23.04.1966
Efri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hér er um stórt mál að ræða, sem skoðanir manna eru mjög skiptar um. Þó það hafi verið rætt allrækilega í hv. Nd., verður samt sem áður ekki komizt hjá því, þegar það er tekið hér til l. umr., að koma nokkuð víða við, þó að ef til vill megi að einhverju leyti fara fljótar yfir sögu, vegna þeirra umræðna, sem þegar hafa farið fram um það í hv. Nd.

Ég vil nú fyrst segja það, að ég er andvígur þessu frv. og mun greiða atkvæði á móti því, og býst ég við, að það komi í sjálfu sér engum á óvart. Sú afstaða mín byggist á því, að ég tel þann samning, sem fylgir þessu frv. og með frv. á að lögfesta, hinn svonefnda álsamning, á ýmsan hátt svo óhagstæðan og varhugaverðan, að ég álít hann með öllu óaðgengilegan. Sú afstaða mín byggist einnig á því, að ég tel ekki rétt við núverandi aðstæður og án þess að áður eða jafnframt séu gerðar viðeigandi ráðstafanir í efnahags- og dýrtíðarmálum, að stofna til stóriðju á vegum útlendra manna á mesta annasvæði íandsins. Hins vegar byggist andstaða mín við þetta álsamningsfrv. ekki á því, að ég sé að meginstefnu til eða í prinsipinu andvígur stóriðju, jafnvel ekki með beinni þátttöku erlends fjármagns í undantekningartilfellum. Ég er auðvitað ekki frekar en aðrir andvígur stóriðju eða stofnsetningu stærri iðnfyrirtækja á vegum Íslendinga, og ég býst við því, að þeir séu ákaflega fáir, sem slíku eru andvígir. Ég tel út af fyrir sig mjög æskilegt, að grundvöllur atvinnuvega okkar sé breikkaður. Ég teí mjög æskilegt, að við tileinkum okkur aukna tækniþróun og verkmenningu, og auðvitað tel ég mjög æskilegt, að við nýtum okkar orkulindir í auknum mæli til uppbyggingar iðnaði. Ég lít svo á, að æskilegt sé, að sú uppbygging sé hraðari en hún gæti orðið, ef hún ætti að styðjast eingöngu við sparité landsmanna eða eigið fjármagn. Þá vaknar sú spurning, hvaða leið eigi að fara til að afla fjármagns til slíkra framkvæmda. Það er mín skoðun, að þess fjármagns eigi fyrst og fremst að afla með erlendum lánum þ.e.a.s. að því leyti, sem eigið fjármagn hrekkur ekki til. Það verður jafnan að íeggja á það höfuðáherzlu, að atvinnufyrirtæki og atvinnurekstur í þessu landi sé í höndum landsmanna sjálfra, að atvinnufyrirtækin, hvort sem stór eru eða smá, séu eign Íslendinga sjálfra, hvort heldur þau eru rekin af hinu opinbera eða í einstaklingseign og ekkert síður þó að þau verði að byggja upp með atbeina erlends lánsfjár. En þó að þessari meginstefnu verði að fylgja fast fram, er mín skoðun sú, að til greina geti komið í einstökum undantekningartilfellum að byggja upp stóriðjufyrirtæki með beinni þátttöku erlends fjármagns, þegar þannig stendur á, að þau fyrirtæki séu af einhverjum ástæðum Íslendingum ofvaxin, þau séu nauðsynlegur þáttur í atvinnuuppbyggingu landsins og hagstæðir samningar náist við fjármagnseigendur. Þó verður jafnan, að mínum dómi, að sýna ýtrustu varkárni í þessu efni. Það vil ég alveg sérstaklega undirstrika og leggja á það höfuðáherzlu, að hér verði jafnan að fara að með hinni mestu gát, m.a. vegna algerrar sérstöðu Íslands á margan hátt. Og sú uppbygging iðnaðar, sem að mínum dómi ber að leggja höfuðáherzlu á hér á landi og stefna að á næstu árum, er meiri hagnýting og vinnsla sjávarafurða, og kemur auðvitað ekki annað til mála en að sá atvinnurekstur sé jafnan að öllu leyti í höndum Íslendinga sjálfra.

Það hefur verið lögð á það nokkur stund af hálfu andstæðinga Framsfl. að túlka afstöðu flokksins til þessa máls, sem hér liggur fyrir á þá lund, að hann væri yfirleitt andvígur stóriðju og að hann vildi með öllu útiloka þann möguleika, að ný iðjufyrirtæki væru byggð upp með beinni þátttöku útlendinga. Þetta er rangtúlkun á afstöðu Framsfl. Framsfl. hefur að vísu írá öndverðu fylgt mjög fast fram þeirri meginstefnu, sem ég áður gat um, að atvinnureksturinn í landinu væri í höndum landsmanna sjálfra. Það gildir jafnt um stóriðju sem um annan atvinnurekstur. Læt ég því til sönnunar nægja að vísa í nál. fulltrúa framsóknarmanna í Nd. um þetta mál. En því hefur þó nokkrum sinnum verið lýst yfir af flokksþingum framsóknarmanna, að komið gæti til álita að hafa samvinnu við erlenda einkaaðila um tiltekna stóriðju. En alltaf hefur jafnframt verið tekið fram, að sýna bæri fyllstu varúð í slíkum efnum, og auðvitað viljum við fyrst og fremst íslenzka stóriðju, ef á henni eru tök, og fyrst og fremst, eins og ég áðan sagði, leggja höfuðáherzlu á eflingu undirstöðuatvinnuveganna og iðnað í sambandi við þá. Í samræmi við þessa meginstefnu er ályktun, sem aðalfundur miðstjórnar Framsfl. gerði um þessi mál í marzmánuði 1965. Þar taldi flokkurinn rétt, að kannaðir væru möguleikar í þessum efnum, en setti jafnframt ákveðin skilyrði fyrir aðild Íslands að hugsanlegum stóriðjusamningum. Í þessari ályktun segir svo, með leyfi forseta:

„Rétt er, að kannaðir séu möguleikar á uppbyggingu einstakra stærri iðngreina með beinni þátttöku erlends fjármagns skv. sérstökum íánum og samningi hverju sinni, enda sé nægilegt vinnuafl fyrir hendi og slík atvinnufyrirtæki liður í skipulagðri uppbyggingu atvinnuveganna, en megi aldrei verða til þess, að slakað sé á eða dregið úr eflingu íslenzkra atvinnuvega. Slík atvinnufyrirtæki yrðu að öllu leyti að lúta íslenzkum lögum. Megináherzlu ber að leggja á, að staðsetningu slíkra fyrirtækja sé, ef til kemur, þannig hagað, að hún stuðli að jafnvægi í byggð landsins. Þess sé og jafnan gætt að tryggja efnahagslegan og tæknilegan grundvöll þess, að Íslendingar geti sem fyrst tileinkað sér þá þekkingu og verkkunnáttu, sem flytjast kann inn í landið á þennan hátt, svo að slíkur iðnaður geti orðið alíslenzkur sem allra fyrst. Þess sé og jafnan gætt, að erlend fjárfesting verði aldrei nema lítill hluti af heildarfjárfestingu þjóðarinnar. Í tilefni af samningaumleitunum, sem nú standa yfir um alúmínvinnslu hér á landi, lýsir miðstjórnin því yfir, að slíkt stórmál megi ekki afgreiða nema sem lið í heildaráætlun framkvæmda í efnahagsmálum og ekki tiltök að hefja þær framkvæmdir við þá verðbólguþróun og vinnuaflsskort, sem íslenzkir atvinnuvegir búa nú við. Eins og sakir standa er því ný stefna í efnahags- og atvinnumálum landsins forsenda þess, að unnt sé að ráðast í stóriðju. Hið erlenda fyrirtæki njóti engra hlunninda umfram íslenzka atvinnuvegi og lúti í einu og öllu íslenzkum lögum og raforkusala til þess standi a.m.k. undir stofnkostnaði virkjunar að sínu leyti. Enn fremur, að íslenzk stjórnvöld hafi á hverjum tíma íhlutun um skipun stjórnar verksmiðjunnar og meiri hl. stjórnenda séu íslenzkir ríkisborgarar. Miðstjórnin minnir sérstaklega á, að staðsetning alúmínverksmiðju á mesta þéttbýlissvæði landsins mundi, eins og nú háttar, auka mjög á ójafnvægi í byggð landsins. Að óbreyttum þeim ástæðum felur miðstjórnin framkvæmdastjórn og þingflokki að beita áhrifum sínum þannig, að verksmiðjan verði staðsett annars staðar.“

Eftir þessa ályktun, sem bæði var birt í blöðum og útvarpi, gat enginn maður verið í vafa um afstöðu Framsfl. í þessu máli. Í ályktuninni eru sett ákveðin og skýr skilyrði af Framsfl. hálfu, og er þar skemmst af að segja, að í fyrirliggjandi álsamningum er engum þessum skilyrðum fullnægt, nema því einu, að íslenzk stjórnvöld hafi þá íhlutun um stjórn verksmiðjunnar, sem þar segir, að ríkisstj. skipi 2 af 7 stjórnarmönnum og að meiri hl. stjórnarinnar sé skipaður íslenzkum ríkisborgurum. Engu öðru, engu einasta af öðrum þessara skilyrða, sem talin eru í þessari ályktun, er fullnægt í þessum álsamningi. Skal ég gera nokkru nánari grein fyrir því.

Í fyrsta lagi var svo sagt í þessari ályktun, að ekki mætti afgreiða slíkt stórmál, nema sem lið í heildaráætlun í framkvæmda- og efnahagsmálum. Og nú spyr ég: Er því skilyrði fullnægt? Ég svara: nei. Því er ekki fullnægt. Framkvæmdaáætlun ríkisstj., sem svo er kölluð, hefur hingað til a.m.k. ekki verið nema nafnið tómt og á engan hátt hægt að taka alvarlega og á eiginlega ekkert skylt við það, sem kallað er áætlunarbúskapur.

Í öðru lagi var sagt í þessari ályktun, að það væru ekki tiltök að hefja slíka framkvæmd við þá verðbólguþróun og vinnuaflsskort, sem við höfum búið við. Hefur þessari mótbáru og þar með ákvörðunarástæðu fyrir Framsfl. verið kippt í burtu? Hafa ráðstafanir verið gerðar til að hefta dýrtíðina og verðbólguskriðuna? Nei, og aftur nei. Þvert á móti magnast nú verðbólgan, ár frá ári, eins og hver maður veit, já, meira að segja næstum því hægt að segja dag frá degi og er nú jafnvel hraðskreiðari en nokkru sinni fyrr. Þó var því lýst yfir af ríkisstj. á sínum tíma, að hún ætlaði að stöðva verðbólguna og meira að segja því lýst yfir, að ef ekki tækist að stöðva verðbólguna væri allt annað hennar starf unnið fyrir gýg. En allur almenningur veit, að það hefur ekki tekizt að stöðva dýrtíðina, heldur fer hún dagvaxandi, eins og ég áðan sagði, og allur almenningur í þessu landi stynur nú undan dýrtíðarflóðinu. Það þarf ekki að rekja þá sögu lengi, það vita allir, hvernig dýrtíðaraldan leggst nú á húsbyggjendur og hvernig hún leikur þá. Það vita allir, hvernig hún leggst á unga fólkið og hvernig hún leikur það. Það vita allir, að almenningur verður nú dag hvern svo að segja að lengja vinnutímann til þess að hafa í sig og á. Og fyrir launþega, sem ekki eiga þess kost að lengja vinnutíma sinn, verður það æ erfiðara að hafa í sig og á. Framleiðsluatvinnuvegirnir stynja einnig undan ofurþunga verðbólgunnar. þeir kvarta undan versnandi afkomu, hallarekstri og jafnvel framleiðslustöðvun. Um það liggja fyrir margir vitnisburðir, sem ég skal ekki hér fara að rekja, en það nægir aðeins að minna á það, að nú er svo komið, að höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, sem búið hefur við metafla undanfarið og hagstæðari viðskiptakjör en dæmi eru til, er þannig á vegi staddur, að hann verður ekki rekinn nema með stórfelldum uppbótum eða styrkjum, og er í því sambandi þess skemmst að minnast, að nýlega var afgr. á Alþ. frv. um uppbætur til sjávarútvegsins, sem námu 80 millj. kr. Og ráð voru ekki fundin til að afla þeirra 80 millj. kr., og afleiðingin varð sú, að það hefur verið gripið til þess af hálfu ríkisstj. að fella niður niðurgreiðslur, eins og kunnugt er, á fiski og smjörlíki. Það er talið, að vísitalan muni bara af þeim sökum einum hækka um 3–4 stig. Og þessi aðgerð ríkisstj. táknar í raun og veru algera uppgjöf á því að reyna að hafa hemil á verðbólgunni, en hingað til hefur hún þó haft ofurlitla tilburði í þá átt, enda þótt þeir hafi ekki borið árangur. En svo bætir ríkisstj. gráu ofan á svart í sambandi við þessa verðbólgu- og verðþensluþróun, sem átt hefur sér stað, með því að stofna nú til stórframkvæmda á allra mesta þenslusvæðinu og þar sem vinnuaflsskorturinn er langsamlega mestur og tilfinnanlegastur og aðstreymi fólks annars staðar frá mest. Það er nú alveg auðsætt, hvernig þessi framkvæmd hlýtur að verka á verðlagsþróunina. Hún hlýtur að verka á hana eins og ollu væri hellt á eld. Og ríkisstj. hefst ekki handa í því efni að gera um leið viðeigandi ráðstafanir, heldur er eins og stefnulaust rekald, reynir að halda öllu á floti um sinn með bráðabirgðaúrræðum og handahófsaðgerðum. Hvernig halda menn svo, að Framsfl. geti, eftir þá yfirlýsingu, sem hann hafði samþ. og gefið í sinni miðstjórnarályktun í marz 1965, samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, en þar lýsti hann því yfir, eins og áður er sagt, að ekki væru tiltök að hefja þær framkvæmdir við þá verðbólguþróun og vinnuaflsskort, sem íslenzkir atvinnuvegir búa nú við?

Í þriðja lagi segir Framsfl. í ályktun sinni: Eins og sakir standa er því ný stefna í efnahags- og atvinnumálum íandsins forsenda þess, að unnt sé að ráðast í stóriðju. Þetta var þriðja skilyrðið og vissulega ekki hið veigaminnsta. Hefur því skilyrði verið fullnægt? Nei, því fer fjarri. Og þó er þetta auðvitað alveg höfuðatriðið í öllu þessu máli, að við þær aðstæður, sem nú eru hér við Faxaflóa, er ekki tímabært að stofna til stóriðju. Þvert á móti er alveg augljóst mál, að hún hlýtur að spenna upp dýrtíðina og stórauka dýrtíðarvandamálið, en það er einmitt langsamlega stærsta vandamálið, sem við er að glíma í íslenzkum þjóðmálum í dag. Og merin hljóta að spyrja: Hvar á að taka verkafólkið, sem við þessar framkvæmdir á að vinna? Ég skal ekki fara langt út í það — segja aðeins að það benda allar líkur til þess, að ekki verði hjá því komizt að flytja inn erlent verkafólk. Og náttúrlega hlýtur þá um leið sú spurning að vakna, hvers konar verkafólk verður það? En af samningunum liggur það ljóst fyrir, að álfélagið áskilur sér allan rétt í því sambandi og áskilur sér fullan rétt til þess að flytja inn erlent verkafólk eftir þörfum, ef ekki er útvegað íslenzkt vinnuafl.

Fjórða skilyrðið í ályktun Framsfl. var það, að hið erlenda fyrirtæki nyti engra hlunninda umfram íslenzka atvinnuvegi. Og enn spyr ég: Er þessu skilyrði fullnægt með fyrirliggjandi álsamningi? Og ég verð að svara því neitandi og segja, að því fari víðs fjarri. Álfyrirtækinu eru einmitt ætluð stórfelld hlunnindi umfram íslenzka atvinnuvegi. Þar til má nefna tollfrelsi og skattfríðindi, fríðindi, sem íslenzkir atvinnuvegir njóta ekki. það væri fróðlegt að gera samanburð á því, hvernig íslenzkir atvinnuvegir mundu standa að vígi, ef þeir nytu að öllu leyti sömu kjara og þessu álfyrirtæki eru ætluð. En um þessi fríðindi skal ég nú ekki fara fleiri orðum í þessu sambandi, kem að þeim seinna.

Þá er það fimmta skilyrðið, að álfyrirtækið lúti í einu og öllu íslenzkum lögum, — lúti í einu og öllu íslenzkum lögum. Er því skilyrði fullnægt? Nei, það er vissulega ekki hægt að tala um, að fyrirtæki lúti í einu og öllu íslenzkum lögum, þegar það er tekið undan lögsögu íslenzkra dómstóla. Og ég bara spyr: Hver er sá, sem hér í Ed. vill gera sig að því viðundri að halda því fram, að það fyrirtæki lúti í einu og öllu íslenzkum lögum, sem tekið er undan íslenzku dómsvaldi? Það er annað, hvað gert er í blöðum og hvað þar er fimbulfambað um, en ég ætla að vona, að það fari enginn að heimska sig á því hér uppi í hv. Ed. að halda því fram, að það fyrirtæki lúti í einu og öllu íslenzkum lögum, sem tekið er undan íslenzku dómsvaldi. Og ég verð að segja það, að ég mætti játa alvarlega fáfræði á mig, ef svo reyndist, því að ég mun hafa átt minn þátt í þessu orðalagi á þessari ályktun á sínum tíma, og mér hefur þá illilega skotizt, ef þetta orðalag er ekki nægilega skýrt til þess að láta í ljós það, sem fyrir mönnum vakti, að íslenzkt ríkisvald tæki sem sagt til þess sem íslenzks fyrirtækis og það væri háð íslenzkri löggjöf, háð íslenzku dómsvaldi, háð íslenzkri löggæzlu og framkvæmdavaldi. Það er það, sem felst í því, að fyrirtæki verði í einu og öllu að lúta íslenzkum lögum.

Sjötta skilyrðið í ályktun framsóknarmanna var það, að raforkusalan til hins erlenda fyrirtækis stæði a.m.k. undir stofnkostnaði virkjunar að sínu leyti. Ég leyfi mér að halda því fram, að það sé langt frá því, að það sé hægt að fullyrða það á þessu stigi, að svo muni verða. Það er, eins og ég síðar kannske mun nokkuð koma að, teflt á óforsvaranlega tæpt vað, og raforkuverðið er alveg furðulega óhagstætt miðað við það, hvað sama fyrirtæki hefur greitt fyrir raforku erlendis. En að því kem ég e.t.v. síðar, og um það verður sjálfsagt rætt nánar af öðrum hér.

Loks var svo í sjöunda lagi í umræddri ályktun rætt um staðsetningu verksmiðju, ef til kæmi, og þar var þá lögð höfuðáherzla á, að staðsetningu verksmiðjunnar væri hagað þannig, ef til hennar kæmi og öðrum skilyrðum væri fullnægt, að starfsemi hennar yrði ekki til þess að auka á ójafnvægi í byggð landsins. Það mun nú mála sannast, og það ætla ég að leyfa mér að staðhæfa, að það hefur aldrei verið gerð nein alvarleg tilraun til þess að fá staðsetningu verksmiðjunnar ákveðna með öðrum hætti heldur en raun varð á. Ég vil halda því fram, að það hafi ekki verið gerð nein alvarleg tilraun til þess að fá álverksmiðjuna staðsetta annars staðar en á mesta annasvæði íandsins, í Straumsvík við Hafnarfjörð. Ég ætla, að það hafi komið mjög snemma fram í þessum samningaviðræðum, að Íslendingar hafi bundið sig á þann stað, þannig að það hafi ekki framar orðið frá honum horfið.

Þessi skilyrði Framsfl. lágu sem sagt fyrir í marzmánuði 1965. Það hljóta nú allir að skilja, að það var með öllu útilokað, að Framsfl. gæti fylgt slíkum samningum, sem svo að segja í einu og öllu þverbrutu í bága við þau skilyrði, sem hann hafði sett fyrir hugsanlegu fylgi við slíka samninga. Þegar það var orðið alveg ljóst og vitað í desembermánuði s.l., að samkomulag hefði náðst í aðalatriðum og það samkomulag var algerlega andstætt þeim skilyrðum, sem sett höfðu verið í ályktun miðstjórnarinnar í marz 1965, lýsti Framsfl. yfir hér á Alþ. algerri andstöðu við þessa samninga. Að vísu var þá ekki hægt að fara út í einstök atriði samninganna, vegna þess að samningarnir voru þá enn allir á trúnaðarstigi og það var þess vegna augljóslega ekki hægt að tilnefna þau einstöku atriði, sem menn sérstaklega höfðu út á að setja, heldur var samningunum í heild og þeirri stefnu, sem þeir byggðust á, mótmælt þá. Og eftir það gat ekki nokkur maður vaðið í villu og svima um það, hver væri afstaða Framsfl. og hver afstaða Framsfl. mundi verða til þessara samninga. En samt kemur svo hæstv. dómsmrh. og er alltaf annað slagið að láta liggja að því, að hann hafi ekki verið aðvaraður. Hann er að segja það hvað eftir annað eða láta að því liggja, að sér hafi nú eiginlega aldrei verið ljóst, eða a.m.k. ekki almennilega ljóst, hver afstaða Framsfl. mundi verða til þessa máls. Hann lætur að því liggja, að þeir hafi ekki gert sérstakar aths. við einstök samningsákvæði og því hafi hann haft ástæðu til að ætla, að þeir væru nú sammála þessu og sammála öðru o.s.frv. eða hefðu a.m.k. ekki sérstakar aths. að gera við slík einstök samningsákvæði. Þegar litið er til þess, sem ég hef rakið hér altítarlega af sérstökum ástæðum, er auðsætt, að það er ekki hinn minnsti fótur fyrir ummælum, sem ráðh. hefur látið falla í þessa átt, og þá auðvitað því síður fyrir þeim ummælum og túlkunum, sem blöð stjórnarflokkanna hafa um þetta haft.

Ég hef hér sýnt fram á, hvers vegna framsóknarmenn hlutu samkv. öllum forsendum málsins að taka þá afstöðu að vera gegn þessum samningi. Ég vil þá leyfa mér að athuga þessa samninga nokkru nánar og benda á tiltekin atriði, sem að mínum dómi eru varhugaverð og óaðgengileg og eiga að leiða til þess, að þetta frv. sé fellt. Ég vil um leið benda á, að staðsetning verksmiðjunnar er óheppileg með tilliti til atvinnuástandsins í landinu almennt. Hún er, eins og margbent hefur verið á, sett niður á því svæði, þar sem þenslan er alvarlegust og vinnuaflsskortur hefur að undanförnu verið mestur. Hennar er því síður en svo þörf vegna atvinnuástandsins þar, eins og nú standa sakir. Þvert á móti mun hún fyrirsjáanlega stórauka erfiðleika framleiðsluatvinnuveganna á þessu svæði og þá alls staðar a.m.k. í bili, hvað sem síðar verður. Menn geta t.d. rétt ímyndað sér, hvernig sjávarútveginum með þeirri aðstöðu, sem hann hefur í dag, muni ganga að keppa um vinnuaflið við stóriðjufyrirtæki, sem styðst við erlent fjármagn. Og menn geta rétt ímyndað sér áhrif þessa í þeim landshlutum, sem eiga nú þegar í vök að verjast vegna aflabrests og atvinnuleysis og fólkið leitar þegar frá á vinnumarkaðinn hér syðra. Það er auðvitað deginum ljósara, og þarf ekki orðum að því að eyða, að sá straumur hlýtur að stóraukast við þessar fyrirhuguðu aðgerðir. Nei, sannleikurinn er sá, að hvað sem öðru líður í sambandi við þetta mál, er staðsetning verksmiðjunnar óheppileg og óhyggileg frá sjónarmiði heildarinnar og með tilliti til atvinnulífsins, eins og sakir standa í dag. Staðsetning hennar þar mun spenna upp dýrtíðina og raska efnahagskerfinu öllu meira en nokkru sinni er orðið.

Já, hæstv. ráðh. hefur annað slagið verið að kvarta um það, að hann hafi ekki fengið aðvaranir. Hver er nú sannleikurinn í því? Ég vil segja það, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. hefur hvað eftir annað fengið sérlega alvarlegar viðvaranir og aðvaranir, og ég skal nefna nokkur dæmi þess. Ég skal nefna það t.d., að 25. febr. s.l. gerði fundur frystihúsaeigenda hér í Reykjavík svofellda ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilliti til þeirrar aðstöðu, sem útflutningsiðnaður landsmanna hefur með samkeppni á erlendum markaði, lýsir fundurinn yfir sérstökum ótta við ráðagerðir um stórframkvæmdir útlendinga í landinu á sama tíma sem landsmenn sjálfir ráðast í stærri og meiri raforkuframkvæmdir en nokkru sinni fyrr.“

Búnaðarþing, sem stóð yfir í marzmánuði s.l., gerði ályktun um málið, sem ég vil líka leyfa mér að lesa með leyfi forseta. Þar segir:

„Búnaðarþing telur fyrirætlanir um byggingu alúmínverksmiðju á vegum erlendra aðila í Straumsvík sunnan við Hafnarfjörð mjög varhugaverðar. Þingið telur mikla hættu á, að slík framkvæmd nú á mesta þéttbýlissvæði landsins mundi auka stórlega á þá spennu, sem er í atvinnulífinu þar. Þessi framkvæmd mundi að öllum líkindum taka ómissandi vinnuafl frá undirstöðuatvinnuvegunum og reisa nýja verðbólguöldu. Fólksflutningar úr öðrum byggðarlögum til Faxaflóasvæðisins mundu fara ört vaxandi öllum til tjóns, ekki aðeins þeim byggðarlögum, sem fólkið yfirgefur vegna ýmiss konar félagslegra vandamála, sem þar myndast, heldur og hinum, sem við fólkinu taka, m.a. vegna húsnæðisvandræða o.fl. Samningar um stóriðju geta að dómi Búnaðarþings því aðeins komið til greina, að stjórn slíkra fyrirtækja verði að meiri hl. í höndum Íslendinga og staðsetning fyrirtækjanna stuðli að jafnvægi í búsetu fólksins í landinu. Einnig verði svo frá samningum gengið, m.a. um orkusölu, að stóriðjufyrirtækin íúti að öllu leyti sömu lögum og reglum og iðnaðarfyrirtæki Íslendinga sjálfra.“

Þetta sagði Búnaðarþing. Alþýðusambandið hefur samþ. mótmæli, eindregin mótmæli. Ég hef þau ekki við höndina, en ég hygg, að þau hafi verið kynnt þegar hér á Alþ., og ég efast ekki um, að ráðh. eru þau í fersku minni. Þarna hef ég nefnt þrjár samþykktir, mjög mikilvægra aðila, Búnaðarþings, frystihúsaeigenda og Alþýðusambandsins. Þrátt fyrir þessar aðvaranir segir ráðh., að hann hafi ekki verið aðvaraður og ríkisstj. hafi ekki fengið aðvaranir. En það eru ekki aðeins þessar aðvaranir þessara aðila, sem fram hafa komið, heldur hafa mótmæli borizt hvaðanæva að af landinu með fundarsamþykktum, með undirskriftum o.s.frv. Og þegar ljóst var, hvað hæstv. ríkisstj. ætlaðist fyrir, en áður en þessir samningar voru undirritaðir, var efnt til vantraustsumr. hér á Alþ. Það var aðvörun rétt fyrir slys, en það tókst þó ekki að afstýra því slysi. Samningarnir voru undirritaðir þrátt fyrir þær vantraustsumr., sem þá fóru fram, — voru undirritaðir, þrátt fyrir þær aðvaranir og ábendingar, sem fram komu í þeim vantraustsumr. Jú, þeir hafa svo sannarlega fengið sínar aðvaranir. En stjórnin virðir bara allar aðvaranir að vettugi og vísar þeim á bug með hroka heimskingjans.

Það er einnig athugavert við þessa samninga, að þeir eru gerðir til mjög langs tíma, en ég skal ekki sérstaklega fara að ræða það hér. En þau ákvæði þessara álsamninga, sem að mínum dómi eru sérstaklega varhugaverð og óaðgengileg og ég vil hér nefna sérstaklega, eru ákvæðin um raforkuverðið, gerðardómsákvæðin, skatta- og tollaákvæðin, ákvæðin um fébótaábyrgð ríkisins og hin ófullnægjandi ákvæði 12. gr. um varúðarráðstafanir vegna hugsanlegra skaðlegra áhrifa frá verksmiðjunni.

Ég skal þá fyrst aðeins víkja með örfáum orðum að raforkuverðinu, en það er, eins og reyndar hæstv. ráðh. kom nokkuð að í sinni framsöguræðu s.l. laugardag, samið um nokkum veginn fast raforkuverð, alveg án tillits til þess, hver raunverulegur stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar verður. Þau endurskoðunarákvæði, sem eru í þessum samningum um verðið, eru ófullkomin, eins og hæstv. ráðh. varð að viðurkenna, og tryggja það engan veginn út af fyrir sig, að raforkuverðið verði nægjanlegt til þess að standa undir stofnkostnaði. Ráðh. setti að vísu traust sitt á annað, sem sagt að það lægi nú nokkurn veginn fyrir, hver stofnkostnaðurinn yrði, og nefndi í því sambandi margar tölur. Þær tölur skal ég að sjálfsögðu ekki vefengja, en ég hygg þó, að fyrir utan þær tölur séu ýmsar eftir, sem eitthvað gætu farið fram úr áætlun, og svo er það nú oft svo í ýmsum samningum um verk, að það eru vissir varnaglar í þeim, og reyndin verður nú oft sú, að ef miklar breytingar verða á því samningstímabili, finnst manni, að það vilji hækka það, sem um er samið. Það má vera, að það sé svo þrautbúið um þá samninga og þau tilboð, sem samþ. hafa verið, að slíkt komi ekki til greina. Um það veit ég ekki. Á því hef ég ekki þekkingu, en það hefur skeð endranær. En það liggur fyrir í þessum samningi, að það er gert ráð fyrir orkuverði, sem nemur, eins og þeir kalla, 2.5 mill eða 10.75 aurum á kwst. Þetta orkuverð er mjög lágt miðað við orkuverð annars staðar, svo lágt, að það munu varla vera dæmi um orkuverð svo lágt annars staðar, eftir því sem mér er tjáð. Og víst er um það, að það liggur fyrir, að í Noregi er hliðstætt orkuverð nú 3.2 mill eða 13.75 aurar, og í Ghana er sagt, að orkuverðið til sams konar stóriðju og hér er ráðgerð sé um 11.4 aurar á kwst. Og í Grikklandi urðu mikil átök, eins og kunnugt er, út af hliðstæðu máli þar. Þar hafði á sínum tíma verið samið um raforkuverð, sem nam rúmlega 3 mill, en sá samningur hafði það í för með sér, að stjórnmálalegir erfiðleikar risu þar í landi, sem leiddu til þess, að samningur þessi var ógiltur, og samið var um mun hærra raforkuverð eða um ca. 4 mill. En samkv. þessu liggur það fyrir, að raforkuverðið í Noregi er um 28% hærra en hér. Og það vill svo vel til, að um þetta þarf ekki að deila, að raforkuverðið hér er lægra en annars staðar, því að í blaðaviðtali, sem aðalforstjóri Swiss Aluminium, Meyer, hafði, þegar hann var hér staddur í sambandi við undirskrift samninganna, sagði hann svo orðrétt eftir útvarpsfrétt:

„Aðspurður sagði Meyer, að rafmagnsverðið hér væri lægra en nokkurs staðar annars staðar þar sem Swiss Aluminium hefði álbræðslur, og t.d. væri rafmagnsverðið í Noregi 3.2 þúsundustu úr Bandaríkjadollar, en hér yrði það 2.5 þúsundustu úr dollar, og er þá miðað við hverja kwst.“

Það er þannig ekki um það að deila, að þessar staðreyndir liggja ljósar fyrir. Hitt er svo annað mál, hvort þetta raforkuverð, sem hér er um samið, sé þrátt fyrir það þó að það sé þetta miklu lægra en annars staðar, nægilegt til þess að standa að sínu leyti undir kostnaði við Búrfellsvirkjun. Ég er ekki sérfræðingur í þessum efnum, og ég skal ekkert fullyrða um þessi efni, en það hefur verið bent á það, að ég hygg af sérfræðingum, að Búrfellsvirkjun þyrfti ekki að fara fram úr áætlun nema sem svaraði, að ég hygg, 64–65 millj. kr., þá væri framleiðslukostnaður rafmagnsins kominn upp í þetta umsamda verð eða 10.75 aura á kwst. Og það hefur líka verið bent á það af fróðum mönnum, að hið umsamda orkuverð, 10.75 aurar á kwst., sé ekki aðeins lítið í samanburði við erlent orkuverð, heldur sé það einnig lítið, ef litið er á íslenzkar aðstæður og virkjunarskilyrði í framtíðinni. Um þetta atriði skal ég svo ekki fara fleiri orðum. Ég geri ráð fyrir, að það verði rætt nánar af öðrum en mér hér.

Ég get þó ekki skilizt við þetta alveg án þess að láta í ljós nokkra undrun yfir einum þætti í rökstuðningi ráðh., þegar hann hafði framsögu hér um málið. Að vísu er kannske of sterkt til orða tekið hjá mér að tala um rökstuðning, en hann var mjög að gera því skóna í sambandi við þetta raforkuverð, að það væri svo mikil trygging í því, að það væri ákveðið í Bandaríkjadollurum, og mundu þess vegna gengisbreytingar, sem hér yrðu, hafa það í för með sér, að mér skildist, að þetta gæti allt orðið eitthvað hagstæðara okkur heldur en nú liti út í bili. Nú hefur það verið svo hingað til, að það hefur verið eins konar tabú að minnast á gengisfall, a.m.k. hefur það verið hjá hæstv. forsrh. Hann hefur talið það sérstaklega vitavert að vera að gera því skóna, að það gæti átt sér stað, að gengi íslenzku krónunnar yrði fellt á næstu árum. En nú virðist hæstv. iðnmrh. a.m.k. vera farinn að hugleiða þann möguleika, svo að ekki sé meira sagt. En ég verð nú að segja, að mér finnst vera nokkuð langt að sækja rök til þess að reyna að sýna fram á það, að raforkuverðið sé nú ekki eins óhagstætt og það lítur út fyrir, þegar það er skoðað nú.

Ég vil þessu næst leyfa mér að víkja að skattamálum og tollamálum. Samkv. samningunum á álbræðslan að búa við sérstakar reglur í skatta- og tollamálum. Í stað allra opinberra beinna skatta á hún að greiða fast gjald, framleiðslugjald, en þessi upphæð hefur verið ákveðin þannig, að því er gerð er grein fyrir í grg., að núgildandi skattlagningarreglum félaga hefur verið beitt á rekstraráætlanir bræðslunnar og framleiðslugjaldið fundið út samkv. því. Þetta er nú heldur óeðlileg aðferð til þess að ákveða skatta, að fara þannig eftir áætlunum fyrirtækisins fram í tímann, og ekki mundi nú slíkt verða tekið til greina að því er íslenzk fyrirtæki snertir. En auk þess, og það er auðvitað aðalatriðið í þessu efni, er það svo, að þessir beinu skattar verksmiðjunnar, framleiðslugjaldið fastákveðna, eiga ekki að breytast eftir eða í samræmi við það, sem íslenzk skattalög kunna að breytast á hverjum tíma. Þetta er auðvitað alveg fráleitt sem almenn regla, en auk þess alveg sérstaklega fráleitt vegna þess, hvernig á stendur nú í skattamálum. Sannleikurinn er sá, að þó að skattar hér á landi séu ærið tilfinnanlegir, hafa skattar verið lækkaðir mjög mikið á félögum, þannig að félög búa nú hér við mjög hagstæð skattakjör, og að taka þau skattakjör, sem nú eru, og miða við skatt, sem á að vera svona langt fram í tímann fastur og óbreyttur, er að mínu viti ákaflega óvarlegt. Og ég leyfi mér alveg að efast um það, að um öll þau framtíðarár, sem þetta á að gilda, verði hægt að halda sköttum íslenzkra félaga innan þeirra marka, sem nú er. Enn fremur er þess að gæta, að þessar reglur, sem um þetta eru nú settar í þessu frv., sem annars eru nú æðiflóknar og ekki gott að tala um og ekki gott að útskýra í stuttu máli og gera grein fyrir, hvað í felst, eru þannig frá gengnar, að fyrirtækið á, þrátt fyrir þetta ákveðna fasta framleiðslugjald, aldrei að borga meira en 50% af tekjuafgangi sínum í framleiðslugjöld, þannig að ef fyrirtækið greiðir meira samkv. höfuðákvörðuninni um hið fasta framleiðslugjald, á síðar að athuguðu og rannsökuðu máli og endurskoðuðum reikningum bræðslunnar að endurgreiða þá skatta, sem hún kynni þannig að hafa ofgreitt, — eftir settum reglum að vísu og með nokkrum takmörkunum. Þess vegna er það, að það virðist nú geta farið svo, þrátt fyrir allt, sem gumað hefur verið af þessum sköttum, að þarna yrði aðeins um eins konar lán að ræða, a.m.k. að því er varðaði fyrstu starfsár verksmiðjunnar.

Íslenzka álfélagið er undanþegið aðflutningsgjöldum af efni og tækjum, sem það eða verktakar þess flytja inn til byggingar bræðslunnar. Sama gildir um hráefni, vélar og fleira, sem það flytur inn til bræðslunnar. Í 14. gr. er nú að vísu einnig talað um vistir, en það er sagður þýðingargalli. Nú má það vel vera út af fyrir sig, en ég vil þó benda á, að samkv. 52. gr. í þessum samningum eru íslenzku og ensku textarnir jafngildir, þannig að í öllu falli hefði verið öruggara að leiðrétta þetta. En hvað um það — af öllum skatta- og tollaákvörðunum er auðsætt, að Íslenzka álfélaginu er sköpuð margháttuð forréttindaaðstaða umfram önnur atvinnufyrirtæki í landinu. Þau ákvæði eru að mínum dómi á margan hátt óhagstæð og aðfinnsluverð. Ég skal þó ekki fjölyrða frekar um þau hér, og ég skal ekki vera með neina sérstaka dómhörku um þau fram yfir það, sem ég hef þegar sagt, og það er af því að ég hef nú í raun og veru búizt við því, að ef á annað borð af einhverjum ástæðum yrði talið hagkvæmt og menn vildu fá erlenda aðila til þess að byggja hér upp einstök stóriðjufyrirtæki, mundi af þeirra hálfu verða farið fram á tilslakanir af þessu tagi. Og ég verð að segja það sem mína skoðun, að það er þó skárra að skömminni til að veita einhverjar tilslakanir á þessu sviði heldur en að semja um að selja raforku undir kostnaðarverði, ef sú skyldi nú verða raunin á, og semja íslenzka réttaraðila undan íslenzku dómsvaldi.

Í þessum álsamningum er gert ráð fyrir skaðabótaábyrgð íslenzka ríkisins í ýmsum tilvikum. Getur sú bótaábyrgð orðið mjög víðtæk. Ég vil ekki vera að þreyta hv. þdm. á því að vera að rifja upp öll þau ákvæði, sem að þessari fébótaábyrgð lúta. En ég vil aðeins segja það, að náttúrlega er ómögulegt að sjá fyrir eða segja til um það fyrir fram, hvern dilk það getur dregið á eftir sér, a.m.k. treysti ég mér ekki til þess. En undir slíkt er a.m.k. óvarlegt að skrifa.

Í 12. gr. samningsins er ekki gert ráð fyrir því, að byggja þurfi hreinsunartæki til þess að eyða reyk eða gastegundum, sem koma frá verksmiðjunni. Hún er undanþegin þeirri kvöð að byggja slík gaseyðingartæki. Það er þó upplýst, að af 10 álbræðslum Swiss Aluminium verður Straumsvíkurverksmiðjan sú eina, sem ekki er búin gaseyðingartækjum. Ég skal náttúrlega fúslega játa, að ég hef ekki nokkurn minnsta snefil af þekkingu á þessu. En ég verð bara að álykta sem venjulegur leikmaður, að úr því að það hefur þótt þörf á því á 10 stöðum annars staðar og alls staðar þar sem slíkar verksmiðjur hafa verið byggðar að gera kröfu um slíkar öryggisráðstafanir, hefði það verið sjálfsagt að gera slíka kröfu hér einnig. Ég verð nú að hafa það álit á íslenzku nm., sem sömdu um þetta og sem ég hef nú út af fyrir sig mikið álit á, að þeir hljóti að hafa gert kröfu um það, að slíkar varúðarráðstafanir væru gerðar hér, að það væru sett upp slík hreinsitæki hér eins og annars staðar. En það liggur fyrir, að það hefur ekki fengizt tekið inn slíkt ákvæði í samninginn, og þá hlýtur það væntanlega að byggjast á því, að þessir viðsemjendur okkar hafi skorazt undan því að leggja í þann kostnað, sem því er samfara. Ég verð að segja það, að það er nokkuð óvarlegt að semja um það að gera svona hluti, sem menn virðast ekki hafa nokkra minnstu þekkingu á. Ég held, að það sé óhætt að segja, að það hafi komið fram í viðtölum, sem við áttum í þessari sameiginlegu álnefnd við stóriðjunm., að þeir höfðu, eins og skiljanlegt er, ekki nokkra minnstu þekkingu á þessu. Þeir höfðu farið um einhver lönd og talað við einhverja menn og þeir hefðu sagt þeim þetta og þeir hefðu sagt þeim hitt. En það var ekki neitt, sem hægt var á að byggja, og það liggur fyrir eitt sérfræðiálit í þessu efni, — ef sérfræðiálit á að kalla, — ekki vegna þess að sjálfsagt er sú stofnun og sá maður, sem er þar, góður sérfræðingur. En það virðist koma alveg fram í því áliti, að hann hafi ekki nokkra minnstu þekkingu á né möguleika til þess að láta uppi álit um þetta atriði, sem hann er að gefa vottorð um. Þetta vottorð er frá Rannsóknastofnun iðnaðarins á bls. 218. Þar segir í niðurlaginu, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðstæður til rannsókna á þessu máli voru engar hér á landi, og varð því að styðjast við reynslu og aðstæður, sem fyrir voru í Noregi og Ameríku. Landfræðilegar og veðurfræðilegar aðstæður eru þar öllu óhagstæðari en hér og ætti það eitt að tryggja, að hættumörkin eru sennilega mun þrengri. Ályktun þessi er miðuð við fyrsta þrep byggingarframkvæmdanna eða 30 þús. tonna bræðslu, vegna þess að þar er óvissan mest. En við rekstur þessa fyrsta þreps er aðstaða til þess að rannsaka nákvæmlega, hvar hin raunverulegu hættumörk liggja, og gera þær ráðstafanir, er reynslan sýnir, að nauðsynlegt sé.“

Það er náttúrlega gott að rannsaka það. En það er nú stundum nokkuð seint, að rannsaka eftir á, þegar slys hafa skeð og þegar skaði hefur orðið, því að oft getur skaðinn orðið sá, að ekki verði hann bættur. En ég verð að segja það, að upp úr þessu sérfræðingsáliti er ekkert leggjandi, og það er virðingarvert, að það er orðað þannig, að það ber það með sér, að það er ekki ætlazt til þess, því að þó að vottorðsgefandi segi það ekki berum orðum, að hann geti í raun og veru ekkert um þetta sagt, liggur það þó alveg í því, og það er rétt og heiðarlegt. En ég verð að segja það, án þess að ég hafi nokkurt vit á þessu og vilji vera með nokkra spádóma í þessu efni, að þegar svona er í pottinn búið, hefði vitaskuld verið alveg sjálfsagt að krefjast fyllsta öryggisútbúnaðar, og annað er auðvitað með öllu óverjandi. Það hefði átt að krefjast ekki minni öryggisútbúnaðar en annars staðar tíðkast. Og mér er það alveg óskiljanlegt, að það skuli hafa verið samið um þetta. Sannleikurinn er sá, að 12. gr. gerir að vísu ráð fyrir því, að þetta sé athugað og fylgzt með þessu, og í 12. gr. 2 segir: „ISAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.“ Þetta er auðvitað nokkuð matskennt og teygjanlegt. Og hvernig stendur á því, að þarna er verið að tala um, að ISAL muni gera þetta, annars staðar í gr. er nú talað um „skal“? Ég veit ekki, hvort þarna er nokkur munur á. Það kann að vera, að það sé ekki tilætlunin. En allt er þetta þó í einhverjum undanhaldstón.

Síðast en ekki sízt kem ég þá að gerðardómsákvæðunum, sem ég tel nú ein óálitlegustu og ein allra óskemmtilegustu ákvæði þessa samnings, sem hér liggur fyrir. Samkv. 46. og 47. gr. þessa álsamnings er ákveðin sérstök og alveg óvenjuleg leið til þess að fá skorið úr þeim deilumálum, sem rísa kunna út af stóriðjusamningunum eða í sambandi við stóriðjusamningana. Þær sérstöku reglur gilda um ágreiningsmál á milli svissneska álfélagsins, Íslenzka álfélagsins og minni hl. hluthafa annars vegar og svo ríkisstj., Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar hins vegar. Það gildir einu, hvort ágreiningur er út af aðalsamningnum, orkusölusamningi, hafnar- og lóðasamningi eða aðstoðarsamningi. Öll þessi ágreiningsmál eru tekin undan lögsögu íslenzkra dómstóla nema samkomulag verði um annað á milli Alusuisse og ríkisstj., eins og segir í 46. gr. Þar segir að: það eigi fyrst að reyna að jafna þetta með vinsamlegum hætti og það er nú ekkert mikið sagt og ákaflega gott út af fyrir sig að hafa það í samningum, en það er nú náttúrlega ekki nema kurteislegt orðalag, en þar segir svo:

„Ef ekki tekst með slíkum tilraunum að komast að samkomulagi, geta ríkisstj. annars vegar og Alusuisse hins vegar samið um að vísa deilunni til íslenzkra dómstóla eða íslenzks gerðardóms.“

Ég verð nú að segja, að þetta finnst mér alveg furðulegt. Kannske þykist dómsmrh. hafa samið þarna um sérlega gott ákvæði. Í mínum augum er þetta alveg hraksmánarlegt, að íslenzka ríkið skuli gangast undir það að þurfa að semja um að vísa máli til sinna eigin dómstóla. Það hefði sannarlega ekki þurft að taka þetta fram, því að ef samkomulag hefði verið og ef verður, þá getum við náttúrlega vísað til hvaða dómstóls, sem er. En það held ég, að sé nú ekki of mikið sagt, að það sé nokkuð óvenjulegt, að eitt ríki sé að semja um það, að það megi, ef samkomulag verður, nota sína eigin dómstóla. Slík ákvæði þekki ég hvergi nokkurs staðar í nokkrum samningi, ekki einu sinni í viðskiptasamningi. Deilumál þessi öll, sem þarna eru tiltekin, eiga annars, ef þessir aðilar geta ekki komið sér saman um að leggja þau fyrir dómstóla íslenzka ríkisins, að fara fyrir gerðardóm, sem kallaður er alþjóðlegur gerðardómur, gerðardóm, sem sitja á í útlöndum og skipaður skal fulltrúum frá aðilum, en oddamaður tilnefndur af forseta Alþjóðadómstólsins eða aðalforstjóra Alþjóðabankans, ef nægilega mörg ríki fullgilda alþjóðasamninginn um lausn fjárfestingardeilna og Sviss gerist aðill að honum.

Ég hef nú sagt það áður, að þetta gerðardómsfyrirkomulag væri út af fyrir sig ekki athugavert, ef um væri að ræða venjulegan milliríkjasamning. Það er auðvitað mjög venjulegt, að í milliríkjasamningi séu ákvæði um gerðardóma. En hér er nú ekki um venjulegan milliríkjasamning að tefla. Hér er alls ekki um milliríkjasamning að ræða. Hér er ekki um að ræða samning á milli tveggja ríkisstj., heldur samninga ríkisstj., Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar við einkafyrirtæki, svissneska álfélagið og Íslenzka álfélagið. Ágreiningsmál út af slíkum samningum, sem hér á landi rísa, heyra eftir viðurkenndum réttarfarsreglum undir íslenzka dómstóla. Það er á allan hátt mjög óeðlilegt að taka ágreining Alusuisse víð íslenzk stjórnarvöld undan lögsögu íslenzkra dómstóla. Hitt er þó miklu fráleitara að taka ágreiningsmál við hið Íslenzka álfélag, sem svo er kallað og sem er skrásett hér á landi sem íslenzkt félag og sem hefur stjórn, sem að meiri hluta til er skipuð íslenzkum ríkisborgurum, undan íslenzku dómsvaldi. Ég verð að segja það, að það er alveg furðulegt að samþykkja slíkt að taka ágreining Íslenzka álfélagsins við t.d. Hafnarfjarðarkaupstað um ókomin ár undan ísl. dómsvaldi. Það eru ekki bara þessir aðilar, sem núna eru í bæjarstjórn Hafnarfjarðar sem eru að binda sig. Nei, um ókomin ár, 45 ár. Og það er ekki bara núv. stjórn Landsvirkjunar, sem þar er að binda sig, heldur eru nú einmitt ákvæði í l. um Landsvirkjun, þar sem er heimilt að færa út hennar svið. Samkv. Landsvirkjunarlögunum á t.d. Laxárvirkjunin heimtingu á því að gerast aðili að Landsvirkjun. Þá á líka hún, þegar hún gengur inn í Landsvirkjunina, að vera bundin af þessum ákvæðum. Sem sagt, ágreiningur milli álfélagsins íslenzka annars vegar og sjálfstæðra íslenzkra réttaraðila hins vegar, Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar, á að takast undan íslenzku dómsvaldi og leggjast undir dómsvald útlends dómstóls. Ég verð að segja það, að að mínum dómi er ekki hægt að samþykkja slíkt, og ég verð að endurtaka það, sem ég raunar hef áður sagt um það, að ég tel, að þessi gerðardómsákvæði lýsi vantrausti á íslenzkum dómstólum og íslenzku réttarfari og þau hljóti að byggjast á þeirri skoðun, að hér sé ekki fullkomið réttarríki. Og það hefur í raun og veru líka verið viðurkennt, eins og ég kem máske síðar að, af aðalforstjóra Swiss Aluminium, að þessi gerðardómsákvæði byggist á því, að íslenzka dómstóla skorti að hans mati reynslu í þessum efnum og þess vegna vantreysti hann og hans fyrirtæki þeim til þess að fara með endanlegt ákvörðunarvald í þessum ágreiningsmálum.

Það er nú ástæða til þess og væri vissulega ástæða til þess að staldra við og athuga, hvað hér er verið að gera. Það er sem sagt verið að færa dómsvaldið í tilteknum íslenzkum málum út úr landinu og leggja þau undir útlendan dómstól eða fá þau í hendur útlendri stofnun, alþjóðlegum gerðardómi, ef menn vilja orða það svo, sem þó er auðvitað rangefni. Það er auðvitað ekki hægt að tala um neinn alþjóðlegan gerðardóm í þessu sambandi. Alþjóðlegan gerðardóm er auðvitað því aðeins hægt að tala um, að það sé gerðardómur, sem á að dæma eftir alþjóðlegum reglum, eftir reglum, sem gilda fyrir ríkin og eru eins um alla heimsbyggðina. Þá er hægt að tala um alþjóðlegan gerðardóm, þegar hann leysir úr og skýrir slíkar þjóðréttarlegar reglur. En þegar einn dómur, hvort sem það er gerðardómur eða ekki, á að dæma eftir, eins og það er nú sagt hér í þessum l., í fyrsta lagi a.m.k., eftir íslenzkum l., er náttúrlega ekki hægt að tala um neinn alþjóðlegan gerðardóm. En í þessum samningi finnst mér örla nokkuð mikið á því, að menn rugli saman landslögum og þjóðréttarreglum og geri sér ekki grein fyrir, hver reginmunur þar er á, halda að það sé hægt bara að setja það saman og hvað innan um annað.

Dómsvaldið er þáttur ríkisvaldsins alveg eins og löggjafarvaldið er einn þáttur ríkisvaldsins, og það er auðvitað engu ómerkari þáttur ríkisvaldsins heldur en sjálft löggjafarvaldið. Og ef það má fara svona að með dómsvaldið, flytja það út úr landinu í einstökum málum og fá það í hendur útlendri stofnun, má auðvitað alveg eins fara að með einhverja þætti löggjafarvaldsins. En ég geri ráð fyrir því, að ef menn færu að athuga það og velta því fyrir sér, þætti þeim það furðu fráleitt, ef það ætti að fara að játast undir það, að ákvörðunarvaldi, löggjafarvaldi í tilteknum málum skyldi afsalað í hendur einhverri útlendri stofnun.

Ég hef gagnrýnt þessi ákvæði mjög harðlega. Ég gagnrýndi þau svo sterklega sem kostur var í útvarpsumr. um vantraustið. Einmitt til þess að vekja athygli á þeim og vara við, áður en skrifað væri undir. En þessi ákvæði höfðu þá fyrst fyrir nokkrum dögum borizt mér í hendur og þá afhent sem trúnaðarmál, þannig að þess var ekki kostur að fara ítarlega út í umr. um þau og í raun og veru ekki hægt um þau að ræða frekar en komið var fram um þau í blöðum og almenningi var orðið kunnugt um. En ég vildi einmitt með þeirri ákveðnu gagnrýni, sem ég setti þar fram, vara ráðh. við, áður en samningurinn væri undirskrifaður. Sú aðvörun bar ekki árangur, og samningarnir voru undirritaðir allt að einu. Að vísu er sú undirskrift án allrar skuldbindingar, og enn er fullur kostur fyrir Alþ. að hafna þessum samningum. Enginn alþm., sem þeim greiðir atkv., kemst hjá því að bera á þeim fulla ábyrgð og taka á sig fulla ábyrgð af þessu, og þeir verða algerlega samábyrgir ráðh. í þessu efni, ef þeir samþykkja þá óbreytta.

Ég sagði í útvarpsræðu minni þetta um samninginn, sem ég vildi mega fá að rifja hér upp, með leyfi hæstv. forseta, og að gefnu tilefni, sem ég mun síðar nokkru nánar að koma:

„Víst er þetta óvenjulegt og óviðunandi, þegar um er að ræða ágreining svissneska hlutafélagsins við stjórnvöld hér á landi. En þá ofbýður manni þó fyrst, þegar gert er ráð fyrir, að sama regla gildi um ágreiningsmál út af samningum við hið Íslenzka álfélag, sem svo er kallað, en það félag er látið heita íslenzkt félag, á að skrásetjast hér sem slíkt, á samkv. orðanna hljóðan að fara að íslenzkum lögum og hafa stjórn, sem að meiri hl. til er skipuð íslenzkum ríkisborgurum. Hvernig á ríkið að semja svo um, að ágreiningsmál þess, Hafnarfjarðarkaupstaðar eða Landsvirkjunar við íslenzk hlutafélög séu tekin undan íslenzkum dómstólum og fengin alþjóðlegum gerðardómi til úrlausnar? Fyrr má nú rota en dauðrota. Og hvernig í ósköpunum er hægt að kalla það íslenzkt félag, sem ekki lýtur lögsögu íslenzkra dómstóla? Ég efast eigi um, að ráðh. hafi lagt sig allan fram við þessa samningsgerð, og ég efast eigi um, að hann hafi ýmsu fengið breytt til batnaðar í þessum samningi. Ég tel víst, að hann hafi reynt að fá breytingu á þessum ákvæðum, en það hefur ekki tekizt. Þá hefði hann átt að setja hnefann í borðið og segja: Hingað, en ekki lengra. Undir svona nokkuð er ekki hægt að skrifa fyrir fullvalda ríki, sem vill telja sig í hópi réttarríkja. Það er niðurlægjandi, og í því felst frekleg móðgun bæði gagnvart þjóðinni og íslenzkum dómstólum. Það skiptir ekki öllu máli, hvort ágreiningsmálin verða mörg eða fá. Samningsákvæðið sem slíkt er jafnfráleitt. Ég verð að segja það eins og það er, að ég vorkenni dómsmrh. að þurfa að ganga undir það jarðarmen að undirrita slíkt.“

Þetta voru mín orð, minn dómur um þessi samningsákvæði. Meira sagði ég ekki. Jú, að vísu. Ég sagði, að þessi ákvæði hlytu, eins og ég er þegar búinn að rekja, að byggjast á vantrausti á íslenzku réttarfari og tortryggni í garð íslenzkra dómstóla. Og það er í einu og öllu staðfest af aðalforstjóranum svissneska. Ég viðurkenni, að orð mín eru sterk fordæming á þessum ákvæðum. En þau eru að mínum dómi sízt of hörð. Hæstv. dómsmrh. hefur hneykslazt mjög á þessum ummælum mínum, en ég stend fast við þessi orð. Þau eru mitt mat á þessum ákvæðum. Það er mitt mat, að undir svona nokkuð sé ekki hægt að skrifa fyrir fullvalda ríki, sem vill telja sig í hópi réttarríkja. Við það álit legg ég mitt nafn, bæði gagnvart Alþ. og gagnvart seinni tímanum. Hitt skil ég svo vel, að hæstv. dómsmrh. getur sárnað þessi gagnrýni, af því að ég er út af fyrir sig ekki að efa það, að hann telji sig hér hafa unnið gott verk, og hann álíti það, að hann hafi lagt sig þarna allan fram og náð árangri, sem hann telur mikilsverðan. En það er nú einu sinni svona, þegar við búum við lýðræðislega stjórnarhætti, þá verða þeir, sem vinna að þessum málum fyrir ríkisins hönd að sætta sig við, að það, sem þeir gera, sé gagnrýnt opinberlega. Ég fæ ekki heldur séð, að hæstv. dómsmrh. né stuðningsmenn hans hafi getað hrakið eitt einasta orð af því, sem ég sagði í minni útvarpsræðu, ekki eina einustu röksemd mína. Í stað þess hafa þeir svarað út í hött, farið að ræða um allt annað. Það er að vísu ekki nýtt, það er algengt fyrirbæri hjá rökþrota mönnum. Þeir hafa farið að snúa sér að því að ræða um gerðardóm í milliríkjadeilum. Ég hef aldrei haft neitt við slíkan gerðardóm að athuga. Ég býst við því, að ég gæti haldið hér hátt upp í það jafnlanga tölu um slíka gerðardóma og hæstv. dómsmrh. og okkur mundi koma prýðilega saman um þá gerðardóma. Við mundum báðir viðurkenna, að þeir hefðu miklu til leiðar komið og stuðlað að friðsamlegri lausn í deilumálum á milli þjóða. En þetta er bara ekki slíkur gerðardómur, sem hér er um að ræða. Hér er ekki um neinar milliríkjadeilur að tefla. Swiss Aluminium er stórt, en það er þó ekki neitt ríki. Það er meginmunurinn. Og meira að segja er nú farið að tala um gerðardóma innanlands og sagt, að það sé altítt og þekkt fyrirbæri, að menn semji svo um að leysa deilumál sín, sem þeir hafi forræði yfir, með þeim hætti að skjóta þeim til gerðardóms, vegna þess að þeir t.d. telji sig fá úrlausn með skjótari hætti á þann veg. Þetta er alveg rétt. Gerðardómar tíðkast og hafa tíðkazt hér á landi frá fornu fari. Það var í fornöld talað um að leggja mál í gerð. Það er allt annað og enginn hefur verið að gagnrýna slíka gerðardóma. Þeir koma þessu máli hreint ekkert við, þannig að það er alveg sama, hvað langt mál þeir tala, hæstv. dómsmrh. og hæstv. forsrh., um slíka gerðardóma, þá breytir það ekki nokkrum stafkrók í því, sem sagt hefur verið um þessa sérstöku tegund gerðardóma, sem um er að tefla í þessum samningi.

Ég get nú varla verið að eyða orðum að því líka, að það er verið að tala um gerðarákvæði í viðskiptasamningum á milli ríkja. Auðvitað er það þekkt, að það séu gerðarákvæði í viðskiptasamningum. En viðskiptasamningar eru nú bara talsvert annars eðlis heldur en þessir samningar, sem hér liggja fyrir. Það er nú t.d. ekki verið að koma með viðskiptasamninga hingað inn á Alþ. og fjalla um þá hér. Og þeir eru yfirleitt ekki gerðir nema til eins eða í hæsta lagi til tveggja ára í senn, þannig að það er nú nokkuð mikill munur á því.

Það var verið að ræða um það hér, t.d. var viðskmrh. að ræða um það á sínum tíma í sambandi við þennan gerðardóm um lausn fjárfestingardeilna, að hann ætlaði nú að sanna það, að þetta ákvæði í þessum samningum ætti sér glögg fordæmi, vegna þess að gerðardómsákvæði væru í rússneska viðskiptasamningnum um olíuviðskipti. Ég verð nú að segja, að það var heldur óheppilega valið dæmi, bæði vegna þess, sem ég hef sagt um viðskiptasamninga, og eins vegna þess, að það stendur nú nokkuð sérstaklega á varðandi viðskipti við Rússland, þar sem allir vita, að í raun og veru er það ríkið, sem á bak við stendur, og þar er því um milliríkjasamninga að ræða í raun og veru. Og í þriðja lagi hef ég beðið menn að athuga það, hver mundi hafa dæmt í þeim málum, ef ekki hefði verið samið um gerðardóminn, hvaða varnarþing hefði verið í þeim málum út af olíusamningnum, út af olíukaupum við Rússland? Ég held, að það hlyti að hafa verið eftir venjulegum reglum í Rússlandi. A.m.k. hygg ég það, að ef við gerðum sölusamning um síld og mál risu út af honum, yrði, ef ekkert væri um það samið, sá kaupandi, sem vildi gera rétt sinn gildandi að einhverju leyti út af þeim samningi, að höfða mál hér á landi og sækja það hér. Þessi samanburður, sem menn hafa gripið til í sambandi við olíuviðskiptasamninginn, er náttúrlega svo fjarstæður, að það er ekki hægt að vera að eyða tíma þessarar hv. d. meira en orðið er til þess að fjalla um það, og ég ætla nú bara að vona það, að það verði ekki farið að bera þvílíkan hugsanagraut á borð hér í hv. Ed. Og vona ég, að hæstv. dómsmrh. láti það vera og þeir hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. láti viðskmrh. alveg þá eldamennsku eftir. Og skal ég ekki fara fleiri orðum um það og ekki heldur um það, sem hér hefur borið á góma, að menn hafi viljað finna fordæmi fyrir þessum samningum Efnahagsbandalagssáttmálanum. Það er náttúrlega svo fjarstætt, að það er ekki hægt að ræða slíkt í alvöru og ekki ástæða til að vera að eyða tíma manna í það.

En sem sagt, ekkert af því, sem ég sagði um þennan gerðardóm, sem ákvæði eru um í þessum samningi, hefur verið hrakið. En ég hafði ekkert rætt um það, sem lýtur að milliríkjagerðardómum eða innanlandsgerðardómum eða ákvæði í viðskiptasamningum, og þess vegna var engin ástæða til þess fyrir þessa hæstv. ráðh., sem ég hef hér nefnt, að fara að víkja að þeim tegundum samninga. Ég hef aðeins rætt um þessa tegund af samningi, sem hér liggur fyrir, þar sem ríkið semur við einkafyrirtæki um, að ágreiningsmál á vissum sviðum, bæði á milli þess og einkafyrirtækis og á milli íslenzkra réttaraðila, skuli tekin undan lögsögu íslenzkra dómstóla og fengin í hendur gerðardómi, útlendum eða alþjóðlegum, hvort sem menn vilja heldur kalla það. Það var um þessa tegund samninga, sem ég sagði: „Ég efast um, að í nágrannalöndum okkar séu fordæmi fyrir því, að ríkisstj. semji hliðstæð mál undan eigin dómstólum.“ Ég sagði ekki meira. Ég fullyrti ekki mikið. Mér voru ljós mín þekkingartakmörk, og að það kynnu að finnast einhverjir samningar í nágrannalöndunum, þar sem finna mætti þvílík ákvæði. En ég efaðist um það, og ég efast vissulega enn, því að hvorki ráðh. né aðrir talsmenn álmálsins hafa getað bent á nein hliðstæð fordæmi frá nágrannalöndunum, ekki eitt einasta t.d. frá Norðurlöndunum.

Hæstv. ráðh. var að tala um það í framsöguræðu sinni á laugardaginn, að það færi í vöxt, að samið væri um slíka gerðardóma á milli ríkja og einkafyrirtækja. Má vera, að það hafi farið í vöxt á vissum svæðum í heiminum, en það er ekki hér á Norðurlöndum, það ætla ég að fullyrða. Ráðh. tók upp þessi ummæli mín í Nd. og sagði, með leyfi forseta: „Ég segi bara: Prófessorinn á að lesa betur.“ Ja, hvort ég skal. Ég er einmitt allur af vilja gerður til þess að lesa betur og bara bíð eftir því, að hæstv. ráðh. bendi mér á, hvar ég á að leita að slíku lestrarefni. En það hefur ekki enn verið gert, og mér hefur ekki enn verið bent á neitt fordæmi. Það er þó liðinn nær hálfur mánuður, að ég ætla, frá því að ég skoraði á hæstv. viðskmrh., eftir að hann hafði verið óvenjulega gífuryrtur í þessari hv. d., að benda mér á eitt einasta dæmi frá Norðurlöndum í þessa átt eða frá nágrannalöndunum, skoraði á hann að finna þau. En það hefur ekki borizt svar frá honum enn. Hann hefur ekki fundið þau enn. Og hæstv. dómsmrh. hefur ekki lagt fram nein slík gögn um fordæmi frá Norðurlöndunum. Þó hefur stjórnin vissulega nægilegan mannafla til þess að afla þessara gagna, ef til væru. Hún hefur á Norðurlöndunum ekki aðeins ágæta sendiherra almennt talað, heldur einnig alveg fyrirtaks lögfræðinga. Í Kaupmannahöfn situr Gunnar Thoroddsen fyrrv. prófessor. Í Svíþjóð situr Árni Tryggvason fyrrv. hæstaréttardómari. Í Osló situr Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingur. Í London situr Guðmundur Í. Guðmundsson fyrrv. utanrrh. Skyldu nú þessir menn ekki finna fordæmi, ef þeir færu í lúsarleit í þessum löndum? Ætli hæstv. ríkisstj. hafi ekki reynt að leggja fyrir þessa menn, eftir að ég hef sett fram mín andmæli gegn þessum ákvæðum, — ætli hún hafi ekki reynt að fá þá til þess að leita að og benda sér á ákvæði, sem hún gæti svo lagt fram hér og státað af og sýnt fram á það, að ég hefði farið með rangt mál? Reyndar hefði ég nú ekki farið með rangt mál, þó að þeir hefðu getað bent á einstök samningsákvæði, því að ég sagði aldrei annað en að ég efaðist. En það hefur ekki verið hægt að benda á eitt einasta. Setji þeir þessa menn af stað og láti þá leita og sýni þeir fram á, að ég hafi sagt hér of mikið um þetta. Ég efast ekkert um, að þeir hafi þegar látið þessa ágætu menn leita svo vel sem kostur er, en það hafi bara ekkert hafzt upp úr krafsinu. Það stendur sem sagt, að ekkert fordæmi er að finna um þetta á Norðurlöndum. En svo kemur annað til. Hvað sagði aðalforstjórinn Meyer í blaðaviðtali um þetta? Samkv. orðréttri útvarpsfregn, sem birt var 29. marz s.l., sagði hann þetta, með leyfi forseta, um það ákvæði samningsins, að skipaður verði alþjóðlegur gerðardómur til að skera úr ágreiningsmálum, sem hugsanlega gætu risið milli Swiss Aluminium og íslenzka ríkisins varðandi verksmiðjuna, að þessi samningur væri einstæður að þessu leyti. (Gripið fram í.) Já, nú, þeir hafa bara gert samninga við einkafyrirtæki hingað til, og hafa svo ekki einu sinni einkafyrirtækin viljað semja um svona fyrirkomulag. (Gripið fram í.) Þarf nú frekar vitna við? Það ér ekkert fordæmi að finna í nálægum löndum. En á eitt einasta fordæmi hefur þó hæstv. ráðh. bent, og það skal viðurkennt, og það er í álsamningi Ghana, sem N'Khrumah gerði á sínum tíma. Ég efaðist ekkert um, að það mætti finna slík fordæmi í einstökum samningum við Afríkuríki, í einstökum samningum við nýfrjáls Afríkuríki, sem búa við frumstætt réttarfar, en vilja hins vegar geysimikið til vinna að fá erlent fjármagn inn í landið. Ég hef ekki séð þennan Ghana-samning, en ég efast út af fyrir sig ekki um, að þetta sé alveg laukrétt hjá ráðh., að þarna megi finna ákvæði, sem þessu sé hliðstætt, sem hér hefur verið um samið. Hann sagði nú í Nd., hæstv. ráðh., að það væru rangar getsakir hjá mér, að krafan um gerðardóm, að taka málin undan lögsögu íslenzkra dómstóla, byggðist á vantrausti á íslenzkum dómstólum. Og hann sagði þá, hæstv. ráðh., eða lét liggja að því mjög greinilega, að krafan um gerðardóm væri upphaflega komin frá Íslendingum sjálfum, og hann sagði nú það, og ég kem nú að því síðar, eða a.m.k. yrðu orð hans ekki skilin á annan veg en að gerðardómsákvæðin hefðu verið í fyrsta samningsuppkastinu frá Íslendingum. Hitt er svo annað mál, að það var talsvert annað hljóð í hæstv. ráðh., um þessi efni, þegar hann talaði um þau hér í þessari hv. d.

En hvað sagði aðalforstjórinn, Meyer, um þetta? Samkv. frásögn Alþýðublaðsins af viðtalinu við Meyer sagði hann:

„Í samningum við Ísland er fram tekið, að deilumálum megi vísa í alþjóðlegan gerðardóm, þar sem aðilar tilnefna hvor sinn mann, og ef þeir ekki koma sér saman um oddamann, tilnefni forseti Alþjóðadómstólsins í Haag hann.“ Meyer sagði, að ákvæði um þetta væru ekki í hliðstæðum samningum fyrirtækisins. við önnur lönd, en rétt hefði þótt að hafa þetta ákvæði, vegna þess að hér væri því ekki fyrir að fara eins og víða erlendis, að dómstólar hefðu fjallað um mörg deilumál af þessu tagi og hér væru engir dómar í þessum efnum til að styðjast við.“ Þetta sagði Meyer.

Og hvað sagði hæstv. forsrh. í útvarpsumr. um vantraustið? Hann gaf þá skýringu á þessu gerðardómsákvæði, sem mér finnst út af fyrir sig eðlileg, að þar sem Alusuisse tæki hér á sig svo og svo miklar ábyrgðir hefði það gert þessa kröfu um alþjóðlegan gerðardóm. Ég hygg, að þessi skýring sé mjög nærri sanni. Og það kom reyndar fram hjá hæstv. dómsmrh. við umr. hér í þessari hv. d. á laugardaginn með hverjum hætti þessi gerðardómsákvæði væru í raun og veru tilkomin. En í hv. Nd. var hæstv. dómsmrh. aftur á móti ákaflega hróðugur af þessum gerðardómsákvæðum, og hann sagði þar að þau hefðu komið fyrst frá Íslendingum. Þó segir hann líka þar, eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Á 10. fundi n. 28. okt.“ — þ.e.a.s. þmn. — „1965, voru rædd gerðardómsákvæði, sem talið var æskilegt, að hægt væri að takmarka, enda væru íslenzkir dómstólar nægileg trygging fyrir Alusuisse. Ég man vel á þessum fundi, að það var sérstaklega hv. 5. þm. Austf., sem taldi gerðardómsákvæðin óþarfa og vildi takmarka þau sem allra mest. Samt sem áður komu ekki fram neinar till. um að taka þau úr uppkastinu. Ég efast þó ekkert um, að honum hefði kannske verið kærara að taka ákvæðin um gerðardóm alveg úr, og það kann vel að vera, að hann hafi látið í ljós skoðun sína um, að það væri æskilegra. Það má segja, að við höfum kannske allir verið á þeirri skoðun. Samt sem áður var nú þessi hugmynd í upphafi sett fram af okkar hálfu.“

Ég verð að segja, að þetta er dálítið mótsagnakennt. Það verður að vísu eilítið skiljanlegra eftir þá ræðu, sem hæstv. ráðh. hélt hér á laugardaginn, þar sem hann skýrði sjálfsagt alveg réttilega, hvernig þessi ákvæði urðu til. Og það er náttúrlega ekki rétt, að þessi gerðardómsákvæði séu sett samkv. kröfu Íslendinga. Það afsanna í fyrsta lagi ummæli aðalforstjórans svissneska, og það er líka viðurkennt nú af hæstv. dómsmrh. í hans framsöguræðu í þessari hv. d. En auk þess mun það sjást með öðrum hætti enn betur, svo sem ég mun koma að síðar.

Hverjum eiginlega ætti að geta dottið það í hug, að Íslendingar hefðu ótilneyddir farið að setja fram svona ákvæði í samningum eins og þessi gerðardómsákvæði eru? Þau eru að mínum dómi fullkomin lítilsvirðing á dómstólum, og ég verð að segja það, að ég tel það alveg vansæmandi að taka íslenzk mál undan lögsögu íslenzkra dómstóla, og það er sérstök ástæða til fyrir okkur Íslendinga að athuga það. Við bjuggum við þær aðstæður, að öldum saman eða allt frá því 1273 og þangað til 1920 urðum við að sækja dóma, — æðsta dómsvald okkar — í annað land, þannig að við höfum af því reynslu. Að vísu reyndust þeir dómstólar sumir hverjir vel, en eigi að síður var þeim áfanga fagnað sem merkum áfanga í sjálfstæðis- og fullveldisbaráttu okkar, þegar íslenzka dómsvaldið var að fullu flutt heim og inn í landið 1920. Þess vegna er það, að ég segi, að undir svona ákvæði sé ekki hægt að skrifa fyrir fullvalda ríki, sem vill telja sig í hópi réttarríkja.

Ef einhver góðborgari tæki t.d. upp á þeim skrýtilegheitum að skríða á almannafæri á Lækjartorgi gegn borgun frá einhverjum mönnum, sem væru svo einkennilega innréttaðir, að þeir hefðu ánægju af því að horfa á hann gera það, er það alveg áreiðanlegt, að hann mundi glata virðingu sinna samborgara við það. En hann mundi eftir sem áður vera maður, hann mundi eftir sem áður njóta alveg fullra mannréttinda. Á sama hátt er íslenzka ríkið vitaskuld eftir sem áður til og alveg eins og áður, þrátt fyrir þennan samning. Íslenzka ríkið er auðvitað fullvalda alveg eftir sem áður, þó að það geri þennan samning. En það hefur að mínum dómi lítillækkað sig með því að gangast undir slík gerðardómsákvæði sem þessi. Ég hef ekki sagt annað og meira en það. Ég hef náttúrlega aldrei ýjað í þá átt, að íslenzka ríkið væri ekki fullvalda eftir sem áður og alveg án tillits til þessa samnings. Ég hef heldur ekkert sagt um það, hvort þessi ákvæði brytu í bága við stjórnarskrána eða ekki. Ég hef ekki minnzt á það einu orði. Það er sjálfsagt út af fyrir sig rannsóknarefni. En vegna aðstöðu minnar tel ég ekki rétt að vera með neinar fullyrðingar um það og hef ekki verið með þær.

Það er fært fram til afsökunar og sagt, að það sé þó bragarbót, að jafnvel þó að þessi gerðardómsákvæði séu slæm eða séu ekki a.m.k. eins og menn hefðu helzt viljað þau, eigi þessi útlendi dómstóll þó að fara eftir íslenzkum lögum, en um það segir í 45. gr. samningsins:

„Samning þennan ber að skýra, túlka og framkvæma samkv. ákvæðum hans, aðalsamningsins og hinna fskj., eftir því sem unnt er, og að öðru leyti fer um skýringu, túlkun og framkvæmd, gildi og áhrif samnings þessa að íslenzkum lögum og þeim reglum þjóðaréttar, sem við kunna að eiga, þ. á m. þeim grundvallarreglum laga, sem almennt eru viðurkenndar af siðmenntuðum þjóðum.“

Þessi réttlæting á þessum ákvæðum, að þetta geri nú ekki svo mikið til um þennan útlenda dómstól, af því að hann eigi að fara eftir íslenzkum lögum fyrst og fremst, kann að hljóma vel í leikmannseyrum. En ég verð að segja það, að í mínum lögfræðingseyrum lætur hún nokkuð einkennilega. Og ég get ekki komizt hjá því að hugsa til þess, hvort mitt aðalstarf sé þá ekki að verða nokkuð tilgangslitið og hvort það mætti ekki spara eitthvað á þeim pósti! Til hvers eru menn að læra íslenzk lög? Til hvers erum við að útskrifa lögfræðinga og til hvers er það gert að skilyrði hér fyrir dómarasæti, að maður hafi lokið lögfræðiprófi? Það er svo með íslenzk lög, að það er ekki alveg eins auðvelt að beita þeim eins og að skrúfa frá vatnskrana. (Gripið fram í.) Já, sumir gera það, það er alveg rétt, og þurfa ekki að skammast sín fyrir. En sumir kenna líka íslenzkar bækur. En það er ekki svo einfalt að beita íslenzkum lögum, að það sé bara sjálfgefin niðurstaða, ef það er sagt, að íslenzk lög eigi við. Það þarf kunnáttu, sérfræðikunnáttu til þess að beita, skýra og túlka íslenzk lög. Þess vegna er verið að krefjast lögfræðiprófs af mönnum, sem eiga áð skipa dómarasæti. Þess vegna höfum við ekki leikmannadóma hér í þessu landi. Og við hvað er átt þarna með íslenzkum lögum? Halda menn, að það sé aðeins átt við sett lög, lög, sem hafa verið sett af Alþ.? Nei, auðvitað ekki. Það er átt við íslenzk lög í víðtækri merkingu, átt bæði við sett lög og réttarvenjur. Hvernig á þessi útlendi dómstóll að hafa þekkingu á þessum reglum? Jú, menn segja náttúrlega, að það verði málflm. látinn flytja þetta fyrir hönd íslenzka ríkisins, og hann geri grein fyrir því. En hvernig þætti mönnum það fyrir íslenzkum dómstólum? Væri það nóg að hafa bara löglærða málflm., en dómararnir væru ólöglærðir? Nú verða þessir dómarar, sem sitja í þessum gerðardómi, e.t.v. löglærðir, en þeir verða bara ekki lærðir í íslenzkum l., og það er nokkuð sitt hvað. Þeir verða lærðir í enskum l., eða þeir kunna að verða lærðir í þjóðarétti, en það er ekki það sama og að vera lærður í íslenzkum lögum. Þessi dómstóll hefur auðvitað engin skilyrði til þess að dæma eftir íslenzkum lögum. Og það er þess vegna nánast blekking, þegar menn eru að gera svona mikið úr því, að það sé eitthvert öryggi í því, að þessi útlendi dómstóll eigi að dæma eftir íslenzkum lögum. Ég hygg, að það sé sannmæli allra, sem til þekkja, að dómsvaldinu íslenzka sé bezt borgið í höndum íslenzkra dómstóla, og ég bara spyr: Vill nokkur halda öðru fram? En það hefur þó örlað á því stundum, að því er manni virðist, í þessum umr., að því hefur verið haldið fram eða verið látið í það skína, að það væri jafnvel betra að fá úrlausn þessa alþjóðagerðardóms, sem kallaður er, heldur en að eiga sitt mál undir íslenzkum dómstólum.

Nei, ég sný ekki aftur með það, að þessi ákvæði um gerðardóminn í þessum samningum eru hraksmánarleg að mínum dómi, og það ættu formælendur þessa samnings að viðurkenna og sjá sóma sinn í að viðurkenna það, en telja svo aftur, að að þeirra dómi væru þá aðrir kostir á samningunum, sem réttlættu það að ganga að þessum varhugaverðu ákvæðum. En sú leið hefur ekki verið farin, heldur hefur þessi samningur allur í heild sinni verið gylltur. Það hefur ekki mátt sjást á þessum samningi nokkur blettur eða nokkur hrukka. Allt hefur átt að vera ágætt. Ja, ég verð að segja: „Miklir menn erum við, Hrólfur minn.“ Þeir eru slyngir samningamenn þessir menn, sem hafa staðið í því fyrir Íslands hönd að gera þessa samninga, ef þeim hefur tekizt það í öllum atriðum að fá þessa samninga svo hagstæða, að þar séu engir agnúar á. Ég hefði þó satt að segja haldið, að þessir svissnesku aðalforstjórar væru engin flón, og ég hefði haldið, að þeir hefðu æðimikla reynslu í þessum samningagerðum, og ég gæti búizt við því, að þeir væru talsvert harðdrægir og lagnir menn í slíkum samningagerðum, og ég verð að telja það aðdáunarvert, ef íslenzku samninganefndarmönnunum hefur tekizt að ná þannig samningum í öllum greinum, að það sé hvergi blettur eða hrukka á þessum samningum. En það virðist svo, að þannig sé litið á af sumum fyrirsvarsmönnum þessara samninga, því að þeir fást eiginlega ekki til þess að viðurkenna, að það sé þar nokkur agnúi á, vilja jafnvel ekki viðurkenna, að þessi gerðardómsákvæði geri svo sem neitt til.

Ég veit, að það eru til menn, sem gera lítið úr þessum gerðardómsákvæðum, yppta yfir þeim öxlum og telja, að það muni ekki mikið reyna á þau, telja, að ég og aðrir hafi gert of mikið veður út af þeim. Það má vera, að það reyni ekki svo mikið á þau, ég skal engu spá um það. En þau eru samt fyrir hendi. En um þessa menn, sem þannig tala, vil ég segja það, að þeir tala að mínum dómi alveg eins og hreinir óvitar og ég verð að segja það, að þeir hafa ekki einu sinni lært stafrófið í íslenzkri sögu.

Það er alveg furðulegt, að mínum dómi, að það skuli vera til menn, sem geti sætt sig við það að afsala með samningum við einkafyrirtæki, útlendan auðhring, broti af dómsvaldinu, broti af ríkisvaldinu í hendur erlendra aðila. Jafnvel þó að þeir telji sér trú um, að þeir fái einhver fríðindi eða hlunnindi í staðinn. Já, og jafnvel þó að þeir fengju einhvern ávinning í sinn hlut í staðinn í raun og veru, því að það mun hér sannast sem endranær í hverju máli, að þeirra hlutur verður jafnan verstur, sem vilja bera sæmd sína í sjóði. Og það hefur aldrei þótt gæfumerki að vilja selja sinn frumburðarrétt fyrir einn baunadisk.

Ég vil nú benda hér aðeins á 35. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að eignarnám geti átt sér stað á fjárfestingum ISALs. Það eru tekin upp í þessa 35. gr. þau skilyrði, sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að það megi fram fara. Og þau eru að sjálfsögðu í samræmi við 67. gr. stjórnarskrárinnar. En nú er spurningin sú, sem ég held, að ekki væri úr vegi fyrir hæstv. ráðh. að athuga, að það skiptir nokkru málí í þessu sambandi, hvaða aðili á að eiga endanlegan úrskurð um það, hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi eða ekki. Það stendur að vísu ekkert um það í okkar stjórnarskrá, hver eigi úrskurðarvald um það, en samkv. viðtekinni venju, og að ég ætla stjórnskipunarvenju, eru það dómstólarnir hér á landi, sem segja til um það, hvort lög séu í samræmi við stjórnarskrá eða ekki. Samkv. okkar stjórnarskrá eða samkv. þeim stjórnskipunarvenjum, sem hér hefur verið fylgt, ættu því ef til þess kæmi, að lög væru sett, sem þjóðnýttu eitthvað af fjárfestingum þessa auðhrings, íslenzkir dómstólar að meta það til fullnaðar, hvort skilyrði stjórnarskrárinnar og þá einnig skilyrði þessa samnings væru fyrir hendi eða ekki. Og ég vil náttúrlega halda þeim skilningi fram á þessu ákvæði. En engan veginn er það nú vafalaust og þess vegna væri ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðh. að því, hver sé hans skilningur á því. Er það hugsanlegt, að þeir t.d., sem héldu því fram, að það væru ekki greiddar fullar bætur fyrir þá framkvæmd eða fjárfestingu, sem eignarnámi væri tekin, gætu skotið spurningunni um það undir þennan alþjóðlega gerðardóm? Ég mundi auðvitað vilja halda því fram, að um það atriði ættu íslenzkir dómstólar einir fullnaðarúrskurðarvald.

En engan veginn er þetta ótvírætt. Ég vil svo segja það um þessa samninga, að þeir eru víða flóknir og torskildir. Ég nenni þar ekki að fara út í neinn sparðatíning, en vil fullyrða, að í þessum samningum úir og grúir af ákvæðum, sem eru torskilin eða geyma vafasöm túlkunaratriði eða jafnvel eru með öllu óskiljanleg.

Ég tel mig hér hafa sýnt fram á, hvers vegna við framsóknarmenn teljum þessa samninga alla óaðgengilega, varhugaverða og óboðlega og ótímabæra, eins og á stendur, hvers vegna við teljum útilokað að samþykkja þá, hvers vegna við teljum, að undir svona samninga sé ekki hægt að skrifa. Um þessa samninga hefur þegar verið fjallað í samvinnunefnd beggja d. Við höfum því þegar athugað það í n. Við teljum því enga ástæðu til, að það fari til 2. umr., og við munum því strax greiða atkv. gegn því við íok þessarar umr.

Við álítum, að þessir samningar muni reynast illa og muni hafa skaðvænleg áhrif. Vera má, að okkur missýnist. Öllum getur skjátlazt, og vera má, að framkvæmdirnar gangi betur en til er stofnað. Og það er út af fyrir sig vel, ef svo verður, þjóðfélagsins vegna. Þá verða dómar manna e.t.v. mildari um hina stórkostlegu ágalla þessara samninga. En kynni menn sér þá einnig þær forsendur, sem afstaða okkar framsóknarmanna í þessu máli byggist á, kvíði ég ekki dómi framtíðarinnar um afstöðu okkar í þessu máli, hvernig svo sem til tekst um framkvæmd þessara samninga.

Herra forseti. Hér gæti ég nú látið máli mínu lokið, ef ekki kæmi sérstakt til, en ég verð nú að bæta nokkru við enn. (Forseti: Væri þá ekki rétt að gera það eftir fundarfrestunina?) Það má vera hvort eð vill. (Forseti: Það eru flokksfundir, sem byrja núna kl. 4.) Já ég sé nú, að hæstv. dómsmrh. er genginn burtu, ég ætla að tala svolítið við hann á eftir. (Forseti: Já, kannske þm. vildi þá fresta ræðunni?) Já. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Mér þykir nú leiðinlegt að þurfa að þreyta hv. þdm. enn um skeið, en ég kemst ekki hjá því að taka til dálítið sérstakrar meðferðar stóra skotið, sem hæstv. dómsmrh. ætlaði upphaflega að fýra af fyrst hér uppi í Ed., en missti úr byssunni í Nd., þ.e.a.s. dylgjunum um það, að álits míns hefði verið leitað um gerðardómsákvæði þessara samninga og ég lagt blessun mína yfir þau. Ég verð nú að segja það, að á dauða mínum átti ég von, eins og hver dauðlegur maður getur jafnan átt, en ekki á þessu. Og ég verð að segja það, að mér hefur sjaldan verið sýnd meiri ósvífni en að bera mér þetta á brýn. Hann sagði í Nd. á dögunum, með leyfi hæstv. forseta:

„En þar við bætist það, að þessi hv. þm. veit, að það var ekki krafa einkafyrirtækisins, að gerðardómsákvæðin voru sett inn í þennan samning. Upphaflega uppkastið, fyrsta samningsuppkastið eða frumdrögin frá Íslendingum gerðu ráð fyrir gerðardómi, og það er meira en ár liðið síðan þau voru sýnd Ólafi Jóhannessyni prófessor, sem fræðimanni á þessu sviði, og hann hafði ekkert við þessar hugmyndir að athuga á því stigi málsins og ekki síðar, sem ég skal koma betur að. Hv. þm: segir, að hann efist ekkert um, að ráðh. hafi lagt sig allan fram við þessa samningsgerð og hann efist ekki um, að ráðh. hafi ýmsu fengið breytt til batnaðar í þessum samningum, hann veit þetta, af því að hann hefur alltaf fylgzt með breytingum, sem orðið hafa á þessum ákvæðum. Þm. í flokkum stjórnarandstöðunnar hafa á hverjum tíma fengið upplýsingar hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar um samningagerðina. Prófessor Ólafur Jóhannesson veit, þegar hann er að tala um, að hann efist ekkert um, að ýmsu góðu hafi verið komið til leiðar, að vissulega breyttust þessi ákvæði mikið undir meðferð málsins og alltaf stig af stigi okkur í hag.“

Svo mörg eru þau orð. Það fer ekki á milli mála, hvað hæstv. dómsmrh. er að dylgja um í þessum orðum, sem sagt það, að gerðardómsákvæði fyrsta íslenzka uppkastsins hafi verið lagt fyrir mig og að ég hafi látið í ljós, að ekkert væri við þau að athuga. Raunar verða orð ráðh. ekki skilin öðruvísi en svo, að þá hafi gerðardómsákvæðin verið enn óálitlegri, því að hann segir, að þau hafi breytzt, eins og ég las, stig af stigi og alltaf okkur í hag.

Þegar ég hafði látið skila til hæstv. ráðh. í Nd., að ég hefði aldrei látið uppi álit um þessa samninga og aldrei komið nálægt samningagerðinni, dró hann að vísu nokkuð í land, en þó ekki að fullu, því að í Morgunblaðinu þar á eftir er viðtal við hæstv. ráðh., og yfirskrift þess viðtals er svohljóðandi, sem ég veit þó ekki, hvort hæstv. ráðh. hefur gert eða einhver blaðamaður við Morgunblaðið, en þar segir í yfirskriftinni með feiknalega stóru letri, því stærsta. sem Morgunblaðið á: „Prófessor Ólafur Jóhannesson vissi frá upphafi um gerðardómsákvæðið, en gagnrýndi það aldrei, fyrr en eftir undirskrift álsamninganna.“ Hvernig finnst mönnum nú þetta, þegar alþjóð veit, að ég gagnrýndi þessi ákvæði harðlega í útvarpsumr., sem fóru fram, áður en samningurinn var undirritaður? Og hvað segir svo hæstv. ráðh. í þessu viðtali? Í Morgunblaðinu segir svo, með leyfi forseta:

„Morgunblaðið sneri sér til Jóhanns Hafsteins iðnmrh. í tilefni af þeim ummælum í forustugrein Tímans í gær, að það væri rangt, sem ráðh. hefði haldið fram, að álsamningarnir hefðu verið bornir undir prófessor Ólaf Jóhannesson, varaformann Framsfl. Um þetta sagði Tíminn, að Ólafur hefði aldrei gefið neitt álit varðandi ákvæði í samningunum, hvorki gerðardómsákvæði né önnur. Iðnmrh. sagði um þessa fullyrðingu Tímans, að áður en fyrsta samningsuppkast Íslendinga hefði verið sent hinum svissnesku samningsaðilum, hefði það verið sýnt prófessor Ólafi Jóhannessyni. Hann var ekki beðinn um sérstaka álitsgerð, en sá samningsuppkastið án þess að láta í ljós nokkrar efasemdir um gerðardómsákvæði þess. Ef prófessor í lögum er sýnt samningsákvæði, sem hann telur vansæmandi fyrir Íslendinga, hvers vegná segir hann það þá ekki þegar í stað? sagði Jóhann Hafstein.“

Já, þetta segir ráðh. Ég verð nú að segja það, að það er alveg nýtt fyrir mér, að það sé verið að sýna lögfræðingum svona samningsuppkast bara upp á punt, en það sé ekki ætlazt til þess, að þeir láti í ljós neitt álit á því eða þeir séu spurðir um það. En út af þessum dylgjum hæstv. ráðh. hefur svo Morgunblaðið lagt — raunar dag eftir dag — með viðeigandi skýringum, með hæfilegum viðaukum og stórum yfirskriftum.

Nú dettur mér náttúrlega ekki í hug að fara að kvarta undan skrifum Morgunblaðsins. Mér kæmi auðvitað ekki til hugar að fara að svara Morgunblaðinu hér í þingræðu, og ekki dettur mér heldur í hug að fara að ónotast út í ritstjóra Morgunblaðsins, þó að þeir segi eitthvað miður vingjarnlegt um mig. Það er nú einu sinni þeirra atvinna. Nei, en það verður að gera dálítið aðrar og meiri kröfur til sannleiksmeðferðar dómsmrh., þessa æðsta oddvita íslenzkrar réttvísi og heiðarleika í landinu, heldur en venjulegs Morgunblaðsritstjóra. Og ég segi það alveg hiklaust, að ég tek ekki dylgjum af þessu tagi þegjandi né með þökkum, hvort sem þær eru bornar fram af dómsmrh. eða forsrh. Ég mun svara þeim alveg fullum hálsi, meðan ég er maður til.

En áður en ég vík að sannleiksgildinu í dylgjum dómsmrh., langar mig til að varpa fram þeirri spurningu, hverju máli það eiginlega skipti þessi gerðardómsákvæði í sjálfu sér, hvort ég hef látið uppi eitthvert álit um þau eða ekki. Ég fæ ekki betur séð en að gerðardómsákvæðin eins og þau eru nú hér í þessu frv. séu alveg nákvæmlega jafngóð eða jafnslæm, hvort sem ég hef látið uppi nokkurt álit um þau eða ekki. Nú, það er nú svo, og ég er ekkert hissa á því, að hæstv. ríkisstj. leitar frekar til annarra lögfræðinga en mín, ef hún þarf á áliti að halda, og að gefnu því tilefni, sem hæstv. ráðh. hefur gefið með þessu að fara að spekúlera í álitsumleitun um þetta, þá vil ég bara spyrja: Hefur þessi hæstv. ríkisstj. virkilega ekki leitað álits neinna sérstakra kunnáttumanna í lögum um þessi gerðardómsákvæði? Það hefur um þessa samningagerð fjallað ungur lögfræðingur, ágætur lögfræðingur að mínum dómi, en ungur og ekki reynslumikill. Það hefði verið ástæða til þess, finnst mér, að það hefði verið leitað til einhverra reynslumeiri lögfræðinga í sambandi við þessa vandasömu samningagerð, og er ég ekki þar með að kasta neinum steini að þeim ágæta lögfræðingi, sem mest hefur við þetta fengizt. Það er heldur ekki óþekkt, að það hafi verið leitað álits lögfræðinga, þegar eitthvað svipað hefur staðið á. Ég minnist þess til dæmis, að þegar deilan stóð sem hæst um landhelgissamningana, sællar minningar, þá tók það ekki forsrh. nema einn dag að leggja fram og fá álit um það samningsákvæði frá hv. kollegum mínum við lagadeildina. Hafa þessi gerðardómsákvæði í þessum samningum verið borin undir þá? Hvers vegna hefur ekki álits þeirra verið leitað á þessum samningsákvæðum? Hvers vegna hefur ekki verið leitað til einhverra reyndra kunnáttumanna í lögum hér, eins og t.d. hæstaréttardómara, og þeir beðnir að láta uppi álit á þessum samningum, láta uppi álit á því, hvort þeir séu vansæmandi fyrir íslenzku þjóðina eða ekki? Það hefur oft verið gert. Hvers vegna er ekki snúið sér til erlendra þjóðréttarfræðinga og þeir beðnir um álit á því, hvort þessi ákvæði séu vansæmandi eða ekki. Það eru til nógir fræðimenn. Hæstv. dómsmrh. gæti sjálfsagt snúið sér til t.d. prófessorsins við Kaupmannahafnarháskóla í þjóðarétti, Alf Ross, og fengið hans álit eða Max Sörensens og fengið hans álit eða Castbergs í Noregi og fengið hans álit. Hvers vegna er ekki leitað álits færustu manna um svona samningsákvæði, áður en ráðizt er í svona samningagerð? Það hefði verið eðlilegt. En það hefði litlu skipt, þótt mitt álit hefði verið fengið. Mitt álit er ekki þungt á metunum hjá þessari hæstv. ríkisstj. Það hefði verið ráðlegra fyrir hana að leita til einhverra annarra en mín og reyna að fá álit þeirra. Hvers vegna hefur það ekki verið gert? Það þarf að skýra.

Nei, þessi gerðardómsákvæði hefðu auðvitað verið nákvæmlega jafnill, þó að ég hefði látið uppi eitthvert álit um þau. Tilgangurinn með því hjá hæstv. dómsmrh. að varpa þessu fram í Nd. var því ekki sá að réttlæta þessi samningsákvæði út af fyrir sig, að réttlæta gerðardómsákvæðin. Tilgangurinn var bersýnilega annar, sem sé sá að gera mig tortryggilegan, koma því inn hjá mönnum, að það sé nú ekki mikið að marka mína gagnrýni, ég segi eitt í dag og annað á morgun, eftir því sem vindurinn blæs, að ég sé heldur lélegur pappír, sem lítið mark sé á takandi. Undir því er svo kynt í Morgunblaðinu með viðeigandi hætti, og því miður örlaði á hinu sama í ræðu hjá hæstv. forsrh. í Nd., sem ég þó nenni ekki hér að fara að elta ólar við, en ef hæstv. forsrh. kemur hér upp í Ed. og fer að tala um þetta mál, þá getur vel verið, að ég spjalli við hann um það og fleira.

En þetta er að vísu alþekktur málflutningur að reyna að gera andstæðinginn tortryggilegan. Það er alþekktur málflutningur hjá lélegum málflutningsmönnum, sem hafa lélegan málstað og veikan og vondan, að grípa til þess að hverfa frá því að rökstyðja efnislega það mál, sem þeir eru að flytja, en snúa sér að því í staðinn að reyna að gera andstæðinginn tortryggilegan. Og svo er náttúrlega alltaf hægt í hvíslingarherferðum í bænum að ganga feti framar og láta bæta svolitlu við, t.d. skjóta því að mönnum, að prófessorinn hafi jafnvel tekið fé fyrir þetta álit. Já, vill ekki hæstv. dómsmrh. upplýsa það, hvað mér hafi verið greitt fyrir þetta álit, sem hann telur, að ég hafi látið í té? Það væri þá kannske ekki úr vegi, að hann upplýsti í leiðinni vegna skrifa Morgunblaðsritstjórans um þetta mál, hvaða fúlgur sé búið að greiða lögfræðiskrifstofu hans fyrir meðferð þessa máls.

En aðalatriðið í þessu er auðvitað, hvað er rétt í þessu. Það er rétt, að til mín kom gamall nemandi, Hjörtur Torfason, og átti við mig algert trúnaðarsamtal og bað mig að líta á samningsuppkast, sem leggja átti fram, og bað mig náttúrlega að láta í ljós álit á því, því að til þess koma menn nú til lögfræðinga. En ég vil taka það fram, að ég legg það yfirleitt ekki í vana minn að gefa allt fyrir ekki neitt, og ég hygg, að það séu fáir lögfræðingar, sem gera það. Þegar Hjörtur hafði átt þetta viðtal við mig og ég litið yfir þetta uppkast, þá sagði ég honum, að vegna aðstöðu minnar gæti ég ekki látið uppi álit um efni þessara samninga. Ég sagði honum í annan stað, að ég hefði enga þekkingu á þessari sérstöku samningstegund, sem þarna væri um að tefla. Ég sagði honum í þriðja lagi, að ég áliti út af fyrir sig, að það form, sem þá var á því samningsuppkasti, gæti staðizt. Um þessi svör mín hef ég nú haft samráð við Hjört Torfason, og hann staðfestir, að þetta sé sétt, sem ég þá sagði. En þetta samtal fór fram í algerum trúnaði, og ég legg það ekki í vana minn að segja frá samtölum, sem þannig fara fram í trúnaði, og ég sagði ekki einum einasta, ekki einum einasta lifandi manni frá þessu samtali, — ekki einum einasta flokksbróður mínum — og þó hefði kannske verið eitthvað í þessu samningsuppkasti, sem hefði verið hægt að gera sér mat úr pólitískt, en ég ætla ekki að fara að ræða það samningsuppkast hér frekar.

Nú hefur hæstv. dómsmrh. rofið þennan trúnað og farið að skýra frá, og þá tel ég mig auðvitað ekki lengur bundinn af neinum trúnaði um þetta mál, en sannleikurinn er sá, að það samningsuppkast, sem lagt var fram í fyrstu af hálfu Íslendinga, var æði frábrugðið þeim samningi, sem nú liggur hér fyrir til staðfestingar, og ákvæðið um úrlausn deilumála var í því uppkasti svo gersamlega annað, að það er í engu sambærilegt við þau ákvæði, sem nú eru í þeim samningi. Ég afhenti auðvitað það uppkast, sem Hjörtur Torfason fékk mér á sínum tíma, strax á eftir, en þegar hæstv. ráðh. hafði snúið sér svona í málinu, þá sneri ég mér s.l. föstudag til Hjartar Torfasonar og óskaði eftir því, að hann léti mér í té þetta fyrsta samningsuppkast. Hann taldi sig eðlilega þurfa að bera sig saman við sína yfirboðara, áður en hann léti það af hendi, og taldi ég það algerlega eðlilegt, og um hádegi s.l. laugardag kom hann með þetta uppkast til mín og sagði mér, að hæstv. dómsmrh. hefði leyft það, og af því að ég segi nú svona frekar lítið til hróss hæstv. dómsmrh. hér, þá verð ég þó að segja það, að það gladdi mig, að hann skyldi samþykkja það. Að vísu hefði ég ekki þurft á því að halda, því að ég mundi alveg fullvel, hvað stóð í þessu samningsuppkasti, þ. á m. um deilumálin, en það er rétt að láta hann njóta þess, sem rétt er. Og ég vil taka það enn og aftur fram, að ekkert af því, sem ég segi hér, má skoða á nokkurn hátt sem nokkurt hnjóðsyrði í garð þess lögfræðings, sem talaði við mig, og ég væni hann ekki á neinn hátt um nokkurt trúnaðarbrot. En til þess að gera hv. dm. alveg ljóst, hvað fyrir mig var lagt, svo og til þess að Alþingistíðindin geymi hlið við hlið þau ákvæði, sem eru í þeim samningi, sem nú skal lögfestur um þetta efni, og hver ákvæði voru um þetta atriði í því samningsuppkasti, sem mér var sýnt á sínum tíma, þá mun ég nú með leyfi hæstv. forseta lesa fyrst ákvæðin í 46. og 47. gr. um þetta, og síðan mun ég í lauslegri þýðingu minni lesa ákvæði 22. gr. uppkastsins, sem mér var sýnt um þetta efni. Ég verð að vísu að biðja afsökunar á því, að ég skuli þreyta hv. þm. á því að lesa 46. og 47. gr., sem ekki þyrfti að gera þeirra vegna, vegna þess að þau eru þeim tiltæk og þeir hafa þau við höndina, en vegna þess að ég vil upp á eftirtímann láta það sjást og standa alveg skýrt í Alþingistíðindum, hvernig þessi ákvæði voru, þá ætla ég að hafa þennan háttinn á, og vil þá með leyfi hæstv. forseta lesa fyrst ákvæðin hér í samningnum eins og þau eru nú, og þá er það 46. gr., sem er svo hljóðandi:

„Ef nokkur deila rís milli aðila samnings þessa og samningsins um framkvæmdatryggingu, milli aðila rafmagnssamningsins, milli aðila hafnar- og lóðarsamningsins eða milli ríkisstj. annars vegar og Alusuisse eða ÍSAL hins vegar varðandi aðstoðarsamningana eða milli minni hluta hluthafa annars vegar og ríkisstj., Landsvirkjunar eða kaupstaðarins hins vegar varðandi skýringu, túlkun eða framkvæmd eða um gildi eða áhrif samnings þessa eða fylgiskjalanna eða varðandi réttindi eða skuldbindingar aðila, þ.á m. sérhvers minni hluta hluthafa að því er grein þessa og 47. gr. varðar, af samningi þessum eða fylgiskjölunum á gildistíma samnings þessa eða að honum loknum, þá skulu slíkir aðilar í góðri trú reyna að jafna ágreining sinn á vinsamlegan hátt. Ef ekki tekst með slíkum tilraunum að komast að samkomulagi, geta ríkisstjórnin annars vegar og Alusuisse hins vegar samið um að vísa deilunni til íslenzkra dómstóla eða íslenzks gerðardóms til endanlegrar ákvörðunar, og náist eigi samkomulag, skal ríkisstj. eða Alusuisse, eftir því sem við á, vísa slíkri deilu til alþjóðlegs gerðardóms skv. ákvæðum 47. gr. Það er ekki ætlun aðila samnings þessa að leita til alþjóðlegs gerðardóms til að jafna neina deilu, sem eigi varðar verulegar fjárhæðir eða mikilsverð málefni.“

Og 47. gr.:

„Verði sáttmáli um málamiðlun í fjárfestingardeilum milli ríkja og þegna annarra ríkja, dags. 18. marz 1965 („SlD-samþykktin“) samþykktur og fullgiltur af ríkisstjórninni og ríkisstjórn svissneska sambandslýðveldisins, án fyrirvara eða skilyrða, ber ríkisstj. og Alusuisse, með beggja samþykki, að leggja í gerð hjá Alþjóðastofnuninni til lausnar fjárfestingardeilum („SlD-stofnunin“) sérhverja deilu, sem hún á lögsögu yfir og rís út af samningi þessum eða fylgisamningunum, og gildi þá gerðarmálsmeðferð SlD-samþykktarinnar og reglur SID-stofnunarinnar. Samkvæmt 25. gr. 2)b) SlD-sáttmálans fallast ríkisstj. og Alusuisse á, að litið sé á ISAL sem svissneskan þegn í merkingu nefnds sáttmála. Samkvæmt 25. gr. 1) SID-sáttmálans tilnefnir ríkisstj. hér með Landsvirkjun sem ríkisstofnun í merkingu nefnds sáttmála.

Eigi SID-samþykktin ekki við um deilumál, getur ríkisstj. eða Alusuisse leitað alþjóðlegrar gerðar, með tilkynningu til þeirra aðila, sem greinir í 53. gr. samnings þessa, þar sem gerð er grein fyrir máli því, er gerðar er beiðzt um. Slíka gerð framkvæmi þriggja manna gerðardómur, og velur ríkisstj. einn þeirra, Alusuisse annan og ríkisstj. og Alusuisse sameiginlega hinn þriðja. Þriðji gerðardómsmaðurinn skal hvorki vera svissneskur né íslenzkur ríkisborgari. Geti ríkisstj. og Alusuisse ekki komið sér saman um skipan þriðja gerðardómsmannsins, skal hann skipaður, — að beiðni annars hvors, af hendi forseta alþjóðadómstólsins í Haag („alþjóðadómstóllinn“). Skipi ríkisstj. eða Alusuisse ekki sinn gerðardómsmann eða tilkynni ekki hinum aðilanum um skipunina innan sextíu daga, áður en málsmeðferð hefjist, ber hinum aðilanum réttur til að beiðast þess, að forseti alþjóðadómstólsins skipi annan gerðardómsmann, og skipi ríkisstj. og Alusuisse eigi þriðja gerðardómsmann innan sextíu daga, skipar forseti alþjóðadómstólsins hann. Ef forseti alþjóðadómstóísins er annaðhvort svissneskur eða íslenzkur ríkisborgari eða hefst ekki handa af einhverjum ástæðum eða getur það ekki, skal varaforseti alþjóðadómstólsins hafa skipunarvaldið.“

47. gr. er nú að vísu nokkru lengri, en ég sé ekki ástæðu til þess að lesa hana lengur, vegna þess að þau atriði, sem hér fara á eftir, skipta ekki máli um þennan samanburð.

Í samningsuppkastinu fyrsta, sem lagt var fyrir Svisslendinga og mér var sýnt, fjallaði aðeins ein gr. um deilumál, það var 22. gr., og hún hljóðar svo í íauslegri þýðingu minni. Það er 1. mgr.:

„Rísi nokkur deila út af samningi þessum eða fylgisamningunum undir A-H, hvort heldur er um gildi þeirra, framkvæmd eða skýringu, skal henni, ef ekki tekst að ná sáttum með vinsamlegum hætti, vísað til íslenzkra dómstóla til endanlegrar úrlausnar nema hún fari til gerðar eftir 2. eða 3. mgr. þessarar gr. Málsmeðferðin fyrir dómstólunum skal fara að íslenzkum lögum. Mál þessi skulu höfðuð fyrir bæjarþingi Reykjavíkur nema aðilar komi sér saman um annað varnarþing. Alusuisse skal tilnefna lögmann, búsettan á Íslandi, er hafi fullt umboð til að taka við stefnu og fara með mál fyrir félagsins hönd. Fari slík tilnefning eigi fram, má fyrir Alusuisse hönd stefna formanni stjórnar Íslenzka álfélagsins.

2. mgr. Sérhver deila skv. 1. mgr. skal, ef enginn aðili óskar eftir að vísa henni til íslenzkra dómstóla, útkljáð af gerðardómi, er í eiga sæti þrír menn. Formaður gerðardómsins skal vera lögfræðingur, er gegnir dómaraembætti, og skal hann tilnefndur af Hæstarétti. Eftir bráðabirgðaathugun á deilumálinu skal formaður ákveða, hvort hinir tveir gerðardómsmennirnir skuli vera lögfræðingar eða tæknimenntaðir menn. Gerðardómsmenn með lögfræðiþekkingu skulu tilnefndir af Hæstarétti. Tæknimenntaðir menn skulu tilnefndir af stjórn Verkfræðingafélags Íslands. Málsmeðferðin fyrir gerðardóminum skal fara að hætti íslenzkra réttarfarslaga.

3. mgr. Verði uppkast Alþjóðabankans að alþjóðasamningi um lausn fjárfestingardeilna fullgilt af nægilega mörgum ríkjum og af Alþingi og réttum svissneskum stjórnvöldum, er ríkisstj. reiðubúin að ræða þann möguleika við Alusuisse að nota þá aðferð til sátta og gerðar, sem þar er gert ráð fyrir, enda sé um meiri háttar deilumál að ræða.“

Þannig hljóðaði þetta ákvæði, sem lagt var fyrir mig. Eins og ég sagði, þá er þetta í lauslegri þýðingu minni. Ef hæstv. ráðh. vill vefengja, að hún sé rétt, þá skora ég á hann að leggja fram upphaflega uppkastið, og reyndar skora ég á hann, hvort eð er, að leggja það fram fyrir n., sem málið fær til meðferðar, því að vissulega er það lærdómsríkt fyrir hana að afla sér vitneskju um það, hvað Íslendingar í upphafi höfðu í huga um þessi mál og hver niðurstaðan hefur orðið, en ég mun að sjálfsögðu ekki fara að ræða önnur ákvæði í þessu uppkasti hér heldur en þetta eina atriði, sem á góma hefur borið, og ég mun ekki rjúfa þann trúnað, sem mér hefur verið sýndur í því máli. En af því, sem ég hef lesið, þá er alveg ljóst, að í fyrsta samningsuppkastinu, sem Íslendingar lögðu fram, uppkastinu, sem mér var sýnt, voru engin, alls engin slík gerðardómsákvæði, sem í samningi þeim eru, sem nú á að lögfesta. Fyrsta aðalreglan og höfuðreglan, sem átti að gilda, var sú, að deilumál öll skyldu útkljáð fyrir íslenzkum dómstólum. Frá þeirri höfuðreglu átti ekki að víkja, nema allir aðilar deilumálsins samþykktu. En þá mátti leggja málið í gerð fyrir íslenzkan gerðardóm, og það var nú ekkert mikið, því að náttúrlega er það regla, að íslenzkir aðilar geta samið um þau mál, sem þeir hafa forræði á, og lagt þau undir íslenzkan gerðardóm.

Í þriðja lagi gaf svo ríkisstj. fyrirheit um að taka til athugunar þann möguleika að nota gerðardómsleið Alþjóðabankans, ef og þegar sá samningur væri fullgiltur af nægilegri tölu ríkja og Íslandi og Sviss, og þá auðvitað með þeim hætti, sem greinir í þeim samningi, sem nú liggur fyrir hv. Nd., þ.e.a.s. með skriflegu samþykki deiluaðila í hvert og eitt einstakt skipti.

Með þessu hef ég algerlega sannað, að það er ekki fótur fyrir fylgjum dómsmrh., enda var hann nú talsvert ábúðarminni, þegar hann talaði um þetta mál hér í þessari hv. d., heldur en hann var í Nd. á sínum tíma og vildi þá fara að draga æðimikið í land að mér virtist og hefur kannske iðrazt þá sinna fyrri orða, en það er svo, eins og hæstv. dómsmrh. veit manna bezt, að iðrunin ein dugar ekki, réttvísin verður að hafa sinn gang fyrir því.

Það er þannig alveg upplýst mál, að hæstv. dómsmrh. hefur farið með rangt mál hér á hv. Alþingi, og það sem verra er, hæstv. dómsmrh. hafði þetta uppkast alltaf í sínum höndum og vissi auðvitað mætavel, hvað í því stóð. Þess vegna fór hann með visvítandi rangt mál, þegar hann var með þessar dylgjur um mig. Það hefði e.t.v. verið afsakanlegra, ef hann hefði gert það aðþrengdur og í reiðikasti. Aðþrengdur var hann að vísu og rökþrota, en mér er því miður sagt, að hann hafi komið með þetta skrifað og haft þessi orð skrifuð hjá sér heiman að og lesið sína ræðu af skrifuðum blöðum. Slík framkoma og slíkt hátterni dómsmrh., æðsta manns laga og réttar, sem á að standa vörð um réttvísi og heiðarleika í þessu landi, er alvarlegt mál, því að eftir höfðinu dansa limirnir.

Ég ætla annars ekki að hafa nein stærri orð um þetta hátterni hæstv. dómsmrh. Ég tel, að staðreyndirnar, sem ég hef hér gert grein fyrir í þessu máli, séu nægilegur dómur um það og að sú framkoma dæmi sig alveg nægilega sjálf.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þennan leiðindaþátt í þessu máli, en ég ætla að sjá, hver viðbrögð dómsmrh. verða, en ég vil minna hann á það, að hann getur sjálfum sér um kennt, að ég hef neyðzt til að rifja þetta hér upp, vegna þess að það var hann, sem fór af stað með þetta og fór að skýra að nauðsynjalausu frá trúnaðarmáli, sem ekki skipti máli um þetta mál, og skýrði vísvitandi rangt frá því.

Herra forseti. Ég skal svo ljúka máli mínu. Það er augljóst mál, að stjórnarsinnar ætla ekki að sinna aðvörunum okkar, þeir ætla að samþykkja þessa samninga óbreytta, þrátt fyrir alla þá stórkostlegu ágalla, sem á þeim eru og við höfum rækilega bent á, og þeir fást ekki heldur til að gefa þjóðinni kost á að segja álit sitt á þessum samningum. Það er því ljóst, að þessir samningar verða samþykktir. Við teljum okkur hafa gert okkar skyldu með því að vara við. Vera má, að framkvæmd þessara samninga fari þrátt fyrir allt betur úr hendi en við höfum trú á. Vegna þjóðarinnar vil ég vona, að svo verði, en hvernig sem fer, munu gerðardómsákvæði þessara samninga um ókomna tíð standa sem óbrotgjarn minnisvarði um þann dómsmrh., sem á því herrans ári, árinu 1966, afsalaði dómsvaldi í tilteknum málum íslenzkra réttaraðila í hendur útlendum dómi.