25.04.1966
Efri deild: 71. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

151. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur þegar hlotið samþykki í hv. Nd., og voru menn þar sammála um meginatriði þess, þó að um einstök atriði kæmu fram nokkuð skiptar skoðanir.

Meginefni frv. er það, að Framkvæmdabankanum er breytt eða hann lagður niður, ef menn vilja heldur kjósa það orðalag, en í hans stað er stofnaður Framkvæmdasjóður Íslands, sem raunar á að lúta sérstakri stjórn, eins og nánar er gerð grein fyrir í 6. gr. frv., en dagleg afgreiðsla og meðferð mála sjóðsins verður í höndum Seðlabankans. Þetta er að nokkru leyti það fyrirkomulag, sem ætlazt var til í fyrstu, að haft yrði á um afgreiðslustörf Framkvæmdabankans, þó að aldrei yrði úr þeim samningum, sem lögboðnir voru um þessi efni í upphaflegu lögunum um Framkvæmdabankann.

Frv. er í nánum tengslum við önnur frv. um framkvæmdasjóði, sem nú liggja fyrir þinginu, og er ætlazt til þess, að sá háttur verði á hafður, að Framkvæmdasjóður Íslands afli fjár, sem síðar verði úthlutað til framkvæmdasjóðanna, er aftur á móti láni það fjármagn, er þeir hafa yfir að ráða, til einstaklinga eða fyrirtækja, eftir því sem atvik standa til. Um þetta höfuðatriði frv. var enginn ágreiningur í hv. Nd., og er þess vegna óþarfi að ræða það nánar. Hins vegar var á það bent, að eins og frv. upphaflega var lagt fram, var hugsanlegt, að nokkur starfræksla, sem áður hafði getað fengið fyrirgreiðslu í Framkvæmdabankanum, mundi nú ekki njóta sams konar aðstöðu, og var bætt úr því með ákvæði, sem rýmkaði nokkuð starfsmöguleika lánastofnana til fjárfestingarláns og íánsmöguleika Framkvæmdasjóðsins.

Þá er í Il. kafla frv. fjallað um Efnahagsstofnun og þar með lögfest það fyrirkomulag, sem á hefur verið hin síðari ár, og eru menn út af fyrir sig sammála um þann hátt. Það var þó á það bent, að æskilegt hefði verið, ef tryggð hefðu verið nánari tengsl Efnahagsstofnunarinnar fyrst og fremst við Alþ., en þá er þess að gæta, að einmitt slík tengsl geta með hægu móti átt sér stað fyrir milligöngu hagráðs, sem um fjallar í III. kaflanum, en í þessu hagráði eiga sæti m.a. fulltrúar þingflokka og ýmissa stofnana, sem nánar eru taldar upp í 18. gr. Menn hafa mismunandi mikla trú á því, að hve miklu gagni þetta hagráð verði. Þeir, sem þar eru svartsýnastir, ef svo má segja, telja þó, að það geti aldrei gert neinn skaða, í versta tilfelli verði það eins konar umræðufundir. Hinir, sem eru bjartsýnni í þessum efnum, vilja trúa því, að þarna geti skapazt vettvangur fyrir mikilsverðar og hagnýtar umræður ýmissa aðila í þjóðfélaginu um hagfræðileg og efnahagsleg vandamál.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. að svo stöddu, en ég leyfi mér að leggja til, að málið verði afgr. til 2. umr. og vísað til hv. fjhn.