29.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til I. á þskj. 434 um lagagildi samnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðslu við Straumsvík hefur verið til athugunar í sjö manna n., sem vann að málinu með n. frá hæstv. Nd. N. beggja þd. klofnuðu í máli þessu, og mæli ég hér fyrir meiri hl. álbræðslunefndar hæstv. Ed.

Þingnefndirnar fengu til viðræðna við sig helztu sérfræðinga, sem unnið hafa að máli þessu f.h. ríkisstj. Á sameiginlegum fundi n. mættu m.a. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Eiríkur Briem forstjóri Landsvirkjunar, Hjörtur Torfason lögfræðingur, Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri og Steingrímur Hermannsson framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins.

Á fundi með Ed.-nefndinni kom til viðræðu við n. Jakob Gíslason raforkumálastjóri.

Meiri hl. álbræðslunefndar þessarar hæstv. þd. leggur fram álit sitt á þskj. 635.

Ég bið hæstv. þdm..að hafa biðlund, þótt ég verði nokkuð langorður, en ég mun freista þess að hafa bætandi áhrif á þá þdm., sem enn hafa ekki viljað tjá sig fylgjandi þessu þjóðþrifamáli.

Það er ekki óeðlilegt, að menn velti fyrir sér, þegar svo stórir samningar eru gerðir sem hér er um að ræða, hver sé viðsemjandinn og hvaða líkur séu til þess, að hann standi við sína samninga og gefin loforð. Eru svo líkindi til þess, að þessi aðili hafi hug á að beita áhrifum sínum hér á landi til íhlutunar um íslenzk málefni eins og slegið hefur verið fram hér af andstæðingum málsins?

Sviss er lítið land, aðeins 2/5 hlutar af stærð Íslands, innilukt stórveldum á allar hliðar, Þýzkalandi, Ítalíu, Frakklandi og Austurríki. Íbúatala landsins er tæpar 5 milljónir. Þessi litla þjóð hefur ekki beitt vopnum eða ásælzt lönd annarra, heldur kappkostað að sýna ýtrasta hlutleysi allt frá því að hún hlaut fullt sjálfstæði á 17. öld. Svisslendingar hafa á sér mestan alþjóðablæ allra þjóða, enda eru tungumálin þrjú, öll jafnrétthá, þýzka, franska og ítalska. Þjóðin er rík, vinnusöm og viðskipti öll við Svisslendinga talin hin ábyggilegustu.

Fyrirtækið í Sviss, sem hér hefur gengið til samninga við Íslendinga, Swiss Aluminium Ltd., er gamalt og rótgróið hlutafélag, stofnað 1888. Félagið er stofnað til að sannprófa og nýta uppfinningu um rafgreiningu og framleiðslu á áll, en þess má geta í þessu sambandi, að 8% jarðskorpunnar samanstendur af þessu efni. Á sama tíma inniheldur jarðskorpan aðeins 5% af járni.

Á þeim tíma, sem framleiðsla áls hefst í Sviss, byggðu Ameríkumenn einnig álbræðslur, og eru þeir að sjálfsögðu í dag langstærsti framleiðandi þessa málms. Merkilegt er að benda á, að Ameríkanar telja nauðsynlegt, eigi álbræðsla að vera arðvænleg, þá þurfi stærð bræðslunnar helzt að vera með allt að 200 þús. tonna ársafköstum.

Svisslendingar hins vegar hafa byggt sínar álbræðslur miklu minni. Meðalbræðslur þeirra eru jafnvel með niður í 30 þús. tonna ársafköst. Það, sem hér er talið koma til, er meðfædd nýtni og hagleikur Svisslendinga. Er því mikilsvert fyrir okkur Íslendinga að komast í nánari kynni við þjóð, sem getur af hagleik og nýtni boðið stórþjóðum byrginn og framleitt vöru fyrir heimsmarkaðsverð í smærri stíl en hinar stærri þjóðir gera.

Um áraraðir hefur það verið hugsjón beztu og víðsýnustu manna að koma þyrfti upp fjölbreyttari atvinnurekstri á Íslandi til öryggis og bættrar lífsafkomu íslenzku þjóðarinnar. Vísi að stóriðju á Íslandi má telja innréttingar Skúla Magnússonar á miðri 18. öld. Á þess tíma mælikvarða var um stórvirki að ræða, og hugsunin hjá Skúla var að sjálfsögðu sú að nýta hráefni, sem til féll í landinu, íslenzku ullina.

Stórhugur þessa athafnamanns fékk hörmulegan endi, sem ekki þarf að rekja hér, svo kunn er sú saga öllum landsmönnum.

Með virkjun vatnsaflsins hefst raunverulega íslenzk iðnbylting, svo stóran þátt á raforkan í þróunarsögu íslenzku þjóðarinnar. Með virkjun Sogsins var brotið blað í notkun íslenzkra náttúruauðæfa og lagður grundvöllur að uppbyggingu þeirri, sem staðið hefur hin síðari ár. Það er engum vafa undirorpið, að beizlun fossanna hefur lagt grundvöll að margháttuðum framförum í landi okkar. Þetta sjáum við vel, en var það jafnljóst öllum, þegar virkjanirnar hófust?

Það má með sanni segja, að stóriðja hafi skapazt hér á landi í sjávarútvegi. Frystihúsin, síldar- og fiskimjölsverksmiðjur tala sínu máli, og landbúnaðinn eða vinnslu landbúnaðarvara má einnig nefna, svo sem stærstu mjólkurvinnslustöðvarnar. Hið eiginlega hugtak stóriðja, eins og okkur er tamast í dag að tala um hana, þar eigum við hins vegar við rekstur svo sem áburðarverksmiðjuna, sementsverksmiðjuna og nú álbræðslu, sem væntanlega verður einnig að veruleika.

Hugleiðingar um byggingu álbræðslu eru ekki nýjar fyrir okkur Íslendinga. Ég skal þó ekki fara lengra aftur í tímann en til áranna 1950–1953, þegar Hermann Jónasson er raforkumrh. í ráðuneyti Steingríms Steinþórssonar og lætur kynna sér áhuga erlendra aðila fyrir byggingu álbræðslu á Íslandi.

Þetta leiðir af sér, að hér koma fulltrúar frá erlendum álbræðslum til þess að athuga möguleika til slíkra framkvæmda hér á landi. Á þessum árum komu hér Bretar, Kanadamenn og Svisslendingar. Ferðuðust þeir um íandið, að Dettifossi, Þjórsá og víðar, flugu yfir vatnasvæði og kynntu sér hafnarmöguleika.

Þrátt fyrir áhuga þáverandi íslenzkra stjórnarvalda á málinu, varð ekki vakinn sá áhugi þessara erlendu aðila á byggingu álbræðslu hér á landi, að framhald yrði á viðræðum.

Árið 1957, í tíð vinstri stjórnarinnar, lætur svo Hermann Jónasson hefja viðræður við ameríska áliðjuhölda, Reynolds, Kaiser o.fl. Til þeirra viðræðna völdust Steingrímur Hermannsson og Vilhjálmur Þór, þáverandi bankastjóri Landsbankans og einn úr forustuliði Framsfl. Hversu mjög sem þessir menn lögðu sig fram, var enn árangurslaust unnið að álbræðslu á Íslandi.

Það, sem næst skeður, eftir því sem mér er bezt kunnugt, er, að íslenzkir iðnrekendur undir forustu Félags íslenzkra iðnrekenda gengu til samstarfs við norræn iðnrekendasamtök, og árið 1960, um sumarið, er hér haldinn norrænn fundur iðnrekenda. Formaður Félags íslenzkra iðnrekenda var þá Sveinn B. Valfells, mikill áhugamaður um íslenzka iðnþróun. Á fundinum sumarið 1960 var rætt af miklum áhuga og velvilja af hálfu norrænna iðnrekenda um orkulindir landsins og uppbyggingu stóriðju á Íslandi, þar sem Íslendingar gætu notið stuðnings hinna Norðurlandanna í einu eða öðru formi.

Í þessum viðræðum kom ótvírætt í ljós, að norskir, danskir og finnskir iðnrekendur töldu lönd sín ekki aflögufær til neinna fjárhagslegra átaka utan síns heimalands. Fulltrúar Svíþjóðar töldu hins vegar ekki útilokað, að frekari viðræður gætu farið fram. Var það svo í byrjun næsta árs, árið 1961, eftir nokkur bréfaskipti við Félag íslenzkra iðnrekenda, að Sveriges Industriforbund bauð flokki Íslendinga til Svíþjóðar, svo að þeir af eigin reynslu gætu kynnt sér stóriðnað Svía, virkjanir og annað, með tilliti til uppbyggingar stóriðju á Íslandi. Sendinefnd þessari á vegum Félags íslenzkra iðnrekenda var mjög vel tekið, og fékk hún aðstöðu til að kynna sér m.a. raforkuver, fiskiðnað, vélaiðnað og annað, sem til mála gæti komið, að lyft gæti íslenzkum iðnrekstri á hærra stig og orðið íslenzku þjóðinni til bættrar lífsafkomu.

Eftir þessa kynningu var ljóst, að álbræðsla hér á landi mundi henta bezt eins og á stóð til þess að nýta náttúruauðæfi landsins, og gerðu Svíar því sérstaka athugun á því, að hve miklu leyti þeir gætu aðstoðað við byggingu álbræðslu hér á landi.

Síðar kom í ljós, að hér var um of fjárfrekar framkvæmdir að ræða, jafnvel fyrir svo efnahagslega sterka þjóð sem Svíar eru. Eftir að þáv. iðnmrh., dr. Bjarni Benediktsson, hafði fengið í hendur skýrslu yfir þessa Svíþjóðarför, skipaði hann 5. maí 1961 stóriðjunefnd undir formennsku Jóhannesar Nordal seðlabankastjóra, en hann var einn af þeim, sem valinn hafði verið til þessarar ferðar.

Það þarf ekki að rekja þessa sögu lengra. Störf stóriðjunefndar eru kunn m.a. af samningi þeim, sem hér liggur nú fyrir. Ég hef talið rétt að orðlengja nokkuð um aðdraganda þessa máls vegna afstöðu og forgangs íslenzkra iðnrekenda til málsins með tilliti til blaðaskrifa og ummæla, þar sem látið er að því liggja, að álbræðsla eigi ekki tilverurétt og verði til þess, að óeðlileg samkeppni skapist við innlenda iðnrekendur bæði um vinnuna og á tæknisviði, og séu þeir því mótfallnir álbræðslu á Íslandi.

Ég vænti þess, að það, sem ég hef hér sagt, varpi skýru ljósi á afstöðu iðnrekenda til þessa frv., sem hér er til umr. um álbræðslu í Straumsvík, og er mér ekki kunnugt um einn einasta íslenzkan iðnrekanda, sem ekki fagnar þessum áfanga. Meira að segja er mér kunnugt um, að stóriðnrekendur innan Framsfl. bíða beinlínis með eftirvæntingu eftir því, að þessi draumur framfaramanna rætist.

Notkun áls fer mjög ört vaxandi í heiminum. Sviss er í fararbroddi af Evrópulöndum með 10 kg árlega á hvern íbúa. Málmurinn hefur marga kosti. Hann er léttur, vegur aðeins þriðjung á við járn. Hann veðrast ekki, sé hann rétt blandaður. Hann er góður hita- og rafleiðir. Ál gefur því mikla möguleika í margháttuðum málmiðnaði. Álbræðsla fer nú fram í löndum víðs vegar um heim, þar sem nægjanleg orka er fáanleg til rafgreiningar. Framleiðsla áls í heiminum 1964 nam yfir 6 millj. tonna og hafði tvöfaldazt á tíu árum. Með 60 þús. tonna álbræðslu hér yrði því framleiðslan 1% af heimsframleiðslunni. Langstærstu framleiðendur eru Bandaríkin og Kanada með helming heimsframleiðslunnar. Af Evrópulöndum, miðað við árið 1964, er Frakkland stærst með 316 þús. tonn, Noregur 261 þús. tonn, Þýzkaland 220 þús. tonn og Ítalía 115 þús. tonn. Eftirtektarvert er, ef tekinn er tíu ára samanburður, að þá hafa Evrópulöndin samanlagt rúmlega tvöfaldað framleiðslu sína, en Noregur einn fjórfaldað sína álframleiðslu.

Notkun á áli fer að sjálfsögðu ekki algerlega eftir framleiðslulöndum. Evrópulöndin, sem samanlagt framleiða 1.2 millj. tonna af áli, nota 11/2 millj. til sinna þarfa. Noregur sjálfur notar 10% af því áli, sem hann framleiðir. Svíþjóð notar yfir 50 þús. tonn á ári og flytur þar inn 20 þús. tonn. Bretland notar 360 þús. tonn, en framleidd eru í landinu sjálfu aðeins 32 þús. tonn árið 1964.

Af þessu verður okkur ljóst, að markaður fyrir ál liggur ekki fjarlægt okkur, þar sem Bretar einir flytja inn yfir 300 þús. tonn á ári.

Heimsmarkaðsverð áls var að vísu mjög hátt í byrjun eða allt að 50 þús. kr. tonnið, en á árunum 1920–1950 hélzt verðið um 12 þús. kr. Síðan steig verðið nokkuð jafnt til ársins 1955 og hefur verið mjög stöðugt síðan, og er nú 23.500 kr. hvert tonn. Þetta verð er miðað við málminn óunninn eins og hann kemur frá álbræðslunni eða í því formi, sem ráðgert er, að ISAL hafi leyfi til að framleiða hann hér á landi.

Næsta framleiðslustig álvinnslu er að forma málminn á mismunandi hátt til að gera hann hæfan til smíða eða framleiða úr honum fullunna vöru.

Eins og fram kemur í Il. gr. samningsins við Alusuisse þá takmarkast rekstur ISALs við álbræðsluna eina, og hefur félagið ekki leyfi til að takast á hendur vinnslu úr áli né nokkra aðra starfsemi nema sérstaklega sé um það samið. Ef um frekari vinnslu málmsins yrði að ræða hér á landi, þá gæti alveg eins farið svo, að það yrði í höndum Íslendinga eða samstarf tækist við hið svissneska félag Alusuisse.

Í 37. gr. samningsins eru mikilsverð ákvæði svo hljóðandi:

„Alusuisse og ISAL eru reiðubúin til að aðstoða íslenzka iðnaðaraðila við þróun úrvinnslu úr áli á Íslandi með því að leggja fram tæknikunnáttu og aðstoð og með fjárhagslegri þátttöku í slíkum framkvæmdum.“

Þarna er beinlínis gert ráð fyrir, að til frekari vinnslu geti komið hér á landi. Það, sem hér kæmi aðallega til greina, er ný aðferð til völsunar á plötum, en slík verksmiðja af minnstu gerð er talin kosta 50 millj. kr. Einnig má ætla, að til greina kæmi verksmiðja, sem formaði alls konar smíðastengur, „prófíla“. Er talið, að slík verksmiðja, sem afkastaði 2 þús. tonnum á ári, mundi kosta 100 millj. og þyrfti 70 manna starfslið. Ef það reyndist mögulegt fyrir Íslendinga að koma upp slíkum fyrirtækjum til úrvinnslu á þessum þýðingarmikla málmi, þá má segja, að við stæðum jafnfætis mörgum beztu iðnaðarþjóðum álfunnar. Er ekki að efa, að þetta yrði hin mesta lyftistöng fyrir íslenzkan málmiðnað. Það er heldur ekki að efa, að þjóð, sem á málm í landi sínu, og hefur tök á að nýta hann eins og ég hef nú drepið á, hefur margfalt betri möguleika til að tileinka sér nútíma tækni á mörgum sviðum og á þann veg bæta lífsafkomu þjóðarinnar. Fátækt okkar lands að málmum í jörðu hefur haldið íslenzku þjóðinni í fátækt ekki síður en ánauð erlendra ríkja. Þetta verður þannig yfirunnið af hvítu kolunum, sem nú skulu ekki lengur renna til sjávar án þess að skilja eftir þann auð, sem í þeim er bundinn.

Íslenzkir iðnaðaraðilar hafa þegar fyrirhugað að kynna sér til hlítar á hvern veg sé hægt að hefja frekari úrvinnslu áls, eftir að bræðslan tekur til starfa og möguleikar skapast. Að tilhlutan Alusuisse hefur nú þegar skapazt möguleiki fyrir nokkra menn úr hópi iðnaðarins að kynna sér úrvinnslu áls, sem ég hér hef drepið á. Er nú svo ákveðið, að 10–12 manna hópur fari til Sviss í boði Alusuisse á næstunni til að kynnast úrvinnslu þessa málms af eigin raun.

Það er fróðlegt að velta því fyrir sér hér, hver verðmætasköpun það yrði, ef öll framleiðsla álbræðslunnar yrði unnin hér í landinu í plötur, stengur og svipað efni til smíða. Segjum, að verð á áli frá bræðslunni yrði eins og heimsmarkaðsverð er nú, 23.500 kr. tonnið. Meðalverð áls í plötum, stöngum og á annan hátt tilbúið smíðaefni er hins vegar 33.500 kr. tonnið eða 10 þús. kr. hærra. Miðað við 60 þús. tonna álbræðslu yrði þá verðmætasköpun 600 millj. og gjaldeyriskostnaðurinn við þetta hverfandi lítill.

Ganga mætti út frá því, að slík framleiðsla sem hér er talað um yrði nokkuð einhæf. Þannig hefur það t.d. reynzt í Noregi, og væri þá mjög nauðsynlegt að hafa aðila, sem er stór á heimsmarkaðinum eins og Alusuisse til að koma framleiðslunni á markað, en að því skal ég koma síðar.

Þegar ráðast á í virkjun, er ekki aðeins um það spurt, hvað orkan frá henni fullnýttri kosti, heldur einnig, hvaða markaðir séu fyrir hendi til að nýta orkuna. þörfin á slíkri spurningu er augljós, því að jafnvel þótt virkjað sé við hin hagstæðustu skilyrði, þá getur raforkuverðið orðið mjög hátt, ef hæfilegan markað skortir, og því stærri sem virkjunin er, því stærra verður það fjárhagslega vandamál, sem skapast við slíkar aðstæður.

Meginhluta vatnsafls okkar er að finna í jökulánum. Rannsóknir hafa sýnt, eins og fram kom í skýrslum raforkumálastjóra með Landsvirkjunarfrv. á síðasta ári, að jökulárnar verða ekki virkjaðar á hagkvæman hátt nema í stórum virkjunum. Miðað við þann orkumarkað, sem nú er fyrir hendi, fer ekki hjá því, að verðið frá slíkum virkjunum yrði hátt um langt árabil og að eina ráðið til þess að geta fljótt orðið aðnjótandi þessa lága orkuverðs, sem jökulár okkar hafa upp á að bjóða, er að við finnum nýjan orkumarkað, sem geri okkur kleift að komast yfir byrjunarörðugleikana. Sá orkumarkaður fæst með álbræðslunni, og það er fyrst og fremst í þeirri staðreynd, sem hin þýðingarmiklu áhrif álbræðslunnar felast. Með tilkomu hennar hefst örari uppbygging raforkukerfisins og lægra raforkuverð, jafnvel þótt orkan til álbræðslunnar sé ekki seld á hærra verði en gert er ráð fyrir. Þetta kemur greinilega fram í þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið, en skv. þeim verður kostnaður viðbótarafls, eins og margoft hefur verið bent á, 28% hærri að meðaltali á tímabilinu fram til 1985, ef ekki er ráðizt í álbræðsluna,og hvorki meira né minna en 62% hærri að meðaltali fyrstu 5–6 árin eftir að Búrfellsvirkjun tekur til starfa. Þessi munur samsvarar 860 millj. kr. rafmagnsnotendum í hag. Að vísu hefur verið á það bent, að þessi hagnaður sé um 200 millj. kr. of hátt reiknaður, vegna þess að gert er ráð fyrir 3 mill í stað 2.5 mill fyrstu sex árin og skattgreiðslur lækkaðar að sama skapi, en þá er mér spurn, hvort 660 millj. séu ekki álitlegur sparnaður fyrir rafmagnsnotendur, og hver hefði skatturinn orðið á þessum fyrstu árum, ef samið hefði verið um hann á sama hátt og í Noregi? Hvaða skattur er yfirleitt greiddur þar? Ég er ekki viss um, að við færum halloka í þeim samanburði. Skv. þeim upplýsingum, sem hægt hefur verið að afla, greiða afskrifaðar norskar bræðslur undir 20 dollurum á tonn, og geta menn þá gert sér í hugarlund, hvaða skattur sé greiddur á afskriftatímabilinu.

Andstæðingar álbræðslunnar vilja gjarnan gleyma þeim ágætu samningum, sem náðst hafa um framleiðslugjaldið, en vitanlega skiptir það öllú máli, hvað fæst í skatta og fyrir raforku samanlagt. Þannig er því haldið fram, að jafnvel í Ghana sé raforkuverðið hærra eða 2.65 mill og því þá jafnvel gleymt, að álbræðslan þar í landi er með öllu skattfrjáls fyrstu tíu árin. Því er haldið fram, að við ætlum að selja raforkuna á rétt um það bil kostnaðarverði, miðað við t.d. 6% vexti og 25 ára afskriftartíma og að öll líkindi séu á, að kostnaður við Búrfellsvirkjun muni fara svo mjög fram úr áætlun, að ekki einu sinni þetta muni standast. Einnig sé þarna verið að selja ódýra orku, sem rétt sé að geyma og nota síðar fyrir hinn almenna markað.

Það hefur þegar verið sýnt fram á, að lítil sem engin líkindi séu á því, að stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar fari fram úr áætlun, nema hvað innanlandskaupgjaldi viðkemur á byggingartímanum, þar sem aðeins 15% af kostnaðinum verða háð breytingum og jafnvel vel í lagt fyrir ófyrirséðu. Þess ber að gæta, að föst tilboð liggja fyrir í meginhluta verksins. Einnig hefur verið sýnt fram á, eins og ég gat um áðan, að jafnvel þótt álbræðslan fái raforkuna á sem næst kostnaðarverði, þá léttir hún engu að síður stórlega undir með hinum almenna raforkukaupanda, auk þess sem hún örvar alla þróun í raforkumálum okkar, og ef rétt er að geyma ódýrustu orkuna þar til síðar, er þá ekki rétt að geyma þá næstódýrustu og þá næst-næstódýrustu? Eiga hugarórar um gull og græna skóga eftir langt árabil að verða þess valdandi, að ekkert sé gert í dag? Halda menn, að frændur okkar Norðmenn sjái eftir því, þó að þeir sitji nú uppi með eldri samninga og lægra verð en þeir geta boðið frá nýjum virkjunum í dag? Sannleikurinn er sá, að það er ekki eftir neinu að bíða. Álbræðslan gefur okkur gullið tækifæri til þess að hefja nýtingu vatnsafls okkar, og vonandi tekst okkur að virkja sem mest af því, áður en ódýrari orkugjafar koma til sögunnar.

Áður en ég skil við raforkumálin, vil ég svo að lokum benda á til viðbótar, að í fyrsta lagi eru tekjurnar af álbræðslunni í dollurum og nægja til þess að standa undir öllum erlendum lánum. Íslendingar fá því hina miklu orku, sem Búrfellsvirkjun framleiðir til almenningsþarfa, án byrða vegna lána í erlendum gjaldeyri. Tekjur Búrfellsvirkjunarinnar eru verðtryggðar.

Í öðru lagi: Samningurinn greiðir stórlega fyrir lántökum til virkjunar samtímis því sem Alusuisse tekur að verulegu leyti áhættuna af hinum erlendu lánum, sem aftur þýðir, að lánstraust íslenzka ríkisins er í rauninni ekki notað. Af því leiðir, að hægt er að taka meiri erlend lán til annarra þarfa en ef ráðizt væri í Búrfellsvirkjun án álbræðslu.

Og í þriðja lagi: Eftir 25 ár eru lán Búrfellsvirkjunar að fullu greidd. Eftir þann tíma fást árlega um 100 millj. nettótekjur af álbræðslunni í gjaldeyri.

Mikil hreyfing hefur verið uppi um, að álbræðslan yrði staðsett norðanlands til að koma á jafnvægi í atvinnuháttum landsmanna. Það er áhyggjuefni, hversu mjög fólkið sækir í þéttbýlið, hver einstaklingur hugsar að vísu um sig og fer þangað sem mestir möguleikarnir eru. Þetta er ofur skiljanlegt. Þetta vandamál er mikið, og ekki hægt að koma því á einn eða neinn pólitískan flokk sem ábyrgan aðila. Það, sem hér skeður, er, að landsfólkið velur sér byggð, eftir því sem efni batna, þar sem þægindin eru mest og afkomendur þeirra hafa mesta möguleika til menntunar og lífsþæginda. Það má segja í þessu sambandi, að Íslendingar lifa fyrir sig sjálfa en ekki fyrir heildina. Eins og þessum málum er háttað í dag virðast vera margvislegir erfiðleikar á snöggum úrbótum. Frjálslyndi okkar getur ekki sett byggðaskorður á fólk. Allir landsbúar verða að hafa jafnan rétt til gæða lands og sjávar. Það finnst vart annað ráð en að skapa fólkinu jafnan möguleika hvar sem er á landinu til menntunar, skemmtunar og ég vil segja, fjölbýlis, en þar vill fólkið búa og starfa.

Stjórnarandstaðan og sérstaklega Framsfl. hefur gert það að skilyrði fyrir framgangi álbræðslusamningsins, að bræðslan yrði staðsett norðanlands. Mér skilst, að þar með væri allri misklíð hjá Framsfl. lokið í þessu máli. Að lítt athuguðu máli er þessi afstaða stjórnmálaflokks, sem vill hafa á sér strjálbýlisstimpil, vel skiljanleg. Málið er hins vegar ekki svona einfalt. Samningur við Svisslendinga hefði aldrei fengizt svo hagstæður sem raun ber vitni, ef bræðslan hefði verið staðsett norðanlands eða við Eyjafjörð. Fyrst og fremst hefðu hafnarmálin haft afgerandi þýðingu fyrir Svisslendinga. Ísvandamálið á Eyjafirði síðasta vetur var eflaust óhagstætt. Að sjálfsögðu geta forsvarsmenn fyrirtækis, sem þarf á svo gífurlegum flutningi að halda sem álbræðslan, ekki samþykkt, að undangenginni reynslu á íslenzkum staðháttum, staðsetningu, þar sem hugsandi er, að lokist vegna ísa. Komið hefur fram, að flutningaþörf 60 þús. tonna álbræðslu sé 240 þús. tonn á ári, og þarf bræðslan því að hafa örugga og góða höfn opna allt árið.

Upplýst er af grg. með álsamningi, að rekstur álbræðslu krefst nokkurs mannafla. Er talið, að byrjunarrekstur ISALs miðað við 30 þús. tonna framleiðslu á ári, krefjist 300 manna, en álbræðsla af fullri stærð, með 60 þús. tonna ársafköstum, þarfnist 450 starfsmanna. Ég man þann tíma, að þetta hefðu þótt ánægjuleg tíðindi. Atvinna verkafólks á Íslandi hefur ekki ætíð verið svo mikil, að menn hafi þurft að hafa af því mestar áhyggjur, að of mikil atvinna væri, en svo virðist nú vera hjá miður rökfimum andstæðingum álbræðslunnar.

Framsfl. er að vísu klofinn, hefur gert það að skilyrði fyrir stuðningi við álmálið, að bræðslan yrði byggð norðanlands eða á Gáseyri við Eyjafjörð. Talsmenn Framsóknar hafa algerlega einblínt á eitt í þessu máli, þ.e., að með álbræðslunni við Eyjafjörð væri skapað jafnvægi í byggð landsins, sem svo er nefnt. Ég hef oft hugsað um þetta jafnvægismál, byggðajafnvægi, eða hvað sem rétt væri að nefna það. Enginn virðist vera fullkomlega ánægður með nafnið. Í stórum dráttum má segja, að Gáseyri við Eyjafjörð með nærliggjandi bæjum sé 1/10 hluti af þéttbýlissvæðinu við Straumsvík með nærliggjandi stöðum. Að setja upp svo stórt fyrirtæki sem 60 þús. tonna álbræðslu, er þarfnast 450 starfsmanna á svo fámennu svæði sem Eyjafjörður er, þarf að sjálfsögðu ekki að vera nein frágangssök. En taka verður tillit til þess, að 450 starfsmenn verður að útvega annars vegar frá þessu svæði eða aðkomufólk. Fyrst er að sjálfsögðu reynt að fá sem mest af fólki til starfa kringum verksmiðjuna. Þetta mundi verka á svona lítinn vinnumarkað sem olía á eld. Ég efa stórlega, að sá myndarlegi iðnaður, sem byggzt hefur upp á Akureyri, þyldi slíkt. Ef bræðslan hefði verið staðsett við Eyjafjörð, hefðu skapazt mikil vandamál og líklega svipuð því og andstæðingar málsins vilja vera láta, að sköpuð séu hér í þéttbýlinu. Ég álít því, að verksmiðjan sé rétt staðsett einmitt til að viðhalda eðlilegu byggðajafnvægi.

Við verðum að muna það í dag, að íslenzka þjóðin er aðeins tæp 200 þús. manns. Það er erfitt fyrir svo fámenna þjóð að standa undir öllum þeim kostnaði, er byggja skal upp í skjótri svipan þau þægindi, sem fólkið eðlilega æskir og þéttbýlið skapar. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi ekki mikið eftir af ræðu sinni?) Jú, hann á helming eftir. (Forseti: Ætli það sé þá ekki rétt að fresta henni núna um sinn. Það verður boðað til annars fundar núna kl. 4, og fundinum verður þá frestað til kl. 5.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Það síðasta, sem ég ræddi, áður en ég frestaði máli mínu, var að benda á það, að ekki er víst, að það hefði orðið Akureyri til góðs, þótt álbræðslan hefði verið staðsett við Gáseyri. Ég benti á, að Eyjafjarðarsvæðið hefði aðeins 1/10 hluta íbúa af þéttbýlissvæði Straumsvíkur. Með stofnun atvinnujöfnunarsjóðs, þar sem meiri hl. framleiðslugjalds álbræðslunnar rennur til, eru teknar skynsamlegar ákvarðanir til byggðajafnvægis. Með sjóðsstofnun þessari er mörkuð sú stefna, að unnið verði öfluglega að eflingu atvinnulífs í þeim byggðarlögum, þar sem þess er mest þörf. Uppistaða þessa sjóðs verður í framtíðinni framleiðslugjald álbræðslunnar.

Ég tel rétt, sem fram hefur komið, að framleiðslugjald ISALs jafngildi fullkomlega skattlagningu, sem íslenzkum fyrirtækjum er gert að greiða. Hér er hins vegar um að ræða fastagjald, öruggari gjaldstofn, sérstaklega á afskriftatímabili bræðslunnar. Enda er það viðurkennt af öllum, sem um málið hafa fjallað, og ekki síður þeim, sem annars eru á móti álbræðslu. Atvinnujöfnunarsjóður er fram kominn vegna álbræðslunnar, og hún verður því til þess að bæta aðstöðu landsbyggðarinnar gagnvart þéttbýlinu, þótt staðsett verði við Straumsvík. Og án þess að skapa ofþenslu í litlu byggðarlagi, sem yrði, ef stórt fyrirtæki staðsetti sig á slíkum stað. Hér í þéttbýlinu hefur þetta ekki sömu verkanir, eins og ég hef áður bent á.

Það hefur þótt skipta miklu máli hér í sambandi við álbræðsluna, að félag það, ISAL, sem reka skal þessa starfsemi hér á landi, sé ekki meðlimur í samtökum atvinnurekenda. Hér held ég, að gæti nokkurs misskilnings hjá verkalýðshreyfingunni og þeim, sem telja sig málsvara hennar. Ég vil máli mínu til stuðnings benda á það, að í stofnskrá ISALs er gert ráð fyrir, að 5 af 7 stjórnarmeðlimum félagsins séu Íslendingar. Hverjir þessir Íslendingar verða, get ég að sjálfsögðu ekki sagt um, en óhugsandi er, að til þessa veljist menn, sem yrðu óvinsamlegir íslenzkum verkalýð og íslenzkum hagsmunum. Ósmekklegri orð hef ég ekki heyrt hér á hv. Alþ. en hv. 4. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson, viðhafði við 1. umr. málsins í þessari hv. þd., en þessi hv. þm. sagðist treysta betur erlendum forstjórum Alusuisse til að fjalla um þessi málefni hér á landi heldur en þeim Íslendingum, sem þeir eiga samkv. þessum samningi að ráða í stjórn ISALs. Þessi hv. þm. nefndi þessa landsmenn sína erlenda leppa, án þess að vita, hverjir þessir menn yrðu. Og um aðra íslenzka stjórnendur ISALs hafði hann ekki í huga önnur smekklegri ummæli en þeir yrðu fljótt keyptir upp af hinu svissneska auðfélagi, eins og hann kallaði það. Og þessi orð viðhafði þessi grandvari hv. alþm. án þess að vita, hverjir veldust til þessara trúnaðarstarfa af Íslendingum.

Ég mótmæli algerlega þessum áburði hv. þm. og harma, að hann skuli ekki vera hér og hlusta á mál mitt. Segjum nú svo, að ISAL vildi samstöðu við önnur íslenzk iðnfyrirtæki og óskaði inngöngu í Félag ísl. iðnrekenda, sem án efa telst til atvinnurekendasamtaka. ISAL yrði samþ. sem fullgildur meðlimur og áhrif ISALs, hver yrðu þau? Í 24. gr. laga félagsins segir svo:

„Hver félagi greiði árlegt gjald til félagsins, er nemi 1–11/8% af samanlagðri launaupphæð starfsfólks við iðnaðarstörf næsta ár á undan. Þó greiði hver einstakur félagi ekki hærra gjald en, sem nemur 1/25 hluta af samanlögðum árgjöldum félagsmanna.“

Og í 13. gr. félagslaga Félags ísl. iðnrekenda segir: „Þó getur hver einstakur félagi ekki haft eða farið með meira en 1/25 hluta af öllum atkvæðum félagsmanna.“ Þetta hámark nú er 55 þús. kr.

Andstæðingar álsamninganna hafa mjög haft á orði, að hæstv. ríkisstj. og sérfræðingar hennar hafi misst alla trú á tveim aðalatvinnuvegum landsmanna, sjávarútvegi og landbúnaði, og sjái ekkert annað en erlent fjármagn og það, að útlendingar séu fengnir til að byggja upp nýja atvinnuvegi í landinu. Þessi rök, sem viðhöfð eru, ná vissulega skammt. Uppbygging sjávarútvegsins undanfarin ár og stuðningur ríkisvaldsins við hann á undanförnum árum sýna bezt, hversu mjög hæstv. ríkisstj. skilur, að það er íslenzkur sjávarútvegur, sem skapar Íslendingum í dag nær allan þann gjaldeyri, sem þjóðin hefur úr að spila. Að draga úr eðlilegum rekstri sjávarútvegsins væri fyrir hverja ríkisstj. á Íslandi það sama og bónda,. sem fargaði mjólkurkúnum. Það er einnig rétt, að það komi hér berlega fram, að dugnaður og framsýni íslenzkra útvegsmanna og sjómanna hefur orðið til þess, að íslenzka þjóðin býr nú við betri lífskjör en nokkru sinni fyrr og getur veitt sér frjáls kaup á margs konar erlendum nauðsynjum og ónauðsynlegum varningi án allra hindrana. Að sjávaraflinn hins vegar haldi áfram að aukast ár frá ári og um ókomin ár verði þess megnugur að sjá þjóðinni fyrir öllum þeim erlenda gjaldeyri, sem hún þarfnast, lætur enginn sér til hugar koma. það verður líka að taka til greina, að þjóðin tvöfaldast á 30–40 ára fresti.

Ég skal leiða hjá mér þá spádóma, sem ræddir hafa verið að undanförnu, að gengið sé um of á fiskstofninn hér við land. Ég tel vafasamt, að leikmenn á þessu sviði geti andmælt beztu sérfræðingum okkar, sem haldið hafa þessu fram. En það er einnig annað, sem hér verður að taka með í reikninginn. Það eru áraskipti að veiðinni. Ef fiskurinn er ekki fyrir hendi í sjónum, gagna góð tæki og árvekni sjómanna lítið. Ört vaxandi þjóð sem Íslendingum er því nauðsyn að hugsa lengra og renna stoðum undir nýjar atvinnugreinar. Það er algerlega óforsvaranlegt af hæstv. ríkisstj. og sérfræðingum hennar að hugsa aðeins um líðandi stund í þessu efni.

Varðandi landbúnaðinn má segja það, að hann hefur ekki getað keppt á erlendum markaði með sínar framleiðsluvörur á heimsmarkaðsverði. Þetta er ofurskiljanlegt, en allir viðurkenna þó íslenzkan landbúnað sem eina sterkustu stoð íslenzks atvinnulífs. Um vissa matvælaframleiðslu má segja, að verðlagi á henni er af öllum þjóðum haldið niðri. Nægileg fæða er grundvallarskilyrði til lífsframfærslu. Þessum framleiðsluþætti er því með ýmsu móti haldið niðri í verðlagi á sama tíma sem verðlag margháttaðrar iðnaðarframleiðslu fer eftir framboði og eftirspurn. Það er engum vafa undirorpið, að ein þjóð sem Íslendingar eiga að viðhalda sínum landbúnaði til innanlandsnotkunar og neyzlu og reyna þar að ná sem beztum árangri þrátt fyrir harðbýli og strjálbýli. Hins vegar er það ljóst, að með þeim lífskjörum, sem íslenzka þjóðin hefur tileinkað sér á undanförnum árum, verður það íslenzkur iðnaður og stóriðja, sem skapa verður þjóðinni þessi umframþægindi, sem sjávarútvegur hefur gert fram að þessu. Sannleikur um álbræðslu í Straumsvík og virkjun Búrfells er sá, að þetta er eitt stærsta átak, sem gert hefur verið til þess að viðhalda og bæta afkomu almennings í landinu.

Hér á hv. Alþ. hefur verið bent á þau gjöld, sem ISAL skal greiða til Alusuisse samkv. sérsamningum milli móðurfélagsins svissneska og ISALs. Á bls. 153 í lagafrv. er samningur um hönnun og byggingu álbræðslunnar. Er svo ráð fyrir gert, að Alusuisse láti ISAL í té öll sín einkaleyfi í eitt skipti fyrir öll og aðstoði við byggingu bræðslunnar með sérþekkingu sinni á þessu sviði. Fyrir þetta skal ISAL greiða 10% af kostnaðarverði bræðslunnar. Í Noregi var þessi upphæð áætluð 11% og eina dæmið, sem fyrir liggur hér á landi, er Áburðarverksmiðjan, en þar nam þessi kostnaður 11%, og létu hinir erlendu aðilar þó Áburðarverksmiðjunni eflaust í té miklu minni þjónustu, svo að ekki sé talað um það, að teknísk vandamál Áburðarverksmiðjunnar eru óleyst enn í dag, þ.e.a.s. kornastærð áburðarins. Eflaust hagnast Alusuisse vel á þessum 10%, en því aðeins þess vegna, að félagið liggur inni með 70–80 ára reynslu og hefur kostað offjár í tilraunaskyni og til endurbóta. Ég gæti trúað, að þessi upphæð yrði fljót að fjúka, ef við Íslendingar sjálfir ætluðum að byggja álbræðslu og yrðum þá að sjálfsögðu að leita til starfandi verkfræðingafyrirtækja hér á landi og erlendis, og spurning er, hvort nokkurt ál yrði framleitt í slíkri bræðslu. Segja mætti mér, ef þennan veg væri farið, að hér byggðist nokkurs konar glerverksmiðja fáum til ánægju og engum til hagnaðar. Ég álít því 10% þóknun til Alusuisse ekki óeðlilega.

Aðstoðarsamningur á bls. 160 milli ISALs og Alusuisse fjallar um áframhaldandi tækniaðstoð og rannsóknarstörf, sem Alusuisse skal láta ISAL í té. Um allan hinn tæknimenntaða heim hefur bókstaflega risið alda hin síðustu ár til aukningar á rannsóknarstörfum í þágu framleiðsluatvinnuveganna. Á síðasta hv. Alþ. var samþykktur mikill lagabálkur um Rannsóknaráð ríkisins og rannsóknastofnanir hinna ýmsu höfuðatvinnuvega þjóðarinnar. Sérstakt gjald var t.d. lagt á íslenzkan iðnað til þess að halda uppi Rannsóknastofnun iðnaðarins. Erlendis er talið sjálfsagt, að stærri fyrirtæki hafi sínar eigin rannsóknarstofur og leggi til af hagnaði sínum stóran hluta til rannsóknarstarfa. Hér er gert ráð fyrir, að Alusuisse hafi með höndum slík störf fyrir ISAL og að ISAL greiði 2.2% af framleiðsluverðmæti sínu fyrir þessa þjónustu. Alusuisse hefur að sjálfsögðu miklar rannsóknarstofur í sínu heimalandi og ver ærnu fé til slíkra starfa. Ef ISAL ætti sérstaklega að koma sér upp fullkominni rannsóknaraðstöðu hér á landi, yrði hér áreiðanlega um mun meiri kostnað að ræða fyrir ISAL. Eflaust geta hér skapazt mörg vandamál fyrir bræðslu ISALs, sem er staðbundin hér á landi, veðrun álmálmsins og að sjálfsögðu óteljandi sérhæfð spursmál. Þetta hljóta allir að skilja, að einhver verkkunnátta og rannsóknaraðstaða verður að vera fyrir hendi. Innifalið í þessu gjaldi er einnig heimild ISALs til að nota öll einkaleyfi Alusuisse, sem félagið nú á og kann að eignast. Þetta ákvæði er hið mikilsverðasta fyrir ISAL. Það er engum vafa undirorpið, að Svisslendingar verða ekki eftirbátar annarra þjóða með endurbætur á vinnslu eða bræðslu áls. Verði bylting í álbræðslu, sem ekki er ólíklegt, eins og iðnþróun almennt flýgur áfram í heiminum, er það afgerandi fyrir ISAL að geta tileinkað sér þær framfarir. Þessi samningur um einkaleyfi og rekstrargjald tekur af öll tvímæli um, að svo verði.

Þá er komið að síðasta atriðinu, sem ég ræði varðandi samskipti ISALs og Alusuisse, aðstoðarsamningnum um sölu áls á bls. 166. Framleiðslu áls og byggingu álbræðslu fylgja mikil teknísk vandamál. Það geta allir sameinazt um, en ekki er óeðlilegt, að leikmenn geri sér minni grein fyrir vandanum að selja vöruna. Hér er þó um stórkostlegan vanda að ræða, og getum við Íslendingar þar litlu um ráðið. Kaupendur áls í því formi, sem ISAL skal framleiða það, eru tiltölulega fáir í heiminum. Fyrirtæki, sem eru mikils ráðandi á heimsmarkaðinum, hafa því betri möguleika til þess að finna kaupendur fyrir þessa vöru heldur en ein lítil álbræðsla lengst norður í hafi. T.d. hafa Norðmenn ekki getað staðið á eigin fótum. Ríkisálbræðslurnar norsku í Arendal og Sunndalsöre hafa haft sölusamkomulag við kanadíska álframleiðendur til þess að koma framleiðslu sinni á markað.

Sölusamningurinn milli ISALs og Alusuisse gerir ráð fyrir, að hið svissneska álfélag taki að sér sölu á framleiðslu ISALs og fái fyrir það 11/2% af söluverðmætinu. Hér á hv. Alþ. hefur þetta sölugjald verið talið óeðlilega hátt. Ekki er að efa það, að Svisslendingar hagnast einnig á þessu gjaldi með þeirri aðstöðu, sem þeir hafa. Annars tækju þeir þetta trúanlega ekki að sér, eða væru nokkur rök fyrir slíku? En ISAL fær einnig hér þau forréttindi, að tryggt er á bezta máta, að framleiðslan seljist.

Það er fróðlegt að gera hér lítinn samanburð á, hvað við Íslendingar greiðum í sölugjald fyrir okkar aðalframleiðsluvörur t.d. lýsi og mjöl. Framleiðendur hér á landi verða að greiða 2% af verðmæti vörunnar í stað þess, að ISAL er gert að greiða 11/2%. Sölukostnaður annarrar útflutningsframleiðslu okkar er án efa ekki lægri. Það verður því að álíta, að þessu sölugjaldi, sem ISAL er gert að greiða, sé mjög í hóf stillt og samningurinn sé okkur hagstæður að þessu leyti. Ef horft er nokkuð fram í tímann, þegar álbræðslan hefur byggt sig upp og greitt framleiðslugjald allt frá 121/2 dollar til 311/2 dollars á tonn, skal gjaldið hækka í 35 dollara á tonn. Að vísu eru mörg ár þar til þetta skeður, en við skulum muna það, að tíminn er fljótur að líða. Og þessar 90 millj., sem 35 dollara gjaldið gerir, fáum við örugglega, því að ganga má út frá því, að heimsmarkaðsverð áls hækki frekar heldur en lækki. Þó er gert ráð fyrir, að gjaldið sé ekki yfir 50% af hagnaði ISALs, og er það sannarlega eðlilegt.

12. gr. álsamningsins fjallar um tjón, sem kynni að hljótast af gastegundum og reyk frá bræðslunni. Ekki er gert ráð fyrir, að þörf sé á sérstökum hreinsunartækjum hér á landi vegna vindasamrar veðráttu. Þó gerir 12. gr. samningsins ráð fyrir, að ISAL sé skylt að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði annars staðar. Ef tjón yrði af þessum sökum á eignum eða hagsmunum manna, ber ISAL fulla ábyrgð og skal bæta tjón að fullu. Einnig ber ISAL í samvinnu við íslenzka rannsóknarstofnun að framkvæma reglulegar athuganir á mengun í nágrenni bræðslunnar. ISAL greiðir þessar rannsóknir.

Á bls. 217 í samningnum er afskrift af skýrslu, sem Rannsóknastofnun iðnaðarins hefur gert varðandi athugun á þessu atriði, sem fram fór á vegum stofnunarinnar að beiðni hæstv. iðnmrh. Þessi skýrsla hefur verið nokkuð vefengd í umr. hér á hv. Alþ., en eins og segir í niðurlagi skýrslunnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðstæður til rannsókna voru engar hér á landi, og varð að styðjast við reynslu og aðstæður, er fyrir voru í Noregi og Ameríku. Landfræðilegar og veðurfræðilegar aðstæður eru þar öllu óhagstæðari en hér, og átti það eitt að tryggja, að hættumörkin eru sennilega mun þrengri.“

Það er góð regla að fullyrða ekki meira en maður getur staðið við, og sú regla virðist viðhöfð hér. En það er líka annar aðili, sem hefur rætt um hættu á mengun frá álbræðslunni. Steingrímur Hermannsson verkfræðingur, forstjóri Rannsóknaráðs ríkisins, hefur farið margar ferðir utan og kynnt sér þessi mál öllu betur en flestir aðrir. Í skýrslu Steingríms Hermannssonar, dags. 15. nóv. 1965, segir svo um þetta atriði, með leyti hæstv. forseta:

„Niðurstaða mín er sú, að ekki sé nauðsynlegt að krefjast hreinsunartækja í bræðslunni til að byrja með, en hins vegar sjálfsagt að eiga kost á slíku, ef um tjón yrði að ræða. Jafnframt legg ég áherzlu á, að Svisslendingar verði látnir greiða kostnað við að taka reglulegar prufur svipað og Norðmenn hafa gert og séu til þess valdir sérfræðingar eða rannsóknastofnun.“

Hér í þessari samningagerð hefur því verið farið nákvæmlega eftir tillögu Steingríms Hermannssonar. Í beinu framhaldi af þessu má nefna, að 13. gr. samningsins kveður á um, að ISAL skuli háð öllum öryggis- og heilbrigðisreglum, sem gilda eða sem síðar yrðu lögfestar á Íslandi. Gildi þetta jafnt til öryggis í atvinnurekstrinum, heilbrigði og hreinlæti.

Samkv. hafnar- og lóðarsamningi, sem fylgir aðalsamningnum, er gert ráð fyrir, að bræðslulóðin við Straumsvík verði 37 ha., en ekki verði þó ráðstafað nærliggjandi svæði, þó án sérstakrar skuldbindingar. Gengið er út frá, að Hafnarfjarðarkaupstaður byggi höfnina, en ISAL endurgreiði allan byggingarkostnaðinn ásamt vöxtum á 25 árum. Til þessara hafnarframkvæmda veitir ríkið því engan styrk eða framlag, en samkv. l. nr. 29 frá 1946 greiðir ríkissjóður 40% af kostnaði annarra hafnarmannvirkja í landinu. Höfnin í Straumsvík verður algerlega undir stjórn Hafnarfjarðarhafnar og verður til afnota fyrir aðra en ISAL, enda skal Álfélagið tilkynna með a.m.k. 5 daga fyrirvara um skipakomur á þess vegum. Eftir að höfnin í Straumsvík er að fullu greidd af ISAL ásamt vöxtum á 25 ára tíma, hefst greiðsla, sem skal ákvarðast með vörugjaldi miðað við flutning um höfnina eða 0.1% af álverði miðað við 60 þús. tonna framleiðslu. Nemur þetta fyrir Hafnarfjarðarhöfn 1.3 millj. kr. á ári, en bæði þetta gjald og eins uppgreiðsla byggingarkostnaðar hafnarinnar á 25 ára tímabilinu greiðist í dollurum og má því segja fullkomlega verðtryggð. Auk þessara hafnargjalda skal Hafnarfjarðarbær fá greitt frá ISAL 11/2 millj. í byggingarleyfisgjald og 31/2 millj. í gatnagerðargjald. Samkv. lagafrv., sem nú liggur fyrir hv. Alþ., skal ráðstafa framleiðslugjaldi álbræðslunnar svo, að Hafnarfjarðarkaupstaður fái sinn hlut, 1/4 hluta fyrstu 9 árin, en 1/5 hluta eftir þann tíma. Hér er því um veruleg hlunnindi og greiðslur að ræða til þessa bæjarfélags, og er þess að vænta, að það verði bænum mikil lyftistöng.

Hv. 5. þm. Reykn. las fyrir þessari hv. þd. við 1. umr. málsins úr fornum ritum, þegar brezkir togaraútgerðarmenn settust að í Hafnarfirði á fyrstu árum þessarar aldar. Þetta var að vísu fróðlegur lestur, en þó hefði ekki skaðað, að með hefði fylgt nokkur lesning um íslenzka togaraútgerð frá Hafnarfirði nú seinustu árin. Sannleikur málsins er sá, að það er fáum bæjarfélögum meiri þörf en Hafnarfirði nú að fá þróttmikinn atvinnuveg, sem veitt gæti fólki stöðuga atvinnu til frambúðar, veitt fjármagni af rekstrinum inn í bæjarkassann og orðið til þess að styðja að mörgum atvinnugreinum í bænum. Ekki er ólíklegt, að hluti þeirra 450 manna, sem koma til að starfa við álbræðsluna, þegar hún er fullbyggð, hafi aðsetur í Hafnarfirði og nágrenni. Þetta orsakar einmitt það, að meira framboð verður í Hafnarfirði á vinnukrafti kvenna og unglinga en nú er. Ganga má út frá því, að talsvert af fjölskyldumeðlimum álbræðslumanna sækist eftir atvinnu utan heimilis og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst í Hafnarfirði. Mér hefur einmitt skilizt, að þörf væri fyrir aukið vinnuafl í Hafnarfirði til léttari starfa. Væntanlega á niðursuðuverksmiðjan Norðurstjarnan eftir að hefja aftur vinnslu og tekur hún þá til sín 60–80 konur. Í Hafnarfirði er eina raftækjaverksmiðja landsins, sem þarfnast mjög fólks til léttari starfa. Svo má nefna frystihúsin og margs konar annan iðnað, sem þar er staðsettur. Mín spá er því sú, að það verði ekki sízt öðrum atvinnufyrirtækjum í Hafnarfirði og nágrenni til góðs að fá álbræðsluna til sín.

Eðlilega eru Íslendingar einhver fjársnauðasta menningarþjóð í heimi. Uppbygging höfuðatvinnuvega þjóðarinnar og menningarstofnana hefur gengið með þeim hraða, að einsdæmi verður að teljast. Það má með sanni segja, að þessi kynslóð, sem nú lifir í landinu, hafi byggt yfir sig í víðri merkingu, þótt menningararfurinn sé fortíðarinnar. Öll þau miklu atvinnutæki, sem byggð hafa verið í landinu, krefjast mikils fjármagns til fulls rekstrar. Er ekki að efa, að mörg eru þau atvinnutæki landsmanna, sem byggzt hafa upp undanfarna áratugi, sem hægt væri að reka með meiri hagkvæmni með auknu fjármagni. Jafnframt má benda á það, að aukið fjármagn í rekstri fyrirtækja er í mörgum tilvikum mikið mannsparandi, en í dag er það okkur lífsnauðsyn að spara vinnuaflið. Það er þess vegna ekkert vit fyrir okkur Íslendinga að draga okkar litla fjármagn í svo fjárfrekan rekstur sem álbræðslan er, samhliða því, sem við ráðumst í stórkostlega vatnsvirkjun við Búrfell. Hins vegar er ekki að efa, að það á að verða okkur til mikils góðs, að fá slík atvinnufyrirtæki inn í landið sem álbræðslan er, án þess að festa í því fjármuni þjóðarinnar.

Þegar svo er ástatt með einni þjóð, að hún raunverulega á atvinnutæki, en verður að fara sér rólega með rekstur vegna innlends fjárskorts, verður það vafasamt að leggja út í svo fjárfrekar framkvæmdir sem álbræðslu. Bræðslan við Straumsvík er áætlað að kosti 2500 millj., en framleiðsluverðmæti hennar verði með núverandi verðlagi áls á heimsmarkaði nær 1400 millj. kr. Fjármagnskostnaður slíkrar álbræðslu er mjög mikill miðað við verðmætasköpun, eða nær tvöfaldur. Raunveruleg innlend verðmætasköpun bræðslunnar með 60 þús. tonna framleiðslu verður líklega, þegar frá er dregið innflutt hráefni, alúmín, rafskaut og aðrar rekstrarvörur, sem næst 650 millj. kr., eða tæpur helmingur framleiðslunnar.

Nú er talið, að eftirtekjur af bræðslunni fyrir Íslendinga, gjald fyrir raforku, vinnulaun, framleiðslugjald og annað, sem bræðslunni er gert að greiða samkv. samningnum, sé sem næst 330–350 millj. kr. Eftir því sem bezt verður séð, eru þá eftirstöðvar 300 millj. fyrir vexti og afborgun af 2500 millj. kr. fjárfestingu Svisslendinga.

Mitt mat er eftir þessar hugleiðingar, að fyrir okkur íslendinga sé það ekki ábatasamur atvinnurekstur að byggja sjálfir álbræðslu, sérstaklega með tilliti til þess, hversu fjármagn, sem íslenzkur atvinnurekstur hefur til umráða, er af skornum skammti og dýr. Svisslendingar með sitt mikla fjármagn geta hugsað á allt annan veg, þar sem þeir þurfa ekki að reikna sér nema tiltölulega lága vexti.

Tíðrætt hefur hv. alþm. orðið um samanburð við Noreg, sérstaklega við Husnes álbræðsluna. Ef nú er borið saman fjármagn það, sem við þurfum að leggja þessari álbræðslu á Íslandi og svo, hvað Norðmenn urðu að leggja bræðslunni í Husnes, verður fyrst fyrir manni hlutaféð. Reiknað var með, að Norðmenn legðu fram helming þess, 300 millj. kr. ísl. Að vísu tókst þetta ekki, þar sem norski þjóðbankinn treysti sér ekki til þess að ábyrgjast norskt hlutafé að þessu marki, vegna þess að mat bankans var, að bræðslan mundi ekki gefa norskum hluthöfum arð af hlutafé því, sem þeir legðu fram, miðað við arð þann, sem norskir hluthafar þyrftu og krefðust. Við byggingu bræðslunnar í Husnes var gert ráð fyrir því, að um byggingarframkvæmdir og tækjasmíði yrði samið við norska verktaka, þó á samkeppnisgrundvelli. Í reynd var þetta þannig, að samningar við norsk fyrirtæki gerðu ráð fyrir gjaldfresti í allt að 7–8 ár, og fyrirtækin urðu að fara á norskan lápamarkað með þessa samninga og fá þá keypta í norskum lánastofnunum. Hér er hins vegar gengið svo vel frá öllum hnútum, að samkeppnisaðstaða íslenzkra fyrirtækja og verktaka miðast ekki við það, að þau leggi nokkuð fram að láni í framkvæmdum, sem þeir kynnu að taka að sér.

Varðandi rekstur álbræðslanna hér og í Noregi er þetta atriði þó enn táknrænna. Bræðslan í Noregi er talin algjörlega norskt fyrirtæki, þótt hún sé nú að 80% eign útlendinga. Þar sem hún er talin norskt fyrirtæki, hefur hún rétt til að sækja á norskan lánamarkað með allan sinn rekstur. Hér er hins vegar svo frá gengið, að ISAL skal eiga inneign í íslenzkum bönkum, sem nemur, að ég hygg, þriggja mánaða rekstursgjöldum bræðslunnar. Hér er um verulegar upphæðir að ræða, sem væntanlega verður til mikils hagræðis fyrir þá lánastofnun, sem hlýtur þessar innistæður. Við fjármagn til álbræðslu verður þó ekki skilið, án þess að minnzt sé á það, að fátæk þjóð sem Íslendingar hefur ekki úr miklu að spila, ef um áhættusama atvinnuvegi er að ræða. Við teljum þó, að iðnaður sé stöðugur og ekki áhættusamur til jafns við sjávarútveg. Reynsla okkar Íslendinga af margháttuðum stórframkvæmdum er hins vegar sú, að þær skila ekki alltaf arði sem skyldi, svo að ekki sé meira sagt. Dæmin eru viðkvæm og skulu ekki nefnd, en það má með sanni segja, að hér eru Íslendingar að flytja inn í landið erlent áhættufjármagn miklu frekar en hægt sé að tala um, að við séum að leggjast undir erlent stórgróðafélag.

Samningurinn gerir ráð fyrir, að ISAL skipti að öðru jöfnu við innlend þjónustufyrirtæki, bæði á byggingartímanum og eftir að bræðslan tekur til starfa. Á þetta einnig við um flutninga að og frá bræðslunni. Hér eru þessi atriði beinlínis í samningi milli aðila, en í Noregi telst mér til, að um viljayfirlýsingu Alusuisse hafi verið að ræða. Og hver hefur svo orðið reynslan í Noregi? Allir flutningar að og frá bræðslunni fara fram með norskum skipum. Er talið, að það nemi 50 millj. kr. árlega fyrir Norðmenn. Bygging bræðslunnar var að mestu leyti framkvæmd af norskum verktökum, og í dag, þegar Norðmenn hafa hlotið leikni í meðferð tækjanna í álbræðslunni 3 Husnes, þá eru það aðeins 1 eða 2 erlendir menn, sem starfa við fyrirtækið.

Gerðardómsákvæði samningsins þarf ég ekki að ræða. Til þess eru hér í þessari hv. þd. færari menn, auk þess sem í nál. meiri hl. eru dregnar fram hliðstæður um slík ákvæði, sem ekki verða vefengdar með rökum. Stóriðjunefnd sérfræðinga hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnmrh. hafa unnið mikið starf í sambandi við þessa samninga og við undirbúning málsins. Það er sannfæring mín, að betri undirbúnings sé ekki hægt að krefjast með neinni sanngirni, og þessi framkvæmd öll er því þannig til hagsbóta fyrir alla Íslendinga, hvort sem þeir hafa sitt starf af iðnaði, landbúnaði, sjávarútvegi eða verzlun. Meiri hl. álbræðslunefndar mælir því með, að samningur þessi taki lagagildi.