06.12.1965
Neðri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1381)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Frsm. 1. minni hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Ég þarf nú litlu við það að bæta, sem ég áðan sagði, því að það, sem hæstv. landbrh. sagði nú í sinni seinni ræðu, var þannig, að það var meira endurtekning á því, sem hann áður hefur sagt, svo að ég þarf litlu af því að svara. Þó sagði hann síðast, að mér væri nær að fylgja ríkisstj. að málum um þessi brbl., eða mér skildist það, en að hafa þá afstöðu, sem ég hef, því að það gæti orðið umbjóðendum mínum til skaða, bændastéttinni. Ég vildi fá nánari skýringu á því, hvað hæstv. ráðh. meinar með þessu. Getur það orðið stétt minni til skaða, bændastéttinni, að ég hef hér á hinu háa Alþ. heimtað það, að hún fái að hafa sama rétt og aðrar stéttir, og ég hef gagnrýnt það, að samningsrétturinn hefur verið tekinn af henni um stundarsakir a.m.k., hvað sem til frambúðar verður? Getur það orðið stétt minni, bændastéttinni, til skaða? Hvernig ber að skilja þessi ummæli hæstv. ráðh.? Ég vildi fá skýringu á þessu. Ég hefði haldið það, og ég hef skilið mína afstöðu og flokksbræðra minna þannig, að við værum að verja rétt bændastéttarinnar, eins og við viljum verja rétt annarra stétta í landinu um það að hafa frelsi til samningsgerðar um sín málefni. Við ætlumst ekki til þess, að nein ein stétt eigi að komast áfram með allt, sem henni dettur í hug. En við ætlumst til þess, að hver stétt hafi frelsi til þess að reyna að semja um mál sín, bændastéttin alveg eins og aðrar stéttir. Og svo mikið er víst, að þegar kaupbindingarfrv. var hér á ferðinni um árið, treysti hæstv. ríkisstj. sér ekki til annars en að draga það til baka, af því að hún fann, að hún var þar með mál,. á ferðinni, sem var ranglæti, það var ranglæti, og eins er með þetta mál, það er ranglæti, og þess vegna getur það ekki að mínum dómi skaðað bændastéttina, að ég og aðrir reyni að berjast á móti því, að hún sé svipt samningsrétti með brbl.

Um skuldirnar, sem ég var að tala um hjá bændum, er það að segja, að það er ákaflega eðlilegt, að menn auki skuldir sínar, þegar þeir vetja miklu fé til framkvæmda, og það er ekkert nema gott um það að segja, ef þessar framkvæmdir og það, sem gert hefur verið fyrir féð, sem tekið er til láns, er söluhæft. En hvernig er með jarðir hænda núna og þeirra framkvæmdir í sveitum landsins? Hvaða verð er á jörðum, og hvaða verð er á húsum í sveitum núna? Ég veit ekki betur en að gamlir og grónir bændur fái í raun og veru ekkert fyrir jarðir sínar, þegar þeir fara í burtu. Þeir geta selt bústofninn á gangverði, og svo verða þeir að láta jarðirnar, ja, annaðhvort fyrir ekki neitt eða sama og ekki neitt, þykjast góðir, ef þeir geta losnað við þær fyrir það, sem á þeim hvílir. þetta er bara staðreynd, sem ég veit, að hæstv. landbrh. þekkir alveg eins vel og ég. Það er ekki nema ein og ein jörð, sem selst fyrir sæmilegt verð. Þetta er af því, að fólkið hefur ekki trú á að fara í sveitina, því miður.

Ég er sama sinnis og hæstv. landbrh. um það, að það verður ekki nema um takmarkaðan tíma, sem þessi afgangur verður af framleiðsluvörunum, það verður ekki nema um takmarkaðan tíma. Bráðum kemur sennilega að því, að okkur vantar mjólkurafurðir í landinu, ef svo heldur fram sem nú horfir. Mér er vel kunnugt um, að á Suðurlandi t.d. hafa verið tæmd mörg fjós nú á þessu hausti, allar kýrnar drepnar og fjósin standa tóm, og ef þessu heldur áfram, þá verður auðvitað ekki langt í það, að það verður skortur á mjólkurvörum. Mér heyrist hæstv. landbrh. segja, að þetta sé vitleysa. Ég gæti nefnt nokkuð mörg dæmi um þetta, og auðvitað er þetta af því, að menn hafa ekki trú á þessum atvinnuvegi. Og svo vil ég bæta við: Hvaða vit er í því fyrir einn bónda að stækka svo mikið og auka svo mikið bú sitt, að hann ráði ekkert við það? Ekki getur landbúnaðurinn keppt við aðra atvinnuvegi um vinnuafl. Ég hygg, að hæstv. landbrh. verði að játa það. Og ég hef þann kunnugleika á högum bænda, mér er ósköp vel kunnugt um það, að fjöldi þeirra er þannig settur, að þeir mega aldrei upp lita og eru búnir að slita sér löngu fyrir aldur fram. Við verðum að líta á þessa aðstöðu, og ég álít, að það sé skylda hins háa Alþ. að taka þessi mál til gaumgæfilegrar íhugunar, því að ekki má íslenzka þjóðin missa bændastéttina. Það getur ekki verið, að nokkur Íslendingur sé þeirrar skoðunar. Það væri mjög vanhugsuð ályktun, ef einhver hefði slíkt í höfðinu. Við verðum að hafa bændastéttina til þess að yrkja jörðina og framleiða matvæli handa okkur.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að vera hér með lengri ræðuhöld um þetta mál og skal láta máli mínu lokið.