08.11.1965
Neðri deild: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Allmiklar umr. hafa þegar orðið í hv. þd. um frv., sem hér liggur fyrir, og ekki eingöngu um efni frv., heldur einnig um fleira, er varðar landbúnaðinn. Upptökin að því átti hæstv. landbrh:, er þegar í upphafi umr. fór yfir miklu stærra svið en það, sem frv. nær yfir. Og ýmislegt hefur komið fram í málflutningi hans, sem ástæða er til að gera aths. við. Í ræðu sinni 2. þ.m. sagði hæstv. landbrh. m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Það var ekki fyrr en 1960, sem sú stefna var mörkuð í íslenzkum landbúnaðarmálum, að bændurnir skyldu hafa sama rétt og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Áður höfðu bændurnir verið látnir bera þann halla, sem af útfluttum landbúnaðarvörum leiddi“.

Þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að bændum hafi fyrst árið 1960 verið ákveðinn sami réttur og öðrum. Í 4. gr. l. nr. 42 frá 14. apríl 1943 segir svo:

„Skipa skal 6 manna n., er finni grundvöll fyrir vísitölu framleiðslukostnaðar landbúnaðarvara, er fara skal eftir við ákvörðun verðs landbúnaðarvara, og hlutfall milli verðlags landbúnaðarvara og kaupgjalds stéttarfélaga, er miðist við það, að heildartekjur þeirra er vinna að landbúnaði, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Skal í því sambandi tekið tillit til þess verðs, sem fæst fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir.“

Og í 4. gr. l. nr. 94 frá 1947, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl., segir svo:

„Söluverð landbúnaðarvara á innlendum markaði skal miðast við það, að heildartekjur þeirra, er landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta.“

Það er þannig ekki rétt, sem hæstv. ráðh. heldur nú fram, að það hafi ekki verið fyrr en 1960, sem sú stefna var mörkuð, að bændurnir skyldu hafa sama rétt og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Í þeirri ræðu, er ég hér vitnaði til, segir hæstv. ráðh. enn fremur, að fyrir 1960 hafi bændur verið látnir bera þann halla, sem varð á útfluttum landbúnaðarvörum, og áður í þessum umr., þann 28. okt., þegar hæstv. ráðh. talaði um útflutningsuppbæturnar, sagði hann m.a.:

„Útflutningstryggingin hefur gert fært að greiða bændum fullt 6 manna n. verð, sem ekki tókst áður, meðan bændur báru hallann af því, sem út var flutt.“

Það er ekki rétt hjá hæstv. landbrh., að bændur hafi átt að bera hallann af því, sem út var flutt, fyrir daga núv. ríkisstj. Árið 1956 voru sett lög um Útflutningssjóð. Upphaf 13. gr. í þeim l. er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Greiða skal Framleiðsluráði landbúnaðarins uppbætur á fob-verð útfluttra landbúnaðarafurða, sem séu sambærilegar við beztu kjör, sem sjávarútvegurinn fær, það eru heildaruppbætur bátaafurðanna af þorskveiðum.“

Og árið áður, 1955, fékk landbúnaðurinn útflutningsuppbætur úr framleiðslusjóði. Ef þetta nægði ekki, hafði Framleiðsluráðið rétt til að hækka verðið innanlands til að jafna þann halla á útflutningi. Við verðlagningu kjötsins haustið 1958 leit svo út, sem útflutningsuppbæturnar væru ekki fullnægjandi, og var þá bætt ofan á verðið innanlands 85 aurum á kg til að mæta því, sem vantaði á. Árið áður, verðlagsárið 1957–1958, höfðu bændur fengið verðlagsgrundvallarverðið fullkomlega fyrir afurðirnar. Þetta er samkv. frásögn í Árbók landbúnaðarins. Fulltrúar neytenda í verðlagsnefnd kærðu Framleiðsluráðið fyrir þessa hækkun á innanlandsverðinu til að mæta halla af útflutningnum. Úr því varð dómstólamál, sem Framleiðsluráðið vann, bæði fyrir undirrétti og Hæstarétti. Á Alþ., er hófst haustið 1959, voru gerðar breytingar á Framleiðsluráðsl. Felld var úr I. heimildin til að bæta ofan á innanlandsverðið þeim halla, er verða kynni af útflutningi búvaranna. Í staðinn voru lögákveðnar takmarkaðar útflutningsuppbætur. Landbrh. hæstv. lét þess að engu getið í ræðum sínum um þetta mál, að Framleiðsluráðið hafði áður þennan lagalega rétt til að jafna hallann af útflutningnum með hækkun á innanlandsverði. Eins og áðan sagði, eru útflutningsuppbæturnar samkv. núgildandi l. takmarkaðar. Þær geta ekki farið yfir 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, og haldi dýrtíðin og verðbólgan áfram að vaxa með sama ógnarhraða og síðustu missirin, vofir sú hætta yfir bændum, að þessi útflutningstrygging reynist innan skamms algerlega ófullnægjandi.

Í sambandi við þetta mál hefur nokkuð verið rætt um dýrtíðarvöxtinn á liðnum árum. Í ágústhefti Hagtíðinda á þessu ári birtir Hagstofan yfirlit um breytingar á vísitölu framfærslukostnaðar, allt frá því að útreikningur hennar hófst. Þar er m.a. skýrsla, sem sýnir meðalvísitölur áranna 1950–1964 að báðum meðtöldum, miðað við vísitöluna 100 1. marz 1950, og vísitölurnar fyrir árin 1959–1964 umreiknaðar í samræmi við það. Þessi skýrsla Hagstofunnar sýnir, að aldrei á þessu 15 ára tímabili hefur vísitalan hækkað nándar nærri eins mikið og árið 1964. Þá hækkaði hún um 52.9 stig. Næstmest var hækkunin árið áður, 1963. Eins og áður segir, sýnir hagstofuskýrslan meðalvísitölur áranna, ja, mér skildist á síðustu ræðu hæstv. viðskmrh., að hann teldi þetta barnalegar aðferðir, sem Hagstofan hefur notað frá fyrstu tíð við þennan útreikning, Hæstv. viðskmrh. hefur verið að burðast við að reikna út hlutfallslega hækkun vísitölunnar á liðnum árum, en dýrtíðarvísitalan hefur alla tíð verið reiknuð út í stigum. Á þann hátt sýnir Hagstofan breytingar á framfærsluvísitölunni, og auðvitað gefa hennar skýrslur, þannig reiknaðar réttasta mynd af breytingum á framfærslukostnaðinum. En jafnvel hlutfallstöluútreikningur, sem viðskmrh. vili nú nota, sýnir langtum meiri hækkun framfærslukostnaðar 1964 en nokkurt annað ár síðan 1951.

Hæstv. viðskmrh. hefur mjög látið að sér kveða, þegar rætt hefur verið um landbúnaðarmál að undanförnu. Hann heldur því fram á samkomum, þar sem hann telur, að slík kenning falli í góðan jarðveg, að aðalvandinn í efnahagsmálunum sé greiðsla útflutningsuppbóta á landbúnaðarvörur. En hvernig eru þessar uppbætur til komnar? Þær eru byggðar á l., sem núv. hæstv. ríkisstj. og þ. á m. viðskmrh. beitti sér fyrir, að sett voru strax eftir að stjórnin kom til valda. Þá var í staðinn tekinn af bændum sá lagalegi réttur, sem þeir áður höfðu til að bæta sér upp tap á útflutningi með hækkun á búvöruverðinu innanlands. Þannig var það sjálfur viðskmrh., sem ásamt öðrum í stjórnarflokkunum kom útflutningsuppbótunum á og hefur verið stuðningsmaður þeirra frá upphafi.

Í fjárlfrv. fyrir 1966, sem nú liggur fyrir Alþ., er sérstök fjárhæð ætluð til greiðslu á uppbótunum, en fjárlfrv. er stjfrv. borið fram af öllum ráðh., þ. á m. af hæstv. viðskmrh. og öðrum ráðh. Alþfl. Og þó að upphæðin, sem ætluð er til greiðslu á útflutningsuppbótum, væri langtum hærri en nú er, mundu ráðh. Alþfl. áreiðanlega sitja sem fastast í ríkisstj. og halda áfram að láta ríkið borga uppbæturnar, og Alþfl. á þingi mundi eftir sem áður styðja ríkisstj. af öllum lífsog sálarkröftum. En hvernig stendur þá á skrafi hæstv. viðskmrh. og sumra flokksbræðra hans um útflutningsuppbæturnar? Það er aðeins tilraun af þeirra hálfu til að villa um fyrir fólki, reyna að fá þá menn, sem telja útflutningsuppbætur varhugaverðar, til að trúa því, að Alþfl. sé á móti þeim, þó að saga málsins vitni um allt annað. Sú blekkingariðja þeirra er fyrirtæki, sem hlýtur að misheppnast.

Fyrir allmörgum árum hafði Stéttarsamband bænda starfandi nefnd til að athuga verðlagningu á búvörunum, og komst hún að þeirri niðurstöðu, að verð á kindakjöti væri of lágt í samanburði við mjólkurverðið. Upp úr 1960 var farið að reyna að fá millifærslu við verðlagninguna, þannig að hækka nokkuð kjötverðið, en lækka mjólkurverðið í staðinn. En um þetta náðist ekki samkomulag til að byrja með. Fulltrúar neytenda í verðlagsnefnd stóðu á móti þessari millifærslu. Það var ekki fyrr en síðar, sem samkomulag náðist um að hækka kjötverðið nokkuð, en lækka mjólkurverðið í staðinn. Þessi tregða neytendafulltrúanna í verðlagsnefnd að fallast á tilfærslu á afurðaverðinu hefur átt sinn þátt í því, að mjólkurframleiðslan hefur aukizt og um leið hafa útflutningsuppbæturnar hækkað, þar sem útflutningsverð á mjólkurvörum er óhagstæðara en á sauðfjárafurðum.

Hv. 5. þm. Vestf. (HV) talar um, að rækileg rannsókn þurfi að fara fram á starfsemi þeirra aðila, sem annast vinnslu og sölu á landbúnaðarvörum. En hverjir hafa þessa starfsemi? Öll mjólkurbúin eru rekin af samvinnufélögum bændanna, a.m.k. 90% af sauðfjárafurðum landsmanna eru til meðferðar og sölu hjá samvinnufélögunum. Þannig hafa samvinnufélög framleiðenda vinnslu og sölu afurðanna að langmestu leyti í sínum höndum. Aðeins örlitið brot er hjá einkafyrirtækjum. Þessi starfsemi samvinnufélaganna er öll rekin í umboði bændanna. Það er hagsmunamál félagsmannanna og félaganna, að kostnaður við vinnslu og sölu afurðanna sé sem minnstur, því að þeim mun meira fá félagsmenn í sinn hlut fyrir framleiðsluna. Af þessu leiðir, að viðleitni samvinnufélaganna beinist að því að veita nauðsynlega þjónustu í sambandi við meðferð vörunnar fyrir svo lágt gjald sem unnt er, en ekki að græða á starfseminni. Öll er þessi þjónusta samvinnufélaganna rekin fyrir opnum tjöldum, þannig að menn geta fylgzt með því, hve mikill kostnaður leggst á vörurnar.

Í Árbók landbúnaðarins, sem Framleiðsluráðið gefur út prentaða, eru birtar skýrslur ár hvert um magn afurðanna, verðlagningu þeirra og útborgunarverð til framleiðenda. Einnig er þar skýrt frá ákvörðun 6 manna n. um kostnaðarliði, sem reiknaðir eru við verðlagningu á vörunum. Í árbókinni 1965 er t.d. sagt frá samkomulagi í 6 manna n. um þann slátur- og heildsölukostnað, er leggja skyldi á kjötverðið haustið 1964, og þar er birt sundurliðun Framleiðsluráðs á kostnaðinum í 9 liði. Að sjálfsögðu hefur n. framleiðenda og neytenda ákveðið kostnaðarálagið með hliðsjón af fengnum upplýsingum um þá hluti. Smásöluálagning á landbúnaðarvörur er einnig ákveðin af 6 manna n.

Í skýrslum árbókarinnar kemur fram, að útborgunarverð til bænda fyrir afurðirnar er nokkuð misjafnt hjá þeim fyrirtækjum um land allt, sem taka að sér að annast vinnslu og sölu þeirra. Það kemur til af því, að kostnaðurinn er ekki alls staðar sá sami. Sum fyrirtækin geta borgað lítið eitt fram yfir grundvallarverðið, sem svo er nefnt, þegar bezt gengur, en önnur ná ekki því verði. Þar sem skýrslur Framleiðsluráðs um þessi efni eru gefnar út á prenti, geta allir, sem þess óska, kynnt sér þær. Og í þessum umr. hafa komið fram glöggar upplýsingar um kostnað við mjólkina hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík.

En í sambandi við þetta tal um rannsókn vil ég leyfa mér að benda á, að meiri þörf væri fyrir rannsókn á ýmsum öðrum sviðum, þar sem jafngóðar upplýsingar liggja ekki fyrir og frá afurðasölufélögum bændanna. Rannsóknarmenn hins opinbera, ef skipaðir væru, mættu t.d. gjarnan byrja á því að rannsaka og sundurliða kostnað við byggingu húsa og bera saman við söluverð þeirra. Útgjöld vegna húsnæðis eru nú fjölda manna langtum þungbærari en greiðslur fyrir matvörur til heimilanna, þó að þær séu orðnar dýrar. Það væri fróðlegt að fá sundurliðaðar skýrslur fyrir húsaverðið jafngóðar og þær, sem þegar liggja fyrir um kostnað við landbúnaðarvörurnar.

Ríkisstj. hælir sér oft af því að hafa gefið verzlunina frjálsa. Meira er það í orði en á borði. Víst eru hér mikil höft á viðskiptum. T.d. er vöruútflutningur heftur, og svo heldur ríkisstj. uppi verðlagseftirliti, sjálfsagt með ærnum kostnaði, en að margra dómi með vafasömum árangri. En ég minnist ekki að hafa heyrt þess getið, að verðlagseftirlit ríkisstj. hefði nokkur afskipti af álagningunni og verðlagningunni hjá þeim mönnum, sem byggja fjölda íbúða til að selja húsnæðislausu fólki, og ekki munu þeir prenta skýrslur um sína starfsemi, eins og Framleiðsluráð gerir um rekstur afurðasölufélaga bændanna. Ekki hef ég heldur heyrt hv. 5. þm. Vestf. minnast á, að nokkur ástæða væri til að skipa rannsóknarnefnd til að athuga störf húsbygginga- og húsasölumannanna. Hann telur e.t.v. enga ástæðu til að stefna þeim fyrir rannsóknarrétt, þó að hann telji þá aðferð rétta, þegar samvinnufélög bænda eiga í hlut.

Talið er, að brbl. þau, sem hér er leitað staðfestingar á, hafi verið gefin út vegna þess, að meiri hluti A.S.L-stjórnar ákvað að taka fulltrúa sinn úr 6 manna n. En hvers vegna gerði A.S.Í. þetta? Reynt hefur verið að færa fram ástæður fyrir þessu, en ég hygg, að aðalástæðan hafi ekki enn verið nefnd. Mér kemur í hug, að brotthlaup fulltrúa A.S.Í. úr verðlagsnefndinni sé þáttur í viðureign tveggja stjórnmálaflokka, Alþb. og Alþfl. Alþb. hafi séð þann leik á borði að losa sig við ábyrgð á ákvörðun afurðaverðsins og koma henni yfir á Alþfl. sem ríkisstj.-flokk. Og þetta gerði Alþb. með því að fá þá flokksbræður sína, er skipa meiri hl. í stjórn A.S.Í., til að draga fulltrúa sinn úr 6 manna n. og gera hana með því óstarfhæfa. Ekki verður sagt, að þessi leikur sé sérstaklega fallegur. Hann minnir helzt á úrslitakeppni á Íslandsmóti í knattspyrnu.

Með þeim brbl., sem hér liggja fyrir, eru bændur sviptir samningsrétti um sín kjör. Slík aðför ríkisstj. gegn bændastéttinni er óverjandi. Í sambandi við þetta hneyksli minnast menn þess, að svipað gerðist fyrir 20 árum. Þá var hér á landi ríkisstj. þriggja flokka, Sjálfstfl., Alþfl. og Sameiningarflokks alþýðu-Sósíalistaflokksins. Sú ríkisstj. lét setja lög um Búnaðarráð. Með þeim l. voru bændum skipaðir fjárhaldsmenn af því opinbera, eins og tíðkast, þegar ómyndugir unglingar eiga í hlut. Það fyrirkomulag varð ekki langlífara en þriggja flokka stjórnin. Þegar hún sprakk, var Búnaðarráðið úr sögunni og í staðinn komu I. um Framleiðsluráð landbúnaðarins, einkum fyrir áhrif frá Framsóknarmönnum. Í því lagafrv., sem hér er til umr., birtist sami andinn, sem kom fram í búnaðarráðsl. fyrir 20 árum. Má um þetta segja, að sagan endurtaki sig. Hæstv. landbrh. núv. var kominn á þing, þegar I. um Búnaðarráð voru sett, þar fyrir 20 árum. Hann sat hjá við atkvgr. um það mál, en þrír þm. Sjálfstfl., er þá áttu sæti hér í hv. Nd., þeir Pétur Ottesen, Jón á Reynistað og Gísli Sveinsson, beittu sér mjög gegn því máli ásamt þm. Framsfl.

Nú hefur það gerzt, því miður, að hæstv. landbrh. hefur með útgáfu brbl., sem hér liggja fyrir, dottið ofan í sama ljóta pyttinn, sem þriggja flokka stjórnin féll í árið 1945. Hann hefur tekið af bændum og samtökum bændanna réttinn til að semja um kjör sín. Slík árás á eina stétt í þjóðfélaginu er alveg ósæmileg. Bændur hljóta að mótmæla þeirri réttarskerðingu, sem brbl. fela í sér. Stéttarsamband þeirra hefur þegar gert það.