08.11.1965
Neðri deild: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Í umr. í síðustu viku spurði ég hæstv. landbrh., hvernig á því stæði, að hann hefði sett ákvæði í brbl., að tekjur bænda skyldu miðaðar við ellilaun og örorkubætur og aðrar bótagreiðslur almannatrygginga. Ekkert svar er enn fengið við þessari spurningu, þrátt fyrir þessar löngu umr. Ég tel þetta mjög mikilsvert atriði í þessu máli, hvort þeirri jafnréttisaðstöðu hefur verið haldið í þágu bændanna, að þeir hafi hliðstæðar tekjur og aðrar vinnustéttir í landinu eða hvort á að afnema þessa 20 ára gömlu reglu. Ég held að það fari ekki hjá því, að þetta pennastrik í brbl. hafi sín áhrif á tekjur bænda í landinu á þessu verðlagsári, ekki sízt, þegar litið er á það, að tekjur þessara viðmiðunarstétta, verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, hækkuðu frá 1963–1964 úr 120 þús. kr. upp í 162 þús., eða,um tæp 30%, og horfurnar á þessu ári eru ekki lakari en þær hafa verið á árinu í fyrra. Einn hv. þm., hv. 5. þm. Norðurl. v. (BP), sem jafnframt er bóndi, lét þess þó getið, að hann gæti sætt sig við þetta verðlag. Mér hefur skilizt á hæstv. ráðh., að þarna sjái menn það, að bændurnir séu ánægðir. Ég vil þá benda á, að þessi hv. og virðulegi bóndi getur ekki talizt spegilmynd af bændastéttinni í landinu af þeirri einföldu ástæðu, að hann rekur stórbú sem stendur á gömlum merg. Hann er stór mjólkurframleiðandi, hann er fjáreigandi og útgerðarmaður, eins og Kiljan sagði, hann mun eiga tvö fiskiskip í gangi árið um kring, og hann hefur auk þess verið kaupfélagsstjóri á tímabilinu. Ég held, að þetta verði ekki talin spegilmynd af bændastéttinni í landinu. Hitt get ég vel skilið um jafnreikningsglöggan mann og þessi hv. þm. er, að hann sjái það í hendi sér, að hann græði ekki neitt sérstaklega mikið á að fá eitthvað hærra landbúnaðarverð í haust, af því að þá kemst hann í hærri skatta. En þessu er ekki til að dreifa um bændastéttina, því að það má segja, að allur þorri bænda kemst ekki í neinn tekjuskatt, af því að tekjurnar eru svo lágar. Nei, það er ekki hægt að taka slíkan úrvalsmann sem einhverja spegilmynd af heilli stétt.

Þá spurði ég hæstv. landbrh. einnig um það, hver væri stefna hæstv. ríkisstj. um þetta atriði, jafnréttisatriðið, þegar til þess kæmi að setja nýja löggjöf um afurðaverð eða verðskráningu landbúnaðarafurða síðar á þessu þingi. Vill hæstv. ríkisstj. fylgja þeirri reglu, sem verið hefur í 20 ár, að tekjur bænda verði sem hliðstæðastar tekjum annarra vinnustétta, eða á að fylgja því ákvæði, sem tekið er upp í þessum brbl., að það skuli miðað við bótagreiðslur almannatrygginga? Þessu svöruðu tveir hæstv. ráðh. Hæstv. landbrh. sagði, að það þyrfti ekkert að vera að spyrja um þetta, þetta vissu allir, þetta vissi öll þjóðin. Ég þyrfti heldur ekkert að vera að spyrja um þetta, ég ætti að vita þetta eins og aðrir. Stefna hæstv. ríkisstj. væri sú, að bændur nytu jafnréttis við aðrar stéttir um launakjör sín. Og honum þótti það hart, hæstv. ráðh., að ég skyldi þurfa að spyrja að þessu, minntist eitthvað á það, að ég væri líklega orðinn ókunnugur, af því að ég væri hættur búskap. Hvernig er þetta með sjálfa ráðh.? Eru þeir við búskap? Hefur nokkur þessara 7 ráðh. nokkurn tíma fengizt við búskap, nema ef það er hæstv. utanrrh. þarna í Krýsuvík? Ég man ekki eftir því að hafa heyrt þess getið. Já, hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri stefna þvert ofan í ákvæði brbl. En svo kemur hæstv. viðskmrh. upp í ræðustólinn á hæla hins og lýsir sinni stefnu. Hann fer líka að lýsa stefnu ríkisstj. og hafði raunar alveg eins mikinn rétt til þess eins og hinn. Hvernig var hún? Hann talaði mjög skýrt og ákveðið. Það er ekkert réttlæti í því, ekkert vit í því, að láta bændur hafa svipaðar tekjur og sjómenn, sem veiða kannske mikla síld, hafa svipaðar tekjur og iðnaðarmenn, sem vinna kannske í ákvæðisvinnu eða hafa svipaðar tekjur og verkamenn, sem fá kauphækkun vegna þess, að vinnutíminn er skráður fleiri stundir á viku núna en hann var áður. Nei, það kom ekki til greina. M.ö.o., önnur stefnan lá í austur og hin í vestur og báðar stefnurnar voru stefnur ríkisstj. Mér þykir nú trúlegast, að það fylgi svona 31/2 ráðh. hvorri stefnu fyrir sig. (Gripið fram í: Hver er sá hálfi?) Sá hálfi held ég að sé landbrh., því að hann setur það ákvæði í brbl., að það skuli fylgt bótagreiðslum almannatrygginga, en lýsir yfir jafnréttisstefnunni, þegar hann kemur hingað á Alþ., — ef hann er þá hálfur.

Annars var öll ræða hæstv. landbrh. og ræður hans undir svipuðum kringumstæðum að undanförnu með sama marki brenndar. Hann kemur fljótlega að því að tala um Framsókn og lýsir henni mjög rækilega frá sínu sjónarmiði, og ég held, að þessi lýsing hafi verið svona efnislega eitthvað á þessa leið þarna um daginn: Framsókn er alltaf landbúnaðinum til óþurftar og tjóns. Þegar Framsókn er í ríkisstj., eru tekjur bændanna lítilfjörlegar og afkoma þeirra erfið. Þá er afurðaverðið lágt og bændur fá ekki grundvallarverðið fyrir afurðir sínar. Ræktunin er frámunalega lítil og framlög ríkisins til ræktunar með sama hætti. Framfarirnar litlar og landbúnaðarstefna Framsóknar öll óviðunandi.

En svo urðu stjórnarskipti og það kom nýr landbrh. með nýja stefnu, sem heitir uppbyggingarstefnan í landbúnaðarmálum. Ég held, að hann hafi kallað hana það. Síðan hefur hagur bænda stórbatnað, árstekjur þeirra hafa stórhækkað. Þeir hafa fengið grundvallarverð fyrir afurðir sínar hvert einasta ár síðan, ræktunarstyrkirnir hafa hækkað og túnræktuninni í landinu alveg fleygt fram, komin upp í 7 þús. ha á ári. Og þessi ríkisstj. stefnir óðfluga að því, að rekinn verði blómlegur landbúnaður, án þess að hann þurfi nokkurn skapaðan hlut á útflutningsuppbótum að halda. Þannig hefur hún gefizt, uppbyggingarstefnan í landbúnaðarmálum. Það er eitthvað annað en hjá Framsókn. Mér finnst, að það vanti ekkert á þessa ræðu nema niðurlagið, eitthvað á þessa leið:

Ég er gull og gersemi,

gimsteinn elskuríkur.

Ég er djásn og dýrmæti,

drottni sjálfum líkur.

Já, hann er ekki útdauður á Íslandi hann Sölvi Helgason. Ég held, að þegar hæstv. ráðh. er að bera saman uppbyggingarstefnuna og stefnu framsóknarmanna í landbúnaðarmálum, þá sé öruggara að líta eitthvað á opinberar heimildir um það, hvað sé rétt í kenningunni.

Eins og menn vita, hækkuðu ræktunarstyrkir allt fram til ársins 1959 eftir ákveðinni vísitölu ár frá ári. Og svo kom nýi ráðh. og uppbyggingarstefnan, og það mun hafa verið eitt af fyrstu verkum hans, að hann stöðvaði þessa hækkun á ræktunarstyrkjunum, og þeir héldust óbreyttir í krónum á hverja einingu ræktunar fram til 1964. Það var uppbyggingarstefnan.

Um ræktunina sjálfa er það að segja, að hæstv. ráðh. taldi, að hún hefði stóraukizt eða jafnvel upp í 7 þús. ha á ári. Samkv. skýrslum Búnaðarfélags Íslands og Landnáms ríkisins hefur túnræktunin í landinu verið núna síðustu árin sem hér segir: 1957 3568 ha, 1958 3950 ha, 1959 4501 ha, en svo kemur uppbyggingarstefnan: 1960 3645 ha, 1961 3990 ha, 1962 3839 ha, 1963 4445 ha og 1964 6059 ha. Eins og menn heyra er það eitt ár, sem sker sig úr, það er árið í fyrra. Síðan eru það tvö ár, sem komast yfir 4000 ha. þ.e. árið 1959 fyrir uppbyggingarstefnuna og það er árið 1963. Öll hin árin eru svipuð. Það fer aldrei yfir 4000 ha. En hvaða ár hafa verið ræktaðir 7000 ha, er mér ókunnugt um.

Þá sagði hæstv. ráðh., að bændurnir hefðu ekki fengið grundvallarverð fyrir afurðir, þegar Framsókn hefði verið við völd, en síðan sagði hann, að eftir að uppbyggingarstefnan kom til sögunnar, hefðu bændur fengið þetta grundvallarverð hvert einasta ár. Eins og hv. þm. er kunnugt, er verðlagsár landbúnaðarafurðanna frá septembermánuði til septembermánaðar næsta ár, og tekjurnar,sem bændur fá samkv. þessari verðlagningu, koma inn þrjá síðustu mánuðina það ár, sem verðlagningin fer fram, og 9 mánuði næsta árs, en auðvitað misjafnlega eftir því, hvort er um sauðfjárbændur að ræða eða mjólkurframleiðendur. Haustið 1961 voru tekjur bóndans í verðlagningunni ákveðnar 86,142 kr., en haustið 1962 94,576 kr. Meðaltalið af þessum tveimur tölum er rétt rúmar 90 þús. kr. Ef bændurnir hafa fengið fullt grundvallarverð samkv. þessari verðlagningu, hefðu tekjur þeirra á árinu 1962 átt að vera í kringum 90 þús. kr. Hverjar urðu þær? Hagstofan hefur birt skýrslur um tekjur manna í einstökum stéttum og atvinnugreinum, og Hagstofan segir, að tekjur bænda árið 1962 hafi ekki orðið 90 þús. kr., heldur 75 þús. kr., og þeir eru langsamlega lægstir allra stétta í landinu. Hvernig má þetta vera, ef þeir hafa fengið fullt grundvallarverð fyrir afurðir sínar?

Eins og ég nefndi áðan, eru bændum ákveðnar tekjur haustið 1962 94,576 kr., en haustið 1963 119,121 kr. Meðaltalið af þessu er tæp 107 þús. kr. Ef bændur hafa fengið fullt grundvallarverð á þessu ári samkv. þessari verðlagningu, hefðu tekjur þeirra á árinu 1963 átt að vera eitthvað nálægt 107 þús. kr. Hverjar urðu þær? Þær urðu 90 þús., segir Hagstofan. Enn eru bændur lægstir allra stétta í landinu og enn þá tiltölulega lægri en árið áður, tiltölulega lægri.

Þessar skýrslur Hagstofunnar um launatekjur manna í landinu eru fróðlegar. Því miður hafa þær ekki komið út nema fyrir árin 1962 og 1963. Samkv. þeim voru launatekjur manna í vissum atvinnugreinum árið 1962 sem hér segir: Fiskvinnsla og störf í landi við fiskveiðar 94 þús., annar iðnaður 103 þús., byggingar, viðgerðir o. fl. 96 þús., verzlun, olíufélög o.fl. 109 þús., flutningastarfsemi 107 þús., ýmis þjónusta í 10 þús., varnarliðið, verktakar og þess háttar 122 þús., búrekstur, bændurnir, 75 þús. Á einum stað í þessari skýrslu er greint frá því, að ræstingar- og hreingerningakonur og menn og gluggahreinsunarmenn hafi haft 100 þús., en bændurnir 75 þús.

Skýrslan fyrir 1963 er þannig: Fiskvinnsla og störf í landi við fiskveiðar 114 þús., annar iðnaður 125 þús., byggingar, viðgerðir o.fl. 120 þús., verzlun, olíufélög o.fl. 134 þús., flutningastarfsemi 131 þús., ýmis þjónusta 145 þús., varnarliðið, verktakar og þess háttar 158 þús.,búrekstur 90 þús., og það ár höfðu ræstingarkonur og hreingerningarkonur og menn og gluggahreinsunarmenn 116 þús. kr. í árslaun, en bændurnir 90 þús.

Ég held, að ég láti þetta duga sem sýnishorn af því, hvernig hún er kenningin um uppbyggingarstefnuna í landbúnaðarmálum.

Ég ætla, að það hafi verið á fimmtudaginn var, að hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) gerði hér að umtalsefni verðbólguna í landinu og birti tölur yfir það, hverjar hækkanir hefðu orðið á byggingarkostnaði á 10 ára tímabili. Hann sýndi fram á, hvað vísitala byggingarkostnaðar hefði hækkað og tók þær tölur auðvitað upp úr skýrslum Hagstofunnar, en þær sýndu, að hækkun byggingarkostnaðar var í raun og veru margföld á síðustu árum miðað við það, sem hún hafði verið áður en viðreisnartímabilið hófst. Þessu mótmælti hæstv. viðskmrh. mjög harðlega. Hann taldi hv. þm. fara hér með eintómar vitleysur og blekkingar, því að það mætti ekki reikna verðhækkanir svona, að taka heilt 10 ára tímabil, það yrði að reikna verðhækkanir og verðbólgu bara eitt ár í senn í prósentum miðað við verðbólguna, sem orðin var árið áður, allt annað væri bara vitlaust. En það var sá galli á þessum málflutningi hæstv. ráðh., að hann fór að tala um allt annað en hv. þm. gerði. Hv. þm. talaði um 10 ára hækkun á byggingarkostnaði í landinu, en hæstv. ráðh. talaði um eins árs hækkun í prósentum. Þegar ég heyrði þennan málflutning, datt mér í hug sagan, sem ég heyrði fyrir 20–30 árum um tvo menn, sem hittust á götu hér í Reykjavík. Þeir fóru að tala um daginn og veginn, og segir þá annar maðurinn: Hvor heldur þú, að sé gáfaðri maður, hann Árni Pálsson eða Guðmundur Finnbogason? Þá svaraði hinn: Sigurður Nordal.

Það er gamalkunnugt, að nemendur, sem ganga undir próf, bregða þeirri brellu fyrir sig, þegar þeir standa á gati, eins og kallað er, og geta ekki svarað, að fara þá að tala um eitthvað annað og tala og tala, jafnvel alveg flaumósa til þess að dreifa athygli prófdómenda frá því, hvernig þeir standa sig. Og þetta er gert í þeim tilgangi að fá þó svolítið betri einkunn en ella. Yfirleitt hefur þetta aldrei borið nokkurn árangur. Prófdómendur sjá alltaf í gegnum svona brellur og gefa einkunnir eins og nemendurnir eiga réttilega að fá. En þar sem hæstv. ríkisstj. mun vera heldur ógeðfellt, að það sé verið að benda á, hvað vísitölur hafa hækkað núna síðustu árin, vísitala byggingarkostnaðar og vísitala í framfærslukostnaði og vísitölur vöru og þjónustu, þá get ég svo sem gert hæstv. viðskmrh. það til geðs að tala sem allra minnst um vísitölur eða prósentureikning. Það lítur út fyrir, að svoleiðis reikningur sé eiginlega bannaður í hagfræðinni, þó að verið sé að tala um heilt tímabil, 10 ára tímabil eða 15 ára tímabil.

Mér finnst, að það sé nú saklaust að tala í krónum. Það er þó tungumál, sem allir eiga að skilja, enda eru nú vísitölurnar ekkert annað en spegilmynd af krónuupphæðum. En við skulum bara tala í krónum. Hvað hefur 360 rúmm. íbúð hækkað í verði s.l. 10 ár? Hún kostaði í okt. 1955 335 þús. kr. Hún kostar í okt. 1965 892 þús. kr. Hún hefur hækkað á þessu 10 ára tímabili um 557 þús. kr. Fyrstu 4 árin, frá okt. 1955 til okt. 1959, hækkaði þessi íbúð um 107 þús. kr. alls, eða um 26,7 þús. kr. á ári til jafnaðar. En á sex árum frá 1. okt. 1959 til 1. okt. 1965 hefur hún hækkað um 450 þús. kr. eða til jafnaðar um 75 þús. kr. á ári. Og þrjú síðustu árin hefur þessi íbúð hækkað í verði um 289 þús., eða 9 þús. kr. meira en allt lánið, sem menn fá frá húsnæðismálastjórn. Þessi þrjú ár er þá verðhækkun á slíkri íbúð að jafnaði 96 þús. kr. á ári. Og þetta heitir á máli ríkisstj., að stórlega hafi dregið úr verðbólgunni, stórlega hafi dregið úr henni.

Ég hef ekki nefnt hér vísitölur, bara krónur. Fyrir 10 árum, þ.e. í okt. 1955, voru ársútgjöld vísitölufjölskyldu samkv. hagskýrslum 56.300 kr., í okt. 1965 eru þessi útgjöld, ársútgjöld vísitölufjölskyldunnar, orðin 116.880 kr. Verðhækkunin á þessum lífsnauðsynjum manna, sem þarna eru mældar, hefur þá orðið hjá meðalfjölskyldu 60.540 kr., 60.540 kr. fjögur fyrstu árin, frá okt. 1955 til okt. 1959 hækkuðu þessi útgjöld um 10.050 kr., eða mjög nálægt 2.500 kr. á ári., en 6 árin seinni, frá okt. 1959 til okt. 1965, er hækkunin 50.540 kr., eða um 8.400 kr. á ári að meðaltali. Og þrjú síðustu árin tekur nú í hnúkana, alveg eins og um byggingarkostnaðinn. Þá hækkuðu þessi útgjöld fjölskyldunnar um 34.500 kr., eða sem svarar 11.500 á ári, þegar það voru 2.500 kr. fyrir 1959. Þetta heitir á máli ríkisstj. stórlega minnkuð verðbólga í landinu.

Það er nú samt ekki öll sagan sögð með þessum framfærslukostnaði, þar kemur fleira inn í, svo að í raun og veru hafa útgjöldin til framfærslu aukizt miklu meira en þetta. Í fyrsta lagi breytti ríkisstj. útreikningi á framfærsluvísitölunni, tók inn skatta og fjölskyldubætur og þess háttar, og húsnæðiskostnaðurinn er nú samkv. þessum reikningi talinn vera rúmar 1000 kr. á mánuði. Það er ekki dýrt að búa í húsum núna í Reykjavík, 1000 kr. á mánuði. Það skiptir engu máli, að fólk þurfi að borga 4–5 þús. á mánuði í húsnæðiskostnað. Það skal ekki reikna meira en þetta. Ef þessar leiðréttingar kæmu til greina, mundu tölurnar hækka.

Ég sá í gær í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins pistil einn með yfirskriftinni: „Stórlega dregið úr verðbólguvexti“ — stórlega dregið úr verðbólguvexti. Þar segir m.a. orðrétt:

„Ekki tjáir að bera saman fjölda vísitölustiga,því að gildi þeirra minnkar, eftir því sem fjöldinn eykst.“

M.ö.o. þegar verðbólgan vex afar hratt, þegar vísitölustigunum fjölgar mjög mikið, er hvert stig orðið svo óttalega lítið, og sennilegt, að það geti endað á því, að vísitölustigið þýði ekki neitt.(Gripið fram í.) Þetta er kenningin, og hún er alveg í samræmi við það, sem hæstv. viðskmrh. var að segja síðast. Nei, það átti þá ekki að gera svo mikið til um þessa verðbólgu, fyrst hann er svona, vísitölustiginn, stigin minnka alltaf í gildi, eftir því sem þeim fjölgar, svo að þetta á þá ekki að gera svo mikið til. Þetta er líkt og um centimetra. Hann er svona langur á 1. metranum, en á 10. metranum er hann orðinn miklu styttri, og á 20. metranum er hann orðinn bara svolítill spotti, og svo á 30. metranum er hann sennilega úr sögunni. Þegar mæðiveikin brauzt út hér í landinu og lagði undir sig hvert byggðarlagið á fætur öðru, þótti flestum mikil vá fyrir dyrum. En samkv. þessari kenningu lítur svo út,að það hafi ekki verið svo alvarlegt, því að gildi hvers byggðarlags minnkaði eftir því, sem þeim fjölgaði. Ef það fer nú að verða eitthvert geysilegt mannfall þarna í Viet-Nam, er það ekki svo afskaplega alvarlegt, því að gildi hvers manns, sem fellur, minnkar eftir því sem þeim fjölgar.

Hæstv. ríkisstj. hefur lagt sig mjög fram um það að sýna fram á, hvað verðbólgan hafi verið miklu, miklu meiri á tímum vinstri stjórnarinnar en nú hjá viðreisnarstjórninni. Og ég held, að enginn hæstv. ráðh. láti sitt eftir liggja í því að sýna fram á þetta. Samt held ég, að enginn hafi gert það eins oft og hæstv. viðskmrh., því að hann hefur nærri því veitzt að þeim manni, sem fór með viðskiptamálin í vinstri stjórninni, og talið það alveg hroðalegt áfall, sem þá varð. Það er þá ekki úr vegi að drepa aðeins á opinberar tölur um það, hvað vinstri stjórnin hafi nú verið miklu verri en þessi viðreisnarstjórn á jafnlöngu tímabili. Vinstri stjórnin kom til valda í júlí 1956 og fór frá völdum í desember 1958 og var því 29 mánuði við völd. Þegar hún kom til valda í júlí 1956, var vísitala framfærslukostnaðar, — ég bið nú hæstv. ráðh. að fyrirgefa, að ég fer að tala um vísitölu, — 185 stig, en þegar hún fór frá völdum, var hún 220 stig, hafði því hækkað um 35 stig á þessum 29 mánuðum. Og framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar hafði hækkað á þessum 29 mánuðum úr 60.500 kr. í 71.900 kr., eða hækkað alls um 11.400 kr. Ef við tökum svo nákvæmlega jafnlangt tímabil hjá núv. hæstv. ríkisstj., 29 mánuði, þ.e. frá maímánuði 1963 til október 1965, lítur þetta þannig út: Í maí 1963 er vísitala framfærslukostnaðar, þ.e.a.s. sama vísitalan og áður, 264 stig, en núna í október 358. Hún hefur þá hækkað um 94 stig á jafnmörgum mánuðum og hún hækkaði um 35 stig hjá vinstri stjórninni, hvort sem þau hafa nú misst gildi sitt eða ekki, ég veit það ekki. Ársútgjöld vísitölufjölskyldunnar í maí 1963, fyrir 29 mánuðum, voru 86.500 kr., eða mjög nálægt því, en eru núna um 116.900 kr. Útgjöld fjölskyldunnar hafa þá vaxið á 29 mánaða tímabili hjá vinstri stjórninni um 11.400 kr., hjá viðreisnarstjórninni um 30.400 kr. Enn ber allt að sama brunni, stórlækkandi verðbólga í landinu samkv. kenningunni.

Að öllu þessu athuguðu verð ég að segja það, að það bagar þá ekki samvizkan mennina, sem snúa þannig við staðreyndum og reyna að binda fyrir augu almennings í landinu, svo að hann sjái ekki hætturnar, sem fram undan eru af völdum verðbólgunnar. Það mun náttúrlega siðar koma í ljós, hvaða árangur þetta ber hjá þeim, þessi málflutningur. En ólíklegt er, að þjóðin sé svo heillum horfin, að hún sjái ekki nokkurn veginn, hvað er rétt og hvað er ekki rétt í þessum málum.