18.11.1965
Efri deild: 18. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessum tveimur fsp. hv. 3. þm. Norðurl. v. tel ég rétt að taka fram, sem ég raunar hef áður sagt í umr. um þetta mál, í fyrsta lagi, að það er auðvitað alls ekki ætlunin, að þessi margföldun fasteignamatsins verði framkvæmd við álagningu á þessu ári, heldur aðeins sú þreföldun, sem nú er í gildi, í öðru lagi, að það hlýtur að koma til endurskoðunar um þessi ákvæði, sem hér er um að ræða, þegar nýtt fasteignamat verður lögfest. Það er gert ráð fyrir því í lagaákvæði, sem hv. þm. vitnaði í, í sambandi við fasteignamatið, að öll gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat, komi til endurskoðunar. Það er að vísu orðað svo, að það skuli ekki taka breytingum til hækkunar, það skal ég ekkert fullyrða um, það er að sjálfsögðu Alþingis þá um það að segja: En ég tel sjálfsagt, að einnig þetta ákvæði hér hljóti að koma til endurskoðunar, þegar nýtt fasteignamat tekur gildi. Ég þori ekkert að fullyrða um það, það fer eftir atvikum, hver hefur með þau mál að gera, þegar nýtt fasteignamat tekur gildi, hvað verður um það. En það er mín skoðun, að það verður sjálfsagt eðlilegt, að þá verði þetta tekið til endurskoðunar. Meira geri ég ekki ráð fyrir, að hv. þm. ætlist til af mér, því að ég get ekki fullyrt frekar um það fram í tímann en það, sem er mín skoðun í því efni nú í dag.