06.12.1965
Neðri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfá orð. Hv. 2. þm. Sunnl. (ÁÞ) las hér upp úr blaðagrein og vitnaði í tölur, sem áður hafa nú verið lesnar. Sumar af þessum tölum voru réttar, aðrar voru misjafnlega rétt túlkaðar eða framfærðar, ekki af hv. þm. heldur af þeim, sem að blaðinu stóðu, þeim, sem hafa skrifað þar.

Hv. þm. talar nú um það, að það sé augljósast, hvernig búið hafi verið að bændum síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, vegna þess hvað bændunum hafi fækkað mikið. Hann segir, að þeim hafi fækkað um 600 á árunum 1959–1963. Það hafi beinlínis verið flótti úr sveitunum og eingöngu náttúrlega vegna þess, hve illa var að bændunum búið. En sennilega hefur aldrei verið flótti úr sveitunum fyrr, ekki á meðan hv. framsóknarmenn fóru með landbúnaðarmálin. En ég ætla nú ekki að fara út í það, vegna þess að hv. alþm. kunna þessa sögu og þeir vita það, að fólk hefur mikið flutt úr sveitunum, allt síðan um aldamót, en þó ekki minnst á áratugnum 1940–1950 og meira á áratugnum 1950–1960 en frá 1960–1965. Og það er enginn mælikvarði á það, hvort vel er búið að bændum eða illa, þó að bændur hætti að búa. Það er ekki unnt að reka búskap í sveit á gamla vísu eins og áður var gert á jörðum, sem hafa ekki land til ræktunar, á jörðum, sem ekki bera stærra bú en kannske í mesta lagi 100 kindur og 2–3 kýr. Og það er tilgangslaust að vera að tala um það, að bændur séu lægst launaða stéttin í þjóðfélaginu. Þeir verða það meðan mörg hundruð bænda hafa smábú, sem gefa ekki af sér nema nokkra tugi þús. á ári.

Hv. þm. vitnaði í það hér áðan, að 1963 hafi bændur í Norður-Múlasýslu haft að meðaltali 84 þús. kr. tekjur, en bændur í Eyjafirði 150 þús., og af hverju er þetta? Það er vegna þess, að ræktunin í Norður-Múlasýslu er komin miklu skemmra áleiðis en í Eyjafirði, búin eru miklu minni og afkomumöguleikarnir eftir því. Við verðum að sætta okkur við það, þótt jarðir, sem ekki hafa góð skilyrði til búsetu, fari í eyði. Og sannleikurinn er nú sá, að það er oft erfitt að skilgreina, hvað er bóndi. Það eru margir, sem lifa ekki eingöngu á búskap, heldur einnig á því að fara í daglaunavinnu. Og það eru e.t.v. sérstaklega þessir, sem hafa verið á mörkunum, hvort þeir gætu talizt bændur eða ekki, sem hafa gefizt upp við búskapinn og núna, þegar atvinnuástandið hefur batnað, gefið sig að því að stunda atvinnuna, en ekki vera að skipta kröftunum, þegar þeir bjuggu á jörðum, sem ekki höfðu skilyrði til ræktunar og ekki gátu gefið heimilinu lífsviðurværi. Þetta er þróunin hér eins og annars staðar.

Það, sem hefur gerzt á síðari árum, er það, að það hefur verið lagður grundvöllur að blómlegum búskap með því að auka ræktunina og ýta undir hana. Og það er nú ekki sterkt hjá hv. 2. þm. Sunnl., málflutningur hans, þegar hann fer að tala um ræktunina og hvernig að henni hefur verið búið af núv. ríkisstj. Hv. þm. vitnar í það, að jarðræktarstyrkurinn hafi staðið í stað á vissu árabili. Af hverju var það? Það var af því, að jarðræktarstyrkur hafði verið greiddur árum saman allan áratuginn 1950–1960 og ég held áratuginn 1940–1950 samkv. framfærsluvísitölu. Þegar framfærslukaupgjaldsvísitalan var stöðvuð, stóð jarðræktarstyrkurinn í stað, þangað til ný jarðræktarlög komu, sem hafa leitt til þess, að bændur fá nú greitt miklu meira framlag til ræktunarmála en nokkru sinni áður, og árangurinn íætur ekki á sér standa. Ræktunin hefur orðið alveg gífurleg miðað við það, sem áður hefur verið, og mér finnst það nú kaldhæðni örlaganna, þegar bóndi í einni blómlegustu sveit sunnanlands spyr: Hvað hafa bændurnir haft upp úr því að leggja að sér við að auka framleiðsluna, við að rækta og við að byggja, hvað hafa bændur haft upp úr því, borið úr býtum við það? Þetta er vitanlega fáránleg spurning, vegna þess að það liggur alveg í augum uppi, að þeir, sem hafa ræktað, þeir, sem hafa fylgzt með tímanum og stækkað búin, hafa góða afkomu. Hinir, sem hafa haldið að sér höndum, hafa dregizt aftur úr og það eru þeir, sem eru tekjulágir og draga niður meðaltekjur bændanna yfirleitt, þegar meðaltekjurnar eru teknar. Ég held, að það þurfi ekki að spyrja að þessu, og sjálfur getur hv. þm. svarað fyrir sig, að hann finnur það, að það er önnur afkoma hjá honum, eftir að hann stækkaði búið og jók ræktunina, heldur en meðan hann hafði lítið tún og lítið bú. Þess vegna á ekki að slá svona spurningu fram, vegna þess að hún svarar sér sjálf.

Ég get tekið undir með hv. þm., að við getum þakkað bændum fyrir dugnað, fyrir vinnusemi og framlag þeirra til þjóðarbúsins, og það er þess vegna, sem bændur eiga það skilið að fá viðurkenningu frá stjórnvöldunum á hverjum tíma, að þeirra starf er mikilvægt og framleiðslan, sem hefur um sinn í vissum þáttum aukizt meira heldur en fyrir innanlandsmarkaðinn, svo sem mjólkurframleiðslan. Það er frá mínu sjónarmiði stundarfyrirbæri. Það er stundarfyrirbæri af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að þjóðinni fjölgar, neytendahópurinn stækkar, og í öðru lagi, að framleiðslunni verður beint meira inn á aðrar brautir, inn á það, sem er ódýrara og heppilegra að flytja út en mjólkurafurðir, og þess vegna er engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af því, þó að mjólkurframleiðslan núna um sinn hafi orðið nokkru meiri heldur en æskilegt var. En af hverju er það, þrátt fyrir bændafækkunina? Það er vegna þess, að ræktunin hefur verið aukin og bændur hafa ráðizt í fjárfestingu, keypt sér vélar, byggt ný hús og gert umhirðuna um skepnurnar auðveldari en áður. Það er allt vegna þess, að bændur hafa fylgzt með tímanum, og þeir þurfa ekki að sjá eftir því, þótt þeir hafi ráðizt í slíka fjárfestingu. Svo talar hv. 2. þm. Sunnl. um það, að skuldirnar hafi aukizt hjá bændum og vaxtakostnaðinn. Hvort skyldi það nú vera betra fyrir bændur að hafa aukið skuldirnar um allt að því helming, úr 400 millj. í 800 millj., og stækkað búin og byggt og keypt vélar eða standa í stað með skuldirnar og láta það vera að auka framleiðsluna og rækta og kaupa vélar? Hvort skyldi nú vera betra fyrir bændurna að hafa aukið skuldirnar með þessum hætti eða að standa í stað með skuldir og standa í stað með framkvæmdir og framleiðslu? Þessu þarf ég ekki að svara. Svarið liggur alveg á borðinu.

Hv. þm. talar um það, að Björn Pálsson, hv. þm. Norðurl. v., sé sennilega einhver ráðunautur minn í landbúnaðarmálum og við munum hafa einhverja leynifundi. Ég skal viðurkenna, að það er mjög skaðlegt, að hv. 2. þm. Sunnl. skuli ekki hlusta á flokksbróður sinn, hv. þm. Norðurl. v., því að það er enginn vafi á því, að ef þessi hv. þm. væri tekinn meira til greina í Framsfl. en þetta nál. ber vitni um, sem sennilega meiri hl. allra hv. framsóknarþm. ætlar að fylgja, væri vitanlega afstaða framsóknarmanna á allan hátt miklu skynsamlegri og það er ógæfa þessa flokks, að hann skuli ekki taka það meira til greina, sem sanngjarn og vitur maður eins og hv. þm. Björn Pálsson segir. Og ég er alveg sannfærður um það, að ef hv. framsóknarmenn hlustuðu á þennan vitra þm., væri svona plagg, eins og hér er á þskj. 104, ekki fyrir hendi hér í sölum Alþ.

Hv. þm. telur, að ég muni hafa gefið þessi brbl. út nauðugur. Þetta er ekki rétt. Ég hefði vitanlega helzt viljað, að það hefði orðið samkomulag um verðlagninguna á s.l. hausti, eins og oft áður, og að sex manna n. hefði getað starfað með eðlilegum hætti. En úr því að svo var ekki, var engin ástæða til þess að gera það nauðugur að gefa út brbl., sem tryggja bændunum fullt verð og fara hinn rétta meðalveg, sem gefur bændunum fulla uppbót á kostnaði vegna launahækkana og hækkunar á rekstrarliðum, en íþyngir neytendunum ekki umfram það, sem eðlilegt er vegna nauðsynlegra hækkana. Og þess vegna er það, að ég var ekkert nauðugur í því að gefa út brbl., úr því að til þess þurfti að koma.

Hv. þm. talar um það, að það hefði mátt semja við bændurna. Ef það hefði ekki tekizt, hefði mátt setja á yfirnefnd. En setjum nú svo, að það hefði verið gert, þá hefði vitanlega þurft til þess brbl., og ég er sannfærður um það, að þótt sá háttur hefði verið á hafður, hefði hv. 2. þm. Sunnl. mótmælt því og talið, að það væri erfitt fyrir bændur að hlíta slíkri þvingun, sem af gerðardómnum leiddi. Og það er engin ástæða til þess að ætla það, að hlutur bænda hefði orðið nokkuð betri, þótt svoleiðis yfirnefnd hefði kveðið upp úrskurð um verðið, en eins og hér var gert, þegar miðað er við fullar bætur almannatrygginga, sem miðast við fullar bætur á aukinni dýrtíð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira. Hv. 2. þm. Sunnl. hefði alveg jafnt snúizt gegn brbl., sem voru byggð á yfirnefnd, eins og hann orðaði það, eins og þessum l., sem hér er um að ræða, því að það er nú þannig með suma stjórnarandstæðinga, að það er eins og þeir telji sig til knúna að snúast gegn flestu, sem ríkisstj. kemur við. En hagsmunir bænda eru það mikils virði frá mínu sjónarmiði, að mér finnst a.m.k., að þeir, sem eru í bændastétt og telja sig sérstaka málsvara þeirra, ættu ekki að vera að kasta á milli sín því, sem getur beinlínis orðið umbjóðendunum til skaða. Og það er enginn vafi á því, að það hefði verið sæmra fyrir hv. 2. þm. Sunnl., sem hefur skrifað þetta nál., sem hér er að umtalsefni, að hafa sömu afstöðu og flokksbróðir hans, hv. þm. Norðurl. v. (BP) hefur.