02.11.1965
Neðri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú sérstaklega út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Vestf. (SE), að ég kveð mér hljóðs, og sé ég nú ekki ástæðu til, að það þurfi að tala langt mál út af því.

Ég hef nú haldið það, að hv. 3. þm. Vestf. hefði gert sér ljóst, hver væri stefna Íslendinga í landbúnaðarmálum í dag eða núv. ríkisstj., það lægi alveg ljóst fyrir, að það er að efla landbúnaðinn það vel, að hann geti staðið á eigin fótum, þegar tímar líða, án framlaga í útflutningsuppbótum, sem nú eru gerðar að umtalsefni, og það er þess vegna, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir því að auka ræktun í landinu með stórauknum framlögum, því að ræktunin er undirstaðan að velgengni landbúnaðarins. Og eins og allir hv. alþm. vita, hefur ræktunin aldrei verið meiri en nú síðustu árin. Á s.l. ári nærri 7 þús. ha., árið þar áður nærri 5 þús. ha., en á árunum 1950–1960 til jafnaðar 2500 ha. Það er ræktun landsins, sem skapar möguleikana fyrir sjálfstæðum landbúnaði og fyrir velgengni í landbúnaðinum.

Sú spurning hv. 3. þm. Vestf. hér áðan, hvort það sé stefna landbrh., að bændur njóti jafnréttis við aðrar stéttir þjóðfélagsins, — ég hafði haldið, að það væri óþarft fyrir hv. þm. að koma með fsp. eins og þessa. Ég hefði haldið, að hv. þm. hefði gert sér alveg fulla grein fyrir því áður, að það er stefna landbrh., að bændur njóti jafnréttis við aðra landsmenn, en hv. þm. þykist eitthvað efast um það vegna brbl. Hann telur, að brbl. eiginlega skeri úr um það, að bændur búi ekki, a.m.k. um sinn, við jafngóð kjör og aðrir landsmenn. Það er rétt, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan, að brbl. eru aðeins miðuð við eitt ár og þau eru miðuð við þann grundvöll, sem lagður var með samkomulagi um búvöruverðið haustið 1964. Þau eru miðuð við það, að bændurnir fái með þessum brbl. bætta dýrtíðina og kauphækkunina frá því í fyrra og hlutur þeirra verði ekki bættur með þessum I. umfram það, sem aðrar stéttir hafa fengið á þessu ári. Það er þetta, sem brbl. miðast við. Og það er alveg óþarft, að ég hélt, fyrir hv. 3. þm. Vestf. að vera að spyrja um það, hvort 8,9% hækkunin, sem almannatryggingarnar ætla sér að greiða í desember, sé hér með. Hv. þm. sagðist spyrja um þetta, en taldi þó alveg víst, að svona væri. Vitanlega er það þannig.

Hv. 3. þm. Vestf. er sjálfur hættur búskap. Ef hann ætti sjálfur við búrekstur, ætti hann hægara með að gera sér grein fyrir þessu, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v., sem ekki var í nokkrum vafa um það, að þessi brbl. væru eftir atvikum alveg þolanleg, sérstaklega með tilliti til þess, að þeim er ekki ætlað að ná nema til eins árs og ríkisstj. hefur gert ráðstafanir til þess að leiða aðila saman og halda áfram samstarfi og samvinnu á milli neytenda og framleiðenda. Og ég verð að segja það, að þrátt fyrir orðræðu hv. 5. þm. Vestf. hér á fimmtudaginn um það, að hann teldi ekki ástæðu til að halda því samstarfi áfram, heldur væri rétt, að ríkisstj. og framleiðendurnir semdu um verðið einir, þá held ég, að hv. 5. þm. Vestf. að athuguðu máli geri sér grein fyrir því, að það er farsælast, að framleiðendur og neytendur haldi áfram samstarfi og leitist við að ná samkomulagi um þessi mál.

Stefna ríkisstj. í landbúnaðarmálum er að koma landbúnaðinum á þann grundvöll, að bændurnir geti ávallt búið við ekki lakari kjör en aðrir landsmenn, að ræktunin og önnur skilyrði verði þannig, að framleiðslukostnaðurinn geti lækkað með því að fullkomin tækni sé tekin í þjónustu landbúnaðarins, eins og mikið hefur verið gert af á seinni árum, og miða að því; að bústærðin verði sem hentugust. Ég tel það alveg útilokað, sem hv. 3. þm. Reykv. (EOl) hélt hér fram í umr. í gær, að ríkið taki að sér að tryggja smábændum einhver lágmarkslaun, eins og t.d. 100 þús. eða 120 þús. kr., eins og þessi hv. þm. talaði um, án tillits til þess, hvort þessir bændur framleiða eða ekki. Ég tel það alveg útilokað að gera slíkt. (EOl: Kallar maður það bónda, sem ekkert framleiðir?) Ég tel það sama sem enga framleiðslu, þó að bóndinn hafi kannske 50–100 ær og ekkert annað. Það er algerlega vonlaust að lifa af slíkum búskap, hversu hátt sem verðið er, og þess vegna er það stefna ríkisstj., að þessum smábændum verði gert kleift að stækka búin það mikið, að það sé lífvænlegt á jörðunum, og auðvitað gerist það. Það er óhjákvæmilegt, að ef jarðirnar eru þannig settar í sveit og hafa ekki ræktunarskilyrði, þá hlýtur það að gerast, að þær fari í eyði og þær notast þá sem bithagar fyrir aðra bændur. Það er ekki eðlilegt að viðhalda slíkum kotbúskap, sem af mundi leiða, ef stefna hv. 3. þm. Reykv. væri upp tekin. Það er eðlileg og það er heilbrigð stefna frá þjóðfélagslegu sjónarmiði að gera bændunum mögulegt að koma upp slíku búi og slíkum búrekstri, að það verði af slíku búi lifað.

Hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) talaði hér áðan um vandræðin, sem af því leiddi, að útflutningsuppbæturnar færu stöðugt hækkandi. Útflutningsuppbæturnar hafa farið hækkandi síðan þær voru upp teknar 1960, og það er bæði vegna þess, að verðlagið hefur hækkað og að framleiðslan hefur aukizt. Hv. þm. ætti að vita það, að búvörurnar hækka ekki, fyrr en eftir að kaupgjaldið hefur hækkað, og það er vegna þess, að kaupgjaldið hefur hækkað, að verðlag búvörunnar hefur hækkað á eftir.

Hv. þm. talar um, að það væri nauðsynlegt að stöðva þessa þróun. Það er rétt, að dýrtíðin getur orðið hættuleg, ef hún magnast svo, að atvinnuvegirnir stöðvast. En kauphækkun að vissu marki, að því marki, sem atvinnuvegirnir þola, hefur til þessa verið talin eðlileg og sjálfsögð. Nú veit ég ekki, hvort hv. 5. þm. Reykv. álítur, að boginn hafi verið spenntur of hátt í kaupgjaldsmálunum, þannig að atvinnuvegirnir hafi ekki getað staðizt það, ég veit það ekki. En hitt veit ég, að hv. þm. hefur verið talsmaður þess hér í hv. þingi, að kaupið mætti hækka, og ég er honum sammála um það, að kaupgjaldið á að hækka að því marki, sem útflutningsatvinnuvegirnir geta staðið undir. En útflutningstryggingin var upp tekin 1960 vegna þeirrar stefnu, sem núv. ríkisstj. vildi marka og undirstrika, og það er gott fyrir hv. 3. þm. Vestf. (SE) að gera sér grein fyrir því, að það var ekki fyrr en 1960, sem sú stefna var mörkuð í íslenzkum landbúnaðarmálum, að bændurnir skyldu hafa sama rétt og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Áður höfðu bændurnir verið látnir bera þann halla, sem af útfluttum landbúnaðarvörum leiddi. Áður en núv. ríkisstj. tók við völdum, var ekki greidd útflutningstrygging á landbúnaðarvörur í því formi, sem nú er. Áður en núv. ríkisstj. tók við völdum, fengu bændur sjaldnast það verð, sem sex manna nefnd ákvað, að bændur skyldu hafa samkv. verðgrundvellinum. Ég minnist þess, að eitt árið var það svo, að Mjólkurbú Flóamanna flutti út ost, sem er ekki í frásögur færandi, á mjög lágu verði, en þá var ekki útflutningstrygging eins og nú. Þá urðu bændurnir að bera hallann af þessum útflutningi, og þá vantaði 9% þetta ár til þess að þeir gætu fengið fullt verð fyrir mjólkina.

Hv. 3. þm. Vestf. ætti ekki að þurfa að spyrja að því, hvort það væri stefna núv. ríkisstj., að bændur bæru ekki minna úr býtum en aðrar stéttir þjóðfélagsins. Hann ætti að hafa gert sér það ljóst, að það er stefna núv. ríkisstj., og þeirri stefnu hefur verið fylgt, en að sú stefna var ekki ráðandi, áður en núv. ríkisstj. var mynduð. Það var þess vegna ekkert vandamál með útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir áður en sú stefna var upp tekin að tryggja bændum fullt verð fyrir allar framleiðsluvörur. Það var ekkert vandamál áður.

Nú veit ég það, að allir eru sammála um að stuðla beri að því, að útflutningsuppbæturnar þurfi ekki að vera varanlegar, að stuðla beri að því, að þær geti farið minnkandi, án þess að það gangi út yfir hagsmuni bænda eða án þess að horfið verði frá þeirri reglu, frá þeirri stefnu, sem gilt hefur, að bændur beri ekki minna úr býtum en aðrar stéttir þjóðfélagsins. Frá þeirri stefnu verður vitanlega ekki vikið, en það er hægt að halda þeirri stefnu, án þess jafnvel að útflutningsuppbæturnar þurfi að fara frá ári til árs hækkandi, og jafnvel þótt þær færu lækkandi, miðað við það, að að því er stefnt að leggja enn styrkari grundvöll að því, að landbúnaðarframleiðslan geti orðið ódýrari en verið hefur. að hún geti orðið fjölbreyttari og að hún geti orðið verðmætari í útflutningi með því að meðhöndla hana innanlands öðruvísi en gert hefur verið, áður en hún hefur verið flutt út. Í landbúnaðinum eru það miklir möguleikar, að það er engin ástæða til að kvíða því, að ekki verði mögulegt að komast út úr þeim erfiðleikum, stundarerfiðleikum, sem við nú erum að tala um.

Það hefur verið minnzt á það hér, að þróunin hafi ekki stefnt í rétta átt, það hafi jafnvel aukizt framleiðslan tiltölulega meira á þeim vörum landbúnaðarins, sem mest þarf að gefa með í útflutningnum, það eru mjólkurvörurnar, en það hefur einnig verið á það minnzt hér, að það er á þessu orðin talsverð breyting, og það er rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði hér áðan, að þróunin stefnir nú í þá átt, að mjólkurframleiðslan gæti jafnvel orðið of lítil, og við skulum minnast þess, að 1960 varð að flytja inn 100 tonn af smjöri, vegna þess að mjólkurframleiðslan varð of lítil. Nú hefur í þrjú ár verðlagningunni verið þannig hagað, að kjötið hefur verið hækkað á kostnað mjólkurinnar, og það er enginn vafi á því, að með þeirri breytingu, sem gerð var í haust, að kjötverðið var hækkað mikið á kostnað mjólkurinnar, hafa bændur gert sér grein fyrir því, að það borgar sig jafnvel betur að hafa sauðfjárbúskap en kúabúskap, og sérstaklega hafa þeir talað um það, að það væri á margan hátt miklu hægara og tiltölulega minni vinna í kringum það allt saman. En þessi tilfærsla á verði má vitanlega ekki ganga það langt, og á því vakti hv. 5. þm. Norðurl. v. (BP) athygli áðan, að mjólkurframleiðslan dragist það mikið saman, að það verði skortur á mjólk. Það þarf að vera jafnvægi í þessum málum, en ég er fyllilega samþykkur því, sem hér hefur verið sagt, að það ber að miða mjólkurframleiðsluna sem næst við það, sem innanlandsþörfin er á hverjum tíma, en í góðæri eins og t.d. núna í ár, — það hefur verið gott sumar í mjólkurframleiðslusveitunum, ekki aðeins, að það hafi verið nægilegt gras, ekki aðeins það, að það hafi náðst mikið af góðum heyjum, heldur einnig það, að við þetta bætist haustbliða, þessi ágæta haustveðrátta, þannig að mjólkin hefur haldizt í kúnum fram eftir öllu hausti og jafnvel nú fram á vetur, — þetta vitanlega er til þess að viðhalda mikilli mjólkurframleiðslu, en sagnir eru víðar að en úr Borgarfirði um það, að bændur hafi jafnvel fækkað kúm nú í haust, en hafi hins vegar sett á gimbrarlömb með það fyrir augum að auka sauðfjárstofninn.

Ég ætla nú það, að hv. 3. þm. Vestf. — og reyndar var það nú svo áður en ég talaði — hafi nú alveg gert sér grein fyrir því, hver er stefna ríkisstj. í landbúnaðarmálum. Það er uppbyggingarstefna, það er að halda áfram ræktuninni, það er að auka þá framleiðslu í landbúnaðinum, sem borgar sig bezt, það er að leggja grundvöll að því, að framleiðslan geti lækkað, það er að vinna að því, að tækni í landbúnaðinum geti aukizt áfram eins og undanfarin ár, það er að vinna að því, að landbúnaðarvörurnar verði unnar í landinu meira en undanfarið og verðmæti framleiðslunnar þannig aukin og samkeppnisaðstaðan varðandi útflutning bætt. Þetta er það, sem eru aðalatriðin í sambandi við landbúnaðarstefnuna. Og þótt ýmsum finnist nú, að útflutningsuppbæturnar séu þungar í skauti, 184 millj. á s.l. ári og rúmlega 200 millj. á þessu ári, ég ætla ekki að gera lítið úr því, það væri vitanlega heppilegast, að það þyrfti ekki að greiða þessa upphæð úr ríkissjóði, að bændur gætu búið við jafngóðan hlut og aðrir landsmenn án þess að fá þetta í sinn vasa. Þessi upphæð gerir um 30 þús. kr. á hvern bónda í landinu, og það er vitanlega ekki svo lítið. Þessari upphæð er vitanlega ekki hægt að kippa af í einu. Til þess hlýtur að þurfa talsverðan aðdraganda, til þess þurfa bændur að hafa haft möguleika til þess að bæta aðstöðu sína í framleiðslunni, þannig að tekjur þeirra geti orðið sambærilegar við aðrar vinnandi stéttir, þótt þessi upphæð væri ekki tekin með. En það er hemill á, eins og kunnugt er, að þessi upphæð getur aldrei orðið meiri en 10% af heildarverðmæti þess hráefnis, sem landbúnaðurinn framleiðir. Það er sá hemill, sem heldur þessu í skefjum, og ég verð að segja það, að miðað við gildi landbúnaðarins almennt og miðað við það, að um 1600 millj. kr. verðmæti er lagt til frá landbúnaðinum sem fæða handa landsmönnum og án landbúnaðar getur þjóðin ekki verið, verð ég að segja það, að jafnvel þótt 4–5% af fjárlagaupphæðinni fari yfir þetta, að það er ekki það, sem ræður úrslitum eða skapar vandamál í efnahagsmálum okkar, sem eru óviðráðanleg. Og við skulum gera okkur grein fyrir því, að íslenzku þjóðinni fjölgar, hún verður að nota þau verðmæti, sem í gróðurmoldinni eru. Ef þjóðin verður helmingi fjölmennari um næstu aldamót eða eftir 30–35 ár en hún er nú, er ljóst, að það þarf að nýta þá möguleika, sem atvinnuvegirnir hafa, landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður, jarðhitinn og fallvötnin eða virkjanir, sem er aflgjafi iðnaðarins. Og það hefur löngum verið talið, að það væri ekki skynsamlegt að reikna með því, að sjávaraflinn gæti aukizt, jafnvel þótt við fengjum allt landgrunnið, í hlutfalli við fólksfjölgunina í landinu. Við getum aukið verðmæti aflans með því að verka hann öðruvísi og betur en við höfum gert. En ef við getum ekki reiknað með að auka aflamagnið, er það ljóst, að við þurfum að nýta önnur verðmæti, sem þjóðin á, heldur en sjávaraflann, þótt við notum hann og nýtum alveg til fulls. Það er því mín trú, að með því að halda áfram að rækta og með því að leggja styrkan grundvöll að aukinni landbúnaðarframleiðslu og með því að hagnýta landbúnaðarframleiðsluna með hinni fullkomnustu tækni og nýta allt, sem af skepnunni fæst, geti tugþúsundir Íslendinga lifað af því að vinna úr framleiðslu landbúnaðarafurða. Ég held, að þetta þurfi allt að haldast í hendur. Það er nýting sjávaraflans, það er iðnaður, það eru virkjanir, það er nýting jarðhitans og það er nýting íslenzkrar gróðurmoldar, og við erum svo heppin að eiga í þessu landi 3–4 millj. ha. af ræktanlegu landi, 3–4 millj. ha. af landi, sem ýmist má rækta til slægna eða til beitar, en við höfum aðeins ræktað 90 þús. ha. enn sem komið er, aðeins ræktað 90 þús. ha. Af þessu sjáum við, að þarna eru möguleikar og við erum vissulega heppnir, Íslendingar, að eiga þetta land og eiga alla þessa möguleika. Mér hefur verið sagt, að Færeyingar teldu sig ekki standa vel að vígi í sinni sjálfstæðisbaráttu, vegna þess að þeir ættu ekki landbúnað, þeir ættu ekki land til ræktunar. Þeir eiga einnig litið af virkjanlegu afli, þeir verða að treysta á sjávaraflann einan. Og mundum við Íslendingar hafa lýst yfir sjálfstæði 1944, mundum við hafa fengið sáttmálann 1918, mundum við hafa haft kjark til þess að mynda sjáifstætt ríki, ef við hefðum ekki haft þennan bakgrunn, landbúnaðinn og þetta mikla ræktanlega land, sem við eigum?