09.11.1965
Neðri deild: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef verið á mælendaskrá og ætla að leyfa mér að bæta nokkrum orðum við þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál undanfarna daga.

Á s.l. hausti reyndist ekki framkvæmanlegt að verðleggja íandbúnaðarafurðir eftir ákvæðum framleiðsluráðslaganna. Þetta hefur skeð einu sinni áður. Það skeði haustið 1959, og þá voru líka sett brbl. eins og nú. Það voru illræmd lög. Eftir að þau lög höfðu verið sett, upphófust samningar um lagabreytingar milli Stéttarsambands bænda annars vegar og núv. hæstv. landbrh. hins vegar. Skilja mátti orð hæstv. ráðh. fyrir nokkrum dögum á þá leið, að bændur hafi fyrir þann tíma ekki átt rétt til útflutningsuppbóta. En þeir áttu þennan rétt í l., þeir áttu rétt til uppbóta úr útflutningssjóði, eins og hv. l. þm. Norðurl. v. sagði í gær, og þeir áttu sérstakan rétt til útflutningsuppbóta af innanlandsverðinu, og heimilt var að ákveða verðið með tilliti til þess. Þegar sá réttur var vefengdur, gekk hæstaréttardómur í því máli, sem kunnugt er, en með þeim dómi var staðfest, að bændur ættu þennan lagarétt til útflutningsuppbóta. En hæstv. núv. landbrh. samdi þá um það við Stéttarsambandið, að þessi útflutningsuppbótaréttur félli niður og í staðinn kæmu útflutningsuppbætur úr ríkissjóði. Ég hef rætt við bændur, sem óttuðust, að tap yrði á þessum skiptum. Um það ætla ég ekki að dæma nú, en segi söguna eins og hún gekk. Bændur fengu líka nokkru hreyfanlegra verð á verðlagsárinu en áður var, og vék hæstv. ráðh. að því á dögunum, en á móti kom það, að dreifingarkostnaðurinn skyldi vera samkomulagsmál í 6 manna n. og óháður gerðardómi. Í heild orkaði það, sem ávannst og tapaðist, nokkurs tvímælis, hvort þyngra væri á metum frá sjónarmiði ýmissa bænda, og á næstu árum kom fram á fundum bænda allvíðtæk gagnrýni á efni og framkvæmd þessara I. Margir drógu í efa, að 6 manna n. og 6 manna nefndar verðlagningin væri til frambúðar og vildu fremur, að breytt yrði fyrirkomutaginu á þá leið, að samið yrði við ríkisstj. hverju sinni, svo sem tíðkast mun í öðrum löndum. Fram á það var þó ekki farið af hálfu stéttarsamtakanna, og þær breytingar, sem bændastéttin fór fram á, að gerðar yrðu á l. á sínum tíma, hafa ekki verið lagðar fyrir Alþ.

Nú hefur framkvæmd verðlagningarákvæðanna bilað í annað sinn. Stjórn A.S.Í. ber ekki ábyrgð gagnvart Alþ., og ég ætla ekki að ræða þátt hennar í því, sem skeð hefur. En bændur hafa fengið yfir sig brbl. í annað sinn, samningsrétturinn í annað sinn verið af þeim tekinn. Í þessum brbl. var lögskipaðri dómnefnd fenginn nýr viðmiðunargrundvöllur til ákvörðunar á kaupi bóndans og öðrum vinnukostnaði við framleiðsluna. Og nú spyr ég, eins og hv. 3. þm. Vestfjarðakjördæmis: Hvers vegna mátti dómnefndin ekki nota þann viðmiðunargrundvöll, sem verið hefur í l., þ.e.a.s. tekjur annarra vinnandi stétta? Felst í þessari breytingu yfirlýsing ríkisstj. um það, að ekki megi taka tekjur síldveiðisjómanna inn í viðmiðunina eða að gamla viðmiðunin sé yfirleitt ónothæf? Hvers vegna í ósköpunum var fundið upp á því að gera ellilífeyri og örorkubætur að viðmiðunargrundvelli fyrir kauphækkun bóndans? Því þá ekki að miða við almenna kauphækkun í fiskvinnu. sem leiddi í bili til sömu niðurstöðu? Mörgum þykir þetta hlálegt, eins og hv. 2. þm. Sunnl. vék að um daginn, og gizka sumir á, að sálfræðingar ríkisstj. hafi fundið þetta upp af speki sinni og að í því hafi átt að felast laundrjúgur áróður.

Í umr. um þetta mál hefur ýmsum orðið tíðrætt um útflutning landbúnaðarvaranna. Í því sambandi hefur verið um það rætt, að með tilliti til útflutnings sé heppilegra að auka framleiðslu sauðfjárafurða en mjólkurframleiðslu, og sýnist það raunar auðsætt, eins og á stendur. Sú stefna að stuðla að því með verðlagningu hefur þó átt örðugt uppdráttar, m.a. hjá ríkisstj., eins og nefnt hefur verið í þessum umr. Hitt á svo eftir að sýna sig, sem menn vona, hvort þeir 189 aurar, þ.e.a.s. 1. kr. 89 aurar, sem kjötkílóið hefur hækkað um samtals til bænda nú og í fyrra vegna tilfærslu frá mjólkurverðinu, hvort sú tilfærsla hefur hæfileg áhrif í þá átt að auka framleiðslu á sauðfjárafurðum. Það mun líka sýna sig, að fleira þarf til að koma en verðlagning búfjárafurða til að leysa á viðunandi hátt málefni bænda í þeim byggðarlögum, sem nú eru verst sett.

Í umr. um þetta mál komst einn af hæstv. ráðh. svo að orði um daginn, að landbúnaðurinn væri um þessar mundir eitt af mestu vandamálum efnahagslífsins hér á landi. En þegar þetta er rætt, held ég, að menn þurfi eins og oftar að gæta þess að binda hugann ekki um of við líðandi stund og það ástand, sem nú er. Við verðum að horfa fram í tímann, því að það er framtíðin, sem mestu máli skiptir. Í árslok 1944 var fólkstalan hér á íandi um 128 þús., en í lok ársins sem leið um 190 þús. Íbúum landsins hefur á 20 árum fjölgað um 62–63 þús. eða nálega 49%. Ef þessi þróun heldur áfram, fjölgar þjóðinni um 94 þús. á næstu 20 árum. Þetta þýðir það, að árið 1984 verður risin hér á landi ný Reykjavík, nýr Kópavogur og nýr Hafnarfjörður eða önnur ný byggð, sem því svarar. Hætt er við, að íslenzk landbúnaðarframleiðsla, ef hún vex ekki frá því, sem nú er, hrökkvi skammt til að metta allan þann mannfjölda. Þetta verða menn að hafa í huga. Landbúnaðurinn þarf þjóðarinnar vegna að halda áfram að eflast, landbúnaðarframleiðslan að aukast. Þetta þarf að gerast jafnt og þétt, því að það tekur tíma að rækta t.d. 50 þús. ha af íslenzku mýrlendi og breyta því í tún, og það tekur líka tíma að koma upp 25 þús. nautgripum og 400 þús. fjár og mannvirkjum og vélum í samræmi við það, svo að einhverjar tölur séu nefndar. Menn mega ekki láta sér bregða í brún, þó að þessi nauðsynlega þróun hafi það í för með sér, að einhver offramleiðsla verði öðru hverju miðað við innanlandsmarkað, því að ef aldrei yrði offramleiðsla, yrði líka stundum skortur, því að árferði er misjafnt hér, eins og í öðrum löndum, og við það verður ekki ráðið.

Það er ekki nýlunda hér á landi eða annars staðar, að bæta þurfi upp verð á útflutningsvörum. Jafnvel íslenzkur sjávarútvegur hefur stundum þurft og þarf nú á verðuppbótum að halda. Hitt er svo auðvitað sjálfsagt að reyna að stuðla að því, að helzt komi til útflutnings sú landbúnaðarframleiðsla, sem bezt verð fæst fyrir, en af ýmsum mætum mönnum er því stöðugt haldið fram, að sauðfjárafurðirnar eigi sér framtið sem útflutningsvara, sem um munar, án þess að tala þurfi um offramleiðslu í því sambandi.

Vaxandi dýrtið innanlands skapar vaxandi þörf fyrir útflutningsuppbætur, og það er ekki aðeins í landbúnaði. Og vöxtur dýrtíðarinnar hefur verið mikill hin síðustu ár, hvort sem hann er reiknaður í prósentum frá ári til árs eða í stigum á vísitölugrundvelli fyrri tíma. En mestur er þessi dýrtíðarvöxtur og næst sanni, ef hinum óraunverulega húsnæðislið vísitölunnar væri breytt í staðreyndir, sem menn þekkja um land allt. Það er misráðið af hæstv. ráðh. að dylja sjálfan sig og aðra þess, sem er að gerast í þessum málum. Hitt er réttara fyrir hæstv. ríkisstj. að segja eins og er, að hana skortir úrræði eða mátt eða hvort tveggja til að hafa hemil á dýrtíðinni. En milli dýrtíðarvaxtarins og útflutningsuppbótanna er samhengi, sem nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir.

Það ber vott um heldur fábreytta hugsun, finnst mér, sem hæstv. landbrh. var að gleðja okkur þm. með í gær, að ferðamenn gætu nú selt íslenzkar krónur erlendis fyrir eitthvert verð, sem mun þó vera um þessar mundir talsvert lægra en gengisskráning segir til um. En það er kaupmáttur krónunnar innanlands, sem mestu máli skiptir og núv. ríkisstj. kvaðst ætla að vernda, en fer nú hraðminnkandi.

Ég hélt satt að segja og segi það í tilefni af orðum, sem féllu í gær, að það orkaði ekki tvímælis hjá þeim, sem til þekkja, að bændur landsins hafa ekki fengið út úr búrekstrinum undanfarið það kaup sér til handa og fólki sínu, sem verðlagsgrundvöllurinn hefur gert ráð fyrir. Nú gaf hæstv. landbrh. í skyn, að mismunur sá, sem hér kemur fram og hv. 3. þm. Vestf. drap á, stafaði af því einu, að verðlagsárið væri ekki hið sama og skattaárið. Það er ekki von, að vel fari, ef sjálfur landbrh. er þeirrar skoðunar, og ég trúi því ekki, að svo sé í raun og veru. Hann gerir sér án efa ljóst, að það er ekki nóg, að bændur fái verðlagsgrundvallarverð á pappírnum, ef rekstrarliðir eru of lágt áætlaðir. Vantaldir rekstrarliðir t.d. tilbúinn áburður, svo að eitthvað sé nefnt, hljóta í reyndinni að koma til frádráttar frá kaupi bóndans, eins og það er ákveðið í grundvellinum. Í því er eflaust fólgin meginástæðan til þess, að kaup bóndans í verðlagsgrundvelli og raunverulegar tekjur eru svo fjarri því að vera jafnt.

Mér þótti hæstv. landbrh. líka verða á í messunni, þegar hann fór að tala um það í gær, að bændur hefðu ekki mótmælt brbl., sem við erum að ræða um hér. Fyrr má nú vera misminnið. Stjórn Stéttarsambands bænda mótmælti þessum brbl. með opinberri yfirlýsingu dags. 11. sept. s.l., sem birt var í útvarpi og blöðum þá. Þar segir svo m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórn Stéttarsambands bænda mótmælir þeirri réttarskerðingu, sem felst í brbl.“ Undir þessa yfirlýsingu rituðu allir 5 stjórnarnefndarmenn nöfn sín, og ætla ég, að tveir þeirra séu samflokksmenn hæstv. ráðh. Þar er það sérstaklega tekið fram, að þessir 5 menn gefi yfirlýsingu sem stjórn Stéttarsambandsins, og ekki hef ég tekið eftir því, að bændur hafi mótmælt því, sem þarna var gert í þeirra umboði, umboði stéttarinnar. Um þetta skal ég ekki ræða nánar og gerði það aðeins að gefnu tilefni, sem ég hef nefnt.

Brbl., sem nú liggja fyrir í frv.-formi, munu, hvernig sem um þau fer, móta verðlagningu landbúnaðarvaranna á yfirstandandi verðlagsári. Mestu skiptir nú, hvaða verðlagningarfyrirkomulag verður upp tekið í þeirra stað. Þess er að vænta, að till. um það efni verði ekki fullmótaðar eða ekki gengið frá þeim að fullu fyrr en aukafundur sá hefur verið haldinn í Stéttarsambandi bænda, sem gert hefur verið ráð fyrir.