21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Forsrh:

(Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Mál þetta liggur nú ljóst fyrir. Það er greinilegt, að menn hafa á því mismunandi skoðanir, en þrætur um það fram og aftur eru auðvitað þýðingarlausar. Ég vildi þó vekja athygli á því, að það fær ekki staðizt, að verið sé að hverfa frá þeirri stefnu, sem mörkuð hafi verið með löggjöfinni um Seðlabanka, þegar hann var aðgreindur frá viðskiptabönkunum.

Í fyrsta lagi minni ég á það, að enn stendur í lögum, og ég hef ekki heyrt skýringu á því, af hverju því lagaboði hefur ekki verið fylgt, sannast að segja. Það stendur í l. nr. 17 frá 1953: „Seðlabanki annast dagleg afgreiðslustörf fyrir Framkvæmdabankann gegn hæfilegri þóknun.“ Þetta er í 20. gr., þannig að öll sú fyrirgreiðsla eða samband við almenning, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, að væri óheppilegt að dregin yrði inn í Seðlabankann samkv. þessu lagaboði, sem við nú gerum till. um, allt þetta er í lögum nú þegar. Og það hefur ekki verið sagt, að þessir aðilar eigi að semja um það, að afgreiðslan eigi að vera í Seðlabankanum. Það er sagt, að hún eigi að vera það. Það á einungis að semja um þóknunina. Við vitum, að það eru sennilega persónulegar ástæður, sem þarna hafa komið til og valdið því, að lagaboðinu hefur ekki verið framfylgt. En með því, sem nú er lagt til, er í raun og veru einungis verið að fara í það horf, sem löggjöfin ætíð hefur ætlazt til, að haft yrði. Menn geta sagt, að það sé óheppilegt eða óheppilegt ekki, en það er ekki rétt, að það sé verið að breyta til frá því, sem löggjöfin nú segir til um.

Það er rétt, sem hv. 5. þm. Austf. sagði, að auðvitað getur það haft töluverða þýðingu, hvar menn eiga að koma og fá afgreiðslu sinna mála og hver á að undirbúa fundi og annað þess háttar. Ég vefengi þetta alls ekki. En löggjöfin er nú þegar eins og hún er, og breytingin frá því, sem nú er, er einmitt þessi, að Framkvæmdasjóðurinn á að verða banki fjárfestingarsjóðanna og ekki hafa bein skipti við einstaklingana.

Nú benti hv. í. þm. Austf. á það, að eins og til háttar með fjárfestingarsjóði, sé þetta ekki að öllu leyti heppilegt, vegna þess að þarna falli eitthvað niður á milli. Það er að vísu minna en hann vildi ráðgera, því að hann minntist ekki á Ferðamálasjóðinn, en það er rétt, sem hann gat um, að samkv. núgildandi löggjöf, þá skilst mér, að það sé enginn fjárfestingarsjóður til, sem veiti fé í samgöngutæki. — Stórvirkar vinnuvélar, það má deila um, hvort þær komist undir Iðnlánasjóð eða ekki.

En eins og sessunautur minn, hæstv. iðnmrh., skaut að mér, úr þessu er auðvitað hægt að bæta með samningum við viðskiptabankana, ef Framkvæmdasjóður eða Seðlabankinn vildi endurkaupa af þeim víxla, sem færu í stofnlán í þessu skyni, hvort heldur í samgöngutæki eða stórfelldar vinnuvélar. Þennan hátt er hægt að hafa á, og það er sjálfsagt hægt að fara fleiri leiðir í því. En ég játa að ábending hv. 1. þm. Austf. um það gat, sem þar er, hún var rétt, og það þarf að átta sig betur á því, hvernig það mál skuli leysa, hvort það á að leysa með mjög takmarkaðri lánaheimild til handa einstaklingum eða á annan veg, eins og hæstv. iðnmrh. benti mér á.

Þetta er auðvitað ekki stórt atriði varðandi þessi mál í heild. Eftir skýrslu, sem fyrir liggur í nýkominni ársskýrslu Framkvæmdabankans fyrir 1965, þá hefur hann á árunum frá 1955–1965 alls veitt lán fyrir rúmar 1708 millj. Þar af sýnist mér, að þau lán, sem núverandi fjárfestingarstofnanir ekki taka til, af þeim, sem hér eru talin, og það eru eingöngu samgöngurnar, séu einungis 46 millj. rúmar af röskum 1700 millj., svo að þótt hér sé um þýðingarmikið atriði að ræða, þá er þetta sáralítill hluti af öllu því fé, sem farið hefur í gegnum Framkvæmdabankann fram til þessa og væntanlega fer í gegnum hendur Framkvæmdasjóðs héðan í frá. En það skulum við játa, að það verður auðvitað alltaf meiri þörf fyrir stórvirkar vinnuvélar, það verður meiri þörf fyrir stóra bíla og annað þess háttar, eftir því sem vegir batna og samgöngur stöðugt aukast og ef til vill fyrir lán út á flugvélar og slíkt.

Hv. 5. þm. Austf. og raunar hv. 5. þm. Vestf. líka töldu, að þarna væri verið að taka undir Seðlabankann störf, sem væru annarleg. Hv. 5. þm. Vestf. minnti á það, að meiri háttar opinberar framkvæmdir kæmu þarna undir ákvörðun þessarar sjóðsstjórnar. En það er nú þegar tekið fram einmitt í l. um Seðlabankann frá 1961, í 3. gr. 4. tölulið, þar sem sagt er, að hlutverk Seðlabankans sé að annast bankaviðskipti ríkissjóðs, þannig að það er ekkert nýtt. Það má að vísu segja, að þarna komi einstök sveitarfélög líka til varðandi meiri háttar opinberar framkvæmdir. Það mundu þá vera meiri háttar hafnarframkvæmdir, hitaveituframkvæmdir og annað slíkt, sem ekki eru daglega teknar ákvarðanir um.

Eins er í lögunum um Seðlabankann nú þegar sérstakur kafli um Stofnlánadeild sjávarútvegsins, þar sem er ætlazt til að gera grein fyrir lánum til einstaklinga, svo að hér er ekki um að ræða neitt nýtt í lögum Seðlabankans til þess að hann geti hrifsað vald til sín. Það, sem er verið að leggja hér til, er eingöngu í samræmi við það, sem þegar hefur verið í lögum og ég legg áherzlu á. En munurinn verður sá, að einstaklingslánin úr Framkvæmdasjóði hverfa, annaðhvort með öllu eða að langsamlega mestu leyti, og í stað þeirra kemur, að jafnað verður einu sinni eða tvisvar á ári milli fjárfestingarsjóðanna því fé, sem er fyrir hendi, og þá ákvörðun tekur nefnd kosin af þinginu, að vísu að heyrðum till. Seðlabankans, en úrslitavaldið á skiptingu milli sjóðanna er í höndum þessarar nefndar, en ekki Seðlabankans. En jafnvel þótt Seðlabankinn hefði þar einhver úrslitaáhrif, þá er það einmitt eins og ég segi: Þessi sjóður á að vera banki fjárfestingarsjóðanna alveg eins og hv. 5. þm. Austf. lagði áherzlu á að væri tilgangur Seðlabankans. Ég held, að við megum þess vegna ekki líta of kreddubundnum augum á þetta og halda, að hér sé verið að fara út fyrir einhver almenn lögmál. Þetta er í samræmi við það, sem löggjöf hér hefur verið, frá því að Seðlabankinn hóf sína starfsemi.