08.11.1965
Neðri deild: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Hannibal Valdimarsson [frh.]:

Herra forseti. Það gerir mér ekki svo mikið, þegar ég er að halda ræðu, þó að gripið sé fram í fyrir mér. Stundum er það nú bara til bóta, en hitt þykir mér jafnan miklu verra, þegar ræða mín heggst í sundur og á henni verður margra klukkustunda hlé eða daga eða vikna, og síðan ég var hér í ræðustól síðast, eru liðnir nokkrir dagar og þess vegna er fyrir mér farið að fyrnast yfir, hvað ég sagt hafði og hvað ég næst hugðist segja. Ég býst því við, að þetta verði dálítið til þess að lengja mína ræðu, en þó mun ég hafa það í huga, að það verði ekki ýkja mikið úr þessu umfram það, sem verið hefði, ef ég hefði haldið ræðu minni áfram.

Ég held, að ég hafi ætlað mér næst í ræðu minni að víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. viðskmrh. hafði lagt til þessara umr., og vil ég þó taka það strax fram, að ég ætlaði ekki að verða þátttakandi í talnaleikjum hans. Ég er svo fjarri því að vera neinn talnasérfræðingur, og eiginlega hrósa ég nú happi yfir því að vera það ekki.

Ég ætlaði sem sé hvorki að ræða við hæstv. ráðh. um það, hvort 136 deilt með 9 væru 17 eða eitthvað annað eða neitt af því, sem hann fjallaði um seinast í sínum talnafræðum. En þó vildi ég í upphafi víkja að ályktunum hans út frá tölum, eins og flokksblað hans, Alþýðublaðið, hefur eftir honum, en það var nokkru fyrr í þessum umr. Þá fjallaði hæstv. viðskmrh. um það, mér þykir verst, að hann er ekki við, svo að þetta verður baktal allt saman, — þá fjallaði hann um áætlunartölur, sem nú lægju fyrir um fjármunamyndun fyrir yfirstandandi ár, fjármunamyndun hjá bændum, og komst hann að þeirri niðurstöðu út frá þessum tölum, að fjármunamyndun þeirra væri eftir þessum áætlunartölum nokkru meiri en í fyrra eða 403 millj. Hjá fiskveiðum væru þetta 442.9 millj., í iðnaðinum 551 millj., vélar og tæki 158 millj., verzlanir, veitingahús og skrifstofuhús 2I5 millj. og íbúðarhús 1 milljarður og 52 millj., samgöngumannvirki 580.8 millj. og byggingar hins opinbera 320 millj.

Þessar áætlunartölur, eins og hæstv. ráðh. tók fram, eru sjálfsagt allar rétt tilfærðar. En ósköp finnst mér þetta veikur grundvöllur að byggja á, áætlunartölur, það finnst mér vera afsleppur og háll grundvöllur. En þó verður slysahættan öllu meiri á þessum grundvelli, þegar farið er að draga af honum ályktanir, og ég vil segja mjög hæpnar ályktanir. Út frá þessum tölum dregur hæstv. ráðh. þær ályktanir, að úr því að fjármunamyndun bænda í landbúnaðinum hafi verið svona mikil, eins og hann tilgreindi með áætlunartölunum, beri þessar tölur vitni um, að um mikinn ábata hafi verið að ræða hjá hændum á liðnu ári. Sem sé, hjá þeim hafi verið gott árferði. Ég skil það þannig, að með fjármunamyndunartölum hljóti hæstv. ráðh. að eiga við fjárfestinguna hjá bændum á liðnu ári. Viðskmrh. benti á, segir í flokksblaði hans, að arðsemi í landbúnaði sé út frá þessum tölum miklu minni en í fiskveiðum, en samt sé ekki ýkja mikill munur á fjármunamynduninni í þessum tveimur atvinnugreinum, og bendir hin mikla fjármunamyndun í landbúnaðinum til góðrar afkomu bænda, sagði ráðh.

Ég held, að hæstv. ráðh. geti ekki byggt á þessum tölum og myndað sér neina skoðun um það, hvernig hagur bænda standi út frá þeim. Bændur eru oft og tíðum tilneyddir að leggja út í fjárfestingar, ef þeir eiga yfirleitt að geta haldið atvinnuvegi sínum áfram, þótt hagur þeirra sé hvergi nærri góður. En e.t.v. er ekki hægt að ætlast til, að hæstv. viðskmrh. viti um þetta. Bændur eru öðrum stéttum miklu fremur bundnir við ákveðnar fjárfestingar, hvernig sem hag þeirra annars er komið. Ég held, að það verði sannast sagna, að þegar litið er á hag bænda, þá er þar um tvennt mjög ólíkt að ræða. Þeir bændur, sem hafa fyrir nokkuð löngu lokið stórframkvæmdum sínum í ræktun og annarri mannvirkjagerð á jörðum sínum en búa nú við hið háa verðlag landbúnaðarvara, þeirra hagur er góður og þeir geta sjálfsagt alveg án þess að vera tilneyddir ráðizt í miklar fjárfestingar. En hinir, sem eru nú með fangið fullt af ræktunarframkvæmdum og byggingarumstangi og komast ekki hjá því, eru menn í mörgum tilfellum, sem nánast eru í skuldafjötrum og geta sig þar ekki hrært og eiga bara um tvo kosti að velja, annaðhvort að gefast upp ellegar ráðast í allmiklar fjárfestingarframkvæmdir og kannske langt umfram getu. Þeirra hagur er áreiðanlega svo naumur, að hann má ekki naumari verá. Það er því ekki hægt að reikna út frá neinum áætlunartölum og gera sér þannig heildarmynd af hag bænda, hvernig hann standi. En það er nú svona. Þessi leikur hagfræðinga með tölur er sennilega einn aðalkvilli þessarar fræðigreinar. Ég vildi segja, að það væri kannske atvinnusjúkdómur hagfræðinga að leika sér með tölur og draga af þeim mjög hæpnar ályktanir og það er kannske ekkert betra en meðferð talnanna sjálf oft og tíðum. En það var einu sinni sagt fyrir löngu, og það var nú ekki hagfræðingur, sem það sagði, það var guðfræðingur, að auðvelt væri nú oft að ljúga og blekkja, en hvergi væri auðveldara að gera það en með tölum. Og þegar menn hafa sína hagfræðiþekkingu til aðstoðar, má vera, að þetta sé orðið enn þá auðveldari leikur en áður var. Ég held, að þetta sé atvinnusjúkdómur hagfræðinga, þessi sífellda, hæpna túlkun málstaðar með tölum og svo að draga út frá þeim hæpnar ályktanir, sem stundum verða í raun og veru í beinni mótsögn við staðreyndir.

Mér dettur t.d. í hug, ef hægt er að draga ályktanir um hag bænda almennt í sambandi við þessa tölu um fjárfestingu þeirra, er vafalaust líka hægt að draga ályktun af tölunni um fjárfestingu í veitingahúsum, skrifstofuhúsum og verzlunum, 215 millj., miklu minni en hjá bændunum. Ætli það sé þá rétt ályktun af því, að þeirra hagur sé enn miklu bágbornari, mjög bágborinn, úr því að þeir hafa ekki getað ráðizt í meiri fjárfestingar en þarna er tilgreint? Ég held, að það sé líka hæpið. Ég held, að út frá þessum tölum verði ekki dregnar réttar ályktanir af því, hvernig hagur þessara stétta standi. En nóg um það.

Það voru annars önnur atriði í ræðu hæstv. ráðh., eins og flokksblað hans skýrir frá hans ræðu, sem ég ætlaði þó sérstaklega að víkja að. Hæstv. ráðh. hafði haldið því fram, að hann hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum með eitt atriði í ræðu minni, sem sé það, að ég hefði haldið því fram, að bændur og ríkisvaldið ættu að semja sín á milli um verðlagningu landbúnaðarafurðanna án þess að neytendur kæmu þar nokkuð nálægt. Ég verð nú að segja, að það mátti nú eiginlega ekki minna vera en hæstv. ráðh. yrði fyrir vonbrigðum með eitt einasta atriði ræðu minnar, annars hefði hann ekki getað fótað sig á því að orða nein vonbrigði í sambandi við hana. En þessu hafði ég haldið fram, að það væri mér geðfelldasta leiðin í þessum afurðasölumálum bændanna, að þeir yrðu viðurkenndir sem beinir samningsaðilar við ríkisvaldið um þessi kjaramál sín. Vonbrigði hæstv. ráðh. að því er þetta snertir sýna mér þá það, að hann vill ekki ganga inn á það, að bændur fái óskoraðan samningsrétt um sin kjaramál. Þar í hljóta vonbrigði hans að liggja, enda áréttar hann það. Hann segir í framhaldi af þessu, að það sé skoðun og stefna Alþfl., að þessu samstarfi beri að halda áfram, enda er það ítrekað í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. frá því í haust. Þá veit maður það, hver er stefna Alþfl. í þessu máli. Alþfl. vill ekki, að bændur fái óskoraða samningsaðild um sín launamál. Í þessari yfirlýsingu sinni orðar hann það svo, að Alþfl. telji, að halda beri þessu samstarfi áfram. Nú er þetta samstarf, sem þarna er um talað og fleiri hafa verið að nefna þessu nafni, sams konar samstarf og þegar vinnuveitendasamtök og verkalýðssamtök leiða saman hesta sína í vinnudeilum. Það eru tveir aðilar, fulltrúar bænda annars vegar og fulltrúar neytenda hins vegar, hvorir sínu megin við samningaborð og eiga að túlka gagnstæðan málstað. Þetta heilir nú samstarf. Hingað til hafa þetta verið kölluð átök milli aðilanna á vinnumarkaðinum, kjarabarátta, vinnudeilur. En nú skal það endilega heita samstarf. Nú spyr ég hæstv. viðskmrh.: Í hverju liggur mismunurinn á þessu tvennu, þegar bændur og fulltrúar neytenda eiga að mæta hvorir sínu megin við samningaborðið og það á að heita samstarf, en þegar fulltrúar atvinnuveitenda og verkalýðssamtaka mætast hvorir sínu megin við samningaborð til þess að leysa ágreiningsatriði aðilanna á vinnumarkaðinum, skal það heita vinnudeilur og verkalýðsbarátta og annað þess konar, og það er það? Mér virðist bara, að það sé eins og ég held, að Páll gamli Ólafsson hafi sagt það: „Vakri-Skjóni hann skal heita, þó að meri það sé brún.“ Nú skal það bara heita samstarf, það, sem áður hefur heitið verkalýðsbarátta. Ég tek það fram enn þá einu sinni, að eitt at þeim meginatriðum, sem hér er um að ræða, er það, að A.S.Í. er mjög ógeðfellt að láta skipa sér með löggjöf sem gagnstæðum aðila móti bændástéttinni, alveg eins og þeir séu hrein andstæða móti hagsmunum verkamannanna, svo sem atvinnurekendur annars vegar og verkalýðssamtök hins vegar. Þetta er okkur ógeðfellt, og við höfum ekki getað kallað það samstarf. Við værum ekki settir sem samstarfsaðilar með þessari aðstöðu, heldur þvert á móti settir í spor þess, sem skal vera andstæðingur.

Ég hygg, að af því, sem ég nú hef sagt, virðist afstaða Alþfl. til þessara mála vera allt önnur en afstaða A.S.Í. En svo, þegar leið fram í ræðu hæstv. ráðh., lýsti hann því yfir, eftir því sem Alþýðublaðið segir, að löggjöfin um verðlagningu búvaranna væri gölluð í grundvallaratriðum og atburðirnir í haust ættu að geta haft það gott í för með sér að setja yrði ný lög og jafnframt að gera breytingar á mörgum grundvallaratriðum. Þannig virðist hæstv. ráðh. aftur vera orðinn þeirrar skoðunar, að það hafi verið gott, sjálfsagt og nauðsynlegt, að A.S.Í. sagði upp þátttöku í 6 manna n. og gaf þannig kost á að taka þessa meingölluðu löggjöf í grundvallaratriðum til endurskoðunar, og að því leyti erum við áreiðanlega sammála. En þetta þýðir, að við teljum, að gera þurfi grundvallarbreytingar á því gamla skipulagi, sem ríkt hefur, grundvallarbreytingar, og að nýja löggjöfin, sem e.t.v. fæst sett upp úr starfi þeirrar n., sem hæstv. landbrh. hyggst nú skipa, verði löggjöf, sem byggir í verulegum atriðum á nýjum grundvelli, öðrum grundvelli. Hins vegar sé ég í Alþýðublaðinu í dag því haldið fram, að sú, sem nú eigi að skipa, eigi að starfa á þeim gamla grundvelli, sem A.S.í. hefur tjáð sig ekki vilja una og sagði upp. Það stangast aftur á við afstöðu hæstv. ráðh., því að hann vill láta endurskoðunina breyta grundvallaratriðum hins gamla skipulags og væntir þess að sjá upp úr því nýja löggjöf á öðrum grundvelli. Hvað Alþfl. meinar af þessu tvennu, sem hér rekst á, skal ég láta ósagt.

Alþýðublaðið heldur því líka fram, að hæstv. viðskmrh. hafi sagt, að landbrh. hafi ekki átt um nema eina leið að ræða, eftir að kerfinu var hrundið, þ.e.a.s. að setja brbl., en ég þarf ekki að endurtaka það, ég hef margsinnis haldið því fram, að hæstv. ríkisstj. hafi átt opna leið til beinna samninga við bændastéttina eins og sakir stóðu, eftir að 6 manna n. var ekki lengur starfhæf, og ég tel, að þá leið hafi hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. átt að fara. En þegar hún ætlaði meira að segja að endurnýja hinn gamla grundvöll og fá til þess alla aðra aðila en A.S.Í., þá sem eflir stóðu í n., og var komin á fremsta hlunn með að setja löggjöfina, þá fór svo, að hvorki fulltrúi Sjómannafélágs Reykjavíkur né hinn 3. fulltrúi neytendanna fengust til þess að láta setja sig í það hlutverk. Og það varð að búa til nefnd algerlega skipaða öðrum aðilum, svo að það voru nú fleiri en fulltrúar A.S.Í., sem ekki vildu láta hafa sig sem pentudúk í málinu í þetta sinn.

Á hverju byggir hæstv. ráðh. það, að það sé óhagstætt launþegunum, að A.S.Í. eigi ekki fulltrúa í 6 manna n.? Við höfum þó ríkisstj., sem hefur lýst því yfir sem stefnu sinni, hátíðlega sem stefnu sinni, að hún ætli að berjast á móti verðbólgu og dýrtíð, og einn liðurinn í þeirri baráttu er auðvitað sá að láta ekki hagsmuni bænda hlunnfara alla neytendur kaupstaðanna og skrúfa þar með upp með óhóflegu afurðaverði verð á landbúnaðarafurðum. Nú spyr ég: Mega ekki launþegasamlök, þ. á m. A.S.Í., vera alveg örugg um það, að vel sé gætt hagsmuna hinna fjölmennu launastétta af þeirri ríkisstj., sem hefur lýst sig standa í baráttu á móti verðbólgu og dýrtíð? Ég hefði haldið það, að það kemur úr hörðustu átt, ef hæstv. stuðningsmenn ríkisstj. og ráðh. sjálfir segja, að það muni fljótt halla á neytendurna í landinu, ef launþegasamtökin eiga ekki sjálf beina aðila að þessum ákvörðunum í þessum málum. Ég hefði haldið, að þarna mætti treysta á ríkisstj., sem hefur lýst því yfir, að hún berjist á móti verðbólgu og dýrtið, og að hún sem ríkisstj. beri auðvitað fyrir brjósti engu síður hag launastéttanna í landinu en annarra stétta. En hún er einasti aðilinn, sem hefur alla þætti þessara mikilsverðu mála í höndum sér. Hún hefur oft og tíðum haft úrslitavaldið um verðlagninguna sjálfa. Hún og hún ein hefur ákvörðunarvaldið um, hvaða niðurgreiðslur skuli vera. Og hún og hún ein hefur ákvörðunarvaldið um útflutningsuppbætur, en þessir þrír meginþættir eru óaðskiljanlegir í verðlagspólitík landbúnaðarins, og það er hún ein, sem getur farið með umboð þess aðila, sem á að vera ábyrgur fyrir þessum málum öllum. Ég segi því: Engum er skyldara að fara með þessi mál sem beinn samningsaðili við bændur og bera ábyrgð á þeirri úrlausn, sem fæst í þessum málum, en ríkisstj. sjálfri. Geri hún vel við bændur í þessum málum, á hún að njóta þess. Halli hún á neytendur í þessum málum, á hún að gjalda þess. Finni hún þar hinn gullna meðalveg í þessum málum öllum sameiginlega, hefur hæstv. ríkisstj. tekizt vel, og þá á hún að hafa lof en ekki last af því. En þetta vill hæstv. ríkisstj. ekki. Þegar hún gat ekki lengur notað 6 manna n.-kerfið og fékk ekki heldur þá menn, sem eftir störfuðu þar fyrir hönd neytenda, til þess að verða aðilar að hinni nýju lausn, sem ríkisstj. vildi nú fá fram, skipaði hún 3 aðra menn til þess að vera þarna milliliður, svo að ábyrgðin lenti ekki á hæstv. ríkisstj. Þetta virðist hún telja sér nauðsynlegt. A.S.Í. baðst undan því og biðst undan því við óbreytta aðstöðu að vera þarna á milli bænda og ríkisvaldsins, sem hefur ákvörðunarvaldið.

Alþýðublaðið hermir einnig frá því, að hæstv. viðskmrh. hafi að lokum sagt í ræðu sinni, að það komi ekki til mála að endurnýja gamla kerfið. Og hann virðist í raun og veru hafa sannað, að stefna stjórnarinnar í landbúnaðarmálum, ekki bara í verðlagsmálunum, heldur að ýmsu öðru leyti, sé rammvitlaus. Og þar ber heldur á milli hans og hæstv. landbrh., það verð ég að segja. Það er, eins og hér hefur verið sagt, það er eins og það séu tveir landbrh. hjá hæstv. ríkisstj., og þeir hafi svona nokkurn veginn eins og mögulegt er gagnstæða stefnu.

Að lokum vil ég taka fram, að mér er ekki kunnugt um neina stefnubreytingu hjá miðstjórn A.S.Í, síðan afstaða var tekin til þess að afturkalla tilnefningu á fulltrúa A.S.Í. í 6 manna n. Af þessu leiðir vitanlega það, að miðstjórn A.S.Í. er ekki til viðræðu um það að taka þátt í nýrri n., sem aðeins hafi það hlutverk að endurnýja hið gamla kerfi. Ef það er meining hæstv. ríkisstj., hæstv. landbrh., með hinni fyrirhuguðu nefndarskipun, tek ég það skýrt fram, að þá er A.S.Í. ekki til þátttöku í slíku nefndarstarfi. En í bréfi hæstv. ráðh. segir, að rn. vilji óska þess, að A.S.Í. tilnefni nú mann af sinni hálfu til að taka sæti í n., er hafi það verkefni, að leita eftir samkomulagsgrundvelli milli framleiðenda og neytenda, sem afurðasölulöggjöf yrði byggð á. Ég skil þessi tilmæli þannig, að n. eigi að hafa frjálsræði til að rannsaka, hverjar leiðir kunni að vera hugsanlegar og mögulegar til þess að byggja upp nýtt kerfi, er verðlagsákvörðun íandbúnaðarafurðanna verði í framtíðinni byggð á. Og ef þessi skilningur minn er réttur, mun ég a.m.k. stuðla að því, að A.S.Í. skorist ekki undan að taka þátt í nefndarstarfi, sem þannig á að leita nýrra og réttlátari leiða til lausnar á þessum alvarlegu og vandasömu efnahagsmálum. Og ég mundi því segja eitthvað á þessa leið, að í trausti þess, að sá sé tilgangurinn með skipun þn. til að endurskoða lög um afurðaverð landbúnaðarins, að leitað verði allra hugsanlegra leiða til að koma á nýrri, réttlátari skipan á verðlagsmál landbúnaðarins en tryggt var með gamla kerfinu, mundi A.S.Í. vilja taka þátt í slíku nefndarstarfi.

En ég bæti því við, að A.S.Í. mun einnig telja það algera forsendu fyrir viðunandi starfsaðstöðu í væntanlegri n., að fullnægjandi hlutlaus rannsókn hafi farið fram á milliliðakostnaði þeim, sem nú á mjög mikinn hlut í háu verði á landbúnaðarafurðum til neytenda í landinu. Vitanlega getur svo farið, að sú rannsókn leiði í ljós, að þar verði ekki neinu um þokað til hagkvæmari áttar og við fáum ekki í gegnum það að minnka milliliðakostnaðinn neina lækkun á afurðaverðinu til neytenda eða hækkun á því til bænda, og þá er að taka því. En ég vil, að n. fái að horfast í augu við það, hvort svo er, og ef þarna er allt eins og bezt verður á kosið, þá fæst ekki leiðrétting gegnum það. En á sama hátt vildi ég, að n. fengi frjálsræði og aðstöðu til að kanna þessi mál öll og leita óbundið nýrra og hagkvæmari og réttlátari leiða, sem bæði bændur og neytendur geti unað við. Ég get auðvitað ekki á þessu stigi máls sagt um það, hvort miðstjórn A.S.Í. samþykkir að kjósa mann í þessa n. samkv. tilmælum hæstv. ráðh., því að málið hefur ekki verið afgreitt á miðstjórnarfundi. En út frá þessum forsendum, sem ég hef nú skýrt frá, mundi ég stuðla að því, að A. S. Í. tæki þátt í tilnefningu í hugsanlega nefnd til þess að leita betri úrræða en við áttum kost á samkv. gamla kerfinu.