08.11.1965
Neðri deild: 12. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það hafa nú orðið allmiklar umr. um frv. það, sem hér er til umr., og þarf ég nú ekki að eyða löngum tíma til að svara því, sem sagt hefur verið um þetta. Ræður hv. Framsóknarmanna eru allar í sama dúr og hjá hv. I. þm. Norðurl. v. (SkG) hér áðan. Bændur hljóti að mótmæla þessu gerræði, sem gert hefur verið. Þeir hljóti að gera það, en þeir bara gera það ekki. Það hefur verið reynt að fá bændur til að mótmæla, en þeir eru ófáanlegir til þess, og það er vegna þess, að bændur vita það, að þessi brbl. tryggja þeirra rétt. Þeir hafa fengið bætur í gegnum verðlagninguna á þessu hausti, þannig að hlutur þeirra er ekki fyrir borð borinn. Þeirra hlutur hefur að vísu ekki verið bættur umfram það, sem aðrir þegnar þjóðfélagsins hafa fengið á verðlagsárinu en að því marki. Og bændur hafa ekki að þessu sinni gert hærri kröfur. Þeir hafa metið þær leiðréttingar, sem þeir hafa fengið undanfarin ár, og sjá það, að í dag eru þeir að því komnir að búa við ekki lakari kjör en aðrar stéttir, að í tíð núv. stjórnar hefur verið gerð sú leiðrétting á verðgrundvellinum, að bændur í dag búa ekki við lakari kjör en aðrar stéttir. Það gerðu þeir áður en verðlagsgrundvöllurinn var leiðréttur.

En bændur hljóta að mótmæla, segja hv. Framsóknarmenn, og hv. 2. þm. Sunnl. (ÁÞ) sagði: „landbrh. hefði átt að segja af sér heldur en að standa að útgáfu þessara laga“. Og þessi hv. þm. sagði einnig: „Það á að hefja uppreisn gegn þessum lögum.“ Það hefur verið reynt. Það hefur verið reynt að skapa uppreisn. Það hefur verið reynt að fá bændur til að mótmæla. Það bara tekst ekki. Og fyrir austan fjall eru menn nú að velta því fyrir sér, hvernig þessi snjallyrði hv. 2. þm. Sunnl. verka, þ.e. að fá uppreisn gegn brbl., það er, að landbrh. átti að segja af sér, frekar en rétta hlut bænda og tryggja það, að þeirra hlutur yrði ekki fyrir borð borinn. Hann átti að stökkva frá borði, þegar mest reið á. Þetta fær nú ekki hljómgrunn. Og einmitt, þegar þessir tveir punktar eru ræddir, minnast sumir þess, að fyrir síðustu alþingiskosningar sagði einn frambjóðandi Framsfl., þegar verið var að tala um efnahagsog gjaldeyrismál, að það væri þó munur núna, að íslenzka þjóðin ætti gjaldmiðil, sem væri gjaldgengur erlendis. Þá sagði einn frambjóðandi Framsfl.: „Hvað kemur okkur það við, hvort íslenzka krónan er gjaldgeng erlendis?“ Þetta eru perlur, sem menn velta á milli sín. Og þannig kemur ýmislegt fram í umræðum um alvarleg mál, þegar menn taka það að sér að ráðast á það, sem er sanngjarnt, og reyna að rífa það niður af einhverjum annarlegum ástæðum, pólitískum ástæðum, án þess að gera sér grein fyrir því, að með því er verið að vinna gegn hagsmunum þeirra, sem helzt skyldi staðið með.

Hv. l. þm. Norðurl. v. talaði um, að það hefði ekki verið rétt, sem ég sagði hér fyrir nokkrum dögum í sambandi við útflutningsuppbæturnar, að það hefði verið fyrst með lögunum 1960, sem bændum var tryggt, að þeir fengju fullt verðlagsnefndarverð með því að tekin var ábyrgð á útflutningsframleiðslunni. Það er rétt. Það var fyrst þá, sem þetta var tryggt. Við vitum, að það var til útflutningssjóður, og það var til framleiðslusjóður, og bændur fengu nokkrar uppbætur úr þessum sjóðum, en aldrei það, að það nægði til þess að borga hallann af útflutningnum. Við vitum það einnig, að bændur höfðu rétt til þess að hækka verðið á innlendum markaði, til þess að reyna að fá uppborinn hallann á útflutningnum. En við vitum það einnig, að bændur sem stóðu í verðlagningunni, fulltrúar bænda í 6 manna n. fullyrtu það, að það væri engin leið að ná þessu verði upp með því að hækka innanlandsverðið. Þess vegna er ástæðulaust fyrir hv. l. þm. Norðurl. v. að vera að gagnrýna það, sem ég sagði um þessi atriði, því að bændur vita það sjálfir, að áður en útflutningstryggingin var tekin, var ekki möguleiki á því að tryggja 6 manna n. verðið. Og sérstaklega eru þeir, sem framleiddu mjólk, þessu áþreifanlega kunnugir, því að það er alkunnugt, að a.m.k. eitt ár vantaði hjá einu mjólkurbúi 9% á verðið vegna þess að það varð að flytja út osta fyrir lágt verð.

Hv. 3. þm. Vestf. (SE) talaði hér áðan, og vissulega var það ýmislegt athyglisvert, sem hann fór með. Það var t.d. athyglisvert, þegar hann fullyrti, að það væri ekkert að marka það, sem hv. þm. Björn Pálsson sagði, vegna þess, að hann gerði fleira en að stunda búskap. Það væri ekkert að marka það, sem hann segði um brbl. Að vísu væri hann ágætur bóndi, en hann væri einnig útgerðarmaður, hann hefði verið kaupfélagsstj., og menn skyldu vara sig á að taka mark á því, sem hann segði um þessi mál. En það mátti frekar taka mark á því, sem bóndinn í Saurbæ í Rauðasandshreppi sagði um þetta. (Gripið fram í: Já, og bóndinn á Hellu.) En það er einkennilegt, hvernig Barðstrendingar líta á búskapinn á Rauðasandi. Hv. 3. þm. Vestf. er búsettur í Saurbæ á Rauðasandi, en í sýslubókum Barðastrandarsýslu er þetta talin eyðijörð. Mér finnst þetta vera óvirðing við hv. þm., að það skuli vera talið eyðijörð það býli, sem hann er talinn búa á og á lögheimili á. En hv. þm. talaði um það, að það væri enginn ráðh., sem hefði stundað búskap, þess vegna væri varhugavert að taka mark á því, sem þeir tala um búskaparhætti. Það vill nú svo vel til, að ráðherrar reyna eins og aðrir þm. að kynna sér atvinnuhætti landsmanna yfirleitt. Ég geri ráð fyrir því, að allir þm., hvar sem þeir eru búsettir og hvar í stétt sem þeir standa, telji það skyldu sína að gera sér grein fyrir atvinnulífinu almennt og skapa sér rökstudda skoðun um hvern atvinnuveg fyrir sig. Ég ætla nú ekki að deila við hv. 3. þm. Vestf. um það, hvor okkar hafi meira vit á búskap, en það vil ég fullyrða, að ég hef staðið lengur nær bændunum og verið kaupfélagsstjóri, eins og hv. þm. Björn Pálsson, og kynnzt ýmsu í sambandi við það. En þrátt fyrir það, að Björn Pálsson hafi verið kaupfélagsstjóri, þá telur nú hv. flokksmaður hans hann nú ekki hafa mikinn kunnugleika á þessum málum.

Annars fór hv. 3. þm. Vestf. með ýmsar tölur hér áðan, sem ég skrifaði nú ekki niður, en rökstuðningurinn fyrir málflutningi hans var ákaflega hæpinn. Og þegar hann var að tala um það, að bændur hefðu ekki fengið fullt verðlagsnefndarverð fyrir afurðirnar, af því að tekjurnar fyrir næsta skattár á undan hefðu ekki verið eins háar og gert var ráð fyrir í grundvellinum fyrir næsta verðlagsár á eftir, þá segi ég það, að það sé ekki boðlegt að koma með slíkar röksemdir hér fyrir hv. alþm., því að svo mikið hefur verið rætt um landbúnaðarmál, að allir alþm. vita, að það er sitt hvað almanaksárið og skattárið eða það, sem kallað er á máli landbúnaðarins verðlagsárið. Verðlagsárið byrjar 1. sept. og endar 31. ágúst, en skattárið er almanaksárið. Þegar verðhækkanir verða á landbúnaðarvörunum og gert er ráð fyrir, að á verðlagsárinu fái bændur 119 þús. kr. tekjur, þá fá þeir ekki 119 þús. kr. tekjur á því skattári, sem verðlagsárið byrjaði á, vegna þess að verðhækkunin kemur aðeins á fjóra síðustu mánuði skattársins. Þetta vita allir alþm., en hv. 3. þm. Vestf. lét sig hafa það að segja: Vegna þess að það koma ekki sömu tekjur út úr verðlagsárinu og skattárinu, þá er það sönnun fyrir því, að bændur hafi verið snuðaðir á verðinu, og þeir hafi ekki fengið fullt verðlagsn.-verð. Ég verð nú að segja það, að þegar hv. 3. þm. Vestf. talar svona af sér og ber svona lagað á borð hér á hv. Alþ., þá er það nú sýnishorn af hans málflutningi hér áðan yfirleitt, og þá held ég, að hv. alþm. fyrirgefi mér, þó að ég eyði ekki löngum tíma í að rökræða við hann um þessi mál.