29.11.1965
Neðri deild: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Ingi R. Helgason:

Herra forseti. Þar sem komið er nú fram yfir venjulegan fundartíma í hv. d., mun ég ekki flytja hér langt mál, þótt nokkurt tilefni sé.

Hv. 3. þm. Reykv. ræddi hér áðan um vísitöluákvæðin og tæpti þar á spurningunni um jafnræði fyrir lögunum, hvernig þeir menn stæðu, sem yrðu að sæta vísitölulánum til íbúðarhúsabygginga, miðað við hina, sem geta fengið lán til að byggja aðrar byggingar, eins og t.d. þau hús, er hann nefndi, hús undir verzlunar- og skrifstofuhúsnæði hér inn við Suðurlandsbraut. Mér þótti það ekki úr vegi þá fyrir hv. þd., að um leið og þessar umr. færu fram, gerðu menn sér tölulega grein fyrir þessum aðstöðumun. Ég leit í tilkynningu veðdeildar Landsbankans um vísitölugreiðslur á þau lán, sem fara gegnum það kerfi til íbúðarhúsabygginga, og vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa fyrir hv. þd. þær tölur, sem tala skýru máli um, hvað vísitöluuppbót á þessi lán þýðir raunverulega eða hefur þýtt á valdatíma núv. ríkisstj. Ég tek 10 þús. kr. bréf, sem er með raunvísitölu 173 stig. 1961 var vísitöluuppbótin á þetta bréf 1965 kr. Henni er þannig háttað, að hún er greidd á hverju ári miðað við framfærsluvísitöluna, eins og hún er 1. júní árið á undan. 1961 var sem sagt vísitöluuppbótin 1965 kr. 1962 hafði hún hækkað um 1388 kr. eða upp í 3353 kr., 1963 hafði hún hækkað um 1213 kr. eða upp í 4566.50 kr., hafði þá hækkað um 35% frá árinu á undan. Árið 1964 hækkar hún um 2312 kr. eða upp í 6878.60 kr. Árið 1965 er vísitöluuppbótin komin upp í 9132.90 kr. eða hefur hækkað um 2254 kr. frá árinu á undan, þá hækkað um 33%. Og á árinu 1966, þ.e.a.s. miðað við framfærsluvísitöluna í júní 1965, er vísitöluuppbót orðin 10693.60 kr. M. ö. o.: á þessu tímabili hefur lántakandi þessa vísitölutryggða láns greitt höfuðstólinn tvisvar auk vaxtanna. Sá, sem hefur þurft að sæta láni til byggingarframkvæmdanna inn við Suðurlandsbraut á sama tíma, hefur þó einvörðungu þurft að greiða vextina.

Ég vildi leyfa mér að lesa þessar tölur fyrir hv. þd., þannig að það lægi fyrir í tölum, hvað þetta vísitöluákvæði hefur þýtt á tímabilinu 1961–1965. Að öðru leyti er hér um að ræða upplýsingar um verðgildisrýrnun peninganna á tímabili hæstv. núv. ríkisstj., en peningarnir hafa fallið í verði samkv. þessari tilkynningu Landsbankans, sem sér um þessar greiðslur, um rúmlega 100%, þ.e.a.s. það er sú raunverulega gengislækkun, sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir á valdaferli sínum.

Það er annað mál og heyrir ekki undir það, sem hér er á dagskrá, og ég skal ekki fara út í það, en hvað hefði skeð með þessa verðgildisrýrnun á peningunum innanlands, ef ekki hefði komið til verðhækkun á okkar útflutningsafurðum á þessu tímabili? Það geta menn hugleitt og velt þeirri spurningu fyrir sér, hvernig ríkisstj. hafi farið að því að verja þeim bættu viðskiptakjörum Íslendinga vegna verðhækkana á útflutningsafurðum okkar á tímabili í verðbólguhítina. En það er annað mál. Ég vildi leyfa mér aðeins að lesa upp þessar tölur, þannig að þegar þetta mál er rætt, vísitölugreiðslur á lán til íbúðarhúsabygginga einna allra bygginga í landinu, gerðu menn sér grein fyrir þessum tölum.