29.11.1965
Neðri deild: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

6. mál, Húsnæðismálastofnun ríksisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er ekki sérstök ástæða til þess fyrir mig að loknum þeim umr., sem þegar hafa átt sér stað, að tala langt mál. Þó eru örfá atriði, sem ég vildi víkja að, og sér í lagi þeim beinu spurningum, sem til mín hefur verið beint í þessum umr.

Ég vil í fyrsta lagi taka það fram, að þeirri yfirlýsingu hv. 3. þm. Reykv. ber að fagna, að hann býður fram liðsinni sitt til svo óvinsælla ráðstafana, sem hann talaði um áðan, að stöðva verðbólgu á Íslandi, og þess er að vænta, að fleiri gefi slíkar yfirlýsingar, því að það hefur verið réttilega bent hér á í sambandi við vísitöluákvæðið á lánunum og nú síðast af hv. 3. landsk. þm., að töluverðar álögur eru á lántakendur vegna þessa ákvæðis. Það er, eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, fyrst og fremst komið inn í lögin samstiga því, að vísitölugreiðslur voru ákveðnar á laun að nýju, og svo hinu, að öllum þótti sýnt, sem að þessum málum stóðu, að þessi sjóður, byggingarsjóður ríkisins, mundi á skömmum tíma með sömu þróun ganga í sjálfan sig og verða einskis megnugur, eins og því miður átti sér stað um stofnlánasjóði landbúnaðarins. Menn vildu freista þess að halda í við verðbólguna í fyrsta lagi og tryggja sjóðinn gegn því, auk þess sem skyldusparnaðurinn er stórum aukinn liður í tekjuöflun sjóðsins og krefst, eins og fram hefur komið í umr., verðtryggingar, þá þótti einnig eðlilegt og sjálfsagt, að reynt væri að tryggja sjóðinn sjálfan, því að það, sem aðallega hafði verið að fundið undanfarin ár, var, hver biðröðin var eftir lánunum, hve langur biðtíminn var eftir að fá þar nokkra afgreiðslu. Þetta tel ég, að hafi verið meginundirstaðan undir því.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði um það, hvort ríkisstj. hygðist koma þessu á víðar, og hygg ég, að það fari ekki fram hjá neinum, að það felist í frv., sem lagt hefur verið hér fram aftur nú og var lagt fram á síðasta þingi, um verðtryggingu fjárskuldbindinga, en þar segir í b-lið 4. gr.: „Verðtrygging skal fyrst og fremst heimiluð í fjárskuldbindingum, sem eru tengdar öflun fasteigna eða annarra fjármuna, sem ætla má, að hækki í verði með almennum verðlagsbreytingum. Skulu verðtryggð lán ætið vera tryggð með veði í slíkum eignum eða öðrum verðtryggðum kröfum.“ Þetta er sú opinbera yfirlýsing, sem ríkisstj. hefur þegar gefið út um þetta mál.

Ég get vel tekið undir það með hv. 5. þm. Vestf., að allar meginbreytingarnar, sem átt hafa sér stað í þessum málum s.l. 2 ár, eru komnar til í gegnum samninga, og þar hefur verið knúið á um ýmis atriði vegna þess álits, sem forustumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa haft á húsnæðismálum sem aflgjafa í bættri efnahagsafkomu verkafólksins, þau væru þar vaxandi liður, og væri eðlilegt, að þetta atriði yrði tekið upp í samningaviðræðum, með þeim árangri, sem þar hefur sýnt sig.

Og ég tel, að það hafi verið til góðs fyrir þetta málefni í heild, að menn reyndu að ræða þessi mál þar af þeim bezta kunnugleika, sem þeir höfðu, enda var samkomulag í bæði þessi skipti, bæði 1964 og 1965, um þessi mál, að ég tel með ágætum, og hafði ég góða aðstöðu til þess að kynnast þeim samningaviðræðum, þar sem ég tók þátt í þeim í bæði skiptin.

5. þm. Vestf. beindi þeirri sérstöku spurningu til mín, hvort engin áætlun væri um lán til endurbóta á gömlum húsum eða til kaupa á þeim. Þetta er, eins og hann réttilega skýrði frá, gamalt áhugamál allra þeirra, sem nálægt þessum málum hafa komið á undanförnum árum. En ekki hefur verið talið fjárhagslega fært að ganga til móts við þessar óskir, þó að allir viðurkenndu réttmæti þeirra, eingöngu af fjárhagsástæðum. Þau verkefni, sem húsnæðismálastjórn eru falin með núverandi löggjöf, eru mikil og með þeim breytingum, sem hér eru til umr., er ekki bætt inn þessari heimild, vegna þess að menn telja, að enn þá sé ekki kominn sá fjárhagslegi grundvöllur, sem nauðsynlegt sé að skapa, sú aukning á lánsfénu, sem nauðsynleg væri til þess að opna þessar nýju lánsheimildir.

Varðandi það, sem hv. þm. minnti á í sambandi við nýjan lánaflokk veðdeildarinnar, verður að skýra frá því, eins og er, að það er eingöngu á vegum veðdeildarinnar sjálfrar og sjálfs Landsbankans, en óviðkomandi lögunum um húsnæðismálastjórn.

Ég tel, að önnur atriði, sem hér hafa komið fram, séu ekki þess eðlis, að þau krefjist beinna svara af minni hendi. En ég vil ítreka þá ósk mína, sem ég hafði frammi í framsöguræðu, að n. hraði svo störfum sem unnt er til að afgreiða þetta mál. því að það þarf nauðsynlega að fá afgreiðslu fyrir áramót. Einu atriði vildi ég þó víkja að, sem hv. 3. þm. Reykv. minntist á áðan, en það var varðandi afnám l. um hámark húsaleigu. Ég skýrði frá því í minni framsöguræðu, að húsnæðismálastjórn hefur verið falið það verkefni að endurskoða þetta ákvæði, einmitt með hliðsjón af þessari niðurfellingu, sem frv. þetta gerir ráð fyrir á þeim lögum. En það var þegar ljóst, að þegar sett var inn heimild, sem virðist mælast mjög vel fyrir hjá bæjarfélögunum, að mega lána þeim til byggingar lítilla, en hagkvæmra leiguíbúða, barst þegar fjöldi umsókna frá bæjarfélögum víðs vegar um land um aðstoð í þessu efni. Ákvæði var í frv. um, að sérstök reglugerð um framkvæmd þessa máls skyldi sett. Strax og uppkast hafði verið gert að þessari reglugerð, var ljóst, að ekki var unnt að gefa hana út vegna þeirra ákvæða, sem í gildi eru um hámark húsaleigu. Það er því beinlínis val á milli þess að fresta öllum þeim aðgerðum, sem bæjarfélögin mæna nú á, að gert verði í þessum efnum varðandi leiguhúsnæðið og bæta úr þeirri sáru vöntun, sem er á þessari tegund húsnæðis, fresta því um óákveðinn tíma, meðan verið er að semja ný ákvæði um hámark húsaleigu, eða fella l. úr gildi, þannig að hægt væri að gefa þessa reglugerð út og hefja þessa nauðsynlegu starfsemi, sem heimiluð er með þessu lagaákvæði. Síðari leiðin var valin, en húsnæðismálastjórn, eins og ég áðan sagði, um leið falið að gera till. að nýjum lagaákvæðum um þetta atriði.