29.04.1966
Efri deild: 72. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

177. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv., sem var að ljúka máli sínu, talaði um miklar yfirsjónir af hálfu okkar, sem að því höfum staðið að gera þá samninga, sem hér liggja fyrir. Það er stundum erfitt að meta, hver gerir mestar yfirsjónirnar. Ég ætla ekki að hafa nein stór orð um þessa ræðu, en hún vakti alveg stórkostlega undrun mína, og ég hef ákaflega sjaldan heyrt sérfræðinga, eins og þessi hv. þm. er sem læknir, tala eins gáleysislega og hann gerði. Hvers vegna kom hann ekki fyrr fram með sínar aðvaranir? Hér eiga Hafnfirðingar að detta niður í tugum og hundraðatali steindauðir áður en varir, og röðin kemur að Reykvíkingum næst.

Ég skal spara mér öll stór orð í þessu nú, en ég vil segja það, að ef eitthvert lítið brot er rétt af því, sem þessi hv. þm. hélt fram í sinni ræðu, höfum við Íslendingar til þess rétt samkv. þessum samningi að gera þær ráðstafanir, sem aðrar þjóðir hafa beztar á þessu sviði, til þess að koma í veg fyrir þetta. Og annars staðar er mér ekki kunnugt um, að flúor frá álverksmiðjum yrði mönnum að tjóni, hvað þá banavaldur.

Þessi ræða verður að sjálfsögðu tekin til alveg sérstakrar athugunar. Ef eitthvað bæri á þessu, þá stendur það í samningum þessum, að ISAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til þess að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Ef þetta reynist rétt — og það er af beztu mönnum, sem til þekkja, talið, að hér sé satt og rétt með farið — höfum við í þessari gr. þegar völd til þess, og það liggur fyrir á sínum tíma, áður en álverksmiðjan byrjar byggingu sína 1967 og á að vera tilbúin 1969, að gera kröfu til þess, að þær ráðstafanir séu gerðar, sem hér um ræðir. Það var hins vegar gert ráð fyrir í þessu, vegna þess að þær upplýsingar, sem stóriðjunefnd hafði fengið, og aðrir sérfræðingar, sem að þessu unnu, töldu, að það væri naumast nokkur hætta á tjóni, alls ekki á mönnum, af 30 þús. tonna verksmiðju, alls ekki á mönnum og líklega ekki á gróðri, eins og þarna háttar til, og ekki heldur taldar líkur til þess á skepnum. Talið var, að hægt væri að nota tímann, meðan verksmiðjan væri á þessu fyrsta stigi sínu, til þess að kanna og rannsaka þetta og að öðru leyti að afla meiri upplýsinga en við þegar höfum haft.

Nú má spyrja: Af hverju var þá ekki sett inn í ákvæði um það, að þeir yrðu skyldugir til að setja upp hreinsunartæki? Hv. þm. sagði sjálfur, að í slíkum verksmiðjum annars staðar væri stöðugt leitazt við að fullkomna tæki til að verjast skaðlegum áhrifum flúors, og kunnugt var um, að það hefur tekið miklum breytingum, og það eru til margar tegundir af hreinsunartækjum svokölluðum. Hér er í samningnum ákvæði um það, að þeir eigi að verjast áhrifum þessa í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum. Síðan er gert ráð fyrir, að þeir eigi að framkvæma reglulegar athuganir og í samvinnu við hlutaðeigandi rannsóknarstofnun ríkisstj. Auðvitað getum við framkvæmt rannsóknir líka þar fyrir utan sjálfir. Það er ekkert, sem hindrar okkur í því. Og um reglur um öryggi, heilbrigði og hreinlæti segir í 13. gr., að að tilskildum ákvæðum 12. gr. skal ISAL byggja, útbúa og reka bræðsluna og halda henni við í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti, og skal ISAL í þessum efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana, sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum.

Ég hef haldið því fram fyrr og síðar í sambandi við þetta mál, að ef tilefni gæfist og það væri sannað að beztu manna yfirsýn eða á grundvelli rannsókna, að hér væri einhver hætta á ferðum, yrðu þeir að gera ráðstafanir, setja upp hreinsitæki eða önnur meðul, sem betri eru talin heldur en hreinsitæki eru í dag eða það, sem talið er í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum, og þá fyrst og fremst í okkar nágrannalöndum, bæði í Noregi og Evrópulöndum o.s.frv.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri. Mér fannst ég gæti ekki orða bundizt, eftir að hafa hlustað á ræðu sem slíka og flutta af manni, sem er í þeirri stöðu með þá menntun, sem hér er um að ræða. Ég verð að segja, að fyrir mér hefur opinberazt það, sem enginn áður, hvorki sérfræðingar á þessu sviði né neinir aðrir, hefur gefið mér eða okkur nokkuð svipaðar upplýsingar um, ekki í líkingu við það, sem hér hefur verið haldið fram. En þetta hefur hér komið fram, og það er að sjálfsögðu ekki um annað að ræða, og því mun ég beita mér fyrir því, ef þetta frv. verður samþykkt, að þessi ræða verði alveg sérstaklega athuguð, og það legg ég megináherzlu á, að ég ætla ekki á nokkurn hátt sjálfur að vefengja neitt, sem þarna hefur verið sagt. Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði, en ef eitthvað af þessu reynist vera rétt eða í námunda við að vera rétt, tel ég alveg hiklaust, að það verði þegar á fyrsta stigi þessarar álbræðslu og við höfum rétt til þess að gera kröfu til þess eftir samningnum — gerðar þær ráðstafanir, sem aðrar þjóðir hafa og sem hafa getað komið í veg fyrir stórkostlegan manndauða af völdum slíkra verksmiðja.

Ég segi þetta örugglega vegna þess, að þegar rætt var um þetta á sínum tíma og rætt var um að setja verksmiðjuna við Eyjafjörð, töldu þeir, að það leiddi af hlutarins eðli, að þar yrði að gera strax viðeigandi ráðstafanir til þess að verjast áhrifum af flúorgasinu, eða hvað menn nú vilja kalla það, og það væri vegna þess, að þetta væri landbúnaðarhérað, og það gæti orðið mengun í grasinu og grasbítir þar aft leiðandi skaðazt af því.

Ég minnist þó ekki í því sambandi, að það hafi verið neitt talað um hættu á mönnum, en það kynni að vera líka, en miðað við þær vindáttir og aðstöðu, sem er við Straumsvík, — og það liggja fyrir mjög góðar upplýsingar um margra ára bil um vindáttir þar og veðurfar, — er ekki sennilegt, að gróðri og skepnum stafi nein hætta af þessum efnum þaðan. Og því var það, að þeir höfðu í sínu samningsuppkasti frá 21. maí, sem ég hef vitnað til, að þeir skyldu gera allar viðhlítandi ráðstafanir í Straumsvík, en væru þó ekki skyldugir til þess að setja upp hreinsunartæki, og ég segi þess vegna, af því að þetta hefur verið strikað út úr fyrri uppköstum, að það hefur einmitt margsinnis verið rætt hjá okkur, að það kæmi ekki til greina og þeir yrðu að gera þær varúðarráðstafanir, sem taldar væru í samræmi við góðar venjur annars staðar, ef fram kæmi skaði af þessu. Ég bæti því við nú, að það liggur í hlutarins eðli, að ef þetta væri satt og rétt, sem hér er sett fram og fróðir menn á þessu sviði mundu staðfesta það, og þeir ekki geta varizt þeirra rökum, og við teldum, að þeir gætu það ekki, þá horfir málið þannig við frá mínu sjónarmiði, að þeir mundu þá vera skyldugir til að gera strax í upphafi þær ráðstafanir, sem annars staðar tíðkast í þessu efni. Mér er ekki kunnugt um annað en að tekizt hafi að koma í veg fyrir tjón nema þar sem, eins og fram kom hjá hv. ræðumanni, sérstaklega háttar til, t.d. í fjörðum eða dölum eða dalverpum, þar sem úrgangsefnin frá verksmiðjunni setjast um kyrrt og sitja mikið um kyrrt og leggjast yfir gróðurinn og fyrst og fremst menga hann: Mundu þau þá kannske í slíkum tilfellum líka geta verið hættuleg mönnum, það skal ég ekkert segja um.

Ég hafði ekkert svarað hv. 3. þm. Norðurl. v. um ákvæði samningsins í 12. gr. Það var nú fyrst og fremst vegna þess, að ég var svo oft búinn að taka það fram annars staðar, og menn verða að virða það mér til vorkunnar eftir allar þessar umr., þó að ég sé ekki að síendurtaka það, sem ég er margsinnis búinn að taka fram og ruglast þá kannske í því, hvort ég hef sagt það í þessari hv. d. eða aðeins í Nd., en ég tel, að þessi ræða hafi gefið tilefni til alveg sérstakrar íhugunar, og fyrir mitt leyti vildi ég mjög hafa óskað eftir því og hefði þótt vænt um, hefði hún verið komin löngu fyrr fram. Og lengi hefur nú hv. þm. haft undir höndum samningana eins og aðrir, og hefði þá verið búið að gefast betur tóm til miklu nánari athugunar á málinu. Svo skal ég ekki segja meira um það.

Um 35. gr. samningsins, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. vék að, sá ég ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega. Og ég veit ekki, hvort það hefði nokkra þýðingu, hvað ég segði um það atriði, sem hann talaði um, hvaða áhrif þetta kynni að hafa í sambandi við það, hver ætti að dæma um það, hvort þessi lög færu í bága við stjórnarskrána o.s.frv. En ef það mundi verða eitthvað metið síðar meir, þá skal ég ekki draga úr því, að ég er sömu skoðunar og þessi hv. þm. um þetta atriði, þó að ég sé, eins og ég segi, ekki neinn fræðimaður á þessu sviði, og það kunni kannske að orka tvímælis hjá fræðimönnum. En mér er ljúft að láta það í ljós, því að mín skoðun er sú sama sem hann lýsti hér á þessu sviði, að þeirri venju, sem er að helgast hjá okkur á þessu sviði stjórnskipunarlaganna, verði ekki breytt með löggjöf eins og þessari.

Ég skal svo ljúka máli mínu, enda er nú orðið áliðið. Ég hef hlustað á það, að menn hafa tínt til ýmislegt, sem ég hafi ekki svarað. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja. En ég hygg, að fátt sé það, ef það er nokkuð af því, sem hér hefur fram komið, að því sé ekki einhvers staðar svarað í þingtíðindunum, ef lagðar eru saman ræðurnar í báðum deildum.