04.11.1965
Neðri deild: 11. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Af því að það eru gamlar taugar góðs kunningsskapar milli okkar hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ), verð ég að segja, að mér þykir reglulega fyrir því, að honum skuli skjátlast svo hrapallega í einföldustu grundvallaratriðum og honum skjátlast í málflutningi sínum í ræðu sinni hér áðan og í þeim greinum, sem hann hefur skrifað um vísitölumál og dýrtíðarmál í blað sitt undanfarið. Það er ekki einungis, að allir hagfræðingar séu alveg forviða á því, að slíkt skuli geta hent mann í þeirri ábyrgðarstöðu, sem hv. þm. er, þ.e.a.s. ritstjóri blaðs næststærsta flokks landsins og alþm., heldur þarf í raun og veru ekki annað en einföldustu reikningskunnáttu og heilbrigða skynsemi til þess að sjá það, hversu gersamlega hv. þm. fer villur vegar í röksemdafærslu sinni, og þarf í raun og veru ekki að hafa um þetta mjög mörg orð. Ég vona, að mér nægi tiltölulega mjög stutt mál til þess að sýna fram á, hversu — ég vil nú ekki nota annað og sterkara orð leiðinlegan misskilning af hálfu hv. þm. hér er um að ræða.

Það, sem okkur greinir á um, er þetta einfalda grundvallaratriði: Á að miða dóm manna um dýrtíðaraukningu við fjölgun vísitölustiga á ákveðnu tímabili, t.d. einu ári, eða hlutfallslega hækkun vísitölunnar? Þetta er það, sem okkur greinir á um. Vilji maður dæma um það, hvort dýrtíð eða verðbólga sé að vaxa á t.d. einu ákveðnu ári, á 12 mánuðum, á maður þá að telja vísitölustigin, sem vísitalan hefur hækkað um, eða á maður að miða við hlutfallslega aukningu vísitölunnar? Það, sem hv. þm. hefur gert í 2–3 ræðum hér á hinu háa Alþ., og það, sem hann hefur gert í mörgum forustugreinum og stórri helgidagagrein í blaði sínu, er það að fella dóm um dýrtíðaraukningu á ólíkum tímabilum með því að telja aukningu vísitölustiganna á tímabilunum báðum. Hér er auðvitað um algerlega ranga aðferð að ræða, sem mjög greinilega sést á því, að ef við t.d. gerum ráð fyrir því, að vísitala hafi einhvern tíma verið 100, það er nú einu sinni grundvöllur alls vísitölureiknings, og gerum ráð fyrir því, að hún hækki á einu ári, einhverju liðnu ári, um 10 stig. Svo líði 10 ár og þá sé vísitalan komin upp í 1000, hún sé komin upp í 1000 á einum áratug. Svo hækki hún aftur um 10 stig. Þá segir hv. þm: Í raun og veru hefur dýrtíðaraukningin verið sú sama. Fyrir 10 árum fjölgaði vísitölustigunum, vísitalan hækkaði um 10 stig. 10 árum seinna, þegar hún er orðin 1000, hækkar hún aftur um 10 stig. Vísitöluaukningin er sú sama, hún hækkar um 10 stig í báðum tilfellunum. Sér ekki hvert mannsbarn, hversu hér er um grundvallarmisskilning á eðli alls vísitölureiknings að ræða? Hér þarf enga sérþekkingu aðra til en að kunna prósentureikning og hafa heilbrigða skynsemi til þess að sjá, hvernig á þessu máli á að taka. Á fyrra tímabilinu, þegar vísitalan hækkaði um 10 stig, óx dýrtið um 10%. Á því ári óx dýrtíð eða verðbólga um 10%. Á seinna árinu, þegar vísitalan er orðin 1000 og hún hækkar aftur um 10 stig, vex dýrtíð og vísitala um 1 %, þó að stigin séu 10. Um þetta held ég. að geti ekki verið nokkur ágreiningur meðal barnaskólabarna, hvað þá að það þurfi að vera ágreiningur um það meðal þm. (ÞÞ: Er 10 við 100, er það 1000?) Mig brestur svar við að svara svona mikilli einfeldni.

Það, sem hv. 5. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, gerir í sínum málflutningi gegn mér og að því er hann telur gegn stefnu hæstv. ríkisstj., er það að telja aukningu vísitölustiganna á undanförnum árum, undanförnum tímabilum. Ýmist telur hann aukningu vísitölustiga framfærslukostnaðarins eða hann telur aukningu vísitölustiga byggingarkostnaðarins, — ég skal koma að þessu öllu saman nánar á eftir, — og sér, að þessi tala þessa stigafjölda er svo og svo mikið há. Svo tekur hann gamalt tímabil fyrir 5 árum eða 10 árum og segir: Þá jókst vísitalan um svo og svo miklu færri stig, þess vegna er verðbólguaukningin miklu meiri núna en hún var þá. Þetta er sama dæmið og ég var að tala um áðan og þess vegna álíka fráleitt. Það eina, sem auðvitað kemur til greina að gera í þessum efnum, vilji maður mynda sér óbrjálaða skoðun, er það að athuga hlutfallslega hækkun vísitölunnar eða hlutfallslega hækkun verðlagsins, sem vísitalan er mælikvarði á, á þessum tveimur tímabilum, sem verið er að bera saman. Annars kemur út úr þessu tóm botnleysa.

Það, sem leiddi hv. þm. út á þessar sorglegu villigötur, var tilraun hans til þess að sýna fram á það, að erfiðleikar landbúnaðarins nú ættu eingöngu rót sína að rekja til þess, að dýrtíð og verðbólga hefðu vaxið miklu meir á valdatíma núv. ríkisstj. en nokkurn tíma áður í sögu þjóðarinnar, að því er mér skildist. Hún hefði vaxið miklu örar og meira nú en áður, og þessa vísdómslegu niðurstöðu fékk hann með talningu á vísitölustigunum. Það er rétt, vísitalan hefur hækkað um fleiri stig nú en hún gerði fyrir 10 árum eða fyrir stríð. Það hefur engum manni dottið annað í hug en halda því fram. En satt að segja hefur bara engum öðrum en þessum hv. þm. dottið í hug að byggja nokkurn dóm á tölu stiganna, svo vitlaust er það.

En það, sem hv. þm. vildi segja með þessum barnalega og vitlausa útreikningi, það, sem hann vildi sagt hafa, á ég að segja, var það, að dýrtíðaraukningin hafi verið meiri undanfarin ár en hún var áður. Í ræðu minni í gær sýndi ég fram á það, gat ég talna um það, hvernig vísitala framfærslukostnaðar hefði hækkað síðan 1. jan. 1959, er Framsfl. fór úr stjórn, og til dagsins í dag. En vísitalan hefur hækkað síðan um 69%, hún hefur hækkað síðan fyrst á árinu 1959 um 69%, eða ef við tökum einfaldan meðaltalsreikning um hlutfallslega hækkun á ári, þetta eru tæp 7 ár, þá hefur hún hækkað um 10%, um tæp 10% síðan 1. jan. 1959. En ef við nú tökum áratuginn á undan, ef við tökum fyrsta tímabilið frá 1. jan. 1950 til 1. jan 1959, ár, er Framsfl. var í stjórn, öll árin, hækkaði vísitalan um 136% á 9 árum, en um 17%, ef maður reiknar einfalt meðaltal af prósentuhækkuninni yfir tímabilið. M.ö.o., hliðstæður útreikningur á hlutfallslegri hækkun vísitölunnar eða framfærslukostnaðarins sýnir, að undanfarin ár eftir að Framsókn fór úr valdastóli, hefur hún hækkað um tæplega 10%, en á 9 árunum á undan, þegar Framsókn var við völd, hækkaði hún að einföldu meðaltali á ári um 17%. Með þessu hrynur gersamlega öll röksemdafærsla hv. þm. fyrir því, að erfiðleikar landbúnaðarins nú séu alveg sérstaklega því að kenna, að vöxtur dýrtíðarinnar hafi verið miklu meiri nú en hann var áður. Hann er of mikill nú. Mér er það fullkomlega ljóst. Þetta er okkar höfuðvandamál. En hann var bara miklu, miklu meiri áður, meðan Framsókn réði miklu, meiru en hún ræður núna.

Nú er það háttur hv. þm., eins og raunar margra fleiri, að ef eitt atriði er hrakið hjá þeim, hlaupa þeir yfir í annað atriði. Þess vegna, — auðvitað getur þm. ekki mælt á móti þessu, þetta eru opinberar tölur og rétt reiknaðar, — þá hættir hann að tala um vísitölu framfærslukostnaðar og fer að tala um vísitölu byggingarkostnaðar. Þá er það hún, sem á að sýna fram á það, að dýrtíðaraukningin undanfarin ár hafi verið meiri en nokkurn tíma áður í sögu landsins eða frá því að slíkir útreikningar byrjuðu. Þetta er líka misskilningur, og þess vegna hef ég tekið saman hækkun vísitölu byggingarkostnaðar yfir alveg sömu tímabil. Það er ekki hægt að miða það við áramót, því að hún er ekki reiknuð út miðað við áramót, hún er reiknuð út 1. febr., júní og okt., svo að ég tek októbertölurnar. Það er sem næst sambærilegt. Ef athugað er, um hversu mikið vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað síðan í okt. 1958, en Framsókn fór úr stjórn um það leyti, þangað til í júní 1965, er heildarhækkunin 85,1 %. Þetta eru 6.7 ár, og ef maður reiknar einfalda meðaltalshækkun á ári, er það 12,8%, sem hún hefur hækkað síðan Framsókn fór úr valdastólnum. Ef við nú tökum sama tímabil á undan, hliðstætt tímabil á undan, meðan Framsókn var við stjórn, þ.e.a.s. tímabilíð okt. 1949 til okt. 1958, hefur hún hækkað um 146,3%. Þetta eru 9 ár, og með einföldum meðaltalsreikningi er hækkunin 16,2% á ári, meðan Framsókn sat í valdastóli og lét öll sín góðu áhrif og góðu áform koma í ljós og rætast. M.ö.o., 16,2% þegar hún sat við völd, 12,8% síðan hún fór frá völdum. Þessi röksemd er því algerlega hrunin um sjálfa sig líka. Það er alveg sama, hvort við tökum vísitölu framfærslukostnaðar eða vísitölu byggingarkostnaðar. Fleiri visítölur eru hér ekki til, eru ekki reiknaðar, þær eru ekki til. Það er alveg sama, hvora vísitöluna við tökum. Hlutfallsleg hækkun vísitölunnar er minni síðan í ársbyrjun 1959 og til dagsins í dag en hún hafði verið áður eða frá 1950 til þess dags, að Framsókn fór frá völdum. Allt, sem hv. þm. hefur sagt um þetta, er því fullkomlega út í bláinn og á ekki við nokkur minnstu rök að styðjast.