12.04.1966
Neðri deild: 68. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1977 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Frv. á þskj. 322 um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og hagráð felur í sér þrjú meginatriði. Lagt er til í frv., að Framkvæmdabanki Íslands verði lagður niður og við eignum hans og skuldbindingum, eins og þær verða 1. janúar n.k., taki ný stofnun, Framkvæmdasjóður Íslands. Eins og fram er tekið í grg., sem fylgir frv., er þessi tilhögun í samræmi við þær breytingar, sem fyrirhugað er, að verði á fyrirkomulagi fjárfestingarlánastarfseminnar í landinu.

Framkvæmdabanki Íslands var stofnaður með I. nr. 17 frá 10. febr. 1953. Hlutverk bankans var, eins og segir í 2. gr. 1., að efla atvinnulíf og velmegun íslenzku þjóðarinnar með því að beita sér fyrir arðvænlegum framkvæmdum, sem gagnlegar eru þjóðarbúinu og styðja þær. Skal starfsemi bankans í meginatriðum miðuð við það að stuðla að auknum afköstum í framleiðslu og dreifingu. Í 7. gr. l. er svo nánar tiltekið, hvernig bankinn leysir hlutverk sitt af hendi.

Eins og fram kemur í reikningum Framkvæmdabankans fyrir árið 1965, hefur bankinn haft yfir miklu fé að ráða. Á hans vegum voru þá erlend lán um 1240 millj. kr., mótvirðissjóður um 376 millj. kr. og eigið fé bankans yfir 300 millj. Hreinar tekjur bankans voru 26.5 millj. Í beinum útlánum hafði bankinn um 1700 millj. kr., og skipting lánsfjárins á milli atvinnugreina er tilgreind í ársskýrslu bankans. Það er því ljóst, að Framkvæmdabankinn er og hefur verið öflug stofnun. Með frv. er lagt til, að ný stofnun, Framkvæmdasjóður Íslands, taki við af Framkvæmdabankanum og veiti fjármagni sínu eingöngu til fjárfestingarlánasjóða og meiri háttar opinberra framkvæmda í stað þess að lána beint til fyrirtækja, sem Framkvæmdabankinn hefur að mestu leyti gert. Framkvæmdasjóðurinn mun þannig koma til með að sjá Fiskveiðasjóði og Stofnlánadeild landbúnaðarins og Iðnlánasjóði fyrir fjármagni til endurútlána, einnig veita lán til Atvinnujöfnunarsjóðs og fleiri stofnana, sem íána og koma til með að veita atvinnurekstri landsmanna stofnlán. Sjóðsstjórnin, sem skipuð verður 7 mönnum kosnum með hlutfallskosningu af Alþ., tekur ákvarðanir um ráðstöfun á því fjármagni, sem sjóðurinn hefur yfir að ráða hverju sinni, en ber að hafa samráð við Efnahagsstofnunina, Seðlabanka Íslands og viðskiptabankana.

Eins og ég hef drepið á, hefur verulegum hluta af fjármagni Framkvæmdabankans verið ráðstafað beint til atvinnufyrirtækja, t.d. til vinnslustöðva landbúnaðar og sjávarútvegs. Einnig hafa fjöldamörg iðnaðarfyrirtæki fengið þar lán á undanförnum árum. Nú er út frá því gengið, að sjávarútvegurinn sæki stofnlán sín til Fiskveiðasjóðs til bátakaupa, fiskvinnslustöðva og tækjakaupa, iðnaður til Iðnlánasjóðs, landbúnaður til Stofnlánadeildar og annar atvinnurekstur til sinna eigin stofnlánasjóða. Framkvæmdasjóðnum er ætlað það hlutverk fyrst og fremst að sjá þessum stofnlánasjóðum fyrir fjármagni og nýtur í því sambandi þess fjár, sem Framkvæmdabankinn hefur haft yfir að ráða, og einnig getur hann notfært sér heimildir til lántöku, eftir því sem ástæður þykja til.

Fjhn., þ.e.a.s. meiri hl. hennar, flytur í nál. brtt. við frv. á þá leið, að telji Framkvæmdasjóður nauðsyn bera til að veita lánsfé til þarfa, sem ekki falla undir starfssvið neins fjárfestingarlánasjóðs, skuli honum heimilt að lána það annarri lánastofnun, er annist endurlán. Með þessu ákvæði er ætlunin að tryggja það, að atvinnurekstur, sem notið hefur lána frá Framkvæmdabankanum, verði nú ekki afskiptur, ef bankinn hættir beinni útlánastarfsemi til fyrirtækja. Má í því sambandi t.d. benda á samgöngur, er ná til stærri vinnuvéla. M.ö.o. er hér átt við þann atvinnurekstur, sem ekki hefur beinan aðgang að lánum úr starfandi fjárfestingarlánasjóði.

Il. kafli frv. fjallar um það, að komið verði upp stofnun, sem annist m.a. undirbúning áætlunargerða fyrir ríkisstj., samning þjóðhagsreikninga og hagfræðilegar athuganir.

Í Ill. kaflanum er lagt til, að ríkisstj. og heildarsamtök launþega og atvinnurekenda tilnefni fulltrúa í ráð, svonefnt hagráð, þar sem fjallað verði um meginstefnuna í efnahagsmálunum hverju sinni. Eins og fram kemur, hefur fjhn. athugað frv., og meiri hl. hennar leggur til, að það verði samþ., þó með þeirri breytingu, sem ég hef gert efnislega grein fyrir.