21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í sambandi við það, sem hæstv. forsrh. sagði hér. Hann taldi, að sú skoðun, sem ég setti hér fram, hún hvíldi að verulegu leyti á misskilningi, því að ráð væri í rauninni fyrir því gert í þessu frv., að ekki væri verið að auka við valdsvið Seðlabankans eða afhenda honum hér á þennan hátt nein sérstök störf, því að það væri gert ráð fyrir því í frv., að stjórn Framkvæmdasjóðsins, hún hefði valdið í sinum höndum í sambandi við lánveitingarnar. Og því vildi hæstv. forsrh. í rauninni segja, að það væri beinlínis gert ráð fyrir því að fara eftir þeim meginsjónarmiðum, sem fram hefðu komið í minni ræðu og væri mín skoðun um það, hvernig ætti að koma þessum málum fyrir.

En ég held nú, að þessi skoðun hjá hæstv. forsrh. fái illa staðizt. Í 6. gr. frv. stendur skýrum orðum: „Seðlabankinn undirbýr stjórnarfundi og á þar fulltr.“ Í 8. gr. frv. stendur enn fremur: „Seðlabankinn skal hafa lokið gerð reikninga Framkvæmdasjóðs eigi síðar en 1. marz ár hvert og hafa afhent þá stjórn sjóðsins til úrskurðar. Sjóðurinn skal greiða af tekjum sínum allan kostnað af rekstri hans.“ Og enn fremur segir: „Að öðru leyti en segir í 7. gr. er umsjá og rekstur Framkvæmdasjóðs í höndum Seðlabankans, er hefur á hendi bókhald hans og daglegan rekstur, svo og skýrslugerð alla.“

Það, sem ég meinti með aðvörunarorðum mínum í þessum efnum, var það, að reynslan er auðvitað sú, að sú stofnunin, er hefur með höndum daglegan rekstur ákveðins sjóðs, allar fjárreiður og bókhald og undirbýr þar alla stjórnarfundi og á þar fulltrúa, það hlýtur auðvitað verða sú stofnunin, sem ræður langsamlega mestu um það, hvernig haldið verður á málefnum þessa sjóðs.

Stjórn sjóðsins verður væntanlega skipuð mönnum, sem ekki geta sinnt þar daglegum störfum. Stjórnarmeðlimir mæta á fundum stöku sinnum, en vitanlega verður það sú stofnunin, sem hefur á hendi daglegan rekstur sjóðsins, sem ræður mestu um gang mála. Og verði nú einnig horfið að því ráði, sem hæstv. forsrh. tók hér undir í sambandi við athugasemd, sem hv. l. þm. Austf. gerði hér um að heimila þessum Framkvæmdasjóði að lána í vissum tilfellum til einstaklinga, verði horfið að því ráði, hvert eiga þá þessir menn að leita, ef ekki til þess, sem hefur á hendi daglegan rekstur sjóðsins, og reka sín mál fyrir þeim aðila eins og fyrir venjulegum viðskiptabanka? Og hvert eiga þeir aðilar að leita, opinberir aðilar, t.d. á vegum sveitartélaga, sem vilja sækja um lán til meiri háttar framkvæmda hjá sér úr þessum sjóði? Hvert eiga þeir að leita nema til þess aðila, sem hefur á höndum daglegan rekstur sjóðsins, en það er Seðlabankinn? Með þessu er í framkvæmdinni þannig komið, að áhrifavöld Seðlabankans yfir þessum málum, sem hér um fjallar, eru auðvitað orðin allt önnur og meiri en þau hafa verið. Spurningin er aðeins þessi: Er það æskilegt, að við breytum Seðlabankanum smátt og smátt í það, að hann taki á móti ýmiss konar fulltrúum, ýmist fulltrúum einstakra fyrirtækja eða opinberra aðila, hlusti á greinargerðir þeirra um þeirra framkvæmdaáætlanir og skrifi lánabeiðnir þeirra og standi í því að undirbúa fundi, sem síðan eiga að taka ákvarðanir um lán til þessara aðila?

Það er ekkert um það að villast, að það er uppi sú tilhneiging hjá forustumönnum Seðlabankans, að þeir virðast vilja taka að sér þessi verkefni. Það er af því, sem þeir leggja það til, að þeir fái t.d. fulltrúa í stjórn hins nýja Fiskveiðasjóðs, sem hér hefur borið á góma. Þar með er fulltrúi Seðlabankans kominn beint inn að því borðinu, þar sem gengið verður frá því, hvaða einstaklingar skuli fá lán úr þeim sjóði.

Ég álít, að í þessum efnum sé verið að fara út fyrir þau verkefni Seðlabankans, sem honum voru í upphafi mörkuð og eru hin eiginlegu verkefni seðlabanka alls staðar. Og við þessu vildi ég vara fyrir mitt leyti.

Ég get hins vegar tekið undir það, sem hér kom fram hjá hæstv. forsrh., að við mundum allir verða sammála því, að það færi eins vel á því, að einn banki stæði í fjáröflun fyrir Íslendinga á erl. peningamarkaði. Ég hef lengi verið á þeirri skoðun, að það væri einmitt eðlilegt verkefni Seðlabankans að taka erl. lán fyrir ríkið. Og ég sé ekkert við það að athuga, að það sé verið að auka á valdsvið hans frá því sem áður var að því leyti til. En hitt held ég, að sé óheppilegt að blanda verkefnum þessa fyrirhugaða framkvæmdasjóðs og annarra stofnlánasjóða saman við þau verkefni, sem eiga raunverulega að tilheyra Seðlabankanum. Þar held ég, að eigi að skilja á milli. En að öðru leyti er ég ekki andvígur þeirri breytingu, sem felst í þessu frv., að leggja Framkvæmdabankann að forminu til niður, en stofna þennan Framkvæmdasjóð. Ég sé ýmislegt fremur hagstætt við það, en ég er á móti því að hafa það fyrirkomulag á í sambandi við samtengingu hans við Seðlabankann, sem frv. gerir ráð fyrir.