10.02.1966
Neðri deild: 39. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

100. mál, Háskóli Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er alltaf að vísu mjög ánægjulegt, þegar háskólinn sýnir einhvern áhuga á því að efla sig, og þess vegna er það fagnaðarefni, að þetta frv. skuli vera hér fram komið, þó að ég áliti hins vegar, að það þurfi ýmissa athugana við. Það er engum efa bundið, að það er ákaflega mikil þörf á aukningu starfsmanna við háskólann, en spurningin hlýtur að verða um leið, á hvaða sviðum við leggjum mesta áherzlu á að láta þá aukningu fara fram. Hér er lagt til, að það séu tekin upp 4 ný embætti. Þrjú af þessum embættum eru raunverulega fyrst og fremst miðuð við beina kennslu, að búa menn undir kennslu, það er sem sé þáttur háskólans sem eins konar kennaraskóla fyrir gagnfræðaskólana, sem þar er fyrst og fremst verið að hugsa um. Ég er því sammála út af fyrir sig. Það er nauðsynlegt bæði með enskuna og dönskuna að efla hana, en alveg sérstaklega er þó nauðsynlegt, að sú almenna sagnfræði sé meir tekin upp við skólann en verið hefur. Sannleikurinn er, að frá upphafi vega, frá því að byrjað var að kenna Íslandssögu hér, hefur það verið stór galli á háskólanum, að það hefur ekki verið kennd mannkynssaga við hliðina og kennd á það háu stigi, að það væri ekki bara ætlað mönnum, sem væru að hugsa sér að verða kennarar við gagnfræðaskóla og menntaskóla, heldur líka mönnum, sem væru að búa sig undir að rækja líka Íslandssöguna og rannsaka hana frá vísindalegu sjónarmiði. Sannleikurinn er, að þorra þeirra manna, sem útskrifast sem kandidatar í Íslandssögu, skortir vissan hlut, þegar þeir hafa ekki lært mannkynssögu um leið og sérstaklega sögu Evrópu eða sögu Norðurlanda, þannig að það er nauðsynlegt að taka tillit til þess, þegar prófessorsembætti er stofnað í almennri sagnfræði, að það sé ekki eingöngu hugsað til að búa menn undir að verða mannkynssögukennarar í æðri skólum, heldur líka að styðja að því, að þeir, sem læra Íslandssögu til þess að verða vísindamenn eða kennarar seinna meir, hafi meiri hugmynd um mannkynssöguna, því að Íslandssagan er sannarlega í vissri snertingu við hana. Það hefur verið stórkostlegur galli á öllum þeim rannsóknum, sem fram hafa farið til þessa, að undanteknum 2–3 mönnum, hve þá hefur skort þekkingu á mannkynssögunni til að hafa hliðsjón af því við rannsóknir á Íslandssögu. Það er þess vegna rétt að taka mjög undir þetta, og hefði frekar mátt auka þar um meira en einn mann heldur en hitt.

Þá er lagt til að koma upp sérstöku prófessorsembætti í réttarsögu. Ég verð nú að segja, að mig undrar, að það skuli ekki hafa verið fyrir löngu af hálfu háskólans stofnað til slíks. Háskóli Íslands hefur átt einhvern færasta mann, sem uppi hefur verið á Norðurlöndum, einmitt í réttarsögu, prófessor Ólaf Lárusson, og lét hann mestallan tímann, sem hann kenndi við háskólann, vera í að kenna allt aðra þætti lagavísinda, sem hann vissulega var allra manna færastur um, og hefur kennt flestum þeim mönnum, sem nú eru sýslumenn, lögfræðingar og trúnaðarmenn íslenzka ríkisins. En það var synd að taka hann frá því að fá að halda áfram rannsóknum íslenzkrar réttarsögu og íslenzkrar sögu almennt, m.a. vegna þess, að hann var sá maður af öllum Íslendingum, sem var bezt að sér í því tímabili, sem stundum er kallað eitt myrkasta tímabil Íslandssögunnar, en að mörgu leyti eitt af okkar glæsilegustu tímabilum, en svo óþekkt, að það er hverfandi lítið rannsakað, sem sé 14. og 15. öldin. Það ber þess vegna að fagna því, að það skuli nú stofnað til þess að taka upp prófessorat eingöngu í réttarsögunni, og er þó tekið fram í þessu, sem hér kemur frá háskólanum, að þessi maður eigi nú að kenna hitt og þetta annað um leið. Ég tel það illa farið. Við ættum að geta hugsað það hátt öðru hvoru, sérstaklega ætti háskólinn að geta það, að það væri hægt að láta menn, fyrir þó ekki hærri laun en prófessorsembættin hafa, gefa sig að vísindalegum rannsóknum í þessum efnum og hirða lítt um annað, máske hafa 1 eða 2 tíma á viku til að halda fyrirlestra, en fyrst og fremst að rannsaka hlutina.

Það hefur verið undirstrikað þarna á bls. 4, og hæstv. menntmrh. kom inn á það í sinni framsögu, hve merkilegt stórvirki okkar gamla germanska réttarskipun væri, eins og hún hefði birzt í Grágás og í þeim gömlum lögum, eins og þau voru sett upphaflega í þjóðveldinu. Sannleikurinn er, að þetta er ekki aðeins hliðstætt rómverskri réttarskipan, rómversk réttarskipan á sér fleiri hliðstæður en okkar. Íslenzk réttarskipan er hvað það snertir alveg einstæð í veraldarsögunni, vegna þess að hún er táknræn fyrir tímabil, sem var á undan þeirri rómversku réttarskipan. Rómverski rétturinn yfirleitt er táknrænn fyrir þann tíma, sem ríkisvald er orðið til og orðið þar ráðandi í mannfélaginu. Íslenzk þjóðveldisréttarskipan, eins og hún var í upphafi og eins og hún er að miklu leyti varðveitt í Grágás, — ef menn kunna að lesa hana þannig, að menn aðskilji það, sem er gamalt og nýtt, hafa menn þar raunverulega einu lögin, að undanteknum nokkrum litlum leifum, sem til eru frá þeirri gömlu germönsku réttarskipan, sem var til, áður en ríkisvaldið kom til sögunnar, frá ættarsamfélaginu, eins og það var árþúsundum saman, áður en ríkisvald var myndað. Þannig er um að ræða, þar sem okkar gamla réttarsaga er, einhverja einstæðustu réttarskipan í heiminum. Þar sem við höfum eitthvað dálítið líkt, er það mestmegnis hjá þjóðum, sem voru þá ekki farnar að skrifa sín lög, enda fórum við sjálfir ekki að skrifa þau fyrr en tæpum 200 árum eftir að við stofnuðum okkar þjóðfélag, settum okkar lög, því að raunverulega var „lög“ nafnið á okkar þjóðfélagi þá. „Í órum lögum“ var táknið um, að menn tilheyrðu okkar mannfélagi. Og þær þjóðir, sem helzt hafa varðveitt nokkuð af slíku, voru fyrst og fremst Indíánarnir, Grikkir fyrir daga Sólons, Rómverjar fyrir 510 f. Kr., þannig að það er hverfandi lítið, sem er varðveitt yfirleitt af þessu stigi mannfélagsins, nema íslenzka réttarskipanin. Þarna er stórfellt rannsóknarefni, sem við hefðum vissulega átt að leyfa mönnum, sem væru færir um það, að gefa sig að í miklu, miklu ríkara mæli en gert hefur verið fram að þessu. Það er verið að tala þarna um, að það þurfi að vera eitt helzta verkefni prófessors í réttarsögu utan almennrar rannsóknar að hlutast til um að kynna lögskipan þjóðveldisaldar fyrir erlendum fræðimönnum.

Því miður er nú ástandið þannig, að erlendir fræðimenn hafa verið yfirleitt betur að sér um þessa hluti en íslenzkir, að örfáum undanteknum, og við höfum ekki gert sérstaklega mikið upp á síðkastið að því að kynna þetta fyrir erlendum fræðimönnum, eins merkilegt og það er og eins nauðsynlegt og það hefði veríð, sérstaklega eftír fall nazismans, að reyna að þurrka ofur lítið alla smánina, sem nazismanum tókst að setja á allt það, sem germanskt var, með því að reyna að gera dálítið meira að því en gert hefur verið að kynna einmitt þennan forngermanska rétt, eins og hann var, og það, sem glæsilegast var við þá forngermönsku hefð, eins og hún birtist einmitt hér á Íslandi á þjóðveldistímanum, en ekki eins afskræmt og það var í kenningum nazistanna.

Ýmsir þeir menn, sem bezt hafa rannsakað okkar réttarsögu, að nokkrum prófessorum í Reykjavík og Kaupmannahöfn undanteknum, voru þýzkir menn, og sá þeirra, sem margt hefur skrifað þarna einna bezt og nánasta samvinnu hafði við Jón Sigurðsson um það, var Konrad Maurer. Og það, að Konrad Maurer sem prófessor í Leipzig og víðar hafði þennan áhuga á þessum málum, stafaði m.a. af því, að faðir hans, Georg Maurer, prófessor í München og seinna meir ríkisstjóri í Grikklandi að tilhlutun þeirrar alþjóðanefndar, sem hlutaðist til um að setja ríkisstjóra þar, — Georg Maurer var einhver bezti fræðimaður, sem uppi hefur verið um forngermanska réttarskipan og skrifaði um rannsóknir á allri forngermönsku réttarskipaninni, eins og hún lagði sig, alveg fram til borga og bæjaskipunarinnar á 12., 13., 14., 15. öld. Öll fornöld og miðöld er rannsökuð af þessum manni, af Georg Maurer, þannig að hans vísindarit í þessum efnum eru alveg einstæð. Þetta var háborgaralegur prófessor. Það er m.a. hann, sem sýnir fram á, hvernig jörðin hafi verið sameign hjá þeim fornu germönsku ættflokkum, og endurskapar í sínum vísindaritum eins og hægt er myndina af þessari forngermönsku réttarskipan, sem kemur alveg heim við hreppaskipanina íslenzku, eins og yfirleitt það, sem kallað er á þýzkunni Markverfassung, sem er grundvöllurinn fyrir fyrirkomulagi hjá bændasamfélögum í Þýzkalandi allt fram á tíma lénsskipulagsins og lengi vel á tímum lénsskipulagsins. Þessi maður hefur skrifað ein 10–12 bindi, en ástandið er þannig hér á Íslandi, að af öllum þessum ritum Georgs Maurers, eins bezta fræðimanns í þessum efnum, föður Konrads Maurers, sem vekur áhugann hjá honum fyrir að stúdera Íslandssöguna svona, — ekki eitt einasta af þessum ritum er til við neitt safn á Íslandi, hvorki landsbókasafn, háskólabókasafn né annars staðar. Svona er búið að vísindalegum rannsóknum á Íslandi í dag.

Ég hef sjálfur reynt ofur lítið að fást við að stúdera þessi mál og reynt að athuga, hvernig um þetta væri statt hér heima, og svona er ástandið. Og ég veit því miður ekki til, að neinn maður á Íslandi eigi heldur þessi rit. Maður þarf að fara til annarra landa og bókasafna í öðrum löndum til þess að geta séð rit, sem eru skyldust íslenzkri réttarsögu af öllu, sem til er í veröldinni. Og svo og svo mikið af öllum þeim mönnum, sem útskrifast úr háskólanum, lögfræðingum og annað slíkt, hafa ekki hugmynd yfirleitt um neitt af þessu. Það er þess vegna vissulega ekki sízt ástæða til, að þeir prófessorar, sem settir eru í réttarsögu, fái tækifæri til þess að rannsaka það stórkostlega, sem íslenzk saga hefur að geyma hvað þetta snertir, og gera Íslendingum sjálfum ljóst, hvað þeir eiga í þessum efnum, og ekki sízt háskólanum. Það er ákaflega gott að hafa um leið gott samstarf við erlenda fræðimenn. Því miður hefur það verið svo, að nú eftir stríð er eins og það hafi fallið slíkur blettur á allt germanskt, að það þurfi mikla atorku til þess að hreinsa það af öllu því, sem á það hefur verið kastað, og við þurfum að vinna að því.

En ég held, að við verðum að setja markið dálítið hærra en þeir prófessorar við háskólann gera, sem leggja hér fyrir okkur á Alþ., hvernig eigi að skipa kennara og háskólaprófessora. Mér lízt satt að segja ekkert á þessa 10 ára áætlun, sem háskólinn leggur hér fyrir. Ég man nú ekki, hvað það var kallað, fyrirkomulagið, sem var hérna á skömmtunartímunum, þegar hverjum var úthlutað eftir því, sem verzlunin hans hafði verið áður, en það er eitthvað svipað, sýnist mér, með skömmtunarfyrirkomulagið milli deildanna í háskólanum, og virðist það hæst í kollinum á þeim hv. prófessorum enn þá að hafa þann hátt á, sem þá þótti tíðkast milli verzlunarfyrirtækja í Reykjavík, þegar harðast var skammtað. Það er auðséð, að það á að fjölga í hverri deild út af fyrir sig þannig, að það sé ekki verið að gera upp á milli deildanna. Eins og nokkrum lifandi manni detti í hug að það þurfi að fjölga í guðfræðideild. Eins og þeir geti ekki setið með þá prófessora, sem þeir hafa. Eins og það þurfi að bæta við 2 prófessorum þar. Ég held það væri nær að koma upp prófessorati í goðafræði — norrænni goðafræði. Það virðist vera eitthvað meira að rannsaka þar, því að maður sér nú ekki, að þeir þori mikið að rannsaka guðfræðina kristnu, þeir sem hérna eru. Það ætti þá að vera einhver frjáls hugur, að þora að líta á það frá vísindalegu sjónarmiði. Ég held, að norræna goðafræðin væri þá eitthvað nær og allur skyldleiki hennar og uppruni hennar og eitthvað skemmtilegra að fást við. Ég held sem sé, að við eigum ekki að hafa skömmtunarfyrirkomulag á þessu, heldur eigum við að auka deildirnar eftir því, sem þörf er fyrir íslenzk fræði og íslenzkan metnað og íslenzka þekkingu.

Það er fyrst og fremst eitt, sem við verðum að setja okkur í þessu sambandi og okkur ber skylda til fyrst og fremst að hugsa um. Það er gott og það er sjálfsagt að auka það, sem við þurfum, í verkfræði, læknisfræði og öllu slíku. En það er fyrst og fremst eitt, sem er okkar skylda sem Íslendinga, og það er að auka rannsóknir, vísindastarfsemi og kennslu í íslenzku fræðunum. Og hvernig dirfist háskólinn að leggja fyrir okkur 10 ára plan í þeim efnum? Hann leggur fyrir okkur till. um lögfestingu prófessorsembætta 1964–1973, og í heimspekideildinni er það í ensku, í mannkynssögu, í dönsku og í almennri heimspeki. Þetta eru þau 4 prófessoröt, sem á að skapa fram til 1974 eftir till. prófessora háskólans. Þetta segi ég að sé til skammar til skammar fyrir Háskóla Íslands, að koma með þetta svona fram. Og það væri til skammar fyrir Alþ., ef það afgreiddi þetta svona.

Það, sem við þurfum að setja þarna inn, — ef ég fer ekki rétt með það, leiðréttir hæstv. ráðherra mig, þá held ég, að nú séu 2 prófessorsembætti í íslenzkri sögu, 2 prófessorsembætti í íslenzkum bókmenntum og 2 prófessorsembætti í íslenzku máli. Þarna er það fyrst og fremst, sem við þurfum að bæta við. Okkur veitir ekkert af því, að það væru fjórir prófessorar í Íslandssögu. Við skulum ganga út frá því, að við erum ekki að setja þá bara fyrst og fremst til að kenna, við erum að setja þá til að rannsaka og til þess að skrifa og til þess að rita bækur, sem almenningur getur lesið, líka þeir menn, sem stúdera við háskólann. Ég held, að það mundi ekki veita af fjórum prófessorum í Íslandssögu. Hvernig er statt nú sem stendur með Íslandssögu t.d. á 19. og 20. öld? Ég vona, að hv. þm. séu mér sammála um, að það hafi eitthvað gerzt á 20. öldinni, eitthvað ofur lítið, það sé ekki alveg laust við, að það hafi eitthvað gerzt á Íslandi, kannske tiltölulega meiri atburðir en á mörgum öldum áður, að þróunin á Íslandi hafi verið hraðskreiðari en jafnvel á þúsund árum áður, t.d. hvað snertir það tæknilega og ýmislegt annað slíkt. Og hvað mikið er kennt við háskólann af Íslandssögu á 20. öld, — hvað mikið? Mér er næst að halda, að það sé ekki neitt. (Gripið fram í.) Ja, er það til 1914? Ég hélt kannske, að það hefði komizt til 1918. (Gripið fram í.) Já. En m.ö.o.: Ég er hræddur um, að jafnvel þó að það eigi að vera kallað, að það sé til 1918, þá sé það raunverulega engin kennsla sem heitir í þessu. En frá 1918 fram undir 1960, þau ár eru ekki til við Háskóla Íslands. Við hvaða háskóla sem er í Bandaríkjunum, Bretlandi eða hvar sem er getur hvaða stúdent, sem í þann háskóla fer til þess að stúdera t.d. sögu, hann getur tekið sína stóru ritgerð, ég tala nú ekki um Roosevelt, ég tala nú ekki um síðasta stríð, hann gæti tekið það úr stjórnartíð Kennedys. Saga er um leið og hlutirnir hafa gerzt, og öll saga 20. aldarinnar er enn þá ekki tekin fyrir við Háskóla Íslands og heldur ekki gerðar neinar ráðstafanir til þess, að meira að segja þau frumstæðustu plögg, sem nauðsynleg eru, séu til, til þess að geta rannsakað þetta seinna. Það er á hverjum degi enn þá tækifæri til að leggja grundvöll að rannsóknum á Íslandssögu. Þau tækifæri eru að hverfa líka með hverjum deginum sem líður. Það lifa enn þá menn og hafa lifað fram á þennan dag, sem búa yfir ákaflega mikilli þekkingu um þetta og háskóli í hverju einasta landi mundi hagnýta sér á þann hátt að hafa við þá viðtöl, taka inn á stálbönd, geyma og annað þess háttar. Hér hverfur þetta allt saman, þannig að bráðum, eftir svona 20–30 ár, fara menn að rífast um það, sem flestir okkar mundu vita, að eru staðreyndir í dag, en fyrir tilviljun eru hvergi skráðar eða prentaðar. Við verðum að gá að því, að ein af dýrmætustu sagnaheimildum fyrir sögu liðinna alda hafa verið sendibréfin. Það eru þau, sem hafa gert mönnum fært að skyggnast á bak við tjöldin í þessa hluti. Sendibréfin á síðari hluta 20. aldarinnar verða varla til, vegna þess að menn skrifast ekki lengur á, sízt um slík stjórnmálaleg efni. Menn tala í síma og taka það ekki á segulband, þannig að hver prófessor í sögu síðari hluta 20. aldar á Íslandi, sem hefði einhverja tilfinningu á sínu efni, mundi reyna þegar að hlutast til um, að gerðar væru margvíslegar ráðstafanir til þess að varðveita um ókomin ár heimildir vegna sögunnar, sem nú er að gerast, en nú er bara ekki hugsað um. Og svo lifum við þá hluti, að vegna þess að háskólinn hefur ekki rannsakað einu sinni tímabil eins og við skulum segja Valtýskuna og tímabilið núna fyrstu tvo áratugina á þessari öld, ekki einu sinni það, þá lendum við í slíkum hlutum, sem nú hafa gerzt í sambandi við Hannesar Hafsteinssögu Kristjáns Albertssonar. Í staðinn fyrir vísindarit fær maður hrein áróðursrit í þessum efnum. Í stað þess að íslenzka ríkið sjái til þess, að háskólinn hafi prófessora, sem rannsaka hlutina, eru hinir og þessir menn, sem sjá til þess, að hinir og þessir embættismenn vinni að því að semja meira og minna rangfærð áróðursrit um þessa menn.

Það er ekki vansalaust fyrir þjóð, sem kennir sig við sögu og á fyrst og fremst sína frægð úti í heimi fyrir bókmenntir og sögu, að haga sér svona eins og við gerum gagnvart okkar íslenzku fræðum við háskólann. Við eigum að bæta við tveim prófessorum í íslenzkri sögu, við eigum að gera það sama í íslenzkum bókmenntum. Það er ekki til neins fyrir okkur að ætla að standa á því, eins og við gerum, að íslenzkar bókmenntir að fornu og nýju þoli samanburð við flestallar bókmenntir stórþjóða hvað gæði snertir, og tíma ekki að hafa nema eina einustu tvo prófessora starfandi við Háskóla Íslands, eiga ekki einu sinni til bókmenntasögu fyrir meiri hlutann af okkar bókmenntasögutímabili. Og sama gildir að mínu áliti um okkar málssögu, þó að ég geti ekki þar talað um af þekkingu. Ég efast ekki heldur um það, að þar sé líka mikill vettvangur fyrir þá, sem vildu og fengju tækifæri til þess að gefa sig að þeim rannsóknum.

Ég held þess vegna, að þegar þetta mál nú fer til n., sem ég á sæti í, ættum við að taka það til alvarlegrar umr., og ég vona, að það mundi mæta skilningi hjá hæstv. ríkisstj. líka, að Alþ. hefði ekki síður frumkvæði í þessum efnum heldur en Háskóli Íslands og Alþ. liti á það sem skyldu sína til þess að halda uppi virðingu okkar þjóðar inn á við og út á við og okkar menningar að fjölga sérstaklega prófessorum í þessum íslenzku fræðum við Háskóla Íslands. Við þurfum ekki að skeita því öllu saman á í einu, þannig að fjárl. færu um koll á því, þó að það væri æskilegast að setja þá alla strax og fjárl. mundu að mínu áliti standast það. Við gætum sett þau smám saman á þetta árabil, sem Háskóli Íslands hefur sleppt að ætla að auka nokkuð kennslu í íslenzkum fræðum eða rannsóknareða vísindastarfsemi, og ég vona, að hæstv. ríkisstj. mundi ekki hafa neitt á móti því.

Mér til mikillar ánægju hef ég getað fylgzt með því nokkuð, að áhuginn fyrir íslenzkum fræðum úti um allan heim fer sívaxandi, og hvar sem okkar bækur eru þýddar nú og gefnar út, stækka sífellt upplögin af þeim. Ég sá nýlega getið um það, — ég held, að það hafi verið í Morgunblaðinu, — að Penguin væri að gefa Njálu út í 50 þús. eintökum. Njáls saga var gefin út ásamt Egils sögu, Gunnlaugs sögu ormstungu og Laxdæla sögu í rússneskri þýðingu fyrir 8 árum í 50 þús. eintökum og er fyrir löngu ófáanleg. Nýlega var verið að gefa fyrri hlutann af Njálu út á rúmensku, og nýlega er búið að þýða Njáls sögu á ungversku. Áhuginn hjá þeim sósíalistísku þjóðum, ekki síður en þeim borgaralegu þjóðum, sem nær okkur búa, fer vaxandi fyrir þessum dýrgripum okkar, m.a. vegna þess, að sá boðskapur, sem þessar Íslendingasögur okkar hafa að flytja, er svo sérstæður í okkar heimi, eins og hann er orðinn, að þegar menn fara að kynnast þeim, uppgötva þeir heim, sem þeir hafa ekki þekkt áður. Við höfum svo sérstakar aðstæður, Íslendingar, eins og ég kom inn á í upphafi míns máls, að það hefur engin önnur þjóð slíkar í veröldinni. Þær hafa flestar verið það óhamingjusamar að glata þeim, vegna þess að það leið svo langt milli þeirrar svokölluðu hetjualdar, þeirrar aldar, þegar hetjusögurnar og hetjukvæðin verða til, en þjóðirnar ekki enn þá kunna að skrifa, að það týnist allt saman, og hjá germönsku þjóðunum sá kristnin um það, sérstaklega hjá Þjóðverjum og slíkum, að eyðileggja allt slíkt. En við Íslendingar aftur á móti vorum svo heppnir, að við vorum svo miklir diplómatar, þegar við tókum kristnina, að við héldum áfram að vera heiðnir í lund og varðveittum þess vegna okkar heiðnu bókmenntir, og meira að segja kristnu munkarnir voru það heiðnir, að þeir skrifuðu þær upp, þannig að við einir allra germönsku þjóðanna varðveittum þess vegna þessa dýrgripi. Og við höfum fram á þennan dag, — ég skal ekki segja, hvað sjónvarpið kann að gera við þá kynslóð, sem nú vex upp, — en við höfum fram á þennan dag lifað að meira eða minna leyti í þessum heimi, sem Íslendingasögurnar skópu, vegna þess að enn þá á aldri þeirra, sem nú eru komnir á minn aldur, var það sjálfsagt, að menn læsu þær allar sem börn. Þess vegna haldast þessi tengsl enn sem komið er í þessari kynslóð, tengslin frá upphafi okkar þjóðveldis, og þess vegna þarf þessi kynslóð að sjá til þess, þegar hættan er á því, að öll þessi tengsl slitni hjá þessari þjóð, að a.m.k. í Háskóla Íslands verði séð til þess, að hvað snertir stúdíum og vísindalegar rannsóknir á þeim íslenzku fræðum sé þarna unnið myndarlega að. Og við, sem hrúgum upp embættum á öllum sviðum þjóðfélagsins, og sérstaklega miklu af óþörfum og skaðlegum embættum, eins og efnahagsráðunautunum og öðru slíku, ættum að sjá sóma okkar í því að setja þá a.m.k. 3–6 prófessorsembætti í viðbót í íslenzkum fræðum. Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að ef okkur í menntmn. tekst að verða sammála um að reyna að betrumbæta þá áætlun, sem háskólinn hér hefur lagt fram, mætum við miklum skilningi frá hálfu íslenzkrar ríkisstj.