29.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er í raun og veru sáralítið, sem ég þarf að segja í sambandi við ræður stjórnarandstæðinga við þessa umr. Það er ekki vegna þess, að það sé ekki sitthvað, sem mér finnst, að hallist í málflutningi þeirra, en það er eins og ég hafi heyrt sumt af þessu áður, ef ekki flest, og einnig heyrt því svarað, bæði af mér og öðrum, og ég tel, eins og nú er komið, að það skipti þá litlu máli að vera að endurtaka mikið af því sí og æ.

Í lok 1. umr. þessa máls lét ég þess getið, að ég mundi geyma til þessarar umr. að svara sérstaklega ýmsum ásökunum, sem bornar höfðu verið fram í minn garð, og það verður nú fyrst og fremst, held ég, til þess að endurgjalda kurteisina frá þeirri umr., sem ég að þessu sinni hef kvatt mér hljóðs og má ekki minna vera, sérstaklega frá hv. 3. þm. Norðurl. v. og 6. þm. Sunnl. reyndar líka.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. tók sér fyrir hendur að reyna að sýna fram á, að það, sem ég hefði áður sagt um afskipti hans af þessu máli, sérstaklega í sambandi við gerðardóminn, væri rangt, ekki aðeins það, heldur ósatt, þ.e.a.s. vísvitandi rangt. Við skulum rifja svolítið upp það, sem ég hef sagt um málið, í fyrsta lagi, að prófessor Ólafi Jóhannessyni hafi verið sýnd frumdrög samningsuppkasts frá Íslendingum. Það er viðurkennt, að það sé rétt. Í öðru lagi, að prófessor ólafur Jóhannesson hafi þá ekki gert neinar aths. um ráðagerðir og hugmyndir um alþjóðlegan gerðardóm, eins og ég orðaði það, bæði í Nd. og framsöguræðu minni hér, og á því var enginn munur. Það er líka viðurkennt, að þetta sé rétt. Það var alveg óþarfi að gera því skóna af báðum þessum hv. þm., að ég hefði um þetta haft eitthvert annað orðalag hér við fyrri umr. heldur en ég hafði í Nd. og það hafi eitthvað verið farið að draga af mér eða eitthvað á þá leið, sem þeir sögðu, því að efnislega voru það alveg nákvæmlega sömu ummælin, sem ég hafði hér um þessi viðhorf eða afstöðu þm. almennt til þessara gerðardómsákvæða, en í Nd. sagði ég á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Upphaflega uppkastið, fyrsta samningsuppkastið eða frumdrögin frá Íslendingum gerðu ráð fyrir gerðardómi.“

Og það er meira en ár liðið síðan þau voru sýnd prófessor Ólafi Jóhannessyni sem fræðimanni á þessu sviði, og hann hafði ekkert við þessar hugmyndir að athuga á því stigi málsins og ekki síðar, sem ég skal koma betur að. Þessi frumdrög voru, eins og ég segi, fyrst og fremst ráðagerðir og hugmyndir, eins og ég hef alltaf greint frá. Ég hef aldrei sagt, að hann eða aðrir þm. stjórnarandstöðunnar beri neina ábyrgð á þessum eða öðrum ákvæðum samningsins. En ég hef furðað mig á og ekki skilið, þegar litið er til allra stóryrðanna og gífuryrðanna nú, af hverju stjórnarandstæðingar skyldu ekki taka sig á fyrr. Í fjórða lagi hef ég aldrei vitnað í neina álitsgerð Ólafs Jóhannessonar, en ég hef spurt, af hverju hann hafi ekki séð ástæðu til þess í öndverðu og síðar undir meðferð málsins að aðvara gegn því, að ráðgert skyldi að semja um gerðardóm af hálfu ríkisins við einkaaðila, úr því að hann telur slíkt nú svo fráleitt og vansæmandi og niðurlægjandi. Þetta eru allt orð, sem hann hefur notað sjálfur. Það er að vísu rétt, að þessi hv. þm. sagði, að hann hefði aldrei sagt, að þetta væri stjórnarskrárbrot eða fullveldisskerðing, þó að aðrir þm. hafi sagt, að það væri bæði fullveldisskerðing og stjórnarskrárbrot, afsal landsréttinda o.s.frv., o.s.frv. Hver er þá hans afsökun? Hún er þessi: Það, sem mér var sýnt, er allt annað en það, sem nú er um samið. Og það var meginuppistaðan í því, að ég hefði verið að gera því skóna, að hann hefði ekki haft neitt að athuga við hlut eða uppkast, sem væri allt annað en nú lægi fyrir.

Hvað var svo þessum hv. þm. sýnt í öndverðu? Hann gerði í sinni ræðu grein fyrir því og komst að þessari niðurstöðu og sagði sem svo: „En af því, sem ég hef lesið,“ og þá var hann að gera grein fyrir því, sem honum hafði verið sýnt, „er alveg ljóst, að í fyrsta samningsuppkastinu, sem Íslendingar lögðu fram, uppkastinu, sem mér var sýnt, voru engin, alls engin slík gerðardómsákvæði, sem í samningi þeim eru, sem nú á að lögfesta.“ Og nú skulum við athuga þetta. Hann las hér að lútandi grein í þýðingu sinni, í upphaflega uppkastinu. Og hvað stendur í því, sem þm. las sjálfur? Jú, hann las, að í 1. mgr. 22. gr., ef ég man rétt, stæði, að vísa skyldi deilu, ef sættir ekki tækjust, til íslenzkra dómstóla, nema hún færi til gerðar eftir 3. mgr. þessarar sömu gr. — nema hún færi til gerðar. Það var einmitt það. En hvaða gerð gat þetta verið? Og nú skulum við lesa þýðingu þessa hv. þm. sjálfs á 3. mgr.:

„Verði uppkast Alþjóðabankans að alþjóðasamningi um lausn fjárfestingardeilna fullgilt af nægilega mörgum ríkjum og af Alþ. og af réttum svissneskum stjórnvöldum, er ríkisstj. reiðubúin að ræða þann möguleika við Alusuisse að nota þá aðferð til sátta og gerðar, sem þar er gert ráð fyrir, enda sé um meiri háttar deilumál að ræða.“

Stendur ekki þarna í fyrstu frumdrögum, að ríkisstj. sé reiðubúin að ræða þann möguleika að skjóta málinu í alþjóðlega gerð? Menn vissu ekki á þessu stigi málsins, hvernig ákvæðið um hana mundi verða. En alla vega átti það að vera erlendur gerðardómstóll, sem fjallaði um deilu ríkis og einkaaðila. Og furðar menn á því, þó að ég spyrji: Hefði þetta ekki átt að vera prófessornum viðvörunarefni, eins og hann talar nú um, hvílík ósköp það séu að semja um gerð af hálfu ríkis í máli eins og þessu, eins og hér er gert við einkaaðila, um leið og hann lætur þess getið, að í sjálfu sér væri ekkert við það að athuga, ef sá samningur væri við annað ríki? Hér við bætist, að þýðing Ólafs Jóhannessonar á þessari mgr. er ekki nákvæm, og hann óskaði eftir leiðréttingu, ef mér fyndist svo. Enski textinn er svo, með leyfi hæstv. forseta:

„The Government is prepared to consider with Alusuisse the possibillty of taking advantage of course to a tribunal for arbitration.“

Hv. þm. talar um að nota „þá aðferð“ fyrir „taking advantage of“, en „taking advantage of“ mætti fremur þýða: hagnýta sér eða nota sér hagræði af. „Advantage“ er svo skýrt í The Concise Oxford Dictionary: „better position“, betri aðstaða, m.ö.o. hann leitar sér betri aðstöðu, betri aðstöðu þá en hvað? Það er skýrt sem „superiority“, eitthvað, sem er fremra öðru, það er skýrt sem „favourable circumstance“. Það er hagkvæm eða ákjósanleg aðstaða.

Mér sýnist alveg ótvírætt með hliðsjón af þessu, að miðað við núverandi mat eða viðhorf þessa hv. þm. á því, að ríkið leggi deilu við einkaaðila í alþjóðlega gerð eða hvað sem menn vilja kalla það, megi það undrum sæta, að prófessor við Háskóla Íslands, sem telur slíkt sambærilegt við það að vera mútað til að skríða á fjórum fótum á Lækjartorgi eða eitthvað því um líkt í augsýn samborgaranna, skuli enga hvöt hafa fundið hjá sér til þess að vara, við skulum segja dómsmrh. landsins, við að leggja út í slíkt niðurlægjandi ævintýri fyrir þjóðina, og jafnvel ekki heldur, eftir að þingflokki, sem hann á sæti í, er gefinn kostur á að taka þátt í undirbúningi málsins fyrir Alþ. Ég verð því að leiðrétta dómsniðurstöðu þessa hv. þm. sjálfs af hans eigin málflutningi í öllum meginatriðum. Hann segir sjálfur: „Með þessu hef ég algerlega sannað, að það er ekki fótur fyrir dylgjum dómsmrh.“ Þetta eru hans orð. En dylgjurnar áttu að vera þær, að ég hefði sagt, að honum hefðu verið sýndar ráðagerðar og hugmyndir um samningsákvæði um alþjóðlegan gerðardóm, eins og nú væri nánar samið um. Hv. þm. hefur hvorki sannað né afsannað neitt, heldur staðfest mínar frásagnir.

Hann segir enn fremur í ræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta: „Það er þannig alveg upplýst mál, að hæstv. dómsmrh. hefur farið með rangt mál hér á hv. Alþ. Ég ætla ekki að una dómi þessa hv, þm. eins, en leyfi mér öruggur að leggja það undir dóm annarra þm., hvort þetta fái staðizt miðað við það, sem nú er upplýst í þessu máli.

Og loks segir þessi hv. þm.: „Þess vegna fór hann, þ.e. dómsmrh., með vísvitandi rangt mál, þegar hann var með þessar dylgjur um mig.“ Frásögnina um þennan dóm þm. birti Tíminn í fimm dálka forsíðufyrirsögn í tveimur línum, nokkru seinna 5 dálka fyrirsögn inni í blaði um það sama sem fyrirsögn við ræðu hv. 6. þm. Sunnl. Þetta var textinn: „Vísvitandi ósannindi dómsmrh.“ Þessum stóryrðum og staðlausu stöfum vísa ég heim til föðurhúsanna og skal ekki hafa um það fleiri orð.

En svo er eftir annar þáttur þessa máls um gerðardóminn og niðurlægingu okkar af honum og hvernig meðferð málsins hafi verið, og það var nokkuð rakið sérstaklega af hv. 6. þm. Sunnl.

Á síðari stigum málsins og a.m.k. hálfu ári og meira áður en samningurinn var undirskrifaður lágu gerðardómsákvæðin allskýrt fyrir og mjög skýrt fyrir, eftir að komið var fram í okt. 1965. Ég hef sagt um gerðardómsákvæði þessa samnings áður: Ég út af fyrir mig hef ekkert við það að athuga, þó að menn hafi þá skoðun, að ástæðulaust sé að semja um slíkan gerðardóm og þó að menn teldu hann óþarfan, og fyrir því eru færð sterk rök einmitt af samningamönnum ríkisstj. og í samráði við mig í málsskjölum, sem farið hafa á milli Íslendinga og Svisslendinganna. Þetta hef ég ekki haft við að athuga, en ég hef, eins og ég sagði áðan, furðað mig á hinu, að menn telji hér nú um eitthvert glapræði að ræða. Það hefur alltaf í okkar málflutningi verið talið, að það væri ástæðulaust, og við höfum einmitt sjálfir lagt áherzlu á vammleysi íslenzkra dómstóla, eins og ég vitnaði til í fyrri ræðu minni, og þess vegna væri ástæðulaust nema sérstaklega stæði á að hverfa til slíks fyrirkomulags á lausn deilumála, sem í slíkum gerðardómi felst.

Það hefur, eins og ég sagði, aldrei komið nein till. um að fella þetta ákvæði úr samningunum undir meðferð málsins. Það hafa aðeins komið fram aths. í þmn. og á þessum forsendum, eins og ég hef sagt. Menn hafa talið, að það þyrfti ekki á þessu að halda, og það er algerlega rangt, og það er enginn fótur fyrir því, að það sé fyrirvari um það í fundargerð 14. fundar 15. júlí 1965 í bókun Helga Bergs og Ingvars Gíslasonar, sem hv. 6. þm. Sunnl. vitnaði til, þar sem segir: Þeir leggja fram bókun í nokkrum liðum og annar liður segir, að verksmiðjufyrirtækið lúti í einu og öllu íslenzkum lögum. Ég minnist aldrei í sambandi við þennan lið, að hvorki Helgi Bergs né Ingvar Gíslason hafi talað um í þessu sambandi, að það ætti að fella niður gerðardómsákvæðin, og þeir í þmn. og samningan., sem ég hef borið þetta undir, minnast þess heldur ekki, og það er heldur enginn stafur fyrir nokkru um það í bókunum í fundargerðum þmn. Þetta er seinni tíma tilbúningur, að ætla að finna það út, og þetta sagði ég í Nd. og endurtek hér, að í þessu eigi að felast það, að það megi ekki fela erlendum gerðardómi úrlausn mála, að verksmiðjufyrirtækið lúti í einu og öllu íslenzkum lögum. Það getur svo hæglega lotið íslenzkum lögum, verksmiðjufyrirtækið, þó að samið sé um það á milli ríkisstj. og ábyrgðaraðilans, eigandans, sem er erlendur aðili, að deilumál út af rekstri verksmiðjufyrirtækisins, milli þeirra, Alusuisse og ríkisstj. skuli rekið fyrir alþjóðlegum gerðardómi eða sérstökum gerðardómi. Nei, ég endurtek það, að þetta var aldrei túlkað svo í þmn., að í því fælist útilokun á vísun málsins til gerðardóms, sem um skýringu, túlkun og framkvæmd gildi og áhrif samnings á að fara að íslenzkum l. samkv. samningnum, enda fær það almennt ekki staðizt eðli málsins samkv. Það er líka, eins og ég sagði, fyrst og fremst eigandi og ábyrgðaraðill verksmiðjufyrirtækisins, Alusuisse, sem sótt yrði til saka fyrir hinum alþjóðlega gerðardómi, en ekki verksmiðjufyrirtækið. Það er annars vegar ríkisstj. og hins vegar Alusuisse samkvæmt samningum, en ekki verksmiðjufyrirtækið, eins og segir í bókuninni, sem fara mundi með sakarefnið í öllum málum, sem til gerðardóms yrðu lögð samkv. 47. gr. Hins vegar mundu aðrir aðilar að samningnum, sem deiluna varða, geta átt meðalgöngu að gerðinni, og er þetta ítarlega skýrt í grg. málsins.

Hv. 6. þm. Sunnl. vék að þessu í ræðu sinni við 1. umr. og sagði um þetta annað atriði: Ég vek athygli á 2. tölulið þessarar bókunar, þar sem stendur, að verksmiðjufyrirtækið, þ.e.a.s. það innlenda fyrirtæki, sem rekur verksmiðjuna, verksmiðjufyrirtækið lúti í einu og öllu íslenzkum lögum, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði svo glögglega grein fyrir í dag, hlýtur auðvitað í þessu að vera fólgið eitthvað það, að þeir lúti íslenzkri lögsögu. (Gripið fram í: Einnig það.) Á það að vera einnig það? Þetta er óyfirlesið, svo að það leiðréttist þá hér með.

En þá er að skýra þá staðhæfingu, sem hann segir, að haldið hafi verið fram af hv. 3. þm. Norðurl. v. líka, að það hljóti að felast í þessu, að það lúti íslenzkri lögsögu. Það var viðurkennt af þessum hv. þm., að það gæti undir vissum kringumstæðum verið eðlilegt, ef Alþjóðabankasamþykktin væri staðfest hér af þinginu, að skjóta deilumálum við fyrirtækið til gerðardóms samkv. þeirri samþykkt. Það lýtur auðvitað íslenzkum lögum, en það er í þessum skilningi ekki lútandi íslenzkri lögsögu. Í þeim skilningi mundu íslenzkir dómstólar ekki dæma það mál, þó að það léki enginn vafi á því og væri ekki í dag í augum þessa hv. þm. neinn vafi á því, að fyrirtækið lyti íslenzkum lögum.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagðist nú hafa komið með aðvörun og hann hefði sannarlega aðvarað ríkisstj. og hann hefði gert það í vantraustsumr. Voru þær ekki þremur dögum áður en undirskriftir áttu sér stað, ef ég man rétt? En hvernig voru vantraustsumr. nokkrum dögum áður, ég held þremur dögum, — hvernig voru vantraustsumr. til komnar? Eigum við ekki að rifja það svolítið upp? Þær voru þannig til komnar, að ríkisstj. hafði ákveðið að leggja samningana í þessu máli, álbræðslumálinu, fyrir þingið, og það var vitað, hvaða dag það mundi verða, og óskaði ég þess þá við forseta þingsins, að l. umr. um það mál færi fram í alþjóðaráheyrn í ríkisútvarpinu. Tilkvaddir voru samkvæmt þingsköpum til að ræða um þetta formenn þingflokkanna, og það leizt þeim nú ekki alveg á að það ætti að fara að ræða málið við 1. umr. í ríkisútvarpinu. Þeir sögðu sem svo: Það takmarkar of mikið tímann, og þó er á það að líta, að þá væru eftir tvær umr. í Nd. og þrjár í Ed. eftir l. umr. um mál eins og þetta. Og það var þá, sem þeim hugkvæmdist að bera fram vantrauststill. og leggja hana fram áður, og það höfðu þeir í hendi sér, og það var, veit ég, rætt á milli formanna flokkanna. Það höfðu þeir að vísu í hendi sér að fara þá leið, og þá gætu þeir auðvitað fengið útvarpsumr. um þá vantrauststill., hún væri borin fram á undan álfrv. Það var þess vegna af þessari einskæru og sérstöku tilviljun, sem þessar aðvaranir frá hv. 3. þm. Norðurl. v. komu loksins fram. En þá, eins og ég segi, var honum búið að vera kunnugt um gerðardómsákvæðin frá því í októbermánuði a.m.k. Eftir að þing kom saman, var mér kunnugt um, að þm. í þmn. gerðu þingflokkum stjórnarandstöðunnar grein fyrir málinu, eins og það þá stóð, og eftir fundinn hér í okt., þegar Svisslendingarnir voru hér, lá þetta mál verulega ljóst fyrir og síðar í samningsuppkasti, sem dags. er 11. nóv. og þnm. fengu sent strax og það hafði borizt hingað. þá er í öllum meginatriðum form og ákvarðanir um gerðardóminn, eins og það liggur fyrir núna, en þó með nokkrum breytingum til bóta.

Ég skal þá víkja svolítið að þeim breytingum, sem gerðardómsákvæðin hafa tekið í meðferðinni frá þessu fyrsta frv.-uppkasti.

Ég hef getið þess áður, að Svisslendingarnir sendu svar við þessu uppkasti, sem dags. var í jan. 1964. Ég man nú ekki og veit ekki, hvenær þeim var sent það, en svar við þessu, þessum frumdrögum, kom í uppkaststill. Svisslendinga í maímánuði 1965, eins og ég hef hér áður gert grein fyrir. Og ég vil leiðrétta þann misskilning, sem fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að ég hefði sagt, að ákvæðin um gerðardóminn hefðu stöðugt batnað okkur í vil frá fyrstu frumdrögunum. Það átti ég ekki við. Þetta þarf ekki að vera, og er sjálfsagt ekki hans sök. Ég hef sennilega, fyrst hann hefur skilið það svo, tekið óskýrt til orða um það, en ummæli mín áttu að miðast við tímann frá því að þessi drög frá Svisslendingunum, svörin frá þeim, komu í okkar hendur, því að þau voru í allt öðrum dúr heldur en við höfðum lagt til og ákvæðin eru nú í dag. Þar var gert ráð fyrir gerðatdómi, sem átti að úrskurða eftir grundvallarreglum íslenzkra og svissneskra laga, að svo miklu leyti sem þau væru sameiginleg, og ella eftir alþjóðarétti og ákvæðin að öðru leyti verulega miklu óljósari heldur en þau nú eru orðuð. Og það var þess vegna, að þessi atriði voru alveg sérstaklega áréttuð, eftir að þetta uppkast var rætt í þmn., og því gerði ég grein fyrir hér við I. umr. málsins, þarf því miður að endurtaka nokkuð af því.

Ég skal nú reyna að fara fljótt yfir sögu, en þar var lagt fyrir þmn., eins og hv. 6. þm. Sunnl. gerði grein fyrir, uppkast að svari, sem dags. var 11. ágúst, rétt þar á eftir, í þmn. Þeir höfðu fengið þessi uppköst til athugunar, og þar var m.a. fjallað um þáttinn um grundvallarlög og deilumál og með eftirfarandi hætti, með leyfi hæstv. forseta:

„1 ákvæðum samningsins um ofangreind efni ætti í fyrsta lagi að koma fram eðlilegur greinarmunur milli efnislegs réttar og réttarfars og talað um, að svo virðist, að það hafi ekki tekizt í drögunum, þótt skilið sé þar á milli innihalds. En í þessu fólst fyrst og fremst, að það þyrfti að okkar dómi að ákvarða nánar, eftir hvaða lögum gerðardómurinn ætti að dæma, og það væri allt of óljóst, ef það ætti að vera eftir grundvallarreglum íslenzkra laga og svissneskra laga, að svo miklu leyti sem þau væru samhljóða, og annað kæmi ekki að okkar dómi til mála í þessu sambandi — og á það lögðum við mikla áherzlu — en það væru íslenzk lög, sem hér ætti að dæma eftir, að það væri fyrir fram ákvarðað um efnislega réttinn, hvað sem síðar kynni að verða formað um réttarfarsreglumar, sem fylgja bæri í sambandi við gerðardómsmeðferðina og nú og síðar hefur verið byggt á, að fari eftir Alþjóðabankasamþykktinni um það efni.“

En um þetta sagði í því plaggi, sem lagt var fyrir þmn.:

„Í öðru lagi er talið, að því er varðar hinn efnislega rétt, sem leggja á til lagagrundvallar með samkomulagi aðilanna, að samninginn og fylgiskjölin eigi að túlka og framkvæma í samræmi við íslenzk lög. Það var þetta, sem er átt við í byrjuninni og verður að leggja áherzlu á. Og geta þá viðeigandi reglur þjóðaréttarins átt við með venjulegum hætti.“

Svo hélt þetta áfram:

„Það er skoðun fulltrúa ríkisstj., að þróun íslenzks réttar og réttarstofnana réttlæti fyllilega þá staðhæfingu, að Alusuisse ætti að taka það með í reikninginn sem hverja aðra viðskiptalega áhættu af fyrirtækinu,að hagsmunir þessarar verksmiðju yrðu látnir lúta handleiðslu þeirra,“ þ.e. íslenzkra dómstóla.

Hv. 6. þm. Sunnl. gat þess, að hann hefði gert aths. um þetta, og þess hefði verið getið, að ég hafi gert það einnig. Þessu ákvæði var breytt. Þetta fór aldrei svona til Svisslendinga. Það fór í plagg, sem dags. er 27. ágúst, og þar er þetta form þannig:

„Það er skoðun fulltrúa ríkisstj., að þróun íslenzks réttar og réttarstofnana réttlæti fyllilega, að viðurkennt sé, að í þessu fellst engin sérstök áhætta fyrir hagsmuni Alusuisse.“

Hér er átt við það, að það beri að túlka og framkvæma samninginn í samræmi við íslenzk lög. þetta er eitt af því, sem leiðrétt var, og svo þetta meginatriði, sem fallizt er á, að lagareglur, sem beita á, eins og segir í frásögninni frá samningnum við Svisslendingana 12.–14. okt., skuli bera íslenzk lög og þær reglur úr alþjóðarétti, sem við kunna að eiga og reglur siðmenntaðra þjóða, eins og stendur í frv.

Hv. 6. þm. Sunnl. sagði, að það hefði aldrei mátt gera einn leik í þessari skák að láta bresta. Þetta er ekki rétt. Ég var búinn að segja það, áður en hann sagði þessi orð, að ég hefði sagt við forstjórana Meyer og Müller, sem ég kallaði sérstaklega til mín af samninganefndafundum, að það þýddi ekki að halda þessum samningafundum áfram nema þessu ákvæði væri breytt í það horf, að hér væri ekki um annað að ræða en að dómurinn yrði að byggja á íslenzkum lögum. Og ég sagði einnig frá því, að Meyer hefði þá sagt, aðalforstjórinn, að hann væri ekki reiðubúinn til þess að ganga inn á það og þá yrði þessu að vera lokið, og á því augnabliki var málinu lokið, en hins vegar voru þá eftir tveir fundir af þessum samningaviðræðum. Um morguninn eftir, — ég hafði svo ekki fleiri viðræður við þá, — gengu þeir inn á orðun þessa ákvæðis, eins og það nú er.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. vildi gera lítið úr þessu og meira að segja taldi, að hans aðalstarf að vera að kenna hér íslenzk lög og útskrifa íslenzka lögfræðinga o.s.frv. yrði lítils virði, ef svo einhverjir alþjóðadómstólar ættu að dæma eftir íslenzkum lögum, sem ekkert í þeim kynnu o.s.frv., o.s.frv., ég man nú ekki, hvaða orðalag hann hafði um það. En þetta á nú bara við fleiri heldur en okkur, því að slík ákvæði eins og þessi eru einmitt í Alþjóðabankasamþykktinni, sem ég kalla svo, sem áður er kölluð SID-samþykkt, en við skiljum, hvað við eigum við með þessari Alþjóðabankasamþykkt. Þar segir í 42. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Dómurinn skal kveða upp úrskurð í deilu samkv. þeim lagaákvæðum, sem málsaðilar kunna að koma sér saman um.“

Það er sem sagt gert ráð fyrir því, að þeir komi sér saman um það sérstaklega áður, en ef slíkt samkomulag málsaðila er eigi fyrir hendi, skal dómurinn byggja úrskurð sinn á lagaákvæðum þeim, sem í gildi eru í aðildarríki því, sem hlut á að deilumálinu og þeim reglum alþjóðalaga, sem við eiga. Undir þetta hafa 35 ríki af 80 eða eitthvað svoleiðis, sem eru í Alþjóðabankanum, skrifað.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði mikinn greinarmun á því, hvort búið væri að undirskrifa slíkan samning eða fullgilda. Á þessu er ekki mikill greinarmunur, og það er vegna þess, að það felast í þessu yfirlýsingar 35 ríkisstj., og hann tók alveg sérstaklega svo til orða: „Hafa ríkisstj. Norðurlandanna gengið inn á þetta?“ Og það hafa þær gert með undirskrift sinni. Og það er ekki hægt að ætla ríkisstj. þessara landa, að þær séu bara að gera þetta upp á leikaraskap. Það geta að vísu atvik fallið svo, að stjórnarskipti verði og viðhorf breytist og fullgilding verði af einhverjum efnisástæðum aldrei raunhæf. En það verður að ætla, að sú ríkisstj., sem undirskrifar slíkan samning eins og þennan, felli sig við ákvæði samningsins og ætli sér að stefna að því að framkvæma samninginn eða stuðla að því, að samningurinn komi til framkvæmda. Ég held, að það sé enginn Norðurlandaprófessor farinn að segja lausu embætti sínu í kennslu laga þar og þurfi þessi hv. þm. ekki að hafa neinar áhyggjur af starfi sínu í lagakennslunni vegna hliðstæðs ákvæðis í þeim samningi, sem hér liggur fyrir.

Það kemur fram í fundargerð þm.-fundarins, 19. fundar, hinn 28. okt., að menn telja æskilegt, að hægt væri að takmarka gerðardóminn. Það kemur fram í grg., sem send var um viðhorf okkar til málsins og lögð var fyrir þmn., að af þessum röksemdum og vammleysi íslenzkra dómstóla og þróun réttar á Íslandi, sem þar var gerð grein fyrir, leiði, eins og þar segir, að ekki ætti að þurfa að leita til gerðardóms um deilur aðilanna, hvort sem hann er íslenzkur, alþjóðlegur eða annars konar, nema sú leið hafi í för með sér ótvíræða og mikilvæga kosti við lausn deilumála, svo sem verulegan sparnað á tíma og fjármunum. Við þetta er ekki aths. gerð, þvert á móti benti hv. 6. þm. Sunnl. á það, að Björn Jónsson hefði talið, að meginatriði þeirra aths., sem nm. hefðu gert við uppkast Alusuisse, kæmi fram í fyrirliggjandi grg., sem ég nú var að lesa úr.

Svo út af því, að hv. 6. þm. Sunnl. taldi, að það hefði verið ákaflega óljóst, hvað verða vildi um þessi gerðardómsákvæði. En eins og ég segi, lá þetta nokkuð skýrt fyrir í októbermánuði og um miðjan nóv. fengu þeir þetta uppkast sent, sem var dags. 11.11., og ákvæðin voru þá í meginatriðum alveg eins og þau eru nú. Það er að vísu sett inn í ákvæði síðar eftir till. frá mér og í samræmi við óskirnar, sem komu fram frá þmn., að reyna að takmarka þau mál, sem kæmu fyrir gerðardóminn, og það er viljayfirlýsingin, sem ég hef áður vitnað í, í lok 46. gr., held ég, að það sé ekki ætlun aðila að leggja nema meiri háttar mál fyrir dóminn. Það hefði kannske átt að vera sterkara og við reyndum töluvert að formúlera einhverja skilgreiningu um það, hvaða mál ættu að fara fyrir gerðardóminn. Niðurstaðan varð nú sú eftir miklar umr. um það, að það mundi sjálfsagt engum detta í hug að leggja í slíka málsmeðferð nema út af meiri háttar málum, því að minni háttar mál væru varla þess eðlis, að ástæða væri til að viðhafa hana.

Það er fjöldinn af einstökum atriðum, sem ástæða væri hér til að fjalla um, ef við værum hér á fyrsta stigi þessa máls, en ég ætla að leiða það algerlega hjá mér. Það hefur verið talað mikið um hliðstæður eða fordæmi, hvort þau væru einhver, og þau hafi ekki verið nefnd o.s.frv. Ég hef gert grein fyrir þessu, og það held ég, að hv. þdm. sé ljóst. það hefur verið birt í blöðum. Í Nd. voru taldar upp eitthvað 11–12 hliðstæður, sem sýndu á einn eða annan hátt gerðardómsmeðferð í málum á milli ríkja og einstaklinga og gerðardóma, sem staðsettir væru í þriðja ríki o.s.frv. Þar voru einnig leidd rök að þeirri vaxandi tilhneigingu, sem er í milliríkjaskiptum um það að koma á gerðardómsmeðferð í deilum ríkja við einkaaðila í fjárfestingarmálum, og skal ég ekki fara að endurtaka það, sem ekki er þörf.

Því hefur verið haldið fram af hálfu þessara tveggja fulltrúa Framsfl., sem ég hef nokkuð vitnað til, að það hafi í raun og veru alltaf verið augljóst um afstöðu Framsfl. í þessu máli, alla vega hafi það verið orðið mjög ljóst svona á miðju sumri, við skulum segja 1965. Framan af mundi ég nú vilja halda, að það hafi nú verið æði óljóst, og ég get ekki varizt því, að mér var alveg ljóst, hvað Framsfl. lagði mikla áherzlu á staðsetningu verksmiðjunnar, og því hef ég gert fulla grein fyrir. En þó taldi ég ekki lengi framan af, að það mundu allir þm. flokksins vera sammála um það að láta á því bresta. Auðvitað voru ýmis önnur atriði eins og í efnahagsmálunum, sem flokkurinn gerði að skilyrði, að það þyrfti að koma á annarri skipan efnahagsmála. Undir meðferð málsins í Nd. voru svo margir fyrirvarar í ræðu formanns flokksins, sem ég gerði að umtalsefni, að það mátti segja, að það var eiginlega á hvaða stundu sem var hægt að snúa við, ef svo hefði nú farið, að vantraustið hefði verið samþ. og hér hefðu orðið stjórnarskipti. Þá held ég, að það hefði verið hægt að nota eitthvað af þeim fyrirvörum til þess að söðla um. Hvernig var þetta svo í desembermánuði? Ég spurði um það í Nd., sagði, að það hefði kvisazt, að 7 af þm. flokksins hefðu setið hjá við atkvgr. í þingflokknum um það að lýsa yfir andstöðunni við samninginn, eins og formaður flokksins gerði í umr. á þinginu þá, og innti eftir því, hvort þetta væri rétt hermt. Ég fékk engin svör, hvorki til né frá. Og sumir hafa sagt, að þetta sé svona og 2 þessir hv. þm., 6. þm. Sunnl. og 3. þm. Norðurl. v., hafi verið í hópi þeirra, sem hjá sátu. Og sumir geta vitnað til annarra framsóknarmanna, sem setið hafa hér á þingi, sem beinlínis er vitað um, að hafa látið í ljósi, að þeir væru fylgjandi þessu máli. Og hvernig fór svo við atkvgr. í Nd.? Sátu þá ekki tveir menn úr þingflokknum hjá við atkvgr. um málið? Ég held, að það hafi verið æði óljóst á mörgum stigum þessa máls um afstöðu þessa ágæta flokks til þessa máls. En það er, eins og ég segi, eitt af því, sem búið er að tala mikið um, og ég mundi nú ekki efna það, sem ég sagði í upphafi, ef ég ekki léti þessum lestri lokið.

Ég tek undir það með hv. 3. þm. Norðurl. v., sem hann mælti í lok ræðu sinnar og mér þótti mjög vel mælt, að hann vænti þess og óskaði þess eða hvernig það var nú orðað efnislega, — að framkvæmd þessa samnings mætti verða til farsældar fyrir land og þjóð. Að mínum dómi er hér um að ræða merkilegt mál, sem margir hafa áður óskað og leitazt við að framkvæma. Í mínum augum stækkar landið, en minnkar ekki við stórvirkjanir og stóriðju. Þjóðarhagur eflist, atvinnugreinar aðrar vaxa, ný tækniþróun færist inn í landið og framtíðin er öruggari komandi kynslóðum.