 808 millj. Það eru tilboð, sem þegar er búið að taka og eru föst, og sá liður breytist ekki. Vegir og brýr kosta 11.5 millj. Það er búið að vinna. Undirbúningskostnaður er 39.5 millj. Því er lokið. M.ö.o., þarna eru 859 millj., sem ekki breytast. Þá er kostnaður vegna helztu tækja í spennistöðvar vegna rafbúnaðar o.fl. Þau tæki em komin á hafnarbakkann hér. Verk ofan Búrfells, íbúðarhús og helmingur kostnaðar við þjóðvegi. Það eru 103 millj. Þetta er áætlunarupphæð enn. Það er skoðun bæði hinna amerísku sérfræðinga, Harza fyrirtækisins, rafmagnsfræðinga og verkfræðinga Landsvirkjunarinnar, að hér sé vel í lagt og ekki ástæða til að bera mikinn kvíðboga fyrir þessu. Svo eru stjórn og skrifstofur, eftirlit og verkfræðiþjónusta o.s.frv. áætluð 116 millj. og aðalorkuveituleiðslan 138 millj. Meginhluti kostnaðarins er þegar í föstum tilboðum, en eins og gerð er nánar grein fyrir, er um 15% af heildarstofnkostnaðinum við l. áfanga háður launum samkv. kjarasamningum, en 15% af þessum 1217 millj. kr. eru 182 millj. kr.

Nú hef ég gert ráð fyrir því að leggja hér vel í. Virkjunin á að framkvæmast á þremur árum. Segjum bara, að þessar launahækkanir eða laun samkv. kjarasamningum hækki um 50% á þessu tímabili, þá eru það um 90 millj. kr., en ófyrirséður liður í stofnkostnaðaráætlanir nemur 137 millj. kr., þannig að þá eru enn eftir 50 millj. kr. til þess að mæta einhverju öðru, sem kynni að hækka. Það er þess vegna næsta lítil ástæða til þess að telja sí og æ, að það sé enginn grundvöllur fyrir þessu og raforkuverðið verði vegna verðbreytinga allt annað heldur en nú horfir.

Við þetta vil ég svo bæta hinu, seinni áfanganum, þegar gert er ráð fyrir 210 mw. virkjun. Hún á að kosta á byggingartímanum án vaxta 1660 millj. kr., og þá eru varastöðvarnar ekki reiknaðar með, sem þarna er gert ráð fyrir að kosti 120 millj. kr., en þessi kostnaður er fluttur til frá síðara stigi til fyrri áfanga í síðari áætlunum. Mismunurinn er þá 300 millj. kr., ef áætlanir fullnotast, fyrri áfanginn 1354 millj. og síðari áfanginn 1660 millj. Nú er um helmingurinn af þessu vélar, og fyrir þær liggja þegar fyrir föst tilboð, sem ekki breytist verð á, svo að í sambandi við seinni virkjunina er ekki að þessu leyti eftir nema 150 millj. kr.

Þá er að vísu enn eitt atriði, sem menn hafa nefnt. Þessi samanburður er byggður á virkjun Háafoss, 126 megawatta virkjun þar, þannig að við höfum jafnmikla orku í báðum tilfellunum til ársins 1985 og hún hefur verið áætluð tæpar 1000 millj. kr. Menn segja, að það sé ekki nógu fullkomin áætlun, það sé lausleg áætlun, hún geti orðið allt önnur. Það verður auðvitað að ganga inn á það, að sú áætlun er ekkert sambærileg við það, sem ég nú hef verið að greina, og það kynni auðvitað að verða einhver breyting á henni. En menn hafa furðað sig á því, að þessi virkjun væri þá með þessum kostnaði ódýrari heldur en Búrfellsvirkjunin á hverja einingu. Um það liggur hins vegar fyrir, að eðli þessarar virkjunar er fyrst og fremst það að vera toppstöð fyrir eldri Búrfellsvirkjunina, því að þegar að því kemur, að slík virkjun annað hvort í Háafossi eða annars staðar verður byggð, er enn mikil orka ónotuð í Búrfellsvirkjuninni og til þess að nota þá orku til fulls mundi slík virkjun eins og þessi vera sérstaklega hagkvæm.

Að Fossá hefur ekki á þessu stigi verið áætluð hærri er af eftirtöldum ástæðum: 1) Fallhæð í Fossá er rúmlega tvöfalt meiri en við Búrfell: Það þýðir, að á hverja afleiningu í Fossárstöð þarf helmingi minna vatn en í Búrfellsstöð. Það leiðir svo aftur af sér, að skurðir, jarðgöng og pípur verða hlutfallslega miklu þrengri í Fossárstöðinni. 2) Vegna meiri fallhæðar er snúningshraði véla í Fossárstöð meiri en í Búrfellsstöð, en þetta hvort tveggja gerir vélarnar hlutfallslega mun ódýrari. 3) Vegna færri véla er spennistöðin við Fossárstöð einfaldari en við Búrfellsstöð, og ekki þarf heldur að reikna með orkuveitu til Straumsvíkur frá spennistöð við Geitháls og ýmsum kostnaði þar og við Írafoss, sem fylgir fyrstu virkjuninni, en ekki næstu og er þegar búið að leggja kostnað í.

Ég held þess vegna, að það sé engum efa undirorpið, að það er til stórhagræðis fyrir allan almenning í þessu landi að selja alúminíumverksmiðjunni raforkuna, eins og samið er um í rafmagnssamningnum og við því verði, sem þar er um að ræða. Menn furða sig að vísu á því og segja: Það er lítill munurinn, 10.3 aurar er áætlaður kostnaðurinn af rafmagninu, og það á að selja kwst. á 10.75 aura. En kwst. eru bara æðimargar, sem hér er um að ræða, svo að þó að þetta sé ekki há upphæð, munar mikið um það. Það er gert ráð fyrir við skulum segja 1000 gwst., þar sem 1 gwst. er 1 millj. kwst. Bara mismunurinn á áætluðu kostnaðarverði og söluverði er um 41/2 millj. kr., en þetta er miðað við afskrift á 25 árum. Ef við miðum við afskrift á 40 árum, sem er í sjálfu sér miklu eðlilegra og miklu vanalegra um slíkar vatnsaflsvirkjanir, er áætlaður kostnaður af Búrfellsvirkjun ekki nema 9.9 aurar kwst., og mismunurinn á kostnaðarverði og söluverðinu er því 81/2 millj. kr. miðað við ársnotkunina.

En það kemur meira til. Menn segja, að hér sé hætta á verðbólgu. Á það ber að líta, að menn hafa sagt, að rafmagnsverðið í Noregi sé 28% hærra en hér. En rafmagnsverðið hér á að greiðast í dollurum, og út af fyrir sig tel ég, að það sé mikil trygging í því, en í þeirri mynt eru lánin, sem tekin eru til virkjunarinnar, hin erlendu lán, svo að verði einhver breyting á gengi ísl. kr. í hlutfalli við dollar eða krónan falli, sem er nú meiri hætta á heldur en hitt, hefur það út af fyrir sig lítil sem engin áhrif á raforkuverðið, og þetta tel ég vera alveg ótrúlega mikið öryggi fyrir íslenzka rafmagnsnotendur. Ef við reiknum t.d. með 7.8% fjármagnskostnaði, eins og hér hefur verið gert í grg., í vatnsaflsstöðvunum, og 10% í gastúrbínustöðvunum, hækka erlendar lánagreiðslur að frádregnum erlendum tekjum þannig, ef dollarinn t.d. hækkaði upp í 64.50 eða um 50%. Með álbræðslunni mundu erlendu lánagreiðslurnar allt tímabilið hækka um 81 millj. kr. umfram það, sem við fáum í erlendum gjaldeyri, en án álbræðslu mundu erlendu lánin við slíka gengisbreytingu hækka á 25 ára tímabilinu um 615 millj. kr., og slík hækkun, ef hún ætti sér stað, mundi leiða til þess, að víðbótarorkan á árunum 1969–1975 þyrfti að hækka um 95%. Hún væri 95% meiri, ef álbræðslan væri ekki byggð með, og 58% meiri á árunum 1976–1980 og 30% á árunum 1981–1985, og þetta mundi yfir tímabilið til 1985 nema 56% hærri raforku án álbræðslu heldur en með henni. En nú skulum við segja, að dollarinn hækkaði, krónan lækkaði um 100%. Mönnum finnst það kannske mikið, og ég vildi vona, að til þess kæmi ekki, að það þyrfti 86 kr. í dollarann. En ég minni menn bara á það, að ef við hefðum gert þennan samning fyrir 20 árum og í dollurum, — dollarinn var þá 6.50 kr. og er núna 43 kr. — þá væri verðið komið yfir 70 aura á kwst., bara af þeirri hækkun, sem af því leiddi. Nú vil ég vona, að svo verði ekki, og við skulum öll vona það, að við getum fótað okkur betur í þessum málum og þurfum ekki að horfa fram á slíkar gengisfellingar eins og við höfum þurft að gera fram til þessa. En þó er það svo, að ef dollarinn færi upp í 86 kr., mundu erlendar afborganir á öllu tímabilinu hækka um 162 millj. kr. með álbræðslu, en um 1231 millj. kr. án álbræðslunnar. Og ef sama hrun væri á krónunni og seinustu 20 ár, mundu afborganir hækka um 8124 millj. á þessu 20 ára tímabili.

Sem sagt, hvað sem maður vill nú velta fyrir sér um gengisbreytingar og annað, er aðalatriðið það, að það er mjög mikil trygging í því að hafa greiðslurnar fyrir raforkuna og reyndar skattgjaldið líka í sömu mynt og hin erlendu lán, sem eru verulega stór, til þeirra framkvæmda, sem fyrirhugaðar eru.

Það hefur verið gagnrýnt, að endurskoðunarákvæðin á rafmagnsverðinu væru óhagstæðari hjá okkur. Við eigum ekki að endurskoða né breyta verðinu nema það, sem leiðir af rekstrarkostnaði, sem ég viðurkenni, að er sáralítið eftir 10–15 ár, hvað það nú er. En hins vegar hefur verið sagt, að í Noregi sé heimilt að endurskoða á 5 ára fresti raforkuverðið. Þetta er nú á misskilningi byggt, því að þessi samningur, sem var gerður 1962 í Noregi, eins og ég gerði grein fyrir áðan, hann má ekki breytast fyrr en 1972, fyrsti áfanginn eru 10 ár. Síðan, ef norska Stórþingið breytir rafmagnsverðinu, breytist verðið í samningnum í samræmi við það, en þó aldrei meira en það, sem nemur 60% af heildsöluvísitölu í Noregi. Þessi heildsöluvísitala er miðuð við ýmis meginhráefni eins og járn og timbur og annað slíkt, og þó að norska Stórþingið hækki verðið á kwst. á orkunni í Noregi almennt, má samt sem áður ekki breyta verðinu eftir samningnum nema sem svarar til 60% af hækkun þessarar heildsöluvísitölu. En eftir því sem mér er tjáð, mun hún lítið sem alls ekkert hafa hækkað 10–15 s.l. ár, svo að af þessu hefur engin hækkun á raforkunni stafað. Ef hún er nokkur, er hún sáralítil. Þegar við höfum þetta í huga og eins það, að okkar raforka er greidd með dollurum, þeirra í norskum kr., held ég, að við þurfum ekkert að bera okkur upp undan því, að okkar samningsákvæði séu lélegri en þeirra. Svo er annað, að Alusuisse er skuldbundið til þess að borga okkur þessa raforku allan samningstímann og í dollurum, svokallaða minimumorku, sem gerð er nánar grein fyrir í raforkusamningnum, og það engu að síður þótt álbræðslan hætti störfum og leggist niður af einhverjum ástæðum, við skulum segja, að framleiðslan verði óhagkvæm, og þá eru þeir skuldbundnir til þess að borga raforkuna allan tímann. Í Noregi geta þeir sagt upp raforkusamningnum eftif 10 ár frá því að hann byrjaði, en hins vegar má ríkið ekki segja samningnum upp. Það er skuldbundið til þess að afhenda þeim orkuna í 40 ár. En álbræðslan þar getur hætt að taka orkuna eftir 10 ár, ef það er ekki hentugt að halda því áfram, svo að það er alveg gerólíku saman að jafna samningunum hjá okkur og þeim.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta á þessu stigi málsins.

Það hefur verið gagnrýnt verulega gerðardómsákvæðið, eins og kunnugt er, og um það urðu töluverðar umr. í Nd. Nokkuð spunnust þessi ákvæði inn í vantraustsumr„ eins og menn muna, og í framhaldi af því inn í umr. í Nd., af því að hv. l. þm. Austf. las þar kafla úr ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., sem um þessi ákvæði fjölluðu.

Ég verð að segja það, að ég hef aldrei getað áttað mig á þeim stóryrðum, sem höfð hafa verið um þetta fyrirkomulag, sem er ákveðið í samningnum, þ.e. að aðilarnir geti skotið málum sínum til alþjóðlegs gerðardóms, þar sem þeir tilnefna hvor sinn aðila og fer þá málið annað hvort til hins alþjóðlega gerðardóms Alþjóðabankans, sem búið er að ræða hér um og mörgum hv. þm. er kunnugt um, eða þá, að forseti Alþjóðadómstólsins í Haag tilnefnir oddamann. Ég get að vísu ósköp vel skilið, að menn segi sem svo: Eitt ríki á ekkert að vera að semja við einkafyrirtæki um að skjóta sínum málum í gerð, einkafyrirtæki, sem hefur atvinnurekstur í landinu. Það er langeðlilegast, að það falli undir dómstólana. Þetta get ég alveg skilið, og þessi sjónarmið komu alveg fram í þmn. hjá okkur, og við ræddum um þetta, ég vil segja nokkuð hitalaust. Það var ekki mikill óstyrkur í mönnum, a.m.k. ekki eins og þeir væru að farga sjálfstæðinu eða lýsa neinu vantrausti á dómstólana íslenzku eða hæstarétt. Tilhneigingin hefur verið nokkuð sterk í þessa átt á síðari árum, sem var óvanalegt hér áður fyrr, að ríki semdi um það, að ágreiningur við einkaaðila færi í gerð, alþjóðlega gerð, og fyrir því hef ég gert nánari grein í Nd., en ég ætla ekki að ástæðulausu, ekki nema sérstakt tilefni gefist, að fara að eyða tíma í að rekja það hér aftur.

Í hinum fyrstu frumdrögum, sem við sendum í janúar 1964, voru þegar uppi þessar hugmyndir um gerðardóm, íslenzkan gerðardóm fyrst og fremst. Annað hvort var að fara fyrir dómstólana eða fara fyrir íslenzkan gerðardóm með tilteknum hætti. Svo var þar hreyft hugmyndinni um þann möguleika að vísa ágreiningsmálum til þess alþjóðlega gerðardóms, sem vitað var þá, að Alþjóðabankinn var að beita sér fyrir, ef hann kæmist á laggirnar. Svo var sú samþykkt gerð, sem hér hefur legið fyrir, hin svokallaða SID-samþykkt, og hún bíður nú eftir fullgildingu en verður ekki raunhæf, kemur ekki til framkvæmda, fyrr en 20 þjóðir hafa fullgilt hana. Endanleg fullgilding liggur víst ekki fyrir enn nema frá fáum þjóðum, en 35 þjóðir hafa undirskrifað hana. En þetta tekur allt nokkurn tíma, þótt allt sé með eðlilegum hætti með fullgildingu á slíkum samþykktum. Ef við lítum á, hvernig það hefur verið hjá Bandaríkjunum, þá hafa þau undirskrifað samþykktina í ágústmánuði, 27. ágúst 1965, minnir mig, þá undirskrifar fjmrh. hjá Alþjóðabankanum samþykktina og svo leggur forsetinn samþykktina fyrir „öldungadeildina,“ það mun hafa verið 7. febr. í ár, og þar er þessi samþykkt núna. Ég veit náttúrlega ekki, hvaða gangur verður á því máli, en það er ástæða til að ætla, eins og málið hefur verið lagt fyrir af hálfu forsetans, að hún fái afgreiðslu hjá þinginu bandaríska, væntanlega áður en því lýkur núna, og þar með er fullgilding af þeirra hálfu komin á þessu. Þannig gengur þetta, við samþykkt heimildar fyrir ríkisstj. Ríkisstj. biður um heimild Alþ. til þess að mega skrifa undir hana, og það mundi þýða það, ef Alþingi samþykkti þá heimild, að fullgildingin ætti sér stað þegar undirskrift okkar yrði framkvæmd.

Sannast að segja, eftir þessar fyrstu hugmyndir um gerðardóm í þessum málum, þá sendu þeir okkur uppkast, sem var dagsett í maímánuði 1965, 21. maí, og það er eiginlega sem svar við þessu, eftir að margir fundir höfðu átt sér stað á árunum 1964 og svo 1965. Ég fékk þetta uppkast í hendurnar skömmu áður, en ég fór þá utan til þess einmitt að hitta þmn. í Zürich eða í Sviss til þess að skoða þar álbræðslur með henni, en hún var þá stödd í Noregi og var að kynna sér álbræðsluna í Husnesi og módeltilraunir í Þrándheimi eins og kunnugt er og hafði rétt getað komizt yfir þetta uppkast, þegar ég kom til Zürich. Mér fannst þá ástæða til þess og óskaði eftir því við forstjóra fyrirtækisins að hafa með þeim fund strax, til þess að ég við fyrsta tækifæri gæti gert fyrirvara um það, að mér mislíkaði þetta samningsuppkast. Það var ekki gert ráð fyrir að halda neina samningafundi á þessu stigi málsins, heldur var þetta kynnisför og heimsókn. Við vorum þar Jóhannes Nordal bankastjóri, sem var þarna staddur líka, og ég og mættum á fundi með forstjórum Alusuisse 17. júní. Aðaltilgangurinn var að gera þennan fyrirvara, og hann var einmitt um ýmiss konar form á þessu samningsuppkasti — meira form kannske heldur en efni — en einnig um sum efnisatriði málsins, sem ég skal víkja að síðar. Þetta sagði ég þmn. strax og hún kom, að ég hefði fengið samningsuppkastið áður en við fórum að heiman og mér mislíkaði það. Ég hefði gert fyrirvara um það og sagt þeim, að við mundum fara í samningsuppkastið með þmn., þegar heim kæmi úr ferðinni, og senda þeim svo okkar grg.

Þegar svo þmn. kom heim, þá fórum við í júlímánuði ítarlega í gegnum samningsuppkastið, lið fyrir lið og grein fyrir grein, og síðan var samin ítarleg grg. í ágústmánuði, 11. ágúst, um aths. íslenzkra aðila við þetta samningsuppkast. Þær aths. voru bornar undir þmn. og voru til undirbúnings fundi, sem átti að halda þá með Svisslendingunum í októbermánuði hér í Reykjavík.

Það sem mér mislíkaði m.a. alveg sérstaklega, voru þau ákvæði í uppkasti þeirra um gerðardóm og eftir hverju hann ætti að dæma, því að það var beinlínis tekið fram í gr., sem þá var 22. gr., hvaða lög ættu að vera ríkjandi í þessu sambandi. Þá áttu íslenzk og svissnesk lög að vera grundvallaratriði þessara laga, að svo miklu leyti sem þau væru þá sameiginleg fyrir hendi, og ef þau væru ekki sameiginleg fyrir hendi, þá alþjóðalög. Um þetta ræddum við ítarlega í þmn., og það kemur mjög greinilega fram í aths., sem Svisslendingum voru sendar og þmn., með leyfi hæstv. forseta:

„Í ákvæðum samningsins um ofangreind efni “ — það er grundvallarlög og deilumál — „ætti í fyrsta lagi að koma fram eðlilegur greinarmunur milli efnislegs réttar og réttarfars. Svo virðist sem þetta hafi ekki tekizt í drögunum, þótt skilið sé þar á milli innihalds.

Í öðru lagi er talið, að því er varðar hinn efnislega rétt, sem leggja á til lagagrundvöllinn að samkomulagi aðilanna, að samninginn og fylgiskjölin eigi að túlka og framkvæma í samræmi við íslenzk lög, og geta þá viðeigandi reglur þjóðaréttarins átt við með venjulegum hætti. Það er skoðun fulltrúa ríkisstj., að þróun íslenzks réttar og réttarstofnana réttlæti fyllilega þá staðhæfingu, að Alusuisse ætti að taka það með í reikninginn sem hverja aðra viðskiptalega áætlun í fyrirtækinu, að hagsmunir þessarar verksmiðju yrðu látnir lúta handleiðslu íslenzkra dómstóla, íslenzkra laga.

Í þriðja lagi er talið, að því er varðar dómstóla þá og réttarfar, sem notaðir yrðu til að setja niður hugsanlegar deilur milli aðilanna út af samningnum og fylgiskjölunum, að þekking og vammleysi íslenzkra dómstóla er hafið yfir allan efa um það, að heppilegt sé að leggja þessi mál í þeirra dóm. Af þessu leiðir, að ekki ætti að þurfa að leita til gerðardóms um deilur aðilanna, hvort sem hann er íslenzkur, alþjóðlegur eða annars konar, nema sú leið hafi í för með sér ótvíræða og mikilvæga kosti við lausn deilumála svo sem verulegan sparnað á tíma og fjármunum.“

Og svo er loks eftirfarandi:

„Að lokum er það talið eðlilegt, að aðilarnir hafi það í huga og hagnýti sér til meiri fullnustu en ráðgert er í drögunum, að verið er nú að koma upp stofnun á alþjóðlegum vettvangi einmitt í því skyni að fjalla um deilur af því tagi, sem risið gætu út af samningnum.“

Þar er átt við SlD-samkomulagið. Þetta var okkur alveg ljóst, bæði fulltrúum og þmn., og um þetta ræddum við. Þessi grg. var meira að segja lagfærð eftir fund, sem haldinn var í n. og hert nokkuð á atriðum þarna í sambandi við þau lög, sem ættu að ráða, og það var á þessu stigi málsins, — ég verð að segja það, það kom fram í umr. í Nd., — að mér var alls ekki ljóst, hvort ganga mundi saman. Það voru meiri líkur á því, að gengi saman milli Svisslendinga og Íslendinga í þessum málum, þegar þeir komu hér til fundarins 12. og 14. okt.

Þá þegar á fyrsta fundi voru uppi hjá þeim allt aðrar hugmyndir um lagagrundvöll þessa samnings heldur en við höfðum haft uppi í þmn., og ég hafði gert grein fyrir. Þá var það, að ég, — eins og ég sagði frá í Nd., — fór af þeim samningafundi og boðaði til mín forstjórana, herra Meyer og Müller, upp í iðnmrn. og sagði þeim, að ef ekki yrði breyting á þessum greinum, þá gætum við alveg eins hætt þessum samningum þá þegar, hér yrði að leggja til grundvallar íslenzk lög. Um það tjáðu þeir sig algerlega vanbúna, þeir þekktu ekki til íslenzkra laga o.s.frv., o.s.frv., sem ég skal ekki fara að rekja, en mín skoðun var sú, að þeir ættu þá ekki að vera neitt að hugsa um að koma hingað, ef þeir ekki treystu sér til þess að sætta sig við, að farið væri eftir grundvallarreglum íslenzkra laga.

Á einu stigi stóð málið þannig, að hr. Meyer sagði: Ja, þá getum við ekki gengið inn á þetta. Það gat ég ekki heldur, og þar með var þessu lokið.

Hitt var svo annað mál, að meðan á þessum fundum stóð, þá tóku þeir sig á í þessu, og um það segir í frásögn frá þessum fundi, sem báðir aðilar skrifuðu undir:

„Alusuisse viðurkennir, að stjórnarskrá Íslands veitir viðhlítandi vernd gegn raunverulegri eignatöku, og óskar eftir frekari tryggingarákvæðum gegn einstökum eignartökum í skömmtum.“

Um lagareglur, sem beita á, og ágreiningsmál er eftirfarandi niðurstaða:

„Fella þarf niður alla 52. gr. — sem þá var — nema ákvæði í mgr. 52.01 á þá leið, að samninga skuli túlka skv. efni þeirra, og að lagareglur, sem beita á, skuli vera íslenzk lög og þær reglur úr alþjóðarétti, sem við kunna að eiga, þar með taldar meginréttarreglur, sem almennt eru viðurkenndar af siðmenntuðum þjóðum.“

þetta var svo fellt inn í samningsákvæðið eins og stendur, með leyfi hæstv. forseta, í 45. gr.:

„Samning þennan ber að skýra, túlka og framkvæma samkv. ákvæðum hans og hinna fylgiskjalanna, eftir því sem unnt er, og að því leyti fer um skýringu, túlkun og framkvæmd, gildi og áhrif samnings þessa að íslenzkum lögum og þeim reglum þjóðaréttar, sem við kunna að eiga, þar á meðal þeim grundvallarreglum laga, sem almennt eru viðurkenndar af siðmenntuðum þjóðum.“

Og sannast að segja höfum við, sem erum aðilar að alþjóðadómstólnum og Sameinuðu þjóðunum, að mínum dómi ekki aðstöðu til þess að segja, að við getum ekki látið fylgja með, að það megi, eftir því sem við á, beita grundvallarreglum siðmenntaðra þjóða, og sjálfum er mér ekki kunnugt um, að grundvallarreglur íslenzkra laga stríði í einu eða öðru á móti því, sem kallað mundi vera grundvallarreglur siðmenntaðra þjóða.

Þessar niðurstöður samningsviðræðnanna 12.–14. okt. voru lagðar fram á fundi þmn. 28. okt., og þar er um þær bókað í 2. tölul.:

„Tekin til umr. frásögn af fundum fulltrúa íslenzku ríkisstj., Alusuisse og Alþjóðabankans í Reykjavík 12.–14. okt. Rætt um ýmis atriði skýrslunnar, einkum í fyrsta lagi force majeure, sem menn voru sammála um, að æskilegt væri að túlka þröngt. Í öðru lagi afstöðu til að nota erlent vinnuafl, einkum á byggingartímanum, sem talið var að ætti að fara eftir hinum almennu reglum, sem um slíkt gilda hér á landi. Og í þriðja íagi gerðardómsákvæðin, sem talið var æskilegt, að hægt væri að takmarka.“

Á næstu fundum ræddum við um takmörkunina á þessu, reyndum að finna form fyrir einhverjum takmörkunum á því, að deilur skyldu fara í gerðardóm. Það reyndist nokkuð erfitt að skilgreina það, hvað væru meiri háttar mál. Og án þess að við treystum okkur til þess að telja upp eða gera á þessu sérstaka skilgreiningu, var gefin þessi viljayfirlýsing í framhaldi af þeim óskum, sem fram komu í þmn., um lok 46. gr.:

„Það er ekki ætlun aðila samnings þessa að leita til alþjóðlegs gerðardóms til að jafna neinar deilur, sem eigi varða verulegar fjárhæðir eða mikilsverð málefni.“

Þessu hef ég viljað gera grein fyrir hér, og eins og ég sagði áðan, þá furðar mig ekkert á því, þó að menn kunni að hafa einhverjar mismunandi skoðanir á því og kynnu að hafa haft þá skoðun frá öndverðu, að það væri eðlilegast að hafa engin gerðardómsákvæði. Hitt hef ég ekki getað sætt mig við, þegar hv. þm. fylgjast með svona samningagerð stig af stigi, eins og ég nú hef lýst hérna, og hafa í sjálfu sér ekki neitt sérstakt við það annað að athuga en að gerðardómsákvæðið sé sem takmarkaðast og kannske álitið æskilegast — eins og ég hef sagt og viðurkennt að væri — að viðhafa engin gerðardómsákvæði í þessu, ég hef ekki getað sætt mig við, að það sé svo fundið að þessu á síðara stigi málsins, þegar samningarnir eru lagðir fram opinberlega í þinginu, og sagt að hér sé um eitthvert glapræði að ræða, sem sé vanmat á íslenzkum dómstólum og jafnvel skerði okkar eigið sjálfstæði. Það er þetta atriði, sem ég hef gert athugasemdir við, í sambandi við þær ádeilur og svartsýni, sem fram hefur komið varðandi þennan gerðardóm.

Eins og menn sjá, komu þau sjónarmið fram í sjálfri þmn., að í raun og veru þyrftu þeir ekki að kvarta neitt undan því að hafa engin gerðardómsákvæði, og auðvitað var það skoðun okkar allra, að íslenzkir dómstólar væru fullkomlega nægjanleg vernd, og það er mín skoðun enn, þó að ég hafi ekki talið neitt athugavert við það að ganga inn á gerðardómsákvæðið, þegar það var tryggt, að hann í úrskurðum sínum skyldi fara eftir grundvallarreglum íslenzkra laga.

Ég sagði áðan, að ég skyldi rekja það, hvernig þessi þróun gerðardómsmála hefur verið á alþjóðavettvangi, vegna þess að það er nokkuð kunnugt þegar, en einn af samninganefndarmönnum, Steingrímur Hermannsson, tókst á hendur ferð að minni beiðni í nóv. í vetur til þess að kanna ýmisleg atriði í sambandi við afstöðu Norðmanna, bæði tæknileg atriði og önnur, kannske einmitt sérstaklega tæknileg atriði, því að hann er á því sviði sérfræðingur sem verkfræðingur.

Hann segir í sinni skýrslu til mín m.a., — ég skal ekki fella neinn dóm um það, — að hann hafi átt þar viðræður við ráðamann, sem ég skal ekki. nefna á nafn, norskan, og aðspurður kvaðst hann ekki sjá neitt athugavert við ákvæðið um ráðandi lög, „dominent law“, eða þau lög, sem fara bæri eftir. Upplýsti hann sem dæmi, að í Noregi giltu í mörgum tilfellum þær reglur, að ef norska ríkið stefndi viðkomandi aðila, slíkum félögum eins og þessum, þá bæri að fara eftir lögunum í heimalandi stefnda, en hins vegar eftir norskum lögum, ef verksmiðjan stefndi norska ríkinu.

Undir meðferð málsins bar allt sem sagt að þeim brunni, að mér sýndist þróunin ganga í þá átt, að það væri næsta eðlilegt og á engan hátt óviðurkvæmilegt að hafa slíkt gerðardómsákvæði í samningnum, og eins og ég margoft hef tekið fram, hef ég engar sérstakar aðvaranir fengið frá einum eða neinum hv. þm. um, að hér væri um varhugavert ákvæði að ræða.

Ég skal svo reyna að fara nokkuð fljótt yfir sögu. Það hefur verið fundið samningnum til foráttu, að það væru sérréttindi í honum. Það hefur verið sagt t.d. um tollamálið, að þeir greiði ekki toll eins og aðrir. Þetta er alveg rétt. Þetta kom strax fram í skýrslu stóriðjunefndar til ríkisstj., sem send var alþm. öllum í nóv. 1964. Það var alveg ljóst, þegar við byrjuðum viðræður við erlenda aðila, — ég átti þá sæti í stóriðjunefndinni — að það mundi vera alveg vonlaust að fá þá til þess að koma hingað upp á það að greiða tolla eftir tollalögum eins og voru hjá okkur, þar sem þeir hvergi, þar sem þessir aðilar þekktu til sjálfir, höfðu þurft að greiða neina slíka tolla. Annaðhvort höfðu þeir búið við algert tollfrelsi eða sama sem tollfrelsi. Þessu varð að gera sér grein fyrir. Þess vegna var í upphafi talað um það að hafa álbræðsluna í fríhöfn og búa til fríhöfn, sem þá jafnframt gæti gagnað íslenzkum iðnaði og Íslendingum. Af ýmsum teknískum ástæðum var horfið frá því ráði að setja upp þessa fríhöfn, en þá hefði þetta auðvitað verið alveg jafntollfrjálst.

Svo hefur verið gert allt of mikið úr þessu tollfrelsi. Það var í einhverjum gömlum skýrslum talið, að tollarnir gætu verið um 500 millj. kr., þá var talað um 30%, 35% og meiri tolla, 35 og 60% tolla á vélum og efni til slíkrar álbræðslu. Tollar á vélum hafa verið lækkaðir síðan hjá okkur niður í 25% og niður í 10%, þegar um er að ræða vélar í sambandi við útflutningsframleiðslu okkar, og hér er aðeins um það að ræða, að aðilinn flytur inn hráefni, vinnur úr því og flytur það út aftur. Það eru engin sérréttindi, að það sé ekki tollað, að það séu ekki greidd af hráefninu aðflutningsgjöld og útflutningsgjöld. Þetta er sú regla, sem viðgengst hjá okkur sjálfum.

Ef við ættum að stilla upp einhverju tolladæmi, þá er í sjálfu sér miklu eðlilegra að spyrja: Hvað borgar útflutningsframleiðslan okkar í tolla? Það er enginn tollur greiddur af skipum, sem flutt eru til landsins, það eru engir tollar greiddir af flugvélum, vöruflutningaskipum eða fiskiskipum. Það eru 2 eða 4% tollar af veiðarfærum til útvegsins, og ég gæti ímyndað mér, að meðaltollurinn, sem útflutningsframleiðslan greiðir, væri kannske eitthvað um 5% eða eitthvað slíkt. Forréttindin í sambandi við byggingarstarfsemina eru nokkrir tugir milljóna, en það eru engin sérstök forréttindi í sambandi við sjálfan reksturinn og framleiðsluna, því að það er almenn regla hjá okkur, að menn greiða ekki tolla af hráefni, sem þeir flytja inn og flytja aftur unnið út.

Það er heldur engin undanþága frá gjaldeyrislögum, sem þetta fyrirtæki hefur. Það lýtur alveg sömu lögum og aðrir aðilar, sem afla erlends gjaldeyris og fá að ráðstafa honum erlendis, en eru undir eftirliti gjaldeyrisyfirvalda. Þetta er byggt á misskilningi.

Það er sagt, að framleiðslugjaldið sé sérréttindi. Það eru í eðli sínu engin sérréttindi, sem felast í framleiðslugjaldinu. Skatturinn er reiknaður í formi framleiðslugjalds og reiknaður eftir íslenzkum lögum og þeim rekstraráætlunum, sem fyrir liggja. Að dómi okkar, sem að þessu unnum á vegum ríkisstj., ríkisstj. sjálfrar, erlendra sérfræðinga, bæði enskra og norskra, sem við höfðum með í ráðum um þetta, þá var þetta talið miklu heppilegra form um skattgreiðsluna, og ég varð þess sérstaklega var sjálfur, þegar ég var á ferð í Noregi í fyrravetur, að menn töldu, að það væri mun heppilegra fyrirkomulag, sem við værum með á skattagreiðslunni heldur en Norðmenn. Við erum þarna með 20 dollara á tonn fyrstu sex árin, og fer það hækkandi upp í 35 dollara, og svo er nokkur tilfærsla á því, að vísu eftir heimsmarkaðsverði á alúminíum, til og frá, eins og mönnum er kunnugt af gögnum málsins.

Steingrímur Hermannsson, sem eins og ég sagði áðan aflaði upplýsinga um ýmis þessi atriði í Noregi, gerði grein fyrir því, að þær verksmiðjur, — það voru ríkisverksmiðjurnar norsku, — sem höfðu staðið sig langbezt, bezta framleiðsluárið þeirra urðu þær að borga mesta skatta og hefðu náð 18.5 dollurum á tonn, en allar hinar álbræðslumar borguðu miklu minni skatta og yfirleitt væru þær meira og minna skattfrjálsar meðan á samningstímanum stóð eða á fyrstu tíu árunum. Þar var honum tjáð af viðkomandi aðilum, að þrátt fyrir hærri skattprósentu, 54%, væri það talið fullvíst, að álbræðslur þar mundu sýna sáralitlar tekjur og lítinn sem engan skatt greiða fyrstu tíu árin. Hann segir um þetta atriði:

„Allir, sem ég ræddi við, töldu skattaformúlu okkar góða, og töldu sumir af þeim mönnum, sem til þekktu, samning okkar að þessu leyti langtum fremri þeim norska.“

Svo bendir hann á atriði, sem ég hef leiðrétt, og ég held, að menn séu búnir að átta sig á. Það er eftirfarandi:

„Hér hefur verið fullyrt hvað eftir annað, að Norðmenn eignist verksmiðjur útlendinga að samningstímanum loknum. Um þetta spurði ég sérstaklega og fékk þá vissu mína staðfesta, að þetta er algerlega rangt. Aðeins þegar um er að ræða leyfi til virkjana eða annarrar beinnar nýtingar náttúruauðæfa getur norska ríkið yfirtekið fyrirtækið að samningstímanum loknum. Hins vegar eru engin slík ákvæði um iðnrekstur. Þetta er ítarlega staðfest í þeim norsku ritum, sem ég hef fengið.“

Ég veit, að mönnum hefur sýnzt sitt hvað um það að efna til slíkra stórra framkvæmda, þegar segja má, að mikill vinnuaflsskortur sé hjá okkur. Ég hef reynt að gera mér grein fyrir því, að það er ekki í sjálfu sér hættan af álbræðslunni, sem bagar hér aðra atvinnuvegi. Við höfum hér vinnuaflsskort eins og er, og það er ómögulegt að neita því, að ef menn athuga þær skýrslur, sem liggja fyrir um þetta frá Efnahagsstofnuninni og kom fram í grg., þá er auðvitað fyrst og fremst ofvöxturinn í byggingariðnaðinum, sem væri þess eðlis, að ástæða væri til þess að athuga hann. Nú er vitað, að sérstök n. vinnur að því á vegum ríkisstj. að athuga möguleikana á innfluttum húsum og svokölluðum verksmiðjuframleiddum húsum. Auðvitað er hugsanlegt, að þetta geti sparað verulega vinnuafl í byggingariðnaði, en aukningin í honum var um 1400 manns á tveimur árum, eða frá 1963 til 1965, sem er 10% og algerlega ónormalt. Og auk þess mætti náttúrlega hnika til á öðrum sviðum, t.d. í fyrirhuguðum framkvæmdum í Hvalfirði. En loksins er á það að líta, að jafnvel á byggingartímanum er vinnuaflsþörfin ekki verulega mikil í sambandi við byggingu sjálfrar álbræðslunnar.

Á bls. 214 í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar um mannaflaþörfina kemur það fram, að mesti mannafli árið 1967 er 110 manns við byggingu álbræðslunnar, 1968 285 manns og 1969 215 manns, eftir þeim áætlunum, sem fyrir liggja. En mannaflinn er á þessum árum 75 manns 1967, 195 manns 1968 og 110 manns 1969. Nú er mesti mannaflinn yfir sumartímann, og í annarri skýrslu er bent á það, hve mikil fjölgun á sér stað á vorin á vinnumarkaðinum hjá okkur Íslendingum. Í júlímánuði er á þessum árum, 1967–1969, talið vera 8400–8800 manns fleira á vinnumarkaðinum heldur en í marz og nóvember sömu ár, og kemur það þarna til góða. Svo er höfnin í Straumsvík. Öll þessi ár er talið, að 75 manns þurfi að vinna við framkvæmd hennar. Hitt er svo annað mál, að það er miklu meiri mannfjöldi, sem þarf til raforkuframkvæmdanna. Það er áætlað 565 manns 1967, 565 manns 1968 og 140 manns árið 1969. En við þyrftum mikið af þessum mannafla hvort heldur sem við reistum álbræðslu eða ekki, því að virkjununum getum við ekki frestað.

Hitt held ég, að mönnum sé svo ljóst, að mannaþörfin, sem áætluð hefur verið 450–500 manns, skiptir ekki miklu máli í sambandi við rekstur verksmiðjunnar, þegar hún er komin í full afköst, sem ekki er þó fyrr en árið 1975. Frá 1965–1975 er gert ráð fyrir, að bætist á vinnumarkaðinn í landinu 17000 manns, svo að um það held ég, að sérstaklega verði nú ekki deilt.

Um staðsetningu verksmiðjunnar hefur mikið verið rætt, og um það vil ég ekki annað segja en það, að ríkisstj. hafði það í huga að láta rannsaka og lét rannsaka möguleika á að staðsetja hana fyrir norðan. Það er nánar gerð grein fyrir því í skýrslu stjórnarinnar, sem lögð var fram í þinginu 4. maí 1965, að eftir þá rannsókn þótti ekki tiltækilegt að koma upp verksmiðjunni fyrir norðan og sérstaklega vegna þess, hve erfiðara væri um virkjunaraðstæður þar heldur en hér fyrir sunnan. Til þess að bæta nokkuð úr því hefur svo ríkisstj. flutt frv. um atvinnujöfnunarsjóð, sem búið er að vera í þessari hv. d. og þm. er kunnugt um.

Því hefur stundum verið haldið fram, að við höfum samið eitthvað af okkur um það að setja ekki skilyrði um að hreinsunartæki væru sett upp í sambandi við þessa verksmiðju, en því vil ég alveg mótmæla. Það kemur alveg greinilega fram, að samningsákvæðin um mengun í 12. gr., eru þess eðlis, — það var greinilega tekið fram í skýrslunni í maí í fyrra, og Svisslendingamir hafa heldur aldrei neitt haft við það að athuga, — að ef það sýndi sig, að hér væri hætta á ferðum, væri þeim skylt að setja upp hreinsunartæki eða gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar væru taldar. Það kemur greinilega fram í 12. gr. 02, þar sem segir, að ISAL muni gera allar eðlilegar ráðstafanir til þess að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Það var hins vegar álitið, að þarna á Reykjanesskaganum og miðað við þær upplýsingar, sem lágu fyrir um veðurfar og vindáttir, væri ekki ástæða til á fyrsta stigi málsins að setja upp hreinsunartæki, en það eru ákvæði hér um skyldu fyrirtækisins til þess að standa að rannsóknum á hættunni, sem af þessu getur leitt. ISAL skal framkvæma reglulegar athuganir með því að taka með vissu millibili sýnishorn af gróðri, efnum og eignum á fyrir fram ákveðnum athugunarstöðvum í nágrenni við bræðslulóðina í samráði við hlutaðeigandi rannsóknastofnun ríkisstj., að því er varðar möguleg áhrif á grastegundir af reyk frá bræðslunni, og niðurstöður slíkrar athugunar skulu vera tiltækar fyrir ríkisstj. Rannsóknastofnun iðnaðarins hefur þegar verið falið að vinna að þessu og hefur kynnt sér málin, eins og fram kemur í grg., og ég tel, að hér sé þannig um hnútana búið, að það sé enginn vafi á því, að þeir verði að gera þær ráðstafanir, sem taldar eru góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum, og þar höfum við það sterk samningsákvæði, að komi það í ljós, að hætta stafi af þessu, þá verði þeir að gera þær fullkomnustu ráðstafanir, sem annars staðar eru gerðar á hverjum tíma til þess að koma í veg fyrir það.

þegar upphaflega voru teknar upp viðræður um að athuga möguleikana á því að koma á samningum um stóriðju, var það m.a. út frá þeirri hugsun, að það gæti verið nokkuð tvísýnt um framleiðsluaukningu og nýja verðmætasköpun í þjóðfélaginu til þess að mæta hinni miklu fólksfjölgun á komandi árum, ef ekkert væri að gert. Reynsla okkar hafði sýnt það, að á áratugnum 1950–1960 varð um 41/2% aukning í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði. Hefur líklega verið frá 4–5%, og ef við áttum ekki að dragast aftur úr þróun nágrannalandanna í Vestur-Evrópu á þessu sviði, þá var mikilsvert fyrir okkur að geta stuðlað að meiri verðmætasköpun í þjóðfélaginu. Gert hefur verið mikið veður út af þessu núna og sagt sem svo, að það hafi verið miklu meiri verðmætasköpun í okkar framleiðslugreinum, og það er rétt. Samanlagt hefur sem betur fer, verið meiri verðmætasköpun frá árunum 1960–1966 heldur en áratugurinn þar á undan gaf tilefni til að ætla og áætlanir voru fyrir um, en það er fyrst og fremst vegna sjávarútvegsins, því að á sumum þessum árum minnkaði verðmætasköpunin á víxl í iðnaði og landbúnaði, en við höfum, eins og mönnum er kunnugt, átt hvert metárið á fætur öðru í aflabrögðum á undanförnum árum, sérstaklega í sambandi við síldveiðarnar, um leið og byggður hefur verið upp fiskifloti okkar. Engar hugleiðingar um álbræðslu og stórvirkjanir leiða hins vegar til þess, að það sé minnsta ástæða til þess að draga úr, nema síður sé, hinum eldri atvinnuvegum, og miðað við þau lán, sem gert er ráð fyrir að taka á erlendum vettvangi og þær erlendu greiðslur, sem við fáum bæði fyrir raforku og skatta, þær leiða það af sér, eins og greinilega er sýnt fram á í málsskjölunum, að það mun ekki gera aðra fjáröflun, erlenda fjáröflun til annarra atvinnuvega, erfiðari, nema síður sé, eins og nánar er að vikið og greinilega rökstutt. Þvert á móti er ástæða til þess að ætla, að það geti skapast í sambandi við álbræðsluna hér á landi örari iðnþróun á þessu sviði. Ég hef ekki lagt afskaplega mikið upp úr þessu atriði. Menn hafa dregið það mikið í efa og sagt sem svo: hvaða áliðnaður hefur átt sér stað í Noregi, þó að þeir hafi lengi haft álbræðslur?

Eftir skýrslum einmitt um not á alúminíum eða áli í nágrannalöndum okkar ýmsum, þá kemur það í ljós, að í Danmörku, þar sem álframleiðsla er engin eða lítil, ef hún er nokkur, mér er ekki kunnugt um það, þar eru það 5.4 þús. tonn, sem notuð eru, í Finnlandi 5.5 þús. tonn, en í Noregi 21 þús. tonn á ári. Það er ekki svo lítið. Þessi verksmiðja á að framleiða 60 þús. tonn. Nú getum við auðvitað ekki haft þann markað, sem Norðmenn hafa heima hjá sér. Í Svíþjóð er notkunin 51 þús. tonn. Þeir hafa sínar eigin álbræðslur. Munurinn kemur alveg greinilega fram hjá þessum tveimur Norðurlandanna, þar sem álbræðslur eru, miðað við hin tvö. En eins og ég segi, ég hef ekki verið að gylla þetta, og mig brestur kunnugleika til þess að spá nokkru um þetta, en að þessu er vikið í grg., og það er kunnugt um áhuga íslenzkra iðnrekenda á því að hagnýta sér þau hlunnindi, sem kynnu að vera af því að fá slíkt hráefni framleitt í landinu sjálfu, og geta aðrir betur tjáð sig um það en ég.

Ég skal ekki eyða lengri tíma í þetta mál að þessu sinni og læt þessar almennu hugleiðingar nægja, en íeyfi mér svo að leggja til við hæstv. forseta, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til þeirrar sérstöku n., sem d. mun hafa kosið til þess að fjalla um málið og fjallaði um það í sameiningu við slíka n. í Nd.