21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég hef lítillega kynnt mér þetta víðtæka frv., sem hér liggur fyrir, með gaumgæfni hlýtt á ræðu forsrh., sem hann flutti hér því til útskýringar, og einnig hlustað á hans svarræðu. Mér finnst þó, að það standi örugglega fast, að með þessu frv. er aftur verið að færa ýmsa þætti viðskiptamála, sem áður var stefnt að að aðgreina sem mest frá Seðlabankanum sjálfum, þegar hann með löggjöf var aðgreindur frá þjóðbankanum, einmitt með það fyrir augum að fjarlæga hann frá þjóðbankanum sem viðskiptabanka og aðgreina hlutverk þeirra, þá sé nú verið að færa ýmsa viðskiptaþætti aftur undir Seðlabankann eða þá að minnsta kosti í námunda við verksvið hans og inn á verksvið hans. Ég held, að það sé alveg öruggt, að með þessu frv. sé það gert. Og hafi breytingin með seðlabankalögunum stefnt í rétta átt, þá held ég, að þetta frv. að þessu leyti stefni í ranga átt. Hafi aðgreining þarna á milli verið æskileg, þá sé rangt að færa aftur ýmsa þætti viðskiptamálanna undir Seðlabankann á ný. Ég er alveg sammála hv. 5. þm. Austf. um þetta, og ég held, að hann hafi ríka ástæðu til þess að halda því fram, að með frv. um Framkvæmdasjóð sé einmitt stefnt í þessa átt. Ég er þessari tilhneigingu andvígur.

Ég held líka, að það sé rangt að færa alla meginþætti efnahagsmálanna yfir til Seðlahankans, í hendur eins eða tveggja manna, sem þar ráða ríkjum og í raun og veru ekki a6 fullu með löglegum hætti, stjórnin er ekki einu sinni skipuð með fyllilega löglegum hætti. Það ætti nú að sjá fyrir því að minnsta kosti, að stjórn Seðlabankans væri fullskipuð, áður en allir meginþættir efnahagsmála Íslands eru færðir í hendur þeirrar stofnunar. Ég óttast meira að segja, að það sé verið að gera þessa stofnun að eins konar yfirríkisstjórn Íslands í efnahagsmálum. Mér finnst eiginlega allt stefna í þá áttina.

Um II. kaflann hefur það réttilega verið sagt, að það sé í raun og veru aðeins verið að lögfesta þar ákvæði um stofnun, sem til sé, en ekki að breyta samsetningu hennar, svo að neinu máli skipti. Efnahagsstofnunin hefur sjálfsagt verið og er nauðsynlegt rannsóknartæki fyrir ríkisstj., henni eru falin verkefni á vegum ríkisstj. í samræmi við grundvallarsjónarmið stjórnarstefnunnar á hverjum tíma, auk þess sem þessi stofnun er fyrst og fremst kannske sett á fót sem eins konar meltingarfæri fyrir Efnahagsstofnunina í París. Og það getur vel verið, að það sé líka nauðsynlegt hlutverk.

III. kaflinn er um hagráð. Hann er sjálfsagt ekki mjög þýðingarmikill, en ég sé ekkert á móti því, að þarna sé stofnaður umræðuklúbbur um þjóðmál, eins konar málfundarfélag, þar sem þátttakendur séu ýmis félagasamtök í þjóðfélaginu, sem þýðingu hafa. Hef ég ekki annað um þennan kafla að segja en það, að mér finnst nokkuð handahófslega tilnefndir aðilar, sem eiga að vera þarna þátttakendur. Ég sé t.d., að þarna er nefnt Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna, en hvorugt þeirra verkalýðslandssambanda er nefnt, sem til eru á þessu sviði, iðnaðarmálasviðinu. Nefni ég þar til Landssamband byggingarmanna og Málm- og skipasmíðasamband Íslands. Hvorugt þeirra er talið með í þessum félagsskap, en hins vegar er nefnt eitt stéttarfélag, sem starfar á iðnaðarsviðinu innan verkalýðssamtakanna.

Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. sagði, að þetta stæði kannske til breytinga, ef betur þætti fara, og ég minni á það hér strax við í. umr., að mér þykir a.m.k. þessara tveggja sambanda á sviði iðnaðarins vant, en þau eru einmitt viðsemjendur Landssambands iðnaðarmanna á þessu sviði þjóðmálanna eða efnahagsmálanna.

Þetta frv. fer nú til nefndar og verður þar athugað, en ég held, að megintilhneigingin, að færa aftur ýmsa þætti viðskiptamála yfir til Seðlabankans, þar sé stefnt rangt, svo framarlega sem rétt hefur verið stefnt, þegar Seðlabanki Íslands var stofnaður og aðgreindur frá viðskiptabankanum, Landsbanka Íslands.