15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkrar athugasemdir út af brtt. á þskj. 469 frá hv. 11. þm. Reykv. og 1. þm. Norðurl. v.

Fyrsta brtt. fjallar um það, að inn í frv. komi ákvæði um það, að sjóðsstjórnin skuli að jafnaði halda fund einu sinni í mánuði og að skylt sé að boða til fundar, ef tveir eða fleiri stjórnarmenn æskja þess.

Ég held, að þessi brtt. sé raunar óþörf, vegna þess að út frá því má væntanlega ganga, að fundir í stjórn Framkvæmdasjóðsins þurfi ekki að vera ýkjamargir á hverju ári. Þarna verður um allt annað skipulag að ræða, heldur en var áður hjá Framkvæmdabankanum, sem þurfti að afgreiða fjöldamargar beiðnir, sem til bankans bárust. Nú verða þetta miklu færri aðilar, sem koma til með að beina umsóknum sínum til þessa nýja sjóðs, heldur en áður leituðu til Framkvæmdabankans. Ég held því, að það sé ástæðulaust að fara að setja þessi ákvæði, sem lagt er til, inn í frv.

Þá vil ég gera þá aths. við 2. brtt., að með henni er beinlínis horfið frá því meginsjónarmiði frv., að Framkvæmdasjóðurinn láni eingöngu til fjárfestingarlánasjóða og til meiri háttar opinberra framkvæmda, þar sem lagt er til í þessum brtt., að sjóðurinn komi til með að lána beint til fyrirtækja svonefnd framleiðnilán.

Í þessu sambandi er ástæða til þess að benda á það, að í nýjum l. um Iðnlánasjóð, sem afgreidd voru að ég held frá hv. Ed. í gær, þar er gert ráð fyrir því, að Iðnlánasjóður komi til með að veita svonefnd hagræðingarlán, þ.e.a.s. viðbótarlán við hinar almennu lánveitingar bankans, og þessi lán verði með betri kjörum og til lengri tíma heldur en almennt gerist. Til þess að geta sinnt þessu verkefni sínu hefur Iðnlánasjóður heimild til þess að taka allt að 100 millj. kr. lán, og ég geri einmitt ráð fyrir því, að Iðnlánasjóður muni fá lán hjá Framkvæmdasjóði, m.a. til þess að hafa fé til endurlána í þessu skyni.

Á það má minna í þessu sambandi, að sjávarútvegurinn kemur áfram til með að geta sótt um lán til Fiskimálasjóðs, eins og verið hefur, og er því ekki eingöngu bundinn við Fiskveiðasjóðinn. Það vita allir, að Fiskimálasjóður hefur ekki haft eins strangar útlánareglur og aðrir fjárfestingarlánasjóðir, þannig að þegar sérstaklega stendur á, opnast þar möguleiki fyrir sjávarútveginn til þess að fá fyrirgreiðslu.

Í sambandi við tal um hagræðingu, — það er mikið rætt um alls konar vinnuhagræðingu, hún er að sjálfsögðu nauðsynleg, — má einnig benda á það, að í sambandi við sjávarútveginn voru samþ. lög hér á hv. Alþ. í byrjun þessa mánaðar, þar sem gengið er út frá því, að ríkissjóður leggi fram hvorki meira né minna en 50 millj. kr. nú á þessu ári til framleiðniaukningar frystihúsa og annarra endurbóta í framleiðslu frystra fiskafurða, og gert er ráð fyrir því, að Stofnlánadeild sjávarútvegs úthluti þessu fé. Þá liggur það einnig fyrir, að út frá því má að sjálfsögðu ganga, að atvinnuleysistryggingarnar haldi áfram að lána til atvinnufyrirtækja, bæði á sviði sjávarútvegs, iðnaðar og landbúnaðar, og sá fyrirhugaði Atvinnuaukningarsjóður mun einnig að sjálfsögðu hlaupa undir bagga með fyrirtækjum, þar sem þess er talin þörf og þar sem lánveitingar úr öðrum sjóðum eins og Fiskveiðasjóði og hinum almennu fjárfestingarlánasjóðum, hrökkva ekki til.

Í þriðja lagi er lagt til á þskj. 469, að gera þá breytingu, að þingflokkarnir tilnefni hver sinn manninn í Efnahagsstofnunina. Á það má benda í þessu sambandi, að frv. gerir raunar ráð fyrir því að lögfesta það fyrirkomulag, sem gilt hefur í sambandi við þessa stofnun. Og ég vil segja, að þetta fyrirkomulag hafi út af fyrir sig reynzt svo vel, að það sé nú engin ástæða til þess að gera þar á neina breytingu. Ég legg því til, að brtt. á þskj. 469 verði felldar.