21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (1264)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður með l. nr. 17 frá 10. febr. 1953. Honum voru ætluð ýmis verkefni svo sem nánar er greint frá í þessum lögum, en segja má, að það, sem menn aðallega ætluðu sér að vinna með stofnun þess banka, var að auðvelda lántökur til fjárfestingar, og var verkefni bankans að afla slíkra lána, bæði utanlands og innan. Enn fremur skyldi bankinn greiða fyrir því, að greint yrði á milli fjárfestingarlána og venjulegra rekstrarlána. Flm. eða frsm. máísins af hálfu þáv. ríkisstj., hæstv. þáv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, lagði ríka áherzlu á þetta tvennt í skýringum sínum á málinu. Enn fremur var til þess ætlazt, að bankinn yrði til ráðuneytis ríkisstj. í ýmiss konar fjárfestingarmálum. Hann átti að hafa rannsóknarstörf með hendi á þeim efnum. Þá var honum veitt heimild til þess að eiga og verzla með verðbréf og hlutabréf í félögum, sem beittu sér fyrir ýmiss konar framkvæmdum. Einnig var ætlazt til þess, að honum yrði fengin innheimta og umsjá með útistandandi lánum úr ríkissjóði, eftir því sem nánar yrði ákveðið, og enn fleiri verkefni, sem ég skal ekki að svo stöddu gera að umtalsefni. Ætlazt var til þess, að þessi banki hefði samstarf við Seðlabankann með þeim hætti, að Seðlabankanum yrði falin dagleg afgreiðsla bankans með samningi, sem kvæði á um, hverja þóknun Seðlabankinn fengi fyrir þessi störf.

Nú má segja, að þetta hafi farið nokkuð öðruvísi en ætlað var. Samvinnan við Seðlabankann komst aldrei á með þeim hætti, sem fyrirhugað var. Bankinn hefur raunar aflað allmikilla lána, fyrst og fremst erlendis, og veitt þau lán hér aftur, en þó hefur stofnun Seðlabankans eða réttara sagt fullkomin aðgreining hans frá Landsbankanum, sem gerð var í tveimur stökkum á þessu tímabili, fyrst með lögum frá 1957 og svo aftur frá 1961, orðið til þess, að Seðlabankinn hefur í meira mæli en séð varð fyrir, þegar lögin um Framkvæmdabanka voru sett, orðið aðalmilliliður ríkisvaldsins um lántökur, bæði innanlands og utan, svo að segja má, að verkefni Framkvæmdabankans í þessum efnum hafi orðið minna en menn í fyrstu gerðu ráð fyrir. Þá var einnig að því stefnt við stofnun Framkvæmdabankans, að hann lánaði út fé með tvennu móti, ef svo má segja, annars vegar til annarra fjárfestingarsjóða fyrst og fremst, eins og í ríkum mæli hefur orðið til Stofnlánadeildar landbúnaðarins og Búnaðarbankans, en einnig til einstaklinga eða einstakra fyrirtækja, og hefur sú starfsemi orðið mun umfangsmeiri heldur en séð verður, að menn í fyrstu hafi ætlazt til.

Sú breyting, sem á hefur orðið með eflingu annarra fjárfestingarsjóða, bæði Iðnlánasjóðs, Fiskveiðasjóðs, Stofnlánadeildar sjávarútvegsins og landbúnaðarsjóðanna, hefur gert það að verkum, að æskilegt er að koma á meiri samræmingu í þessum efnum heldur en orðið hefur samkv. þeirri þróun, sem skeð hefur eftir setningu l. frá 1953. Þess vegna er það frv. flutt, sem nú er til umr. og nefnist frv. til l. um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og hagráð. Samkv. því er ætlazt til, að Framkvæmdabankinn breytist í Framkvæmdasjóð Íslands. Þess má geta, að á sínum tíma var nokkuð um það rætt og beinlínis sagt af frsm. málsins í Ed., þar sem málið fyrst kom fyrir, frsm. n. þar, Bernharð Stefánssyni, að deila mætti um, hvort bankanafnið væri í raun og veru rétt, hvort það væri ekki betra að kalla þetta framkvæmdasjóð eða eitthvað slíkt, og það hefur nú orðið ofan á, að sá háttur er upp tekinn. Það er þá fyrst og fremst fyrirhugað nú, að bankinn eða sjóðurinn réttara sagt hafi svo að segja eingöngu skipti við aðrar fjárfestingarstofnanir og einnig við opinbera aðila, ef þeir ráðast í meiri háttar framkvæmdir. En lán til einstaklinga og einstakra fyrirtækja að öðru leyti séu úr sögunni. Það ber því að skoða þetta frv. í nánu samhengi við önnur frv., sem sum eru á dagskrá hér í dag, og einnig tvö, sem eru þegar lögð fyrir þingið, og eitt, sem væntanlegt er. Það er sem sagt frv. um Fiskveiðasjóð Íslands, breyt. á Seðlabankalögunum og um Stofnlánadeild verzlunarfyrirtækja, frv. um Iðnlánasjóð, sem var til l. umr. hér á síðasta fundi þessarar hv. d., frv. til I. um Lánasjóð sveitarfélaga og væntanlegt frv. um Atvinnujöfnunarsjóð. Öll þessi frv. eru í nánu samhengi og má segja, að afgreiðsla þeirra sé tengd mjög, verði að nokkru leyti að skoðast sem sama málið, þótt mjög margþætt sé.

Til þess að ná betra samhengi og fullri samvinnu milli þessara ólíku aðila, hefur þótt eðlilegast að fá Seðlabankanum meiri ráð yfir Framkvæmdasjóðnum heldur en raun hefur á orðið og raunar enn meiri ráð heldur en jafnvel var ætlazt til samkv. l. frá 1953, en það ákvæði komst aldrei í framkvæmd, eins og ég áður gat um. En þó er það svo, að Framkvæmdasjóðurinn á að hafa sérstaka stjórn, eins og segir í 6. gr. frv., og er hún í höndum 7 manna, sem kosnir eru með hlutfallskosningum á Alþ. til fjögurra ára í senn, og jafnmargra til vara. En þessi stjórn skal hafa samráð við Efnahagsstofnunina, Seðlabanka Íslands og viðskiptabankana. Sjóðurinn heyrir undir fjmrh. Enn fremur er á það að líta, sem segir í 9. gr., að Seðlabankinn undirbýr fyrir stjórn Framkvæmdasjóðs árlegar áætlanir um lánveitingar Framkvæmdasjóðs og fjáröflun til hans í samráði við fjmrn. og Efnahagsstofnunina. Einnig skal um áætlanir þessar haft samráð við viðskiptabankana og stjórnir opinberra fjárfestingarlánastofnana. Um nánari störf er það svo, að stjórn Framkvæmdasjóðs tekur ákvarðanir um lánveitingar Framkvæmdasjóðs og ráðstöfun á fjármunum hans. Hún tekur ákvarðanir um heildaráætlun, er gera skal á ári hverju um ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs, bæði eigið fé og lánsfé, og heildarútlán hans og skiptingu þeirra á milli fjárfestingarlánastofnana og einstakra framkvæmda. Og heimilt er henni að setja fjárfestingarlánastofnunum skilyrði um notkun þess lánsfjár, er þær fá úr Framkvæmdasjóði.

Það er ljóst af þessum ákvæðum í 9. og 7. gr., að lán verða ekki tekin til handa Framkvæmdasjóði nema með samþykkt stjórnar sjóðsins, en ætlazt er til þess, að Seðlabankinn í samráði við þá aðila, sem taldir eru í 9. gr., og þá í nánum tengslum við framkvæmdaáætlun ríkisins geri till. um fjáröflun til handa sjóðnum á hverju ári. En úrslitaráðin um lántökur verða hins vegar í höndum sjálfrar framkvæmdasjóðsstjórnarinnar, enda tekur hún ákvarðanir um vexti og önnur útlánakjör Framkvæmdasjóðs að höfðu samráði við fjmrh. og Seðlabankann og séu vextirnir ekki hærri en Seðlabankinn ákveður vexti hæsta af sambærilegum skuldum. Loks úrskurðar stjórnin reikninga sjóðsins og tekur ákvarðanir um ráðstöfun tekjuafgangs svo og um afskriftir af kröfum sjóðsins.

Aftur á móti er bæði afgreiðsla og dagleg stjórn og meðferð sjóðsins í höndum Seðlabankans, eins og nánar segir í 8. gr. Um reikningshald, endurskoðun útgáfu fjárhagslegra skuldbindinga og annað, er varðar rekstur Framkvæmdasjóðs, fer eftir ákvæðum 1. nr. 10 1961, um Seðlabanka Íslands, svo og reglugerð hans, eftir því sem við getur átt. Það er því ljóst, að bankastjórar Seðlabankans skrifa undir lántökuskuldbindingar af hálfu sjóðsins, þó að það sé sjóðsstjórnin, sem tekur, eins og ég greindi áður, ákvörðunina um það, hvort slík lán skuli tekin.

Það er mat manna, þeirra sem til þekkja, að með þessum hætti muni nýtast betur það fé, sem til ráðstöfunar er hverju sinni, bæði eigið té sjóðsins, sem er orðið allmikið, og ráðstöfunarfé, sem hann fær með lántökum innanlands eða utan eða með öðrum hætti. Það verði komið í veg fyrir tvíverknað og menn átti sig til betri hlítar á því, hvaða möguleikar séu fyrir hendi hverju sinni um fjárfestingarlán, hvort heldur í landbúnaði, sjávarútvegi eða iðnaði á vegum Atvinnubótasjóðs eða Atvinnujöfnunarsjóðs eða handa sveitarfélögunum samkv. þeim lánasjóði, sem frv. hefur nú verið lagt fram um, sveitarfélögunum til fyrirgreiðslu.

Það er þessi aukna samræming í störfum, sem ég legg mest upp úr, og hygg, að að mestu gagni komi. En þá er einnig á það að líta, að ætla verður, að nokkur sparnaður fáist við rekstur sjóðsins, það verði hægt að komast af með færri menn, þegar sjóðurinn þannig er tekinn í hendur Seðlabankans, en nú, þegar hann er rekinn sem sérstök stofnun. Það er einnig á það að líta, að sum af verkefnum bankans, sem ráðgerð voru 1953, eru nú komin í hendur annarra aðila, bæði Efnahagsstofnunarinnar, ýmiss konar rannsóknarstörf, sem Framkvæmdabankinn hafði komið sér upp sérstakri deild til að annast, en samkomulag varð á milli þessara aðila á sínum tíma um, að Efnahagsstofnunin skyldi taka að sér og koma þannig í veg fyrir tvíverknað, sem ella var viðbúið, að ætti sér stað. Eins er Ríkisábyrgðasjóður nú tekinn við sumum af þeim innheimtustörfum a.m.k., sem Framkvæmdabankanum voru ætluð með l. frá 1953, þó að hann raunar enn hafi umsjá allmargra lána fyrir hönd ríkissjóðs.

II. kafli frv. fjallar svo um Efnahagsstofnun og er lögfesting á því skipulagi, sem upp hefur verið tekið og staðið hefur nú um nokkurra ára bil. Það er enginn vafi á því, að Efnahagsstofnunin hefur nú þegar orðið að mjög miklu gagni. Það er eðlilegt, að deilt sé um sumar þær ráðleggingar, sem frá henni hafa komið. Þær eru eðli málsins samkv. pólitísks eðlis margar og snerta kjarna deilumála á milli flokka og hagsmunahópa. Framhjá þessu verður ekki komizt, en það ber einnig að viðurkenna, og ég vona, að það sé viðurkennt af öllum, að mjög markverðar athuganir og rannsóknir í efnahagsmálum hafa átt sér stað á vegum þessarar stofnunar, athuganir, sem er mjög erfitt að vera án og hafa orðið til mikillar leiðbeiningar, bæði fyrir ríkisstj., Alþ. og í samningum um ýmiss konar fjárhagsleg efni, kaupgjald og annað slíkt. Það er ætlazt til þess, að Efnahagsstofnunin heyri undir forsrh., sem skipi forstjóra hennar, eins og gert hefur verið fram að þessu. Verkefni hennar er greint í 13. gr., að undirbúa fyrir ríkisstj. framkvæmdaáætlanir og fylgjast með þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið, og endurskoða þær, semja þjóðhagsreikninga og áætlanir um þjóðarbúskapinn fram í tímann, að framkvæma aðrar hagfræðilegar athuganir fyrir ríkisstj. svo og fyrir Seðlabankann og framkvæmdasjóðsstjórn, eftir því sem um semst, og vera ríkisstj. til ráðuneytis í efnahagsmálum.

Undir kostnaði við þessa stofnun er ætlazt til, að ríkissjóður, Seðlabanki Íslands og Framkvæmdasjóður standi, eins og hingað til hefur verið, þ.e.a.s. Framkvæmdabankinn í stað Framkvæmdasjóðs samkv. þessu frv., og hefur hver þessara aðila um sig borgað þriðjung kostnaðarins fram að þessu, og geri ég ráð fyrir, að sami háttur verði á hafður í þeim samningum, sem ætlazt er til að komizt á samkv. 15. gr.

Loks er í III. kafla frv. ákveðið að stofna skuli hagráð, er verði vettvangur, þar sem fulltrúar stjórnvalda, atvinnuvega og stéttarsamtaka geti haft samráð og skipzt á skoðunum um meginstefnuna í efnahagsmálum hverju sinni. Í 18. gr. er tiltekið, hvaða aðilar eigi þátt í hagráði. Í því skulu eiga sæti tveir ráðh. tilnefndir af ríkisstj., og skal annar þeirra vera formaður ráðsins. Og þá eiga eftirtaldir aðilar rétt á að tilnefna hver einn fulltrúa og jafnmarga varafulltrúa í hagráð til eins árs í senn. Þarna er um að ræða rétt, sem aðili fær, en ekki skyldu. Það er A.S.Í. BSRB, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Félag ísl. iðnrekenda, Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, Landssamband iðnaðarmanna, Landssamband ísl. útvegsmanna, Landssamband ísl. verzlunarmanna, Samband ísl. sveitarfélaga, Sjómannasamband Íslands, Stéttarsamband bænda, Stéttarsamband fiskiðnaðarins, stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþ., Verkamannasamband Íslands, Verzlunarráð Íslands, Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Vinnuveitendasamband Íslands. Ef verksmiðjufólk stofnar landssamband í stíl við sjómannasambandið, verkamannasambandið og verzlunarmannasambandið, er ráðgert, að það fái tilnefningarrétt á fulltrúa, þ.e.a.s. Iðja heldur þessum rétti einungis á meðan landssamband í þessari grein hefur ekki komizt á. Það má sjálfsagt deila um, hvort þessi talning hér sé alfullkomin. Það gætu e.t.v. komið fleiri aðilar til álita. Þá er að skoða það í meðferð þingsins.

Um þetta hagráð eins og fleira er eðlilegt, að það herðist í reynslu, og það sést í raun og veru ekki fyrr heldur en starfsemi þess er hafin og hefur staðið nokkra hríð, hvort það verður að því gagni, sem til er ætlazt, og hvort það að öllu leyti er rétt skipað eða fundizt hefur rétt form fyrir starfsemi þess strax í upphafi.

Ráðið á að heyra undir viðskmrh. og skal koma saman til fundar, þegar formaður þess ákveður eða minnst 4 ráðsmenn óska. Meginverkefni hagráðs skal vera að ræða ástand og horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar. Efnahagsstofnunin á að leggja fyrir hagráð tvisvar á ári, í apríl og okt., yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskapar og horfur í þeim efnum, þar á meðal varðandi framleiðslu, fjárfestingu, greiðslujöfnuð, afkomu atvinnuveganna og verðlags- og kaupgjaldsmál. Þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir ríkisstj. skulu lagðar fyrir hagráð. Einstakir fulltrúar í hagráði geta óskað umr. um sérhvern þann þátt efnahagsmálanna, sem þeir telja ástæðu til, að hagráð ræði. Umræðuefnin skulu ákveðin og tilkynnt ræðumönnum með hæfilegum fyrirvara. Skýrslur um umr. í hagráði skal jafnan senda ríkisstj. og sömuleiðis ályktanir, sem gerðar kunna að vera. Hagráð getur kosið undirnefndir úr sínum hóp til þess að fjalla um ákveðna þætti efnahagsmála. Ráðgert er, að störf í hagráði verði ólaunuð. Efnahagsstofnunin á að undirbúa fundi hagráðs og annast skrifstofustörf á þess vegum, en kostnaður við þessa stofnun á að greiðast úr ríkissjóði.

Ég hef þá gert grein fyrir meginefni þessa frv. og sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það frekar að svo komnu, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.