04.11.1965
Neðri deild: 11. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja hér nokkur orð, þar sem vitað er, að hv. 5. þm. Vestf. tekur til máls hér á eftir, en í rauninni á hann inni hjá mér nokkrar upplýsingar vegna ræðu, sem hann flutti fyrir nokkrum dögum, en þegar ég talaði hér síðast, hafði ég ekki fengið þær upplýsingar í hendur. Mér þykir þess vegna eðlilegt, að hv. þm. fái að heyra nokkuð um það, áður en hann fær orðið hér á eftir.

Eins og hv. alþm. muna, var megininnihald í ræðu hv. 5. þm. Vestf. dreifingarkostnaðurinn, og hv. þm. taldi, að dreifingarkostnaðurinn væri óeðlilega hár. Hann taldi, að það hefði verið erfitt að fá upplýsingar um dreifingarkostnaðinn fyrir 6 manna n. Nú ætla ég engan dóm á það að leggja, hvort dreifingarkostnaðurinn gæti ekki verið lægri en hann er. En ég tel, að það sé alveg nauðsynlegt og sjálfsagt, að hv. þm. og þá ekki síður sú n., sem verður sett á laggirnar til þess að vinna að endurskoðun verðlagsmálanna, fái allar upplýsingar, sem fyrir liggja í sambandi við dreifingarkostnað búvörunnar, því að það eru allir hv. þm. sammála um, að það sé sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna, hvar í stétt sem þeir eru, að dreifingarkostnaðurinn geti verið sem minnstur. Ég hef aðeins fengið upplýsingar nú og glögga skýrslu, sem er fróðleg, frá Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Ég hef ekki enn í höndum sams konar skýrslu í sambandi við sláturafurðir, dreifingu kjöts og kjötvara, en þannig skýrslu mun ég einnig fá. Og ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa hér nokkuð úr þessari skýrslu Mjólkursamsölunnar, sem er til fróðleiks fyrir alla hv. þm. og fyrir landsmenn alla, því að þessi skýrsla ber nú það með sér, að dreifingarkostnaður mjólkurinnar er minni en margir hafa haldið. Ég ætla hins vegar alls ekki að fullyrða, að það sé útilokað, að hann gæti verið eitthvað minni. Ég ætla engan dóm á það að leggja. En samkv. þessari skýrslu kemur í ljós, að dreifingarkostnaðurinn er allmiklu lægri en ýmsir höfðu haldið. Og einmitt þessi skýrsla er vitnisburður um það, að það á ekki að leyna neinu í þessu sambandi, að n., sem tekur til starfa nú í næstu viku, að ég vona, á að fá upplýsingar og þau gögn á borðið, sem hún óskar eftir. Ég segi þetta í tilefni af því, að hv. 5. þm. Vestf. skoraði alvarlega á mig að hlutast til um það, að upplýsingar væru gefnar, en eins og ég gat um, upplýsti frkvstj. Framleiðsluráðs landbúnaðarins, að það væri engin tregða á því að leggja gögnin á borðið. En hér er skýrsla í sambandi við Mjólkursamsöluna í Reykjavík. Sams konar skýrsla vitanlega er fáanleg, en aðeins síðar, í sambandi við kjötverzlunina. Þá er það í sambandi við mjólkurverð árið 1964.

Vegið meðaltal útsöluverðs á árinu 1964 var 9 kr. 44.63 aurar á mjólkurlítra í lausu máli. Sölutekjur, að frádregnum tekjum af sölu brauða, sælgætis o.fl., námu á sama tíma 9 kr. 14.7 aurum á lítra innveginnar mjólkur, eða 29.93 aurum lægri upphæð en verðlagningunni á mjólk í lausu máli nemur. Þessi mismunur stafar af ýmsum áslæðum, og eru þessar helztar: Verðlagning vinnsluvara er ekki í fullu samræmi við verðlagningu á mjólkinni. Nokkur rýrnun verður á mjólkinni í meðförum. Sölulaun eru greidd öðrum aðilum. Flösku- og hyrnugjald stendur ekki fyllilega undir kostnaði o.fl. Brúttótekjur af sölu brauða, sælgætis o.fl. að frádregnum söluskatti og öðrum opinberum gjöldum af þeim samsvöruðu 7.73 aurum á mjólkurlitra. Sé kostnaðurinn við söluna á þessum vörum talinn hinn sami og tekjurnar, verður skipting mjólkurverðsins þannig á lítra: Kostnaður Mjólkursamsölu og mjólkurbúa 2 kr. 8.78 aurar, þ.e. 22.82%. Til byggingarsjóðs og varasjóðs 7.32 aurar, 0.8%. Til stofnlánasjóðs landbúnaðarins 4.62 aurar, 0.51%. Til verðmiðlunarsjóðs 8.52 aurar, 0.93%. Til bænda, stofnlán búnaðarmálasjóðs meðtalin, 6 kr. 85.46 aurar. M.ö.o., bændum var borgað út árið 1964 74.94% af útsöluverðinu.

Helztu kostnaðarliðir eru: Launa- og starfsmannakostnaður, annar en við akstur frá búi, 1 kr. og 30.6 aurar eða 14.22%. Flutningskostnaður og rekstur bifreiða mjólkurbúanna 12.73 aurar, eða 1.39%, vextir 14.39 aurar, 1.57%, afskriftir aðrar en af bílum búanna 18.96 aurar, 2.07%. Annar kostnaður 40.37 aurar, 4.41%. Kostnaðurinn er, eins og áðan var sagt, 2 kr. 16.51 eyrir, eða 23.66%. Tekjur af búðarvörum, þ.e. sala á sælgæti og brauðum og slíku 7.73 aurar, eða 0.84%.

Rekstrarkostnaður mjólkurbúa og Mjólkursamsölunnar er í eðli sínu þríþættur, þ.e. mjólkurvinnsla, flutningur afurða á sölustað og dreifingarkostnaður. Rekstrarkostnaður mjólkurbúanna er að mestu iðnaðarkostnaður auk flutningskostnaðarins. Dreifingarkostnaður þeirra er rekstur örfárra búða og nemur sem svarar 2.79 aurum á innveginn mjólkurlítra svæðisins. Rekstrarkostnaður Mjólkursamsölunnar, að svo miklu leyti sem hann er borinn uppi af mjólkinni, er allur dreifingarkostnaður, en það samsvarar á allt mjólkurmagnið að meðtöldu tillagi til byggingarsjóðs 83.25 aurum á lítra. Rekstrarkostnaður Mjólkursamsölunnar og mjólkurbúanna skiptist þá þannig milli þessara þriggja liða: Mjólkurvinnsla 110.01 eyrir, eða 12.03%, flutningur afurðanna 12.73 aurar, 1.39%, sölukostnaður 86.04 aurar, eða 9.4%. Með í þessum sölukostnaði er útkeyrsla hjá Mjólkursamsölunni, bæði innan Reykjavíkur og til nærliggjandi kaupstaða, svo og flutningur mjólkurafurða til Vestmannaeyja. Með er talinn allur heildsölu- og smásölukostnaður, en ekki afsláttur eða sölulaun til annarra, sem búðir reka. Einnig er meðtalinn kostnaður við rekstur rannsóknarstofu. Hlutverk hennar er fyrst og fremst í þágu mjólkurvinnslunnar og mjólkurframleiðslunnar sjálfrar, þ.e. bænda, til að tryggja og bæta gæði mjólkur og mjólkurvöru frá fyrstu hendi og vísindastörf í þágu mjólkuriðnaðarins. Hún er hugsuð fyrst og fremst og rekin til þjónustu við neytendur og framleiðendur. Allur kostnaður Mjólkursamsölunnar, eins og honum er lýst hér að framan, samsvarar 11.55% af vörusölu hennar. Sé framlag til byggingarsjóðs meðtalið, en hann gegnir svipuðu hlutverki og varasjóðir samvinnufélaga, nemur kostnaðurinn 12.09% af sölunni.

Þá eru það afskriftir Mjólkursamsölunnar. Hv. 5. þm. Vestf. talaði mikið um afskriftirnar í ræðu sinni og taldi þær óeðlilega miklar, og það má vitanlega alltaf um það deila, en afskriftir Mjólkursamsölunnar eru aðeins lögum samkvæmt, og það hefur nú ekki alltaf verið talið, að það væri of rúmt. Fasteignir aðrar en mjólkurbúðir eru afskrifaðar um 4%, þ.e. eins og lög ákveða. Mjólkurbúðir eru afskrifaðar um 10%. Þær eru afskrifaðar meira en aðrar fasteignir vegna innréttinga og kæliútbúnaðar í búðunum. Búðirnar voru áður afskrifaðar niður í 100 kr., og er það rétt, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði, en því var hætt fyrir nokkrum árum. Síðan er síðasta afskrift látin standa eftir, eða 10% af upphaflegu verði. Nú hefur samsalan margar búðir í leiguhúsnæði, og á þess vegna ekkert annað en innréttingarnar og tækin, og kælitæki og annað þarf að endurnýja, og l. samkv. er leyft að afskrifa vélar um 12%. Hér er afskriftin hins vegar 10%, og þykir rétt, að það komi fram einmitt í tilefni af því, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði um þessi mál. Mjólkurvinnsluvélar eru afskrifaðar um 12%. Það er einnig lögum samkvæmt. En mjólkurvinnsluvélar þarf alltaf að vera að endurnýja og endurbæta öðru hverju, og hefur löggjafinn talið, að 12% afskrift á vélum væri það eðlilega. Bifreiðar eru afskrifaðar mest fyrst og svo minnkandi, eftir því, sem þær eldast, en bifreiðarnar munu í seinni tíð tæplega hafa verið afskrifaðar eins og heimilt er l. samkv., aðeins minna. Þess má geta, að enda þótt nú sé heimilt að láta endurmeta fasteignir og afskrifa þær um 10%, hefur Mjólkursamsalan ekki breytt afskriftunum í það horf, þannig að Mjólkursamsalan hefur ekki nú í seinni tíð afskrifað eins og heimilt er. Hún hefur ekki látið endurmeta, til þess að geta þannig fengið hærri afskriftir. Þetta finnst mér eðlilegt, að hv. 5. þm. Vestf. fái upplýst einmitt hér í umr. og nauðsynlegt, að þetta komi fram.

Bókhald Mjólkursamsölunnar hefur frá byrjun verið endurskoðað af Endurskoðunarskrifstofu Björns E. Árnasonar, sem hefur annazt það starf af mikilli nákvæmni, að ætla má.

Þá er það verð mjólkur. Hér að framan er miðað við mjólk í lausu máli, þótt meiri hluti neyzlumjólkur í Reykjavík sé seldur í hyrnum eða flöskum. Ástæðurnar eru þær, að sérstöku gjaldi er ætlað að bera uppi kostnaðinn við hyrnurnar og flöskurnar. Ýmsar stofnanir iðnaðar og fleiri í Reykjavík kaupa mjólk í lausu máli og almennir neytendur í kaupstöðum og kauptúnum, er ekki fá mjólk frá Reykjavík, en öll önnur mjólkurvara er seld án þessa gjalds. Væri hyrnu- og flöskugjaldinu dreift á alla mjólk og mjólkurafurðir, yrði það vitanlega lægra á mjólkurlitra að meðaltali en það er á þá mjólk, sem það er lagt á. Þetta er tekið fram hér vegna þess misskilnings, sem oft kemur fram við samanburð á því verði, er bændur fá fyrir mjólkina, og því verði, sem neytandinn greiðir fyrir hyrnumjólk, og látið heita sem mismunurinn sé dreifingarkostnaður. Og þá segir, að það sé fjarstætt og mætti skýra það með dæmum, að engum dytti í hug að telja dreifingarkostnað verðmismun, sem er á ullarverði til bænda og sama þunga fullbúinna ullarklæða, talað um ullariðnað og klæðaiðnað, síðan og stundum á millistigum kemur svo álagning til að mæta sölukostnaði. Enginn telur rekstur síldarverksmiðja eða frystihúsa dreifingarkostnað, og fleira er hér talið því til stuðnings, að þegar mjólk er seld í sérstökum umbúðum, sem kosta mikla peninga, sé það ekki hinn raunverulegi dreifingarkostnaður.

Ég hef talið rétt, að þetta kæmi fram, vegna þess að það er svo mikið rætt um verðlagsmál landbúnaðarins. Þetta er fjórði dagurinn, sem um þetta er rætt hér, og er sízt við því að amast. Umr. eiga að vera til þess að upplýsa málin, og nú vænti ég þess, að A.S.Í. og sjómannafélagið gangi frá því að tilnefna í n., sem ríkisstj. vill koma á laggirnar til þess að koma þessum málum í lag, og n. geti þá byrjað störf sín upp úr helgi, og ég held, að það sé gott nú um leið og það er ákveðið, að n. taki til starfa, að það liggi ljóst fyrir, að það stendur ekki á Mjólkursamsölunni, það stendur ekki á Framleiðsluráðinu að leggja gögnin á borðið, til að aðilar geti fengið upplýst ýmis atriði, sem ekki hafa áður legið ljós fyrir. Og ég vil ítreka það, sem ég sagði hér fyrir nokkrum dögum, að ég vænti þess, að þrátt fyrir yfirlýsingu hv. 5. þm. Vestf. hér á dögunum, að hann teldi ekki eðlilegt, að framleiðendur og neytendur semdu framvegis um verðlag búvörunnar, vil ég vænta þess, að hv. þm. endurskoði afstöðu sína og þá einnig og ekki sízt í ljósi þess, að það er grundvöllur til viðræðna um þessi mál í hreinskilni og það á að upplýsa það, sem óskað er í sambandi við dreifinguna. Og ég er sannfærður um, að það er hollast fyrir báða aðila, neytendur og framleiðendur, að það geti skapazt gagnkvæmur skilningur á milli þessara aðila, gagnkvæmur skilningur, og á þessum skilningi verði lagður grundvöllur til verðlagningar á búvörum fyrir framtíðina.