15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Við 6. gr. frv. leyfum við okkur að bera fram brtt. 6. gr. fjallar um stjórn Framkvæmdasjóðs. Þar segir, að stjórn sjóðsins skuli vera í höndum 7 manna, sem kosnir eru hlutfallskosningu af Alþ. til fjögurra ára í senn og jafnmargra til vara. Þessi ákvæði eru hliðstæð þeim, sem gilda um Framkvæmdabankann og aðra banka nú, en brtt. okkar er í því fólgin, að við 6. gr. verði bætt 3. mgr., sem hljóði þannig:

Sjóðsstjórn heldur að jafnaði fund einu sinni í mánuði, en skylt er formanni að boða til aukafundar, ef tveir eða fleiri stjórnarmenn æskja þess. Þessi mgr. hefur fallið niður eða verið felld niður úr Framkvæmdabankalögunum, þegar þeim var breytt yfir í lög um Framkvæmdasjóð, og við sjáum ekki ástæðu til þess að fella þessa breytingu niður. Miklu fremur teljum við ástæðu til þess að halda henni og tryggja þannig rétt þess minni hl., sem hugsanlega kann að myndast í stjórninni, til þess að geta krafizt fundar, ef honum þykir ástæða til, eins og algengast mun vera. Þetta er önnur brtt.

Hin brtt. á þskj. 469 er við ákvæðin um Efnahagsstofnunina. Það er við 15. gr. frv., þar sem fjallað er um stjórn stofnunarinnar, en í 15. gr. segir:

„Ríkissjóður, Seðlabanki Íslands og Framkvæmdasjóður í sameiningu greiða kostnað af starfsemi Efnahagsstofnunarinnar. Þessir aðilar fara með stjórn hennar. Skulu þeir gera með sér samning um stjórn stofnunarinnar og fjármál.“

Við leggjum til, að þessir tveir síðustu málsl. falli niður, en í þeirra stað komi: Stjórn stofnunarinnar skal skipuð 5 mönnum. Séu 4 þeirra tilnefndir af þingflokkunum einn af hverjum, en hinn fimmta skipar ríkisstj. og sé hann formaður stjórnar.

Sú tilhögun, sem ráðgerð er samkv. frv. hæstv. ríkisstj:, gerir, eftir því sem mér skilst ráð fyrir því, að sama regla um stjórn stofnunarinnar verði gildandi eftir lagasetninguna og fyrir. En við, sem stöndum að nál. á þskj. 469, teljum, að hér sé um svo þýðingarmikla stofnun að ræða, að það sé full ástæða til þess, að þingflokkarnir eigi aðild að stjórn hennar. Ég tel, að þessi breyting sé mjög eðlileg. Efnahagsstofnunin er stofnun, sem vinnur að úrlausn efnahagsmálanna fyrir alla, og það er mjög eðlilegt, að þingflokkarnir allir eigi jafnan rétt til þess að eiga aðild að stjórn hennar. Og ég treysti því, að það þyki ekki ósanngjörn till. og hún fái góðar undirtektir hér.

Hv. meiri hl. fjhn. hefur lagt nokkra áherzlu á það í nál. sínu, að sú breyting, sem gerð er á Framkvæmdasjóði, þegar Framkvæmdasjóður er stofnaður, ef svo má segja, á rústum Framkvæmdabanka eða tekur við af Framkvæmdabanka, sé með þeirri breytingu, sem lögð er til, þ.e. að sjóðurinn láni eingöngu opinberum fjárfestingarlánastofnunum og til meiri háttar opinberra framkvæmda, miði að því að færa tilhögun þessara mála í það horf, sem upphaflega hafði verið ráðgert með lögum um Framkvæmdabanka. Ég hygg, að þetta sé ekki alls kostar rétt. Ég held, að mér sé óhætt að segja það, að það hafi í upphafi, við stofnun Framkvæmdabankans, verið jöfnum höndum gert ráð fyrir því, að Framkvæmdabankinn lánaði opinberum sjóðum og að hann lánaði einstaklingum, enda hefur þessi orðið raunin allt það tímabil, sem Framkvæmdabankinn hefur starfað. Hann hefur lánað fjárfestingarsjóðum landbúnaðarins í einu lagi það, sem þangað hefur átt að fara, en jafnhliða því hefur hann lánað einstaklingum samkv. umsóknum til Framkvæmdabankans sjálfs, eftir því sem stjórn bankans hefur talið ástæðu til. Ég hygg því, að það sé ekki alls kostar rétt að fullyrða það, að með þeirri breytingu, sem hér er ráðgerð, sé verið að stefna að því að framkvæma málin á þann hátt, sem alltaf hafi staðið til frá öndverðu.

Við þá breytingu, sem var gerð á frv. frá því, sem verið hefur um bankann, leiddi það, að sumir þeir aðilar, sem höfðu átt aðgang að Framkvæmdabankanum um lánsfé til sinna framkvæmda, féllu alveg niður, þar sem þeir ekki áttu eða eiga neinn aðgang að þeim fjárfestingarlánasjóðum, sem til greina kemur, að Framkvæmdabankinn láni til. Þetta var mjög óheppilegt, og var strax bent á þetta hér við l. umr. með þeim afleiðingum, að meiri hl. n. hefur, eins og ég áður sagði, tekið inn þá breytingu, að slíkir aðilar geti leitað til annarra lánastofnana og farið fram á það, að þær annist lánsútvegun hjá Framkvæmdasjóði fyrir sína hönd. Ég hefði nú talið eðlilegra satt að segja, að gamla fyrirkomulaginu hefði verið haldið, að menn ættu sjálfir aðgang að Framkvæmdasjóðnum til þess að sækja um þau lán og þeir gætu túlkað mál sitt beint fyrir stjórn þess sjóðs í stað þess að þurfa að bæta þarna við einum aukamillilið, en segja má, að þetta hafi ekki nein úrslitaáhrif. Aðalatriðið er vitanlega það, að nú er búið að taka inn möguleika fyrir þessa aðila til þess að fá lán úr Framkvæmdasjóði. Lántakar eru vanir því, að það sé fyrirhafnarsamt að fá lán til framkvæmda sinna, og ég geri ekki ráð fyrir því, að lántakendur telji eftir sér þau spor aukalega, sem liggja til þessa milliliðar, en hvað við það vinnst, sé ég hins vegar ekki.

Þó að þessar breytingar, sem ég hef nú lítillega minnzt á, séu skaðlausar a.m.k., jafnvel kannske til bóta sumar hverjar, hygg ég, að óhætt sé að segja, að þær valdi engum straumhvörfum. Hér er ekki verið að fjalla um neitt nýtt fjármagn, og hér er ekki í neinum aðalatriðum verið að ræða um nýja ráðstöfun þess fjármagns, sem fyrir hendi hefur verið. En á þskj. 469 höfum við, sem að minnihlutaálitinu stöndum, leyft okkur að bera fram brtt., sem ef samþ. yrði mundi valda verulegum straumhvörfum, vil ég segja, og hafa mikil áhrif í lánastarfsemi landsmanna. En þar á ég við þá brtt., sem er nr. 2 á okkar þskj., þar sem við gerum ráð fyrir því, að við hinn nýja Framkvæmdasjóð verði stofnuð ný deild, sem beri nafnið framleiðnilánadeild.

Það hefur oft verið undirstrikað hér á hv. Alþ. að undanförnu, hversu mikil nauðsyn okkur Íslendingum væri á því að auka hina svokölluðu framleiðni, og rök hafa verið leidd að því, að framleiðsluaukning okkar á undanförnum árum eigi ekki nema að nokkru leyti rót sína að rekja til framleiðniaukningar og fólksfjölgunar. Hún eigi að verulegu leyti rætur sínar að rekja til þess, að aflabrögðin hafa verið óvenjulega mikil, og svo hins, að fólk hafi lagt á sig enn þá meiri vinnu heldur en oft áður til þess að afla verðmætanna. Ég hygg, að um það þurfi ekki að fara mörgum orðum, það séu allir hv. þdm. sammála um það, hver nauðsyn okkur sé á því að auka þessa framleiðni. Sú aukning þarf að koma til í öllum höfuðatvinnugreinunum. Við höfum séð talsverða tæknibyltingu í fiskveiðum á undanförnum árum, en þó hygg ég, að hún sé fyrst og fremst í síldveiðunum. Ég hygg, að aðrar fiskveiðar séu hér eftir sem áður stundaðar á nokkurn veginn sama grundvallarháttinn og gert hefur verið lengi.

Í frystihúsunum þarf að koma til hagræðing, aukin hagræðing, meiri framleiðni. Það hefur verið veitt nokkurt framlag á undanförnum árum til þess að koma slíkri hagræðingu við, til þess að auka þessa

framleiðni í frystihúsunum, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hef um það, þá mun það áreiðanlegt, að það eru ekki nærri öll frystihúsin, sem hafa getað notað þetta fjármagn til þess að auka framleiðnina, til þess að koma við meiri hagræðingu, heldur hafa þau orðið að taka það í reksturinn almennt, sem upphót á fiskverðið.

Iðnaðurinn þarf líka á framleiðniaukningu að halda. Sú stefna að lækka tollana á innfluttum vörum gerir vaxandi kröfur til iðnaðarins og kallar á meiri aðstoð honum til handa. Skylt er að viðurkenna, að aðstoð hins opinbera til iðnaðarins hefur nokkuð verið aukin. T.d. er það góðra gjalda vert, sem gert var árið 1963, þegar iðnlánasjóðsgjaldið var stórhækkað, enda þótt segja megi, að það fjármagn komi nú raunar frá iðnaðinum sjálfum. Þá skal ekki heldur gleyma þeirri hækkun á ríkisframlagi til Iðnlánasjóðs, sem nú er ráðgerð og er á leiðinni í gegnum hv. Alþ., enda þótt sú aðstoð mætti vera meiri og þyrfti að vera meiri, ef samræmis væri gætt við aðra atvinnuvegi. En ég hygg, að ekkert af þessu, þó að þetta sé allt saman gott út af fyrir sig, þá sé það ekki nóg, heldur sé þörf á því, að atvinnuvegirnir, þessir sem ég nú hef nefnt, og það gildir raunar að nokkru leyti um landbúnað líka, að þeir ættu kost á því að sækja til sérstakrar stofnunar um lán, sem væru alveg sérstaklega í því skyni veitt að auka framleiðnimöguleikana og koma við frekari hagræðingu í hinum ýmsa rekstri.

Frv. um þetta atriði hefur verið fyrir hv. Alþ. nú nokkra hríð, flutt í Ed. af nokkrum þm. Framsfl. og er að vísu ekki útrætt, en okkur, hv. 1. þm. Norðurl. v. og mér, þótti það eðlilegt, að freista þess að fá afgreiðslu þessa frv. með því að taka það inn sem breytingu við það frv. hæstv. ríkisstj., sem hér er til umr., þegar nú stendur fyrir dyrum að breyta til hvort sem er, að íeggja niður Framkvæmdabankann og að stofna þess í stað Framkvæmdasjóð.

Þær brtt., sem ég er hér að tala um, skýra sig að verulegu leyti sjálfar, og ég skal ekki tefja tíma hv. deildarmanna með því að fara að fara nákvæmlega út í það, hvernig þær eru uppbyggðar, hér er um sérstaka framleiðnilánadeild við Framkvæmdasjóðinn að ræða. Tilgangur deildarinnar er að veita atvinnuvegunum lán umfram þau, sem fáanleg eru hjá stofnlánasjóðum, í því sérstaka augnamiði að bæta framleiðnina með aukinni véltækni, fullkomnara framleiðsluskipulagi og hagræðingu. Og síðan er talið upp, hvaða starfsfé þessi deild eigi að hafa undir höndum.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir framlagi frá ríkissjóði, sem eigi að vera 10 millj. á ári næstu 10 ár, nema þá að hærra framlag verði ákveðið í fjárl. Og í öðru lagi, að Seðlabankinn tryggi sölu skuldabréfa, sem þessi sjóður gefur út vegna deildarinnar, að upphæð 40 millj. kr. á ári næstu 10 ár. Og svo í þriðja lagi lán umfram það, sem greinir í 2. tölulið, sem þessi deild gæti þá tekið innanlands eða utan með ríkisábyrgð, allt að 300 millj. kr.

Aðrar brtt. á þskj. 469 skýra sig algjörlega sjálfar. Þær fjalla aðeins um framkvæmdaratriði. Þetta er meginbreytingin.

Mér finnst, að það væri ekki illa til fundið, að hv. Alþ. gerði þessa breytingu, fyrst á annað borð er farið að hreyfa við þessum málum, og ef sú breyting væri gerð, væri virkilega hægt að segja, að hér hefði nokkurt mál verið á ferðinni, en eins og frv. er óbreytt, tel ég, að það breyti í rauninni ákaflega litlu.