02.05.1966
Efri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

26. mál, verðlagning landbúnaðarvara

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 646 er nál. frá meiri hl. landbn. um þetta mál og stendur þar, að Ragnar Jónsson sé frsm. fyrir hönd meiri hl., en þar sem hann hefur nú vikið úr þessari hv. d., hefur þess verið óskað, að ég segði fáein orð f.h. meiri hl. n., og get ég vel gert það, þar sem ég er algerlega sammála því, sem fram kemur í nál. hans.

Það þarf ekki að hafa langt mál til framsögu fyrir þessu máli. Það var nokkuð rætt hér við I. umr. og er vel kunnugt af blaðaskrifum á s.l. hausti og einnig af umr. í hv. Nd. í vetur. Tildrög þess, að þetta frv. er hér fram komið, eru brbl., sem sett voru á síðasta hausti, þegar úrsögn fulltrúa A.S.Í. úr svokallaðri 6 manna n. varð til þess, að n. varð óstarfhæf og þar af leiðandi ekki hægt að ákveða verð á landbúnaðarvörum í sept. sl. haust, eins og framleiðsluráðsl. gera ráð fyrir, samkv. 2. kafla þeirra l. frá 1960. Þá var fyrirsjáanlegt öngþveiti í þessum málum, ef ekki yrði gripið til ráðstafana, sem að gagni kæmu þegar í stað. Brbl. þessi voru sett 11. sept. 1965 af handhöfum forsetavalds, en forseti var þá fjarverandi sjálfur. Þau ákvæði l., sem gilt hafa síðan, eru í aðalatriðum þau, að verðlagsgrundvöllur sá, sem reiknað var eftir 1964, gildi að því leyti, sem hann getur gilt, en nokkrar hækkanir teknar inn við útreikning á búvöruverðinu, einkum þær, að inn er tekin hækkun frá því, sem útreiknað var 24. febr. 1965, en hafði ekki komið til framkvæmda, og svo bættust við sams konar hækkanir og gilda að því er snertir ellilaun og örorkubætur. Gjaldahækkanir búanna eru hins vegar reiknaðar út á sama hátt og þegar verðlagsgrundvelli er ekki sagt upp fyrir fram.

Þessi brbl. urðu allmikið til umr. á síðasta hausti, en yfirleitt mæltust þau vel fyrir meðal bænda, þó að fram kæmu að vísu nokkrar fundarályktanir, sem mótmæltu l. og töldu þau skerðingu á samningsrétti bóndans. En þar sem þetta óvenjulega ástand hafði skapazt,hygg ég, að ekki hafi verið önnur leið líklegri til þess að fá sæmilega niðurstöðu í þessu máli en sú, sem farin var og hæstv. landbrh. beitti sér fyrir að farin var.

Nú er að sjálfsögðu ekki mikil nauðsyn að ræða um þessi brbl., þar sem þau hafa þegar gegnt hlutverki sínu að gera það mögulegt að ákveða búvöruverð þannig, að vel má við una, að því er ég tel, og að því er bændur almennt töldu s.l. haust. Og þar sem nú er þegar komin fram og er hér til umr. á Alþ. breyting á framleiðsluráðsl., sem verður væntanlega að l. nú innan skamms, má segja, að þetta mál sé þegar búið að ganga sína götu og sé lítið meira um það að tala, en þó er talið nauðsynlegt, að brbl. fái lagagildi frá hv. Alþ. eins og önnur brbl. samkvæmt því, sem kveðið er á í stjórnarskrá Íslands.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar, þar sem, eins og ég sagði áðan, I. eru þegar búin að gegna sínu hlutverki að öðru leyti en forminu til. Enn fremur eru fram komnar breytingar við framleiðsluráðsl. í heild, og þeim hefur verið vel tekið hér á hv. Alþ. og eru mjög líklegar til að ná langt til einróma samþykki Alþ. — Ég legg svo til fyrir hönd meiri hl. landbn., að þetta frv. verði samþykkt.