28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur flutt hér tvær ræður. Í fyrri ræðu sinni sagði hann það, að raunverulega giltu þessi brbl. til hausts. Í síðari ræðunni sagði hæstv. ráðh., að skeið þessara brbl. væri á enda um leið og það frv., sem liggur fyrir hv. Alþ. um breytingar á framleiðsluráðsl., öðlaðist gildi. Vera má, að hvort tveggja sé satt, að í hvoru tveggju felist nokkur sannleikur. Í fyrsta lagi liggur það ljóslega fyrir, að sá grundvöllur, sem verðlagið var byggt á s.l. haust, gildir til haustsins 1966, þar til búið er að semja nýjan grundvöll, og hvort breytingarnar, sem fram kunna að koma á verðlaginu hér eftir til hausts, eru reiknaðar samkv. brbl. eða þeim nýju l., sem kunna að koma, er það útreikningur, sem ég hygg, að í aðalatriðum verði nokkurn veginn sá sami, vegna þess að grundvöllurinn, sem fyrir er, verður sá sami.

Það er eitt, sem ég vil vekja athygli á í sambandi við ræðu hæstv. ráðh., og ég vonast eftir, að hann eigi eftir að standa við, ef það skyldi rétt reynast. Hann sagði, hafi ég tekið rétt eftir, að það lægi ljóslega fyrir nú, að bændur mundu fá grundvallarverð sitt fyrir afurðirnar á verðlagsárinu 1965 og 1966. Mér þykir vænt um að heyra þetta, og ég vonast til þess, að ef eitthvað kunni að vanta á þetta síðar, sjái hann svo um, hafi hann ráð til, að bændurnir fái uppborið það, sem á kann að vanta. Það er sannarlega gott að fá þessar upplýsingar hjá hæstv. ráðh., og þakka ég honum fyrir það, og af því að hann hefur það orð á sér að standa við það, sem hann segir, vona ég, að hann standi einnig við þetta.

Þá ræddi hæstv. ráðh. lagasetninguna nokkuð og hélt því fram, að það hefði ekki verið ríkisstj., sem hefði tekið samningsréttinn af bændum. Það kann vel að vera, að frumkvæðið að því, að það var ekki hægt að semja, megi rekja til gerða Alþýðusambands Íslands.

Hins vegar vil ég benda hæstv. ráðh. á það, að ýmislegt kom til greina að gera, þegar þurfti að gefa út brbl. Það var ýmislegt annað, og það veit ég, að hæstv. landbrh. er vel ljóst, að það mátti hafa brbl. með ýmsum öðrum hætti en raun varð á. Og ég veit, að hæstv. ráðh. er kunnugt um, að stjórn Stéttarsambands bænda hafi lagt það til, að gerðardómurinn (yfirdómurinn) yrði gerður starfhæfur, að brbl. fjölluðu um það, að það yrði yfirdómurinn, sá gerðardómur, sem gilt hefur, sem yrði gerður starfhæfur, og það væri sá aðili, sem síðast fjallaði um verðlagið til bænda. Ég býst við því, að ýmsar aðrar leiðir hefðu komið til greina, þegar um útgáfu brbl. var að ræða. Það liggur bara ekki fyrir hér að ræða um það, vegna þess að við ræðum nú um það, sem gert var, og annað ekki.

Ég skal ekkert um það segja, hvernig hin nýja löggjöf kann að verka fyrir bændastéttina. En ég get endurtekið það, sem ég sagði fyrir nokkru hér í hv. Alþ., að ég vonaðist til þess, að sú löggjöf ætti eftir að rétta verulega við hag bændastéttarinnar.

Mér finnst, að það liggi nokkurn veginn í augum uppi nú og það kannske miklu oftar en nokkru sinni hefur áður verið, að bændastéttin þarf á meiri stuðningi hins opinbera að halda á komandi árum en hún hefur þurft. Og það er margt, sem því kann að valda. Það er í fýrsta lagi það, að ekkert hefur verið gert, ekki nokkur skapaður hlutur verið gerður á undanförnum árum til þess að tryggja þeim fjármagn, sem eru að hefja búskap. Og það eru býsna margir ungir menn, sem gjarnan vildu hefja búskap, ef þeir hefðu nægilegan tilstyrk til þess. En þau frv., sem flutt hafa verið um þessi efni hér á hv. Alþ., hafa siður en svo mætt stuðningi hæstv. núv. ríkisstj., og harma ég það, jafnágæt sem stjórnin álítur sig vera, skuli hún ekki hafa haft sinnu á því að reyna að bæta hag þeirra ungu manna og styrkja þá til þess að taka við byggðum býlum í landinu, en horfa á í þess stað mörg glæsileg býli fara í eyði eða vera lítið nytjuð. Þarna er óbrúað bil í íslenzkri löggjöf og núv. ríkisstj., sem hefur hælt sér af að bæta efnahag þjóðarinnar á allan hátt, hefur ekki á þennan hátt neitt bætt, nema siður sé. Þarna hefur bilið, sem á milli er, sífellt breikkað með hinni ört vaxandi dýrtíð, sem raun ber vitni um í öllum sköpuðum hlutum hér á landi.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að þær framkvæmdir, sem eru á döfinni hjá því opinbera nú, hljóta að hafa sín áhrif á landbúnaðinn ekki síður en aðra atvinnuvegi, vegna þess að fjármagnsskorturinn í landbúnaðinum hlýtur að vera það mikill samanborið við hjá öðrum aðilum, að hann verður ekki samkeppnisfær. Það þýðir ekki að tala um neitt vinnuafi, en bændurnir sumir hverjir munu áreiðanlega hugsa sig um tvisvar, hvort þeir eigi að vera að slíta sér út fyrir lítinn pening á sama tíma og þeir geta séð sér og sínum fyrir öruggu framfæri á léttari hátt en margir hverjir bændur verða að sjá sér og sínum farborða nú. Þetta á eftir að segja sína sögu, og ég er viss um það, að þær gerðir ríkisstj. nú, bæði með álverksmiðjuna og framkvæmdir í Hvalfirði og miklar framkvæmdir varðandi virkjun Þjórsár, sem ég tel vera mjög nauðsynlegar, en hefði kannske mátt haga á annan veg, ef ekki hefði verið ráðizt í stóriðju, ég tel, að þetta allt eigi eftir að segja sína sögu, og bændastéttin, sem hefur löngum átt erfitt með að keppa við aðra atvinnuvegi í ört vaxandi dýrtíð, á það miklu lakar hér eftir. Og ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að bæta hag þeirra, sem vilja hefja búskap nú, á hæstv. landbrh. eftir að sjá víða rjóður í skógi, þar sem nú eru glæsileg tré.