29.11.1965
Neðri deild: 23. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

72. mál, hægri handar umferð

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir til umr., frv. til I. um hægri handar umferð í landinu, er ekki nýtt af nálinni. Það vill svo einkennilega til, að á árinu 1940 voru sett hér á landi í fyrsta sinn sérstök umferðarlög og sama ár einnig ný bifreiðalög og hvor tveggja þessi lög höfðu að geyma ný ákvæði um umferð, þar sem ákveðið var að taka upp hægri handar umferð hér á landi. Eins og kunnugt er, kom þetta þó ekki til framkvæmda, og það var m.a. vegna þess, að eftir að brezkur her kom hér til landsins, þótti það hafa þau áhrif á umferðina, þar sem þeir voru vanir vinstri handar akstri frá Bretlandi, að ákvæðin voru með brbl. felld úr gildi. Síðan hefur málinu skotið upp við og við, og á Alþ. 1962–1963 var það til umr., án þess að það hlyti þá afgreiðslu, en 1964 var málið enn til meðferðar í Sþ. og þá afgreidd og samþ. þáltill., sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hefja hið allra fyrsta undirbúning að því, að upp verði tekinn hægri handar akstur hér á landi.“

Við meðferð málsins á þingi þá hafði verið leitað umsagnar ýmissa aðila, sem helzt eru þessu máli tengdir, bæði vegna sérfræðiþekkingar og hagsmuna, vegamálastjóra, Félags ísl. bifreiðaeigenda, Landssambands vörubifreiðarstjóra og umferðarnefndar Reykjavíkur, og allir þessir aðilar lýstu stuðningi við hægri handar umferð, og ýmsir fleiri hafa lýst yfir stuðningi sínum við að taka upp þessa reglu. Það var svo í framhaldi af þessu, að ég skrifaði umferðarlaganefndinni og bað um endurskoðaða grg. frá henni um þetta mál, og hún skilaði þeirri grg. 4. febr. s.l. Eftir að ríkisstj. hafði haft aðstöðu til þess að athuga málið og eftir að ég hafði þá haft samráð við stjórnarandstöðuna, bað ég umferðarlaganefnd um að undirbúa fyrir þetta þing frv, til l. um hægri handar akstur. Nú vil ég taka það fram, að hvorki einstakir ráðh. né ríkisstj. sem slík er bundin við endanlega afgreiðslu þessa máís, og það, sem ég sagði um, að ég hefði haft samráð við stjórnarandstöðuna, á þar einnig við. Ég vildi aðeins kynna þeim málið, áður en lengra væri farið, og vita a.m.k., að ekki væri nein andstaða gegn því.

Þetta mál er sem sagt undirbúið eftir ályktun frá Alþ. sjálfu og lagt fyrir þingið. Að sjálfsögðu er hér ekki um neitt flokkspólitískt mál að ræða, en ég tel, að málið sé mjög viðurhlutamikið og þurfi gaumgæfilega athugun í þinginu, og það má segja, að að vissu leyti sé það þannig vaxið, að ef þinginu þóknast ekki að vilja samþykkja þetta frv. nú, mundi ég álíta, að það gæti orðið löng bið, að breyting yrði á því, sem við nú búum við.

Ég skal aðeins fylgja þessu úr hlaði með nokkrum orðum. Ég vitna fyrst og fremst til þess, að frv. fylgir mjög ítarleg grg. frá umferðarlaganefnd og upplýsingar, sem máli skipta, bæði um efnishlið málsins, um kostnaðinn af því að breyta þessu og um skoðanir annarra þjóða á slíku máli og þá fyrst og fremst Svíþjóðar, sem eins og við hefur vinstri handar akstur, en hefur ákveðið að taka upp hjá sér hægri handar akstur haustið 1967, en eftir þessu frv., ef að lögum yrði, er gert ráð fyrir, að breytingin kæmi til framkvæmda hjá okkur vorið 1968.

Það er ekki hægt að segja, að það sé nein önnur regla hinni betri, að aka vinstra megin á vegi eða hægra megin á vegi, það er öllum ljóst. Það er töluvert tilviljunum háð, hvernig þetta er eða hefur verið og var hjá þjóðunum í Evrópu og þeim, sem við höfum nánust skipti við. Þróunin færist í þá átt, að þær hafa breytt hjá sér úr vinstri handar akstri og yfir í hægri handar akstur. Hægri akstur eða hægri umferð, skulum við segja, er alþjóðaregla í lofti og legi, og frá því sjónarmiði virðist þetta einnig eðlilegra, en þó sérstaklega vegna aukinna samskipta þjóða og meiri umferðar á milli íanda en áður má telja æskilegt, að sömu reglur gildi. Það má segja, að við séum með nokkra sérstöðu sem eyland norður í Atlantshafi og að því leyti allt öðruvísi en lönd, sem hafa samliggjandi landamæri og iðulega flutninga eða umferð til og frá. Þó verð ég að segja, að það færist mikið í vöxt hjá okkur, að Íslendingar fari með bifreiðar sínar erlendis og aki þeim þar, og á hitt er svo einnig að lita, að það fer mjög í vöxt, að Íslendingar, sem staddir eru erlendis, noti bifreiðar erlendis, enda þótt þeir flytji ekki bifreiðar sínar sjálfir með sér, og sú þjónusta, sem tekin hefur verið upp í Evrópulöndunum og í Ameríku, að láta mönnum í té við mjög hagkvæmum kjörum leigubíla, er sívaxandi, og t.d. þekkjum við það, að það hefur færzt mikið í vöxt hér innanlands, að menn fá sér leigða bíla á þeim stað, þar sem þeir eru í það og það skiptið. Frá þessu sjónarmiði má segja, að málið sé þýðingarmeira en ella mundi vera, ef við aðeins litum á aðstöðu okkar sem eylands.

Annars er gerð grein fyrir rökum með og móti í grg., og hafa menn góða aðstöðu til þess að kynna sér það. Ég skal ekki eyða miklum tíma í það. Það kemur fram í VII. kaflanum í aths„ þá eru teknir upp sex liðir sem helztu rök fyrir breytingu úr vinstri í hægri handar umferð, og það er, með leyfi hæstv. forseta:

1) Hægri handar umferð er meginreglan í umferð á landi.

2) Mörg lönd með vinstri handar umferð hafa á síðari áratugum skipt í hægri handar umferð.

3) Alþjóðareglur um umferð á sjó og í lofti miðast við hægri handar umferð.

4) Bifreiðar eru yfirleitt framleiddar með stýri vinstra megin, og veitir sá búnaður ökumönnum betri yfirsýn og meira öryggi í hægri handar umferð. Eigi eru allar gerðir bifreiða framleiddar þannig, að henti vinstri handar umferð. Í sumum tilvikum eru bifreiðar, er henta vinstri handar umferð, nú þegar dýrari.

5) Slysahætta er mikil af því að hafa mismunandi umferðarreglur og er stöðug og vaxandi, en hættan af breytingu er hins vegar tímabundin. Ef vel er á haldið, mun kynningarstarfsemi í sambandi við breytinguna hafa varanleg áhrif til að bæta umferðina.

6) Kostnaður við breytingu vex ört, ef dregið verður að framkvæma hana. Sá kostnaðarauki verður einkum vegna væntanlegra umferðarmannvirkja.

Það eru þarna aðeins atriði, sem ég vildi leggja svolitla aukna áherzlu á. Það vill svo einkennilega til, að þó að við höfum vinstri handar akstur, eru langflestar bifreiðar hjá okkur með stýri vinstra megin, og það er alveg augljóst, að það er verra að aka í vinstri handar umferð með vinstri handar stýri. Þetta á við um hægri handar umferð, enda vitum við það, að þegar á að fara fram úr bíl, er erfitt að sjá, þegar maður er vinstra megin, fram úr honum. Þetta horfir öðruvísi við, þegar maður flytur umferðina yfir á hægri vegarkantinn. Það má segja, að í okkar landi með mjög frumstæða vegi hafi kannske hættan fyrst og fremst verið hjá okkur að fara ekki út af vegarkantinum á okkar þröngu og ófullkomnu vegum og væri að því leyti betra að vera vinstra megin, en eftir því sem umferðin vex og þar sem hún er mest í margmenninu, í höfuðstaðnum og bæjunum hér í kring og byggðinni hér í kring, verður hættan af sjálfum bílunum og umferðinni meiri en af vegarkantinum, og þá er einnig betra að vera hægra megin á vegarkantinum, og bílarnir fara þeim megin fram úr, þar sem ökumaðurinn sjálfur situr. Það er svo rétt, að það er slysahætta af að breyta þessu, enginn vafi á því, og ég vil ekki draga úr henni. En ég vil vekja athugli á því, sem n. segir, að ef vel er á haldið, mun kynningarstarfsemi í sambandi við breytinguna hafa varanleg áhrif til að bæta umferðina. Þetta held ég, að sé nokkuð mikils virði. Umferðarmenningin er ekki of góð hjá okkur, og því miður þurfum við að horfa upp á ýmsar misfellur í umferðinni. Það þurfa raunverulega allir að taka sig á, þegar á að breyta frá vinstri til hægri, og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Og sú auglýsingastarfsemi og sú athygli, sem að því beinist að breyta frá vinstri til hægri, held ég þess vegna örugglega gæti haft nokkur varanleg áhrif til bóta í umferðinni og sé nokkurs virði í sambandi við þetta mál. Það er einnig svo, að það er verið að gera ýmsar áætlanir um miklar umferðaræðar hér í höfuðborginni og á aðalleiðum út úr höfuðborginni og í næsta nágrenni, þar sem margmennið er mest, og það er að ýmsu leyti mjög æskilegt í þeim ráðagerðum, sem þar eru uppi, að vitað sé með nokkrum fyrirvara, að hverju stefnir í þessu sambandi.

Um efni frv. get ég orðið fáorður. Til þess að koma þessu í kring er ráðgert að setja upp framkvæmdanefnd samkv. 2. gr. frv., það er ráðgert að setja upp dómnefnd til þess að meta kröfur manna til skaðabóta samkv. l í. gr. frv., og svo er gert ráð fyrir því, að kostnaður, sem leiðir af breytingu úr vinstri handar í hægri handar umferð, greiðist úr ríkissjóði samkv. því, sem nánar er ákveðið í l. Er í 12. gr. ákvæði um skattlagningu á bifreiðar til að bera þann kostnað, sem ríkissjóður á að bera í þessu sambandi. Skatturinn virðist ekki ýkja hár vegna þess, hve bifreiðatalan er há hjá okkur. Eins og þar er gert ráð fyrir, er ætlað, að fyrir fólksbifreiðar frá 1–8 farþega eigi að borga 200 kr. árið 1966, 300 árið 1967, 400 árið 1968 og 200 kr. árið 1969. Af öðrum bifreiðum er þetta svo hærra, eins og getur í b-lið. Heildarkostnaðurinn er þó áætlaður af þessu um 50 millj. kr. Þar er langstærsti kostnaðarliðurinn breytingar á almenningsbifreiðum, en hann er áætlaður 36.3 millj. kr.

Ég skal nú ekki taka meiri tíma til þess að gera grein fyrir þessu máli. Ég legg áherzlu á, eins og ég sagði áðan, að þó að stjórnin hafi undirbúið þetta að fyrirlagi þingsins, eru menn óbundnir í málinu. Ég bið þm. um að athuga alvarlega málið. Ég vil ekki skiljast við málið öðruvísi en svo, að ég get lýst því sem minni persónulegu skoðun, að ég tel, að við eigum að samþykkja þetta frv. og taka upp hægri handar akstur, eins og ráð er fyrir gert samkv. frv., og með þeim hætti, sem þar er lagt til, á árinu 1968. Ég tel, að sjálfur hafi ég sannfærzt í æ ríkara mæli um, að það sé rétt að gera þetta og gera þetta núna, eftir því sem ég hef haft aðstöðu til þess að kynna mér þetta mát nánar. Ég vildi svo mega leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til allshn.