31.03.1966
Neðri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2009 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

100. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur rætt frv. þetta, sem gerir ráð fyrir fjölgun prófessorsembætta við Háskóla Íslands um fjögur. Er það í samræmi við áætlun um fjölgun prófessorsembætta í þeim greinum, sem kenndar hafa verið við háskólann undanfarið, en ríkisstj. hefur lýst samþykki sínu við þessa áætlun og flytur frv. í samræmi við hana.

Til viðbótar því, sem í frv. er, þótti n. ástæða til að ræða málefni háskólans almennt, og var það gert á allmörgum fundum. Á þeim fundum mættu m.a. til að taka þátt í umr. með n. og veita upplýsingar hæstv. menntmrh. og rektor háskólans. Í þessum umr. í menntmn. kom fram mikill áhugi nm. á að efla Háskóla Íslands, bæði aðstöðu hans og kennsluhætti, svo og að auka vísindastarf innan hans. Kom fram í þeim upplýsingum, sem veittar voru, að við háskólann eru mörg vandamál og mikil, sem leysa þarf, ef hann á að verða í næstu framtíð sú stofnun, sem við óskum eftir.

Í menntmn. var tekið undir þá skoðun, sem hæstv. menntmrh. lét í ljós í framsögu og aðrir þm. tóku undir, að háskólinn ætti sérstaklega að verða miðstöð íslenzkra fræða, bæði innanlands og utan, og væri rík ástæða til þess fyrir Alþingi að leggja áherzlu á að efla þá deild skólans. Í þessu sambandi varð menntmn. sammála um að leggja til eina breytingu á frv., þá, að fjölgað skuli um eitt prófessorsembætti til viðbótar í íslenzkum fræðum við það, sem áður hafði verið lagt til. Það er hugmynd mn., að hinn nýi prófessor eigi að kenna íslenzka nútímasögu og eigi sú kennsla ásamt þeim rannsóknum, sem henni fylgja, jafnan að ná fram undir líðandi stund, eftir því sem framast er unnt.

Ástæða er til að minnast þess, að íslenzk fræði eru að sjálfsögðu það, sem okkur ber að stunda öðru fremur við háskóla okkar. Í því sambandi er einnig ástæða til að minnast ummæla hæstv. forsrh. í ræðu hans til þjóðarinnar á gamlárskvöld s.l., er hann hafði það eftir víðreistum ambassador, að frægð Íslands, svo sem hún er í heiminum í dag, sé ekki síður byggð á afrekum síðustu kynslóða heldur en þeim forna bókmennta- og menningararfi, sem okkur er ætlað að varðveita. Augljóst er, að aukin áherzla á samtímasögu muni gera hverri kynslóð kleift að læra af hinum næstu, sem á undan fóru. Flestir munu hafa rekið sig á, hversu erfitt það er fyrir unga menn, sem vilja leggja stund á eða kynna sér t.d. stjórnmála- eða atvinnusögu síðustu áratuga, að afla sér gagna eða fá nokkra aðstoð við slíkt nám.

N. telur því, að það væri góð og viðeigandi viðbót við frv. að stofna nú til prófessorsembættis í íslenzkri nútímasögu og að með því verði fyllt skarð, sem verið hefur í starfsemi háskólans.

Það er því till. menntmn., að frv. verði samþ. með þeirri einu breytingu, sem lýst er í þskj. 402.