09.11.1965
Neðri deild: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er nú satt að segja alveg gáttaður á jafngömlum þm. og hv. þm. Skúla Guðmundssyni, að hann skuli gera sig sekan um jafnfáránlega firru og hann lét sér um munn fara í síðustu ræðu sinni, en raunar er ekki við öðru að búast í framhaldi af þeim framsóknarreikningi, sem hér hefur verið kynntur á Alþ. undanfarna daga. Hv. þm. ætlar að leiðrétta mig með því að bera saman meðalvísitölu tveggja ára, þegar ég hef verið að greina frá vísitölu 1. jan. og 1. jan. ársins á eftir. M.ö.o., ég var að ræða um hækkun vísitölu yfir 12 mánuði almanaksársins. Það er ein staðreynd, það er ein talnaröð. Hann fer að tala um hækkun meðalvísitölu frá einu ári til annars. Það sjá allir menn með heilbrigðri skynsemi, að hér er um tvennt að ræða og engin leiðrétting hjá mér, þó að hann nefni aðra tölu. Hv. þm. verður hér sér enn einu sinni til minnkunar.