06.12.1965
Neðri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Frsm. 1. minni hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, var landbn. ekki einhuga með afgreiðslu þessa máls. Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni í nál., sem er á þskj. 104.

Við l. umr. um málið dró ég fram þær höfuðröksemdir, sem valda því, að ég er á móti málinu og vil láta fella frv. En þær eru þessar helztar: Með frv. eru bændur gerðir ómyndugir og réttlausir til samninga um sitt kaup, einir allra starfsstétta í þjóðfélaginu. Í öðru lagi eru þau viðmiðunarákvæði, sem hækkun á kaupi bóndans er miðuð við, harla óviðkunnanleg og bændum á þann hátt einnig freklega misboðið að mínum dómi. Tekjulægsta stétt þjóðarinnar en jafnframt ein sú allra vinnusamasta skal samkv. þessum ákvæðum ekki fá meiri hækkun á kaupi sínu en heimilt er að hækka bætur almannatrygginga til elli- og örorkulífeyrisþega. Ég tel þessi brbl. vægast sagt mjög óheppileg fyrir þá, sem þau hafa sett, og í raun og veru ósamboðin þeim, sem settu l. Ég tel, að Alþ. eigi að fella slík ólög. Ég tel, að II. kafli framleiðsluráðslaganna sé í fullu gildi, og þannig hygg ég, að allur þorri bænda liti einnig á. A.m.k. leit fundur bænda í Suður-Þingeyjarsýslu þannig á, og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa ályktun um þetta mál, sem þar var gerð:

„Almennur bændafundur Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga, haldinn að Hólmavaði 11. nóv. 1965, mótmælir harðlega brbl. þeim, sem sett voru s.l. haust um verðlagningu landbúnaðarafurða, þar sem ríkisvaldið sviptir bændastéttina samningsrétti um kaup og kjör með einhliða tilskipunum, í stað þess að virða ákvarðanir framleiðsluráðsl. um eðlilega hækkun á kaupi bænda í samræmi við launaúrtak Hagstofunnar, eða að öðrum kosti taka upp beina samninga við fulltrúa bænda um afurðaverðið. Fundurinn telur, að löggjöfin um verðlagningu búvara hafi verið og sé enn í fullu gildi, þrátt fyrir úrsögn fulltrúa A. S. Í. úr 6 manna n.

Þetta var fundarsamþykkt bændafundar í Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga. Ég hygg, að þessi samþykkt sé rétt mynd af því, hvernig bændur almennt í landinu líta á þessi mál. Og ég spyr þá, sem nú ætla hér á hinu háa Alþ. að greiða atkv. með brbl., hvort þeir ætli sér að fara eins að við aðrar stéttir og hvort hér sé verið með þessum hætti að skapa fordæmi. Ég minnist þess, að einu sinni ætluðu þeir, sem beita sér hér nú fyrir þessari lagasetningu, að koma gegnum hið háa Alþ. hliðstæðri löggjöf, en það var kaupbindingarfrv., sællar minningar, en þá stóð til að svipta launþega samningsrétti, eins og alkunnugt er. Á síðustu stundu var það frv. dregið til baka, góðu heilli.

Ég vil vona, að það sama gerist nú hér við meðferð þessa máls í þingi, að ef hv. stjórnarliðar fást ekki til að fella frv. með okkur, sem það viljum gera og eins og ég íegg til, þá vilji þeir a.m.k. stöðva það.

Það hefur að mínu áliti og margra annarra nógu illt skeð með því , að ríkisstj. tók samningsréttinn af bændum í haust, þó að Alþ. fari nú ekki að reka smiðshögg á það verk og þess þá síður, þar sem nú hefur verið sett á laggirnar n. frá þessum sömu aðilum og áður tilnefndu í 6 manna n., sem landbrn. hefur skipað, og sú n. hefur nú þegar tekið til starfa. Þeim mun síður er ástæða til þess að flýta afgreiðslu þessa máls eða knýja það í gegnum Alþ. Ég held, að flestir vilji nú gera sér fremur góðar vonir um, að það verði árangur af störfum þessarar n., sem nú hefur tekið til starfa um þessi mál, og það finnist samkomulagsleiðir til samninga milli bænda og launþega, þar sem réttur bændanna verði tryggður til samninga um sambærileg lífskjör við það, sem aðrar stéttir á hverjum tíma hafa.

Með þessum orðum þykist ég hafa gert grein fyrir minni afstöðu enn frekar en ég áður gerði við l. umr. málsins, en þá ræddi ég þetta mál allýtarlega og ætla þess vegna ekki nú að þessu sinni, nema tilefni gefist til, að hafa fleiri orð um þetta.