23.04.1966
Efri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það hafa þegar verið sögð mörg orð á báða bóga um þann samning um byggingu og rekstur alúmínverksmiðju, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert við svissneskt fyrirtæki og fyrir nokkru lagt fyrir Alþingi í því skyni, að það veiti þessum samningi lagagildi. Hæstv. ríkisstj. og málsvarar hennar hafa haldið því fram, að þetta sé eftir atvikum góður samningur og þó að eitthvað kunni þar á að bresta, sem þeir gefa nú raunar oftast í skyn, að ekki sé, þá sé það alger hégómi, þegar það er borið saman við allt það hagræði, við öll þau gæði, sem slíkur verksmiðjurekstur erlendra manna leggi Íslendingum í skaut.

Andstæðingar þessa samnings hafa á hinn bóginn fært að því mörg rök, að þetta sé vondur samningur, þetta sé samningur, er sé ósamboðinn frjálsu og fullvalda ríki. Ég ætla ekki að fara langt út í þá sálma að gagnrýna einstök atriði samningsins eða fara að hafa mörg orð um það, hversu óhagstæður hann sé frá fjárhagslegu sjónarmiði. Þetta hafa aðrir gert vel og rækilega bæði við umr. í Nd. og hér nú þegar í þessari hv. d. Og því síður ætla ég að fara langt út í þá sálma, þar sem ég vil lýsa því yfir þegar, að frá mínu sjónarmiði, þá er það að vísu illt, að þessir samningar eru í einstökum atriðum að því er fjárhagsefni varðar meingallaðir, en það er ekki aðalatriðið í mínum augum, að samningamenn okkar hafa í ákafa sínum við það að ná samningum við hið erlenda fyrirtæki, hvað sem það kostaði að því er virðist, samið um til að mynda óeðlilega lágt raforkuverð, boðið upp á mikil tollfríðindi og fleira af slíku tagi. Kjarni málsins frá mínu sjónarmiði er sá, hvort það sé rétt stefna eða röng að gera slíka samninga, hvort það er skynsamlegt eða óviturlegt að heimila erlendum auðfélögum að hreiðra um sig í íslenzku atvinnulífi með stórframkvæmdum þar. Um þetta meginatriði málsins vil ég einkum ræða.

Hitt er svo ekki nema sjálfsagt að undirstrika, að sé grundvallarstefnan röng og háskaleg, þá er hlutskipti fylgismanna samningsins og forsvarsmanna hans þeim mun verra, sem samningagerðin er okkur óhagstæðari, en dóm um þennan samning sjálfan held ég, að enginn hafi kveðið upp á skýrari eða skeleggari hátt heldur en einmitt forstjóri svissneska alúmínfyrirtækisins, herra Meyer. Hann var staddur hér á fundi, eins og hv. alþm. vita, á blaðamannafundi, hinn 29. marz, daginn eftir að þessir samningar voru undirritaðir, og þessi ágæti svissneski forstjóri hann var heldur en ekki hress í bragði og kampakátur á þessum fundi, að því er frá hefur verið skýrt. Þessi hispurslausi og hreinskilni útlendingur kvað sér enga launung á því, að félag hans hefði náð hér einstaklega hagstæðum samningum við íslenzk stjórnarvöld. Hann tók það fram, þessi svissneski forstjóri, og lagði á það mjög ríka áherzlu, að raforkan væri til muna ódýrari hér heldur en í nokkru öðru landi, sem félag sitt hefði viðskipti við, til að mynda 3 aurum ódýrari á kwst. heldur en í Noregi, þar sem raforka væri þó ódýrust í Evrópu, eða hefði verið fram til þessa. Hann kvað félag sitt aldrei hafa náð samningum um það fyrr, að innlendir dómstólar væru ekki látnir fjalla um ágreiningsmál alúmínfélagsins og stjórnarvalda, heldur skyldi alþjóðlegur gerðardómur um það fjalla. Þeir Svisslendingar, sagði forstjórinn, hefðu lagt mjög ríka áherzlu á þetta atriði, þar eð þeir treystu ekki íslenzkum dómstólum sakir reynsluskorts. Loks kvað hann félag sitt spara nærri hundrað millj. kr. á því að þurfa ekki að koma upp tækjum til hreinsunar á eiturefnum frá verksmiðjunni hérlendis, en slíkur hreinsunarútbúnaður væri yfirleitt tíðkaður og hans krafizt í öðrum Evrópulöndum a.m.k. Forstjórinn lét í ljós ánægju með það, að félag sitt hefði fengið inn í samninginn ákvæði um, að ágreiningur um framtöl og skattamál yrði ekki úrskurðaður af íslenzkum aðilum, heldur alþjóðlegum endurskoðunarfyrirtækjum. Loks viðurkenndi hann alveg hreinskilnislega, að fyrirtæki Swiss Aluminium í Noregi yrðu að lúta norskum lögum, þ. á m. að því er varðar tolla, en á þessu sviði væri allt annað uppi á teningnum í þeim samningi, sem nú hefði verið undirritaður hér.

Ég ætla að láta þennan dóm nægja að sinni um einstök atriði þessa samnings, en vil snúa mér að hinu, sem ég tel grundvallaratriði málsins, og það er að svara þessari spurningu: Er það rétt stefna og skynsamleg að semja við erlend auðfélög um stóriðjurekstur á Íslandi? Verði færð rök að því, að samningagerð við erlenda aðila um byggingu og rekstur alúmínbræðslu sé áhættulaus, sé æskileg og sé okkur Íslendingum hagkvæm, liggur þá ekki alveg beint við að halda áfram á slíkri braut og selja fleiri stóriðjufyrirtækjum útlendinga hér á landi? Um það hafa vissulega heyrzt ýmsar raddir á undanförnum missirum, að það eigi ekki að láta hér við sitja, þetta sé í rauninni aðeins upphafið, þar muni fram haldið. Það hefur verið tæpt á því, að fleiri alúmínbræðslur gætu komið til greina og kynni að verða samið annaðhvort við þetta tiltekna fyrirtæki eða önnur um að reisa fleiri alúmínverksmiðjur hér á landi. Nú, það hefur verið töluvert um það rætt, að erlendir aðilar komi hér upp olíuhreinsunarstöð, og loks hefur verið talað um það oftar heldur en einu sinni eða látið að því liggja, að jafnvel aðild útlendinga að fiskiðnaði á Íslandi gæti fyllilega komið til greina.

Ég vil segja það, að sé svo, að öll rök hnígi að því, að stórfelld fjárfesting erlendra auðfyrirtækja í íslenzku atvinnulífi sé ekki aðeins varhugaverð, heldur beinlínis háskaleg, þá ber vitanlega að hafna þessari leið, þá ber vitanlega að láta það ógert að staðfesta þann samning, sem hér liggur fyrir. Ég get ekki annað séð en að það sé nú komið að þeim tímamótum, að um það sé að velja, hvort eigi að fara inn á þessa braut í ríkum mæli eða hvort ekki eigi að fara inn á slíka braut. Ég fæ ekki annað séð heldur en að hér sé um stórkostlegt prinsipmál að ræða og að þessi eini samningur verði í raun og veru ekki skoðaður og metinn réttilega einn saman, heldur verði að líta á málið frá þeim sjónarhóli, hvort stóriðjurekstur á vegum útlendinga er almennt skoðað æskilegur hér á landi eða ekki. Svar við þeirri spurningu ræður algerlega afstöðu minni til þeirrar samningagerðar, sem hér um ræðir. Hitt kemur svo í annarri röð, þótt það skipti vitanlega verulegu máli, hvernig til hefur tekizt um þessa fyrstu samningagerð, hvernig um hnútana hefur verið búið af Íslendinga hálfu.

Enginn hefur mælt gegn því, að við Íslendingar höldum áfram á þeirri braut, sem þegar hefur verið mörkuð, að taka tækni og vísindi í okkar þjónustu, eftir því sem við höfum bolmagn til. Við höfum á síðari tímum byggt hér stór fyrirtæki á okkar mælikvarða, og það er augljóst mál, að við getum með vaxandi fólksfjölda og vaxandi þjóðarauði ráðizt í æ stærri verkefni á ýmsum sviðum, eftir því sem okkur vex fiskur um hrygg. Það er vitanlega enginn maður andvígur því, að við Íslendingar hagnýtum auðæfi okkar og orkulindir og að við notum til þeirra hluta erlent fjármagn, eftir því sem við getum aflað þess með eðlilegum leiðum, og þá mun okkur vera farsælast eins og áður að fara lánaleiðina, að hún verði aðalleiðin. Við vitum það, að með hverjum áratug, sem líður, ef svo fer fram sem horfir, að þjóðinni fjölgar verulega og hún eflist, þá á henni að geta tekizt að ráðast í æ stærri framkvæmdir fyrir eigið aflafé og það lánsfjármagn, sem hægt á að vera að afla til álitlegra fyrirtækja, og það liggur í hlutarins eðli, að við munum á komandi tímum ráðast í stórframkvæmdir í vaxandi mæli og framkvæmdir, sem vissulega munu ekki kafna undir því nafni að heita stóriðjuframkvæmdir.

Ég skal ekki neita því, að undir sérstökum kringumstæðum getur verið hugsanlegt og jafnvel æskilegt samstarf við erlenda aðila um tiltekin atriði að því er snertir að byggja upp stórfyrirtæki á Íslandi. Fyrir utan fjármagnið, sem ég tel, að við eigum að afla með venjulegum lánaleiðum, þá er það tvennt, sem trúlegt er, að við viljum og þurfum að sækjast eftir og getum e.t.v. og væntanlega aflað okkur án þess að okkur sé þar af neinn háski búinn.

Það er í fyrsta lagi, að við þurfum sjálfsagt í ýmsum greinum á að halda erlendri sérfræðiþekkingu, sérþekkingu, sem útlendir menn geta látið okkur í té a.m.k. í fyrstu, meðan við erum að byggja upp nýjar stofnanir og fyrirtæki, sem ekki hafa verið til í landinu áður.

Það er í öðru lagi, að við kunnum að þurfa á því að halda að ná með samvinnu við erlenda aðila söluaðstöðu fyrir ákveðnar framleiðsluvörur,söluaðstöðu á erlendum mörkuðum. Slík samvinna í sambandi við væntanlegar stóriðjuframkvæmdir okkar Íslendinga á komandi tímum ætti að sjálfsögðu að athugast hleypidómalaust hverju sinni, en þó að athugast gaumgæfilega, og vitanlega ber alltaf brýna nauðsyn til þess að af hálfu okkar Íslendinga verði þannig um hnútana búið í allri slíkri hugsanlegri samvinnu við erlenda aðila, að íslenzku efnahagslífi sé ekki háski búinn af þess konar samstarfi.

En í sambandi við öll slík mál, allt samstarf við öfluga erlenda aðila um atvinnuuppbyggingu á Íslandi, þá ber vitanlega stöðugt að hafa það í huga, að Ísland hefur mikla sérstöðu, það hefur algera sérstöðu vil ég segja að því er snertir smæð þjóðarinnar. Þetta örsmáa þjóðfélag okkar er ekki öflugra fjárhagslega heldur en ýmis erlend stórfyrirtæki. Slík stórfyrirtæki erlend velta mörg hver, býsna mörg, stærri upphæðum heldur en öll íslenzka þjóðin, og sum stórfyrirtæki hafa meiri mannafla í þjónustu sinni heldur en sem svarar öllum verkfærum mönnum á Íslandi. Þessarar sérstöðu okkar verðum við stöðugt að gæta í skiptum við erlenda aðila. Þetta á ekkert skylt við neina minnimáttarkennd eins og stundum er reynt að halda fram, þegar varað er við því, að við getum ekki leyft okkur suma þá hluti, sem miklu stærri og fjölmennari þjóðir geta að skaðlausu eða a.m.k. að skaðlitlu leyft sér. Hér er aðeins verið að líta algerlega raunsætt á staðreyndir, staðreyndir, sem okkur ber skylda til að hafa í huga og gleyma aldrei í skiptum okkar við erlent fjármagn og erlenda menn.

Ég vil fara nokkrum orðum um þá spurningu, hvernig stóriðja og annar meiri háttar atvinnurekstur hefur gefizt í þeim löndum, þar sem mikil brögð hafa verið að fjárfestingu af slíku tagi, og ég mun koma að því síðar, að þar er í öllum tilfellum um að ræða miklu fjölmennari og stærri lönd heldur en Ísland.

Ég held, að það fari naumast á milli mála, að allar þær þjóðir heims, sem búa við góð lífskjör, lífskjör, sem byggð eru á heilbrigðu og traustu efnahagslífi, þau hafa fylgt þeirri meginstefnu að nytja auðlindir sínar sjálfar. Þessar þjóðir, sem lengst hafa komizt á sviði efnahagsmála, þær hafa byggt upp eiginn atvinnuveg fyrir aflafé sjálfra sin og fyrir það lánsfé erlendis frá, sem fáanlegt var hverju sinni með eðlilegu og áhættulausu móti. Þær þjóðir aftur á móti, sem hafa lengst gengið í því að heimila erlendum aðilum margvísleg umsvif og atvinnurekstur innan sinna vébanda, eru, að ég hygg, flestar illa á vegi staddar fjárhagslega, og þar sem erlend auðfélög hafa náð sterkustum tökum á efnahagslífi þjóða, svo sem í Suður-Ameríku og ýmsum nýfrjálsum ríkjum Afríku og Asíu, þá er það ekki aðeins afkoma fólksins og allt efnahagskerfi þessara þjóða, sem er illa á vegi statt, heldur er hið stjórnarfarslega sjálfstæði einnig valt og sums staðar lítið meira heldur en nafnið eitt.

En þó að við lítum okkur nær, þá hygg ég, að við komumst að þeirri niðurstöðu, að jafnvel þau ríki, sem í minna mæli heldur en þessi, sem ég nú nefndi, hafa tekið erlent auðmagn í þjónustu sína á þann hátt, sem hér er ætlazt til með þessum samningi, hafi ekki eflzt eða auðgazt tiltakanlega á þeim hlutum.

Hvað er að segja um fordæmi Íra annars vegar og um fordæmi Norðmanna hins vegar, sem mjög mikið er hampað? Þetta hygg ég, að séu þær tvær vestrænar þjóðir, sem helzt verður vitnað til í sambandi við einhverja töluverða fjárfestingu erlendra aðila. Um Íra hygg ég, að það sé staðreynd, að þar eru lífskjör einna lökust á Vesturlöndum. Útlendingar hafa fest mikið fé í ýmsum fyrirtækjum á Írlandi, ekki sízt í hótelrekstri, og það munu Írar sjálfir viðurkenna flestir, að ég hygg, að þetta hafi ekki orðið þjóðinni til mjög mikillar gæfu, og ég hygg, að ýmsir áhrifamenn þar í landi þeir beiti sér nú eindregið gegn frekari innrás erlendra auðfélaga inn í þennan atvinnurekstur og fleiri tegundir atvinnurekstrar þar í landi og vilji fara ýmsar leiðir til þess að draga úr ofurvaldi þeirra útlendra fyrirtækja, sem fyrir eru í landinu.

En við skulum fara að dæmi Norðmanna, segja fylgismenn þessa samnings. Norðmenn hafa heimilað erlenda fjárfestingu í sínu landi án þess að til skaða yrði, segja menn og kveða jafnvel fastar að orði, að hin erlenda fjárfesting hafi átt sinn þátt í að byggja upp norskt atvinnu- og efnahagslíf. Ég held, að það sé ekkert á móti því að athuga þessa staðhæfingu örlítið nánar. Og þá held ég, að fyrst og fremst beri á það að líta, hversu mikil hin erlenda fjárfesting sé í Noregi miðað við stærð norsku þjóðarinnar og þjóðartekjur, og á hinn bóginn — og þá jafnframt, hversu mikil erlend fjárfesting mætti vera á Íslandi til þess að nema sama hlutfalli eins og slík fjárfesting er í Noregi. Athugum fyrst fólksfjöldann.

Noregur er að vísu smáríki, en í Noregi búa þó 3 millj. og 700 eða 800 þús. manna. Á Íslandi búa aðeins um 190 þús. manna. Þetta skulum við jafnan hafa í huga, að á móti hverjum einum Íslendingi eru 20 Norðmenn eða því sem næst, móti hverjum 100 Ísíendingum 2000 Norðmenn. Og hversu mikil er nú öll hin erlenda fjárfesting í Noregi? Hún mun vera einhvers staðar á milli 8 og 10 af hundraði heildarfjárfestingar í norskum iðnaði, og þess ber þá vitanlega að gæta, að þetta erlenda fé í fyrirtækjum í Noregi, það er ekki komið til á skömmum tíma, ekki á örfáum árum, heldur smám saman á mörgum árum, jafnvel áratugum. Og það er staðreynd, að skoðanir í Noregi eru skiptar um þjóðfélagslegt hagræði af þessari erlendu fjárfestingu í því formi, sem hún hefur stundum verið þar í landi. En er það nú þetta eða er það eitthvað, sem líkist þessu, því hvernig Norðmenn hafa fetað sig áfram í þessum efnum smám saman og stig af stigi, er það eitthvað því líkt, sem ætlunin er að innleiða hér á Íslandi með þeim samningi við hið svissneska félag, sem virðist eiga að verða fyrsti áfanginn á þeirri braut að hleypa erlendum fyrirtækjum inn í íslenzkt atvinnulíf? Nei, hér er um annað og miklu stórkostlegra að ræða, þegar miðað er við stærð þjóðarinnar og efnahagskerfi hennar. Hér er á ferðinni að þessu sinni eitt einasta útlent fyrirtæki, sem ællar að fjárfesta að því er mér virðist sem svarar 30–40 af hundraði allrar fjárfestingar í íslenzkum iðnaði, og er fiskiðnaðurinn þá með talinn.

Við skulum gera annan samanburð á Íslendingum annars vegar og Norðmönnum hins vegar. Við skulum segja, að erlendir auðhringir leggi jafnmikið fé í atvinnurekstur í báðum þessum löndum og framleiddu fyrir jafnháa fjárupphæð í hvoru landinu um sig. Væri framleiðsla þessara tilteknu útlendu fyrirtækja einn fertugasti hluti af ársframleiðslu Norðmanna, og ef fertugasti hver verkfær maður í Noregi starfaði í þjónustu slíkra fyrirtækja, hverjar væru þá samsvarandi tölur á Íslandi? Þær væru bókstaflega, að þarna væri um að ræða helming þjóðartekna okkar Íslendinga og helming verkfærra manna. Slíkur munur er á stærð þessara tveggja þjóða.

Þegar svo við þetta bætist sá munur, sem er og hefur verið á samningum Norðmanna við erlend fyrirtæki, þau erlend fyrirtæki, sem hafa fjárfest þar í landi, og á þeim samningi, sem hér hefur verið gerður við hið svissneska alúmínfélag og ætlazt er til, að Alþingi staðfesti, þá sést glögglega, að hér er um að ræða alls kostar ósambærilega hluti. Norðmenn hafa samið á þann veg, að þeir hafa svo að segja öll ráð í hendi sér um þróun þessara mála, en verður nú hið sama sagt um okkur Íslendinga, ef þessi samningur, sem hér liggur fyrir, nær staðfestingu Alþingis? Því virðist mér, að fari víðs fjarri. Nei, ég tel, að allar umr. um þessi mál, sem byggðar eru til að mynda á þeirri forsendu, að íslenzka og norska þjóðin séu sambærilegar og til að mynda ámóta öflugar, þær séu fjarri öllu lagi og hin háskalegasta blekking. Erlend fjárfesting í þeim mæli, sem hér er í uppsiglingu, á sér ekki mér vitanlega hliðstæðu í neinu nálægu ríki.

Fordæmin finnast að vísu, en við verðum að leita þeirra um langan veg. Auk hreinna nýlendna, þá býst ég við, að slíkra fordæma sé einkum að leita í ýmsum löndum Mið- og Suður-Ameríku, þar sem erlend auðfyrirtæki drottna yfir hag fólksins. Ég held, að það væri ekki öfundsvert hlutskipti að innleiða eitthvað, sem gæti leitt í áttina þá hér á Íslandi.

Þá langar mig til þess að víkja að því, hver sé dómur reynslunnar um erlenda hlutdeild og erlend yfirráð eða erlend áhrif, skulum við segja, í íslenzku efnahags- og atvinnulífi á liðnum tímum. Sú var vissulega tíðin, að Íslendingar máttu reyna það, hver gæfa fylgdi eignarrétti erlendra manna á mikilvægum þætti í þjóðarbúskap þeirra. Ég hef veitt því athygli í sambandi við þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál, bæði í blöðum og sömuleiðis í hv. Nd., að ýmsir talsmenn þessa samnings og þá ekki sízt hæstv. forsrh. hafa verið að leita röksemda í íslenzkri sögu sínu máli til stuðnings. Ég held, að það sé í sjálfu sér æskilegt og engin vanþörf á að ræða þetta mál dálítið nánar og leiðrétta tilteknar skekkjur, sem mér virðist að hafi komið fram í þeim umr.

Ég ætla ekki að fara langt aftur í aldir til þess að rekja sögu ófarnaðar þjóðarinnar, meðan hún var háð erlendu valdi og gat hvergi hreyft sig í spennitreyju annarlegra yfirráða. En ég vil í sambandi við þetta atriði málsins minna á dóm sögunnar. Ég hefði haldið, að flestir Íslendingar gerðu sér þess sæmilega ljósa grein, hver var kjarni sjálfstæðisbaráttu okkar á 19. öld, hver var meginstefna þeirra manna, sem þá börðust fyrir íslenzkum yfirráðum á íslenzku landi. En mér virðist, að nú sé ekki vanþörf á að minna á þessa staðreynd, minna á það, að frelsisbarátta okkar á 19. öld var ekki einungis háð um stjórnarfarsleg réttindi. Þar var engu síður barizt fyrir efnahagslegu og menningarlegu sjálfstæði þjóðarinnar, og snarþáttur í allri þeirri baráttu var sá að færa verzlunina á innlendar hendur, að efla íslenzka atvinnuvegi til lands og sjávar. Þeir, sem börðust þessari baráttu, gerðu sér það fullkomlega ljóst, að því aðeins yrði þar sigur unninn, að Íslendingar hættu stig af stigi að lúta forsjá útlendra manna á öllum sviðum, þeir tækju sín málefni í eigin hendur, verzlunina, siglingarnar og allan atvinnurekstur í landinu. Fyrir þessu barðist sú kynslóð, sem Jón Sigurðsson var foringi fyrir, og sú kynslóð, sem tók við merkinu að Jóni Sigurðssyni föllnum, og fyrir því barðist einnig fyrsta kynslóð 20. aldar, menn eins og Skúli Thoroddsen, Bjarni frá Vogi, Benedikt Sveinsson yngri, svo að nokkrir séu nefndir. Og þessum mönnum og samherjum þeirra varð mikið ágengt. Þessari stefnu hefur verið haldið fram síðan með þeim árangri, sem okkur er öllum kunnur. Á þeim rúmum 60 árum, sem eru liðin síðan framkvæmdavaldið fluttist inn í landið, hefur þjóðinni tekizt að byggja upp atvinnuvegi sína. Henni hefur tekizt að tileinka sér í verulegum atriðum nútímatækni og það með þeim árangri, að lífskjör eru í dag betri hér heldur en nokkru sinni áður og betri heldur en í mörgum öðrum löndum, og ég vil segja, að nú séu öll ytri skilyrði fyrir hendi til þess, að við bætum lífskjör okkar og eflum verulega á komandi tíð. Við stöndum í miðri uppbyggingunni, og þótt mörgu hafi þegar verið þokað á réttan veg, bíða vitanlega fjölmörg verkefni óleyst. Ég ætla ekki að fara út í þau nánar hér. Við vitum, að þau eru hvarvetna, en tvö af þeim nærtækustu og mikilvægustu vil ég aðeins nefna, af því að ég tel, að sá samningur, sem hér er um að ræða, geti haft veruleg áhrif á framgang þeirra, hvernig tekst til um, að þau nái fram að ganga.

Hið fyrra atriði, sem ég vil aðeins nefna, er efling íslenzks iðnaðar og þá alveg sérstaklega fiskiðnaðar okkar. Það hefur verið sýnt fram á það með fullum rökum, að hægt sé með stórbættri nýtingu og aukinni vinnslu sjávarafurða að tvöfalda útflutningsverðmæti þeirra, án þess að magnið sé aukið frá því, sem nú er. Það er einnig ljóst, að á sviði fiskræktar í ám, vötnum, lónum og fjörðum bíða okkar mjög miklir, ég vil jafnvel segja stórkostlegir möguleikar, sem enn eru að mjög litlu leyti notaðir. Þar getur vissulega verið um að ræða framleiðslu á dýrum fisktegundum, laxi og silungi, fyrir stórfé á ári hverju.

Síðara atriðið, sem ég vil nefna í þessu sambandi, er svo baráttan við þann vágest, sem erfitt hefur reynzt að glíma við, baráttan við óðaverðbólguna, sú barátta, sem við verðum að heyja með betri árangri en undanfarið, ef efnahagskerfi okkar á ekki bókstaflega að sporðreisast. En hvaða áhrif hefur nú það alúmínævintýri, sem hér á að stofna til, hvaða áhrif hefur það á verðbólguna, hvernig mun ganga að glíma við þetta brýna viðfangsefni, þegar það bætist ofan á?

Ég vil segja, að að því er þessi atriði bæði snertir, hlýtur framkvæmd þeirra samninga, sem hér er um að ræða, að hafa stórkostleg áhrif. Það er ekki annað sýnna en bygging alúmínverksmiðju samhliða stórvirkjun við Búrfell að verulegu leyti í þágu þeirrar verksmiðju sé hrein og bein ógnun við sjávarútveg og fiskiðnað okkar. Nú þegar, áður heldur en þessar framkvæmdir eru hafnar, er vinnuaflsskortur í sjávarútvegi mjög tilfinnanlegur og háir honum verulega. En hvað mun þá síðar verða? Og að því er snertir hitt atriðið, sem þessi samningagerð hlýtur að hafa stórkostleg áhrif á, verðbólguþróunina, held ég, að öllum sé það ljóst, að nú, þegar farið verður að efna til þeirra stórframkvæmda, sem á að gera í framhaldi af þeirri samningagerð, sem hér um ræðir, hefst á þeim vettvangi þvílíkur hrikadans, að við höfum naumast séð annað eins. Það má geta nærri, hvaða áhrif það hlýtur að hafa, þegar allt verður uppi á teningnum í senn auk okkar venjulegu atvinnuvega, stórvirkjun Búrfells, bygging alúmínverksmiðju í Straumsvík, bygging nýrrar hafskipahafnar hjá Straumi, hernámsframkvæmdir í Hvalfirði og fleira jafnvel af slíku tagi. Öll þessi miklu umsvif og öll þessi mannvirkjagerð er fyrirhuguð á þeim svæðum, þar sem atvinna í dag er þegar yfirfljótanleg og mannekla er eitt allra helzta vandamálið. Það má því ljóst vera, hver örlög bíða þeirra landshluta, þar sem atvinnuhorfur í dag eru lélegar og fólksflótti er ýmist þegar hafinn eða er algerlega yfirvofandi. Ég held, að það sé mikil hætta á því, að mörgum manninum á Vestfjörðum og á Norðurlandi fári að þykja nokkuð löng biðin eftir þeim skildingum, sem eiga að renna þangað í eins konar sárabætur af hinum heldur óverulegu sköttum, sem alúmínbræðslan á að greiða, eftir að hún er komin upp og tekin til starfa. Ég held, að það sé mála sannast, að sú jafnvægislist, sem hér á að fremja með því að staðsetja þessi stórfyrirtæki hér í fjölmenninu, þar sem atvinnan er langmest fyrir, hljóti að kalla á örari fólksflótta til þéttbýlissvæðanna við Faxaflóa heldur en nokkru sinni, og ég er uggandi um það, að alveg á næstu missirum geti þetta allt lagzt á eitt um það, að úr verði svo að segja alger kollsteypa og endanleg röskun byggðajafnvægis í þessu landi.

Sagan um baráttuna fyrir umráða- og eignarrétti á íslenzkum fallvötnum, sem háð var á fyrsta fjórðungi þessarar aldar, er að mínu viti nokkuð glöggt dæmi um það, að þá var hin fjölþætta eða alhliða sjálfstæðisbarátta okkar enn tiltölulega öflug og sigursæl. Ég ætla að víkja að þessu máli stuttlega, af því að ég tel, að það sé á ýmsan hátt skylt því stórmáli, sem hér er um að ræða.

Fossamálið, sem mikið var umdeilt og umrætt á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar, er að mínu viti eitt af fyrstu merkjum þess í nýrri tíð, eftir að við höfðum öðlazt að mestu fullt sjálfstæði, fyrsta merki þess, að forustumenn þjóðarinnar áttu að vera og urðu að vera vel á verði og gjalda varhuga við sókn erlendra auðfélaga til efnahagslegra áhrifa í landinu og til yfirráða yfir dýrmætum aflgjöfum og orkulindum þessa lands.

Þegar í byrjun aldarinnar, áður en menn hér höfðu almennt gert sér ljósa þýðingu fossaaflsins, ljósa þýðingu þess til beizlunar á raforku, tóku erlendir menn og erlend félög að líta íslenzk fallvötn hýru auga og fóru smám saman að afla sér réttinda í því sambandi. Með lögum frá 1907 um takmörkun á eignar- og umráðarétti á fossum á Íslandi, um eignarnám á fossum o.fl. hygg ég, að afskipti Alþ. af vatna- og raforkumálum hefjist hér á landi, a.m.k. svo að nokkru nemi. Þessi fyrsta lagasetning um slík efni var, að því er ég hygg, góðra gjalda verð og töluvert spor í rétta átt á sinni tíð, þótt þar væri ekki nægilega vel og traustlega um alla hnúta búið til þess að koma í veg fyrir brask með fossaréttindi. En árið 1917 var þrátt fyrir takmarkanir þessara laga svo komið, að erlendir aðilar og íslenzkir einkaaðilar, stundum leppar hinna erlendu aðila, höfðu náð eignarrétti á ýmsum mjög mikilsverðum fallvötnum hér á landi. Þá var og mjög um það deilt, hvort og með hvaða kjörum ætti að veita hlutafélögum, sem að mestu voru erlend, lögheimild til þess að virkja fossa hér á landi.

Á þinginu 1917 var skipuð hin svonefnda fossanefnd, en hún skyldi hafa eftirfarandi hlutverk: Að athuga, hverjar breytingar nauðsynlegt sé að gera á gildandi fossalöggjöf, að afla sem ítarlegastra. upplýsinga og skýrslna um fossa í landinu og notagildi þeirra, að athuga, hvort tiltækilegt sé, að landið kaupi vatnsafl og starfræki það. Verk þessarar n. var víðtækt og mikið, og þar náðist ekki samkomulag um ýmis veigamikil atriði. Á þinginu 1918 lagði þó meiri hl. n. fram ítarlegt frv. til vatnalaga, frv. um vatnastjórn, frv. um raforkuvirki, vatnsorkusérleyfi o.fl. Ekkert af þessum mörgu frv. og ítarlegu varð útrætt á þessu þingi, en til bráðabirgða var samþ. merk ályktun, sem svo hljóðaði:

Alþ. ályktar að skora á landsstjórnina að lýsa alla vatnsorku í almenningum eign ríkisins og gera, ef með þarf, ráðstafanir til þess, að rifting fari fram á gerningum milli einstaklinga eða félaga, er í bága kynnu að koma við þennan rétt þjóðfélagsins.“

Um þessi vatnamál urðu miklar deilur á næstu þingum, en það var sýnt, að meiri hl. Alþ. vildi marka eindregna stefnu, þá stefnu, að íslenzka ríkið eignaðist vatnsréttindin og hefði alla fyrirsögn um hagnýtingu þeirra, og þetta náði fram að ganga. Vatnal. voru loks samþ. á Alþ. 1923, og þau eru í meginefnum í gildi enn í dag, enda hinn farsælasti grundvöllur þeirrar þróunar, sem hér hefur orðið í raforkumálum síðustu áratugi.

Ég held, að það sé örðugt að gera sér í hugarlund, hvernig umhorfs væri hér á landi í dag, ef öndverð stefna þessari hefði á öðrum áratug þessarar aldar borið sigur af hólmi. Við hefðum sjálfsagt fengið upp úr því erlenda stóriðju fyrir nokkrum áratugum inn í þetta land. Hér væru trúlega áburðarverksmiðjur, kannske sementsverksmiðjur og e.t.v. alúmínverksmiðjur reknar af útlendum auðfélögum, auðfélögum, sem ættu sín eigin orkuver hérna, við Sogið, við Þjórsá, við Dettifoss og víðar. Þessum framkvæmdum útlendinga hér hefði vafalaust ýmislegt fylgt, svo sem atvinna og peningar. Ég efa það ekki. Fjöldi Íslendinga væri í þjónustu þessara erlendu fyrirtækja. En arðurinn af vinnu þeirra, gróðinn af orkuveitum og iðjufyrirtækjum rynni allur út úr landinu.

Hvernig væri í dag komið atvinnurekstri Íslendinga sjálfra, ef mörg slík stórfyrirtæki hefðu risið hér upp á 2. og 3. áratug þessarar aldar? Hver hefðu þá orðið örlög íslenzks sjávarútvegs og íslenzks iðnaðar, hverjir hefðu orðið þróunarmöguleikar þeirra? Hversu væri háttað hér um menningarlíf og jafnvel stjórnarfarslegt sjálfstæði landsins? Þetta eru spurningar, sem engin leið er að svara, en ég hygg, að við hefðum gott af að leita svara við, hver með sjálfum sér. Og það er sérstök ástæða til að hugleiða þetta nú, þegar ráðamenn hér stefna að því markvisst, að því er virðist, að opna útlendum auðfélögum leið inn í íslenzkt atvinnulíf. Það er sérstök ástæða til að svara þeirri spurningu, hvort á að halda áfram á grundvelli hinnar gömlu sjálfstæðisbaráttu, hvort á að halda áfram að byggja upp íslenzka atvinnuvegi með tilstyrk nútímatækni fyrir eigið aflafé og fyrir það lánsfé, sem fáanlegt er eftir eðlilegum og hættulausum leiðum á hverjum tíma, eða á nú að hverfa frá þessari stefnu. sem ég tel að hafi orðið okkur einkar farsæl og muni verða það í framtíðinni? Á að hverfa frá henni, á að fara að bjóða erlendum auðhringum að nytja auðlindir landsins? Þetta er mergurinn málsins. Það er þetta, sem ég tel að deilan um þessa samninga snúist um öllu öðru framar, hvort hér á að fara inn á algerlega nýja braut eða ekki, því að ef menn segja, að þessi samningur sé góður fyrir okkur og af honum muni margt gott leiða, þá er sjálfgefið, að hinir sömu menn telji rétt og sjálfsagt að halda áfram á þessari braut og semja við næsta auðfélagið að ári og þar fram eftir götunum. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvað hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Það er nú ekki mjög mikið. (Forseti: Ég var að hugsa um að fresta fundi núna kl. hálfátta.) Dálítið er það þó.

(Forseti: Já, eigum við þá ekki að fresta ræðunni?) Já, það er einmitt það. — [Fundarhlé.]

Þegar ég gerði hlé á máli mínu um kvöldmatarleytið, hafði ég farið nokkrum orðum um þá reynslu, sem ég taldi okkur Íslendinga hafa haft af erlendri fjárfestingu og erlendri íhlutun í íslenzkt atvinnulíf. Ég mun nú halda áfram, þar sem frá var horfið.

Ef við lítum um öxl og hyggjum að því, hvað sagan kennir okkur um þá farsæld eða þau óhöpp, sem leiðir af atvinnurekstri erlendra manna hér á landi, held ég, að það blasi við fleiri dæmi til viðvörunar heldur en hin, sem hvetja til eftirbreytni. Það er í sjálfu sér ástæðulaust að benda á mörg dæmi um þetta. Ég ætla ekki að fara langt aftur í tímann til þess að rökstyðja þessa skoðun. Það er þó ástæða til að benda á það ástand, sem hér ríkti á 19. öldinni í þessum efnum, þegar erlendir aðilar höfðu margvíslegan atvinnurekstur með höndum hér á landi. Og ég vil ítreka það, að það var einn stærsti þátturinn í baráttu forustumanna okkar á 19. öld fyrir auknu sjálfsforræði að fá þessi réttindi og þessa aðstöðu í hendur íslenzkra manna og íslenzkra aðila. Ég vil jafnframt benda á það, að þáttur útlendra manna í sjávarútvegi hér er ekki sérlega hvetjandi til þess, að við hverfum inn á þær brautir að nýju að fela erlendum aðilum svo og svo mikla hlutdeild í atvinnurekstri hér á landi.

Undantekningarnar frá því, að þar væri um miður heppilega hluti fyrir okkur Íslendinga að ræða, þar sem var útgerð erlendra manna hér, eru að vísu til, en þær eru fáar, og þær voru einkum þær, þegar það gerðist, sem stundum kom fyrir, að röskir og athafnasamir erlendir menn settust hér að og gerðust íslenzkir ríkisborgarar. En að öðru leyti hygg ég, að hér hafi oftar verið um að ræða víti til varnaðar heldur en fordæmi til eftirbreytni.

Ég ætla að láta nægja að benda á eitt dæmi að því er varðar slíkan atvinnurekstur útlendinga, eitt dæmi frá þessari öld, og ég hef valið það dæmi frá Hafnarfirði, þar sem nú er mjög slegið á þá strengi, að Hafnarfjarðarbær muni njóta alveg sérstakra gæða og tekna í sambandi við alúmínverksmiðjuna í Straumsvík og höfnina, sem þar á að byggja, og í sambandi við öll umsvif, sem því hljóta að fylgja. Ég vil vekja athygli á því, að árið 1910 keypti brezkt útgerðarfélag stóra fiskverkunarstöð í Hafnarfirði. Þetta brezka útgerðarfélag hóf síðan útgerð frá Hafnarfirði jafnhliða fiskverkun, sem það hafði þar í stórum stíl, og þessi umsvif hins brezka félags fótu um skeið vaxandi ár frá ári. Þetta félag átti hér og gerði út frá Hafnarfirði um skeið 4 togara, og fleiri enskir togarar lögðu þarna upp afla sinn og um tíma einnig hollenzkir togarar. Þetta fyrirtæki hafði þarna sem sagt mikil umsvif, því að auk þessarar útgerðar og þessara kaupa af erlendum skipum keypti fyrirtækið fisk af Íslendingum í allstórum stíl og var orðið langstærsti atvinnurekandi í Hafnarfirði, þegar það hafði starfað þarna í nokkur ár, og ég býst við, að þetta félag hafi a.m.k. um 4–5 ára skeið verið einhver allra stærsti atvinnurekandi, sem þá var á Íslandi. Hjá þeim starfaði þá verkafólk svo að hundruðum skipti, ég veit ekki hversu mörgum hundruðum, en það skipti nokkrum hundruðum. Þeir forustumenn þessa félags, og þeir, sem helzt höfðu hér afskipti af málum að því er varðaði reksturinn á Íslandi, voru, að því er mér er sagt, myndarmenn og nutu töluverðra vinsælda sem atvinnurekendur. En þeir þóttu hins vegar býsna einráðir, og þeir voru sérstaklega andvígir öllum afskiptum ríkisvalds af málum, og verkalýðshreyfingin var hreint og beint eitur í þeirra beinum.

Árið 1916, þegar þetta fyrirtæki hafði starfað í 6 ár hér á landi, aðallega í Hafnarfirði, og eftir að dýrtíð af völdum styrjaldarinnar þá fór vaxandi með hverjum mánuði, auglýsti verkamannafélagið Hlíf í Hafnarfirði nýjan kauptaxta fyrir verkamenn þar í bæ. Það var ákveðið í þessum kauptaxta, að kaup karlmanna skyldi vera 40 aurar á klst. og kaup kvenna 30 aurar, og jafnframt var tekið upp ákvæði, sem ekki mun hafa verið áður, um það, að almennur vinnudagur skyldi takmarkaður og þó ekki meira en svo, að hann skyldi vera frá kl. 6 að morgni til kl. 7 að kvöldi. Annar aðalforstjóri fyrirtækisins, sem þá var staddur í Bretlandi, fékk tilkynningu um þennan nýja kauptaxta verkamannafélagsins Hlífar í Hafnarfirði. Hann sendi verkamannafélaginu Hlíf símskeyti um hæl, og í íslenzkri þýðingu er það eitthvað á þessa leið:

„Ég get ekki viðurkennt verkamannafélög. Þau valda öllum löndum tortímingu og leiða verkalýðinn afvega. Það á að borga verkamönnum okkar nægilega vel, svo framarlega sem þeir eru ekki í verkalýðsfélagi.“

Og litlu síðar barst verkamannafélaginu Hlíf bréf frá þessum ágæta forstjóra, þar sem segir m.a.:

„Hér með staðfestum við áðurnefnt símskeyti. Okkur þykir leitt, að við getum ekki viðurkennt verkamannafélög og getum því ekki tekið til greina uppástungur ykkar. En þrátt fyrir það munum við taka til alvarlegrar íhugunar kauphækkun handa verkafólki, handa okkar verkafólki, þó með því skilyrði, að það sé ekki meðlimir í verkamannafélaginu. Það er tilætlun okkar, að Hafnfirðingum sé fyllilega goldið fyrir þeirra verk eftir verðleikum, og við teljum líklegt, að það sé kunnugt í Hafnarfirði, að við höfum ekki lagt í vana okkar að skrúfa niður verkalaun. Við erum ekki mótfallnir því að gjalda þeim gott kaup, sem vinna verk sín með trúmennsku, en við erum stranglega mótfallnir því að hækka kaup þeirra, sem ætlast til, að þeim sé goldið fyrir það að gera lítið eða ekki neitt. Að endingu viljum við minnast þess, að verkamannafélög valda að okkar áliti falli flestra þjóða. Við álítum, að því fyrr sem öll verkamannafélög eru niður lögð á Íslandi, því betur sé farið fyrir landið. Ef verkafólk okkar er ekki ánægt með að fela þetta efni algerlega í okkar hendur, án þess að fara í verkamannafélög, verðum við að fá fólk frá öðrum stöðum. Við álítum a.m.k. okkar verkafólk upp úr því vaxið að fara að ráðum slíks félags eftir þær viðgerðir, sem það hefur fengið hjá okkur á umliðnum árum. Á komandi tímum munum við ekki hafa samhygð með meðlimum verkamannafélaga.“

Ég ætla nú ekki að rekja hér frekar heldur en ég hef nú gert viðskipti þessa brezka útgerðarfyrirtækis við verkalýðssamtökin í Hafnarfirði, þó að sú saga sé um margt dálítið lærdómsrík. Nú munu margir segja, að það séu breyttir tímar frá því, að þetta var. Það ríki annar hugsunarháttur, bæði hér og erlendis, gagnvart verkalýðsfélögum o.s.frv. En hins er þó að gæta, að það mun alltaf koma fram, þegar um erlenda aðila er að ræða, að þeirra skoðanir og þeirra hugsunarháttur er gjarnan allur annar en Íslendinga, og það er hætt við, að sú verði raunin, ef svo fer, að útlendingar eiga verulega hlutdeild í atvinnulífi á Íslandi, að eitthvað slíkt geti endurtekið sig, þó að í nýrri mynd verði. En ég vil geta þess hins vegar stuttlega, þar sem ég tel, að af því megi líka draga ákveðna lærdóma, hver urðu endalok þessa umsvifamikla og stóra brezka atvinnurekanda í Hafnarfirði. Árið 1922, eftir 12 ára störf hér, hætti þetta fyrirtæki skyndilega og algerlega fyrirvaralaust öllum atvinnurekstri í Hafnarfirði og öllum atvinnurekstri hér á landi. Að sjálfsögðu var þetta mjög mikið áfall fyrir Hafnarfjörð alveg sérstaklega svo og aðrar þær byggðir, þar sem þetta stóra fyrirtæki hafði haft verulegan atvinnurekstur. Og þessi skyndilega breyting, sem þarna varð, hafði það að sjálfsögðu í för með sér, að það varð mjög alvarlegt atvinnuleysi í Hafnarfirði og afkoma bæjarbúa versnaði stórlega. Svo alvarlegt var ástandið um tíma, að það var haldinn almennur borgarafundur í Hafnarfjarðarbæ vegna þess mikla vanda, sem þarna hafði skapazt, og þangað voru boðaðir tveir þáv. ráðh. til þess að fjalla um þetta mikla vandamál bæjarfélagsins. Og það var álit fundarmanna, að það steðjuðu slík vandkvæði að bæjarbúum og bæjarfélaginu, að það þyrfti jafnvel að leita á náðir hins opinbera til þess að bæta úr því brýnasta, sem þurfti að gera til þess að halda þarna uppi einhverri atvinnu. Og það er tekið fram, að ræður manna hafi fallið mjög á eina leið um það, að ef ekki yrði úr bætt og það mjög skjótlega, mundu fasteignir stórfalla í verði í Hafnarfirði og væru þegar farnar að falla í verði, fjöldi manns yrði að flytjast búferlum úr bænum, og væri þó næsta ólíklegt, að þeir gætu selt húseignir sínar og aðrar eignir þar, því enginn kaupandi mundi fást að þeim. Með því móti að taka erlend skip á leigu og með ýmsum öðrum ráðstöfunum, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér, tókst að forða hreinu neyðarástandi í Hafnarfirði í sambandi við þessar stórbreytingar, sem þarna urðu. En það má geta nærri, hvort þetta var ekki alvarlegt áfall fyrir ungt bæjarfélag, sem hafði verið í örum vexti.

Ég held, að þessir atburðir og sömuleiðis stutt og nokkuð snubbótt útgerðartímabil annars brezks útgerðarfélags í Hafnarfirði, Helliersfélagsins, þetta eigi að geta fært Hafnfirðingum og öðrum heim sanninn um það, að það getur verið valt að byggja lífsafkomu sína á duttlungum erlendra atvinnurekenda, þar sem gróðasjónarmiðið eitt ræður og ekki annað. Ég er þess fullviss, að ýmsir gera sér þetta ljóst í Hafnarfirði þegar í dag, og í þessum efnum ríkja í rauninni sömu lögmálin og ríktu fyrir 40 árum, þó að tímarnir séu breyttir á ýmsa aðra lund.

Ég ætla mér ekki þá dul að fara að elta ólar við ýmsar firrur og jafnvel hreinar fjarstæður, sem ýmsir talsmenn þessara alúmínsamninga hafa haldið fram, sérstaklega í blöðum sínum, en einnig nokkuð hér á hv. Alþ. Eina af þessum firrum ætla ég þó aðeins að gera að umtalsefni dálítið frekar heldur en ég gerði í fyrri hluta ræðu minnar hér í dag. Það er sú staðhæfing, að andstaðan við þessa samninga, andstaðan við þá samninga, sem nú hafa verið gerðir og verið er að leita fullgildingar Alþ. á, sé sérstakur vottur um þröngsýni og afturhaldssemi þeirra manna, sem þar mæla í gegn. Það er reynt með öllu móti að stimpla þá, sem eru andstæðir þessum samningum, sem einhverja afturhaldsmenn og aftur koma því orði á hina, sem fyrir samningunum berjast, að þeir séu sérstakir framfaramenn og sá framfaravilji komi fram í þessu, að þeir séu óhræddir við það að greiða fyrir stóriðjuframkvæmdum á Íslandi. Þessu er hvað eftir annað haldið fram og borið blákalt fram, enda þótt fram á það sé hins vegar sýnt með óyggjandi rökum, að okkar Íslendinga bíða stórfelld verkefni við uppbyggingu okkar eigin atvinnuvega, við uppbyggingu fiskiðnaðar og margvíslegs annars iðnaðar, sem vitanlega verður að einhverju verulegu leyti að bíða enn um sinn og hlýtur jafnvel að gjalda verulegt afhroð vegna þeirrar röskunar, til að mynda aðeins á atvinnumarkaðinum, sem þetta alúmínglæfraspil hlýtur að valda í íslenzku þjóðlífi á komandi árum.

Nei, andstaðan við þessa samninga, sem af talsmönnum hæstv. ríkisstj. og af sumum hæstv. ráðh. sjálfum er talin hliðstæð baráttu ýmissa íhaldssamra afla fyrr og síðar, sem þæfast fyrir þjóðnytjamálum, þessi andstaða er af allt öðrum rótum runnin. Hún er af þeim rótum runnin, að hér er um að ræða að okkar dómi, sem andstæðir þessari samningagerð erum, í fyrsta lagi stórfelldar réttindaveizlur, sem á að veita erlendu auðfélagi, og þær verða á engan hátt bornar saman við það, þegar Íslendingar sjálfir koma sér upp atvinnutækjum eða nýta eigin auðlindir, hvort heldur þeir gera það fyrir eigið fé eða lánsfé. Hér er í raun og veru um það að ræða, sem flokksbróðir hæstv. iðnmrh., Sigurður Líndal hæstaréttarritari, kallaði alveg nýlega öfuga sjálfstæðisbaráttu. Í grein í Morgunblaðinu 23. marz s.l., — sú grein fjallaði að vísu einkum um sjónvarpsmálið, — leggur Sigurður Líndal alveg réttilega áherzlu á, að sjálfstæðisbarátta Íslendinga hafi verið háð fyrir því, að þjóðin heimti yfirráð málefna sinna í eigin hendur, svo að hún gæti ráðið þeim án íhlutunar annarra, og hann segir í þessari grein:

„Sjálfstæðisbaráttan var háð vegna illrar reynslu af því að lúta forsjá og stjórn útíendra manna. Með sjálfstæðisbaráttunni heimti þjóðin ráð málefna sinna í eigin hendur, bæði stjórnvald en einnig yfirráð þeirrar atvinnustarfsemi, sem var í höndum útlendra manna, svo sem verzlunar og siglinga.“

Sigurður spyr að greinarlokum, hvort nú eigi að hverfa frá þeirri grundvallarstefnu, sem hingað til hefur ríkt, að Íslendingar ráði málum sínum sjálfir án íhlutunar annarra, m.ö.o., að sjálfstæðisbaráttunni skuli snúið við, eins og hann orðar það.

Þó að þessi ummæli Sigurðar Líndals séu einkum sögð með sjónvarpshneykslið frá Keflavík í huga, fæ ég ekki betur séð en þau eigi nákvæmlega eins við um alúmínævintýrið, enda er það sannast sagna, að þarna eru, þegar lengra er skyggnzt, ákveðin tengsl á milli, hvort tveggja sjónvarpsmálið og alúmínmálið eru af sömu rótum runnin. Þetta eru tvö dæmi, að því er ég bezt fæ séð, um þá vanmetakennd valdamikilla manna í okkar þjóðfélagi nú í dag, vanmetakennd þeirra, sem kemur fram í margvíslegum skiptum þeirra við aðrar þjóðir og skiptum við erlend auðfélög. Þetta eru tvö dæmi um þá ráðamenn, sem eru í þindarlausri leit að móðurskipinu, sem kynni að vilja kasta spotta til litlu doríunnar, íslenzka ríkisins, eða kippa henni jafnvel hreinlega um borð. Nei, saga núv. ráðamanna íslenzkra í skiptum við aðrar þjóðir er þegar vörðuð nægum óhöppum og slysum, þó að ekki bætist fleira við.

Efnahagsbandalagsævintýrið, sem að vísu var stöðvað, a.m.k. í bili, og þó fyrir annarra tilverknað heldur en íslenzkra ráðamanna eða Íslendinga, landhelgissamningurinn við Breta, hermannasjónvarpið, hernaðarframkvæmdirnar í Hvalfirði. Ég held, að það sé meira en nóg komið af þvílíkum hlutum, þvílíkum verknaði, þó að alúmínsamningurinn með öllum sínum háskalegu og niðurlægjandi ákvæðum bætist ekki í þennan hóp. Alþ. hefur að mínum dómi enga siðferðilega heimild til að fullgilda slíka samningsgerð sem þessa, — samningsgerð, sem er niðurlægjandi fyrir þjóðina, felur í sér réttindaafsal og býður margvíslegum hættum heim. Slíkt frumvarp á að fella.