30.04.1966
Efri deild: 76. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

100. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Hæstv. menntmrh. gaf yfirlýsingu um það í fyrsta lagi, að stofnun þessa embættis mundi á engan hátt verða til þess að tefja framgang 10 ára áætlunar háskólans. Í öðru lagi gaf hann yfirlýsingu um það, að þetta embætti yrði ekki auglýst og í það skipað, nema að höfðu samráði við háskólaráð og heimspekideild. Þetta voru þau tvö atriði, sem ég lagði megináherzlu á í framsöguræðu minni áðan. Enn fremur lýsti hann því yfir, að hann mundi styðja að því, að fé því, sem sparaðist, meðan embættið væri óveitt, yrði að einhverju meira eða minna leyti varið til undirbúnings stofnunar embættisins, svo sem að styrkja efnilegan mann til að búa sig undir það. Ég hefði kannske óskað, að slík yfirlýsing yrði fyllri, en ég vænti þess og treysti því, að í því efni verði fullt tillit tekið til óska háskólans, heimspekideildar og sérstaklega söguprófessora hans, þegar að því kemur. Með tilliti til þessa mun ég, samkv. áður sögðu, ekki sjá mér fært að styðja þá brtt., sem hér hefur verið borin fram. Ég sagði að vísu áðan, og ég lít þannig á, að kjarni till. hafi verið þess efnis, að ég væri henni sammála að efni til. Hitt er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. benti á, að á henni er formgalli, og að mínu áliti er hún of þröng. Og með tilliti til þess, að ég tel, að málinu væri stofnað í allt of mikla hættu að senda málið aftur til Nd., þá verð ég, — og í því efni tek ég undir með hv. 3. þm. Norðurl. v., en ég var raunar öllu sammála, sem hann sagði, — því miður að greiða atkv. gegn þessari till. og tel það í rauninni miður farið, að hv. flm. hafa ekki talið sér fært að verða við tilmælum mínum um að taka till. aftur, því að það, að till. verði felld, þó að það sé á þeim grundvelli, sem fram hefur komið bæði hjá mér og hv. 3. þm. Norðurl. v., torveldar það frekar en hitt einmitt, að fært verði að koma til móts við óskir söguprófessoranna í þessu efni.