28.10.1965
Neðri deild: 8. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 11. sept. s.l. um verðlagningu landbúnaðarvara á verðlagsárinu 1965–1966.

Ekki varð hjá því komizt að ákveða verð búvöru að þessu sinni með brbl., þar sem 6 manna n., sem áður hefur ákveðið verðið, var ekki starfhæf. 6 manna n. hefur unnið að verðlagningu búvöru frá 1943. Hefur hún oftast orðið sammála um verð vörunnar til bóndans og einnig heildsölu- og smásöluverð. Þegar samkomulag hefur ekki náðst í n., hefur ágreiningsatriðunum verið vísað til yfirnefndar, en yfirnefndina skipa l. samkv. einn fulltrúi, sem fulltrúar bænda í 6 manna n. kjósa, og einn fulltrúi, sem fulltrúar neytenda í 6 manna n. tilnefna, en hagstofustjóri er oddamaður í n. Lög um verðlagningu búvöru voru endurskoðuð 1947 og aftur í árslok 1959 og voru þá endurbætt og útflutningstryggingin lögtekin. Við verðlagningu landbúnaðarvara er fundinn grundvöllur fyrir verðlagningunni með því að finna út stærð meðalbúsins í landinu. Meðalbúið hefur stækkað allmikið á þeim rúml. 20 árum, sem l. um 6 manna n. hafa verið í gildi. Stækkun búanna hefur orðið örari síðustu árin vegna aukinnar ræktunar og aukinnar tækni með bættum vélakosti. Verðlagningin skal miðast við það, að kjör bænda verði ekki lakari en kjör sjómanna, iðnaðarmanna og verkamanna. Reiknaðar hafa verið út tekjur meðalbúsins svo og þau gjöld, sem eðlileg eru í sambandi við búreksturinn. Bændur hafa oft fundið að því, að verðgrundvöllurinn væri ekki réttur, að útgjöld meðalbúsins væru raunverulega meiri en tekið er tillit til í útreikningum um verðið. Enginn vafi er á því, að bændur hafa oft haft rök að mæla, enda almennt viðurkennt, að 3 síðustu árin hafi verðgrundvöllurinn verið mikið lagfærður og að bændur hafa því í seinni tíð unað betur hag sínum en áður. Skekkjur hafa oft komið í verðgrundvöllinn, vegna þess að sjálfsagðar hækkanir voru ekki teknar til greina, og má þá sérstaklega nefna haustið 1957, þegar búvöruverðið var hækkað um aðeins 1.88%, eftir að kaupgjald hafði hækkað á verðlagsárinu um 16–17% og ýmsir rekstrarvöruliðir búsins einnig mikið hækkað, sem hefði átt að taka tillit til. Til ársins 1960 gerðu l. ráð fyrir því, að verðbreytingar ættu sér stað aðeins einu sinni á ári, þ.e. í byrjun verðlagsársins 1. sept. ár hvert. Þegar kaup hækkaði í sept. eða okt. og rekstrarvörur hækkuðu, eftir að verðið hafði verið ákveðið, urðu bændur að biða með verðhækkanir allt að því heilt ár eða þar til næsta verðlagsár byrjaði. Þetta voru vitanlega ekki góð kjör á þeim tímum, sem verðhækkanir og kauphækkanir voru eins og ætíð hefur verið árlega frá því, að l. voru sett.

Með breytingu l. 1960 var ákveðið, að tillit skyldi tekið til hækkunar á rekstrarvöruliðunum og kauphækkunum ársfjórðungslega. Var það mikil leiðrétting frá því, sem áður hafði verið. Hefði verið eðlilegt, að breytingar væru teknar til greina mánaðarlega. En Framleiðsluráði landbúnaðarins hefur fundizt erfitt að reikna út breytingar á birgðum og ákveða nýtt verð með stuttum fresti.

Mikilsverðasta breyt. á l. um verðlagningu búvara 1960 var verðtryggingin, sem bændur fengu með útflutningsuppbótunum. Útflutningstryggingin hefur gert fært að greiða bændum fullt 6 manna nefndar verð, sem ekki tókst áður, meðan bændur báru sjálfir hallann af því, sem út var flutt.

Útflutningsuppbæturnar hafa oft verið gerðar að umtalsefni. Þykir ýmsum, að ríkissjóði sé bundinn þungur baggi með þessu lagaákvæði. Útflutningsuppbætur urðu á síðasta verðlagsári 184 millj. kr., og er gert ráð fyrir, að á yfirstandandi verðlagsári fari það nokkuð yfir 200 millj. Útflutningsuppbæturnar geta þó aldrei farið yfir 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar. Er það vissulega hemill, sem kemur í veg fyrir, að sú upphæð, sem varið er í þessu skyni, hækki úr hófi fram. Niðurgreiðslumar eru orðnar háar og þungar í skauti fyrir ríkissjóð. Það er misskilningur, sem stundum kemur fram, að niðurgreiðslurnar komi bændunum einum við og séu jafnvel nokkurs konar styrkur til þeirra. Það er þó ljóst, að niðurgreiðslurnar eru gerðar af efnahagslegum ástæðum í því skyni að hafa hemil á verðlaginu og dýrtíðinni.

Það er ástæðulaust að gera lítið úr því framlagi, sem íslenzkur landbúnaður nýtur. En það er einnig varasamt að mikla það fyrir sér, sem til landbúnaðar er varið, og halda því fram, að til landbúnaðarins megi rekja mestan þann vanda, sem við er að stríða hverju sinni í dýrtíðar- og efnahagsmálum. Það hefur oft verið til þess vitnað, að aðrar þjóðir verji miklum fjárhæðum til landbúnaðarins og jafnvel tiltölulega meiru en Íslendingar gera. Um leið og þetta er sagt, er sjálfsagt að viðurkenna, að brýna nauðsyn ber til að finna leiðir til þess að lækka framleiðslukostnað landbúnaðarvara. Það ber brýna nauðsyn til þess að vinna nýja og betri markaði fyrir þær búvörur, sem út eru fluttar. Það ber brýna nauðsyn til að vinna úr landbúnaðarvörunum innanlands og gera þær þannig verðmætari, áður en þær eru fluttar út. Verði það gert, mun sá vandi, sem um er rætt í sambandi við landbúnaðinn, fara minnkandi og hverfa, þegar tímar líða.

Framleiðslan í landbúnaðinum hefur aukizt verulega vegna mikillar ræktunar, aukins vélakosts og góðæris. Mjólkurframleiðslan ætti að miðast að mestu leyti við þarfir landsmanna. Það er óhagstætt að flytja út mjólkurafurðir. En í góðæri getur orðið nokkur umframframleiðsla, eins og nú á sér stað. Ég hygg þó, að það sé almenn skoðun bænda, að nauðsyn beri til að haga framleiðslunni í samræmi við það, að ekki þurfi að flytja út mjólkurafurðir sem nokkru nemur. Er margt, sem bendir til, að vöxtur mjólkurframleiðslu verði minni næstu árin en verið hefur. Bændur keppa nú að því að auka kjötframleiðslu og er það áreiðanlega, eins og sakir standa, miklu heilbrigðara fyrir þjóðarbúið, að svo verði. Meðgjöf með sauðfjárafurðum á erlendum markaði er miklu lægri en með mjólkurafurðum. Möguleikarnir til þess að fá betri markaði fyrir sauðfjárafurðir eru einnig miklu meiri en á öðrum framleiðsluvörum landbúnaðarins. Að þessum málum er nú unnið og það haft í huga, að sauðfjárframleiðslan muni aukast mikið á næstu árum. Bændur munu einnig vinna að því, að framleiðslan verði fjölbreyttari, þannig að neytendur hafi meira úrval, og þær raddir, sem tala um innflutning á kjöti, hjaðni. Það kemur vitanlega ekki til mála að flytja inn erlent kjöt. Það eru nógir möguleikar til þess að hafa innlent kjöt af bezta tagi á markaðinum, og þar sem bændur hafa nú fullan hug á því, mun þess ekki langt að bíða, að breyting sjáist í þá átt. Með því að stuðla að bættum hag landbúnaðarins með ræktun, eins og gert hefur verið seinustu árin með fullkomnum vélakosti og tækni, er augljóst, að búin stækka og möguleikar landbúnaðarins verða meiri og betri en fyrr. Landbúnaðurinn mun þróast og eflast, eftir því sem ræktunin eykst og framleiðslan vex. Framlag ríkisins til ræktunarmála mun halda áfram um langa framtíð, enda er ræktunarframlagið ekki miðað við hagsmuni hvers einstaklings, heldur verði það framlag í varasjóð fyrir framtíðina, sem þjóðin öll mun njóta góðs af. Framlög til útflutningsuppbóta munu ekki verða um alla framtíð, en hljóta þó að vera um sinn, þar til landbúnaðurinn er kominn á það stig, að framleiðslan geti truflunarlaust gengið með því að njóta innanlandsmarkaðsins og þess verðs, sem næst á erlendum mörkuðum.

Ég er sannfærður um, að sá tími kemur, að landbúnaðarvörur verða fluttar út úr landi með góðum árangri, þótt ríkissjóður leggi ekki fram fé til þeirra mála. Þegar það er haft í huga, er vitanlega sjálfsagt að halda áfram að auka framleiðslu þeirra vara, sem hagstæðast er talið að flytja út, og auka ræktun og framfarir í landbúnaði. Fólkinu fjölgar, neytendahópurinn stækkar, tæknin verður meiri og framleiðslukostnaðurinn lækkar. Þetta styrkir aðstöðu landbúnaðarins og verður til þess, að allir, einnig þeir, sem nú efast um gildi landbúnaðar á Íslandi, verða sannfærðir um, að gullið, sem grafið er úr íslenzkri gróðurmold, er þjóðinni jafnmikils virði og þau verðmæti, sem aðrir atvinnuvegir veita.

Lög þau, sem ákvarða reglur um verðlagningu landbúnaðarvara, urðu ekki framkvæmd á þessu hausti, vegna þess að Alþýðusamband Íslands neitaði að tilnefna fulltrúa í 6 manna n., eins og l. gera ráð fyrir. Er óskiljanlegt, hvernig á því stendur, að Alþýðusambandið tók þessa afstöðu. Haustið 1964 varð fullt samkomulag um verðlagningu búvara. Fulltrúar neytenda og bænda sömdu um það verðlag, sem bóndinn skyldi fá. Það varð einnig samkomulag um heildsöluverð og smásöluverð. Það varð fullt samkomulag um dreifingarkostnaðinn haustið 1964, en oft er talað um, að hann sé óeðlilega hár. Þar sem samkomulag náðist á fyrra ári, er erfitt að skilja, hvers vegna Alþýðusambandið skarst úr leik, áður en á það reyndi, hvort samkomulag gæti orðið á þessu hausti. Út af fyrir sig er þýðingarlaust að ræða um það, hvers vegna Alþýðusambandið fór þessa leið og afsalaði sér þannig réttinum til þess að hafa áhrif á verðlagið í haust. Það, sem máli skiptir, er framhaldið í þessum málum. Brbl., sem gefin voru út til þess að bjarga málinu, miðast við það ástand, sem brotthlaup Alþýðusambandsfulltrúans úr 6 manna n. skapaði.

Það er almennt álitið, að tekizt hafi að leysa hnútinn með brbl. á sanngjarnan hátt, þannig að bændur geti unað sínum hlut og neytendur geti ekki með réttu talið, að boginn hafi verið spenntur of hátt.

Samkv. l. gr. brbl. er kveðið svo á, að á verðlagsárinu 1965–1966 skuli byggt á verðlagsgrundvelli, er Hagstofa Íslands reiknar eftir verðlagsgrundvelli haustsins 1964. Við laun bónda og sjúkrasjóðsgjald bætist geymd hækkun samkv. bókun í fundargerðabók 6 manna n. 24. febr. 1965 og við það hvort tveggja skuli bætt viðbót, sem er að hundraðshluta jöfn þeirri hækkun, er verður á bótaupphæðum almannatrygginga á síðari hluta árs 1965. En bótaupphæðir þessar miðast við þær hækkanir, sem orðið hafa á kaupi verkamanna. Með þessari viðmiðun var bóndanum tryggð hækkun búsafurða að þessu sinni. Þá er gert ráð fyrir samkv. 1. gr., að við aðkeypta vinnu bætist hlutfallsleg hækkun. Við fjárhæðir vinnuliða þannig reiknaðar bætist verðlagsuppbót, sbr. ákvæði 4. gr. l. nr. 63 1964 um verðtryggingu launa. Aðrir útgjaldaliðir verðlagsgrundvallar 1964 skulu færðir fram til verðlags á hausti 1965 og eftir þeim reglum, sem gilda, þegar grundvelli hefur ekki verið sagt upp. Sama gildir um tekjuliði verðlagsgrundvallar. Verð á ull og gærum í verðlagsgrundvelli 1965–1966 skal vera meðalútflutningsverð þessara afurða 1964–1965 að frádregnum áföllnum kostnaði, er útflutningur á sér stað samkv. mati Hagstofunnar. þá er Hagstofan hefur reiknað verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara samkv. 1. mgr. þessarar gr., afhendir hún hann n. þeirri, er um ræðir í 2. gr. frv., til frekari meðferðar.

Samkv. 2. gr. skal skipa þriggja manna n. til þess að færa verðlagið út samkv. þeim grundvelli, sem Hagstofan hefur fundið. Í p. þessari eiga sæti ráðuneytisstj. landbrn., forstjóri Efnahagsstofnunarinnar og framkvstj. Framleiðsluráðs landbúnaðarins. N. varð sammála um verð á einstökum vörum til bóndans. Hún varð einnig sammála um heildsölu- og smásöluverð. Meðalverðhækkun til bænda varð samkv. þessu 11.2%. Var verðhækkunin allmiklu meiri á kjöti á kostnað mjólkurverðsins.

Eins og fram kemur, er ljóst, að verðlagið á þessu hausti er í samræmi við það verð, sem ákveðið var með samkomulagi haustið 1964. Þær verðhækkanir, sem orðið hafa á rekstrarvörum og kaupgjaldi á verðlagsárinu, hafa verið teknar til greina og bóndinn því fengið það bætt. Fáir munu hafa ætlazt til, að haldið væri á málunum á annan veg. Þar sem samkomulag varð um búvöruverðið milli framleiðenda og neytenda á s.l. ári, verður að ætla, að almennt sé litið svo á, að verðlagningin að þessu sinni hafi verið sanngjörn fyrir báða aðila, framleiðendur og neytendur.

Eins og áður er að vikið, voru brbl. út gefin til þess að leysa vanda, sem boðið var heim með því að gera 6 manna n. óstarfhæfa. Það er yfirlýstur vilji ríkisstj. að gera tilraun til að koma aftur á samstarfi milli framleiðenda og neytenda um verðlagningu landbúnaðarvara. Þess vegna hef ég skrifað Stéttarsambandi bænda, Framleiðsluráði landbúnaðarins, A.S.Í., Sjómannafélagi Reykjavíkur og Landssambandi iðnaðarmanna og mælzt til þess, að þeir skipi fulltrúa í n., sem hefur það verkefni að finna samkomulagsgrundvöll um verðlagningu landbúnaðarvara framvegis.

Þeir aðilar, sem hér eru nefndir, skipuðu áður fulltrúa í 6 manna n. Líklegt er, að ríkisstj. skipi 7. manninn, sem verði þá jafnframt formaður n. Bændasamtökin hafa nú þegar tilnefnt fulltrúa af sinni hálfu, og Landssamband iðnaðarmanna held ég að hafi einnig tilnefnt fulltrúa í n. Ekki er að efa, að Alþýðusambandið og Sjómannafélag Reykjavíkur munu einnig tilnefna fulltrúa í n., og getur n. væntanlega bráðlega tekið til starfa.

Það er mikið atriði, að samkomulag verði um endurskoðun þeirra l., sem verðlagning íandbúnaðarvara byggist á. Það er nauðsynlegt, að skilningur verði gagnkvæmur milli framleiðenda og neytenda. Sanngirni þarf að ráða á báða bóga. Það er von mín, að svo geti orðið og á þessu þingi megi takast að afgreiða löggjöf, sem verðlagning landbúnaðarvara verði byggð á eftirleiðis.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.