15.11.1965
Efri deild: 16. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Tveir síðustu ræðumenn létu í ljós undrun yfir þeim málflutningi, sem ég hefði haft hér. Ég get því miður ekki sagt hið sama um þann málflutning, sem þeir höfðu hér í frammi og þá sérstaklega hv. síðasti ræðumaður. Hann vakti ekki neina undrun hjá mér, af því að hann var nokkuð á sömu lund og málflutningur hans í þessum efnum hefur verið hér áður.

Það er ekki nema gott eitt um það að segja, að menn rifji öðru hverju upp það, sem gert hefur verið í húsnæðismálum. En ég verð að segja það, að það var næsta lítið tilefni gefið til þeirrar ræðu, sem hv. þm. flutti hér áðan, af því að það hefur ekki komið fram af minni hálfu né frá neinum öðrum, sem hér hefur talað í þessu máli, nein vefenging á því, að þær ráðstafanir, sem eru í þessu frv., sem hér er um að ræða, að frátöldum ákvæðunum um eignarskattsaukninguna og hámark húsaleigunnar væru til bóta. Það hefur enginn mælt gegn neinu slíku í þessu frv. Það var þess vegna engin ástæða til þess að fara nánar út í það. Ég hef aldrei haldið því fram, eins og mér virtist hv. þm. vera að gefa í skyn, að það væri út af fyrir sig nokkur goðgá, þó að einstakir tekjuliðir ríkisins færu fram úr áætlun. Auðvitað á að reyna að áætla tekjuliði fjárl. svo nákvæmlega sem unnt er og æskilegast, að sú áætlun standi, því að því aðeins hefur sú áætlun, sem í fjárl. felst, eitthvert verulegt gildi. En alltaf getur þar einhverju skakkað, og ekki er ástæða til að tala um neina goðgá í því sambandi, og ekki hafði ég heldur gert það.

En aðalatriðið í þessu máli er það, að í 1. um húsnæðismálastofnun ríkisins er það beinlínis tekið fram í 4. gr., b-lið, sem á að breyta með þessu ákvæði 2. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, að framlag úr ríkissjóði skuli vera 40 millj. kr. Til þess að mæta þessum útgjöldum skal miða eignarskatt við gildandi fasteignamat þrefaldað. Þarna var verið að miða við ákveðinn stofn, ákveðna þörf, og ef það hefði í raun og veru átt að vera svo, að þessi hluti eignarskattsins hefði átt að renna í byggingarsjóð, hefði vitaskuld átt að halda honum alveg sérgreindum, eins og orðalagið í þessari gr. húsnæðismálastofnunarl. gefur nánast tilefni til. En það hefur ekki verið gert, heldur rennur þessi hluti eignarskattsins beint í ríkissjóð og er ekki haldið sérgreindum á neinn hátt. Þetta er játað. Það er enn fremur orðið játað, sem lá ekki eins ljóst fyrir í upphafi, þegar þessar umr. fóru fram, að hækkunin á fasteignamatinu, sexföldun þess, sé eingöngu vegna þess, að skakkt hafi verið reiknað í upphafi, en ekki vegna þess, að samkomulagið s.l. sumar hafi gefið tilefni til neinnar nýrrar fjáröflunar. Það er gott að fá þetta fram. Það er að vísu ekki í fyrsta skipti, sem hæstv. núv. ríkisstj. eða starfsmenn á hennar vegum reikna ekki rétt. Það hefur komið fyrir áður. En þetta er náttúrlega talsvert mikil skekkja í reikningi að reikna það fyrri hl. þessa árs, að þreföldun fasteignamatsins mundi duga til þess að standa á móti 40 millj., en komast svo að þeirri niðurstöðu í októbermánuði, að það muni þurfa að sexfalda fasteignamatið. Er þá nokkur furða, þó að mönnum geti dottið í hug, að það komi á daginn næsta ár, að það þurfi að nífalda fasteignamatið eða því um líkt?

Það hefur komið alveg skýrt fram í þessum umr., að hér er miðað við mjög óvissan grundvöll. Það er ekki hægt að segja til um það með neinni vissu, hve miklu sá hluti eignarskattsins nemur, sem stafar af þreföldun fasteignamatsins, og það er því síður hægt að segja til um það með nokkurri vissu, hve miklum hluta af væntanlegum eignarskatti muni nema sú sexföldun fasteignamatsins, sem hér er farið fram á.

Ég verð svo að segja, að mér hefði þótt það ánægjulegra, ef hæstv. fjmrh. hefði varið nokkru af sínum tíma og alveg sérstaklega ef hv. frsm. meiri hl. n. hefði varið einhverju af sínum tíma til þess að gera grein fyrir þeim skoðanaskiptum, skulum við segja, sem birtast í þessu frv. og því, sem var efst á baugi, þegar l. um fasteignamat og fasteignaskráningu voru sett hér fyrir 2 árum og fram kemur í bráðabirgðaákvæði við þau lög og ég las upp hér áðan. Ég veit ekki betur en fasteignaeigendur hafi mótmælt þessari lagasetningu, að Félag fasteignaeigenda hafi mótmælt þessari lagasetningu einmitt með skírskotun til þessa ákvæðis, til þessa bráðabirgðaákvæðis í l. um fasteignamat og fasteignaskráningu. Þeir telja, að það sé um brigð að ræða, þegar fasteignamatið er sexfaldað, eins og hér er gert ráð fyrir, í stað þess, sem ákveðið er í því bráðabirgðaákvæði, að áður en kemur til nýs fasteignamats, skuli fara fram endurskoðun á þeim lagaákvæðum, sem miða fasteignagjöld við fasteignamat, með það fyrir augum, að þau hrökkvi ekki vegna fasteignamatsins. Eins og ég tók fram áðan, dettur mér ekki í hug að halda því fram, að það sé ekki hægt að gera breytingu hér á og hverfa nú að öðrum háttum. En það hefði verið æskilegt, að formælendur þessa frv. hefðu gert grein fyrir því, hvað veldur, að nú þykir ekki lengur fært að standa við það fyrirheit, sem fram kom í þessu bráðabirgðaákvæði l. um fasteignaskráningu og fasteignamat, og það hefði að mínum dómi verið ólíkt gagnlegra, að hv. frsm. meiri hl. hefði gert grein fyrir því, heldur en tal hans um húsnæðismálin, sem þó var allt fallegt og slétt og ég hef ekki neina aths. við að gera, þótt mér virtist helzt af tóninum í ræðu hans, að hann væri að beina þar einhverju að einhverjum þm., sem hann þó nafngreindi ekki nánar.