30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

100. mál, Háskóli Íslands

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki efnislega fara að ræða þetta mál, enda þótt ég sé persónulega mjög lítið hrifinn af þeirri breytingu, sem var gerð á stjórnarfrv. varðandi prófessorafjölgun, þar eð ég tel, að það eigi að fara að tillögum háskólans um þetta efni. En það, sem ég vildi aðeins upplýsa hér, er, að þessi brtt. fær ekki staðizt, vegna þess að heimspekideild háskólans hefur að sjálfsögðu ekkert fjárveitingavald og það er ekki hægt að heimila henni að veita fé til ákveðinna hluta, hvorki henni né neinni annarri stofnun. Hefði þetta átt að gerast, hefði það orðið að vera heimild til handa ríkisstj., og þá kemur það enn til viðbótar, að það er að sjálfsögðu ástæðulaust og óeðlilegt að hafa í frv. sem þessu, vegna þess að það er fjárlagamál, og er eðlilegt, að gert verði upp það dæmi, þegar fjárlög verða afgreidd, hvort Alþ. þykir heppilegt að fara þá leið, sem hv. flm. þessarar till. telja rétt að fara. Ég skal ekkert fetta fingur út í þeirra rök eða efnislegan málflutning varðandi það atriði, að það geti verið heppilegra að hafa þennan hátt á, að verja fé til rannsókna heldur en að skipa prófessor. En ég tel nauðsynlegt, að þetta komi fram hér, þar eð mér sýnist, að till. sé þess eðlis að þessu leyti til, að það sé gersamlega útilokað á þinglegan hátt að samþykkja hana.