28.04.1966
Efri deild: 73. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (1393)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú aðallega bara eitt atriði, sem ég tel ástæðu til þess að leiðrétta. Ég fullyrti ekki áðan, að bændur mundu fá fullt grundvallarverð fyrir verðlagsárið 1965–1966. Ég sagði hins vegar, að bændur hefðu fengið fullt grundvallarverð til þessa, og nú hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík, sem hefur mjólk frá svæðinu austan af Síðu og vestur til Breiðafjarðar, varð útkoman sú, að það var borgað fullt verð, og það eru 4 mánuðir af þessu verðlagsári, 1965–1966. Hitt er vitanlega allt of fljótt að fullyrða nú, að það náist fullt verð fyrir allt verðlagsárið. Því vil ég ekki taka ábyrgð á. Hins vegar vil ég vona það bezta í þessum efnum. Ég vil vona það bezta, að það náist sem mest verð og það takist að selja fyrir betra verð en áður þær vörur, sem við flytjum út. Það hefur ákaflega mikið að segja. Þetta tel ég ástæðu til þess að leiðrétta, ef hv. þm. hefur misskilið það áðan, en ég held, að ég hafi nú ekki sagt það þannig, að það væri bein ástæða til þess. Það leiðréttist hér með. Ég vona það bezta og vek athygli á því, sem ég sagði áðan í sambandi við mjólkina, að hér sunnanlands a.m.k. hefur verið borgað fullt mjólkurverð, og það eru 4 mánuðir af þessu verðlagsári, sem búið er að gera upp.

Ég ætla nú ekki að fara að tefja málið frá n. í kvöld með því að ræða um búskapinn og það, hvað núv. ríkisstj. hefur verið treg á að samþykkja frv. Framsóknarmanna, sem hafa miðað að því að bæta aðstöðu frumbýlinga og bændastéttarinnar í heild. Það er rétt, þessi frv. hafa ekki verið samþ., og frv. í þessa átt voru ekki flutt fyrr en núv. ríkisstj. kom til starfa, en ég held, að það verði nú ákaflega erfitt að halda því fram, að það hafi verið sérstaklega illa búið að landbúnaðinum síðustu árin, og vitnar þar mest um sívaxandi framíeiðsla, enda þótt fólkinu hafi fækkað, sem að framleiðslustörfunum vinnur. Og aukning framleiðslunnar byggist á aukinni vélvæðingu, vaxandi tækni og stóraukinni ræktun, og það hefur gerzt vegna þess, að fjármagn hefur fengizt til þess fyrir dugnað og hagsýni bændanna, sem náttúrlega ræður langmestu þar um, en mér dettur ekki í hug að segja, að ekki mætti betur gera. Mér dettur ekki í hug að fara að fullyrða það og segja: Það er búið að tryggja bændum svo mikið lánsfé, að það er ekki þörf á meiru. En við skulum líta á þessi mál á raunhæfan hátt. Við skulum viðurkenna það, að í lánasjóðum landbúnaðarins hefur alltaf verið fjárskortur síðan ég man eftir mér, og hef ég haft það svona öðrum þræði að atvinnu að taka lán úr þessum sjóðum s.l. 30 ár, tekið marga tugi lána á hverju ári, kannske yfir hundrað stundum sum árin. En það hefur alltaf vantað fjármagn og alltaf orðið að skera niður, en síðari árin hefur þetta fjármagn verið aukið og útlánin farið hækkandi ár frá ári og Stofnlánadeild landbúnaðarins byggist ört upp og verður innan fárra ára traust stofnun og lífakkeri landbúnaðarins. En gjarnan mætti útvega veðdeildinni og stofnlánadeildinni meira fé, og ég vil gjarnan vekja athygli á því, að stofnlánadeildina eða Búnaðarbankann vantar ekki heimildir til þess að lána í allt, sem að landbúnaðinum lýtur. Það vantar ekki löggjöf. Stofnlánadeildin getur lánað í alla þætti landbúnaðarins, aðeins ef hún hefur fé, og það er fjármagnið, sem þarf að útvega eftir beztu getu á hverjum tíma, og þess þarf með, hverjir sem eru í stjórn. Það koma ekki ótæmandi fjársjóðir, sem hægt er að ausa upp, þótt stjórnarskipti hafi orðið, og ég segi það ekkert í ádeilutón á einn eða annan, þegar ég bara minni á það, að það hefur alltaf verið fjárskortur hjá Búnaðarbankanum og lánasjóðum landbúnaðarins. En þetta hefur rýmkazt nú í seinni tíð.