22.03.1966
Neðri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

72. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og ljóst er af þskj. mælir meiri hl. allshn. með því, að frv. til l. um hægri handar umferð verði lögfest, en einn nefndarmanna leggur gegn frv. Þrír nefndarmanna hafa þó fyrirvara um afstöðu sína. Þeir, sem að meirihlutaálitinu standa, áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., og hafa raunar tveir þeirra, hv. l. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Sunnl., lagt fram eina brtt., sem felur það í sér, að IV. kafli frv., þ.e.a.s. um tekjuöflun til þess að standa undir kostnaði við breyt. úr vinstri handar akstri í hægri handar akstur, verði felldur niður, en að öðru leyti fallast þeir á frv., og mér er ekki kunnugt um, að einstakir nefndarmenn hafi aðrar brtt. fram að færa við einstaka kafla eða einstakar greinar frv.

Eins og fram kemur í grg. með frv., felur l. gr. það í sér, að gerðar skuli nauðsynlegar breyt. á umferðarlögum, til þess að upp verði tekin sú regla, að í umferðinni skuli vikið til hægri, en ekki til vinstri, eins og tíðkazt hefur. Þetta er í sjálfu sér mjög einföld breyt. á umferðarlögunum, og sérstaklega er hún einföld vegna þess, að þegar umferðarlaganefnd fékk það verkefni að endurskoða umferðarlögin 1956, gerði hún ráð fyrir því, að upp yrði tekin hægri handar umferð hér á landi, og miðaði till. sínar við það. Ekki varð þó af því, þegar þau umferðarlög, sem nú gilda, voru lögfest 1958.

Að öðru leyti gerir frv. ráð fyrir því, hvernig breyt. skuli undirbúin, hvernig kostnaður af breyt. skuli greiddur og hvernig afla skuli tekna til þess að greiða þann kostnað, og sé ég ekki ástæðu til að rekja einstakar gr. frv. ýtarlega. Ég tel, að það sé mjög vel unnið og af mönnum, sem hafa staðgóða þekkingu á þessum málum öllum. Þeir hafa einnig haft sér til fyrirmyndar þann undirbúning, sem unninn hefur verið vegna sams konar hreyt. í Svíþjóð, sem hefur verið lengi á döfinni og er áreiðanlega unninn af færustu mönnum.

Aðalatriði þessa máls er það, hvort rétt sé eða tímabært að breyta umferðarreglunum þannig, að upp verði tekin hægri handar umferð í stað vinstri handar umferðar. Um þetta geta menn að sjálfsögðu haft mismunandi skoðanir, en ég hygg, að það sé mat þeirra manna, sem gleggsta yfirsýn og mestan kunnugleika hafa á þessum málum, að rétt sé að draga ekki lengur að gera þessa breyt. Alþingi hafði áður ákveðið, árið 1940, að taka upp hægri handar umferð. Ef það hefði verið gert þá, hefði sú breyting kostað mjög lítið, eða aðeins 50 þús. kr., en árið 1956 var áætlað, að breyt. mundi kosta 5.6 millj. kr., og nú er gert ráð fyrir, eins og frv. ber með sér, að breyt. muni kosta um 50 millj. kr. Aðalkostnaðurinn við hreyt. er fólginn í þeim breyt., sem gera þarf á strætisvögnum og öðrum almenningsvögnum. Kostnaðurinn er enn þá tiltölulega lítill við umferðarmannvirki, en eins og öllum hv. þm. er kunnugt, mun væntanlega ekki líða á löngu, unz byggð verði mjög kostnaðarsöm umferðarmannvirki hér í Reykjavík og næsta nágrenni. Og í kaupstöðum og kauptúnum úti á landi er það stöðugt að verða algengara, að gerðar séu götur úr varanlegum efnum. Eftir því sem þessi þróun nær lengra og lengur dregst að gera þessa breytingu á umferðarreglunum, er fyrirsjáanlegt, að breytingin verður kostnaðarsamari með hverju ári sem líður.

Reynsla Svía í þessu efni er mjög lærdómsrík. Þeir áætluðu 1943, að kostnaður við breyt. þá mundi verða 16 millj. kr. Árið 1946 var þessi kostnaður aftur áætlaður þar í landi, þá var hann talinn 27 millj. kr. 1959 var hann kominn upp í 215 millj. kr., 1961 var hann kominn upp í 325 millj. kr. og 1963 var hann áætlaður 400 millj. kr. Nú er það ákveðið, að breytingin hjá Svíum á að ske á næsta ári, og þá er kostnaðurinn hjá þeim áætlaður 550 millj. sænskra kr.

Það er einnig annað atriði, sem er mjög þungt á metunum í þessu efni, þegar menn gera upp hug sinn til þessa máls, og það er sú staðreynd, að eins og nú er komið, eru ekki framleiddir strætisvagnar eða almenningsvagnar í neinu landi í Evrópu, öðru en Bretlandi, með stýrisútbúnaði og dyraumbúnaði fyrir vinstri handar umferð. Þetta þýðir, að þeir, sem þurfa að annast innkaup á þessum þýðingarmiklu almenningstækjum, hafa úr litlu að velja. Þeir hafa úr mjög litlu að velja, og úrvalið þrengist stöðugt. Nú þegar er svo komið, að vegna fyrirhugaðrar breytingar á umferðarreglunum í Svíþjóð eru stærstu og þekktustu bílasmiðjur Svíþjóðar hættar að framleiða almenningsvagna, sem eru útbúnir fyrir vinstri handar umferð. Það verður að sjálfsögðu hægt að fá vagna útbúna með stýri og dyraumbúnaði fyrir vinstri handar umferð eftirleiðis, en það verður miklu kostnaðarsamara og óþægilegra heldur en ef keyptir eru vagnar, sem koma beint frá verksmiðju með þeim útbúnaði, sem hentar umferðinni. Ef menn ætluðu hins vegar að losna við að gera breytingar á vögnunum, t.d. varðandi staðsetningu stýrisins, þ.e.a.s. ef aka ætti í vinstri handar umferð með stýrið vinstra megin, þá mundi það þýða, að það þyrfti aðstoðarmenn í strætisvagnana. Þá þyrfti 2 menn í staðinn fyrir 1, og hér í Reykjavík einni er mér tjáð, að sá kostnaðarauki mundi vera hvorki meira né minna en 12–15 millj. kr. á ári.

Þetta er varðandi efnahagshlið málsins, ef svo mætti segja, en öryggishliðin er að sjálfsögðu engu síður mikilvæg. Segja má sem svo, að vinstri handar reglan sé jafngóð hægri handar reglunni út af fyrir sig. En það, sem er kjarni málsins í því tilliti, er það, að fylgt sé sem samræmdustum reglum landa á milli í umferðinni, hvort sem ferðazt er á láði, í lofti eða á legi. Það gildir á sjó og í lofti, að vikið skal til hægri, þannig að flugmaður, sem stígur út úr flugvél hér á Reykjavíkurflugvelli og fer að aka bíl, verður að gæta sín að muna eftir, að hann á að fara eftir annarri umferðarreglu, þegar hann er kominn af flugvellinum, út á götuna. Meðan hann er á flugbrautinni, á hann að víkja til hægri, þegar hann er kominn út á götuna, á hann að víkja til vinstri. Þetta hefur að vísu, enn sem komið er, ekki valdið slysum hjá okkur, en ég hef haft spurnir af því, að það hafi komið fyrir, að ekki hafi miklu munað.

Ekki má eingöngu hugsa um þá, sem stýra flutningatækjum eða ökutækjum. Það verður líka að hugsa um gangandi fólkið. Með þeim öru samgöngum, sem nú tíðkast milli Íslands og annarra landa, er það stöðugt stærri og stærri hópur fólks, sem þarf á nokkurra klukkutíma fresti að skipta um umferðarreglur, ef svo mætti segja, eftir því, hvort þeir fara héðan til annarra landa eða koma heim frá útlöndum. Að mati allra þeirra aðila, sem mest hafa með umferðarmálin að gera og kunnugastir eru þessum málum, er æskilegt, að umferðarreglur þjóða í milli og umferðarreglur milli einstakra greina farartækja, sem ferðazt er með, séu sem samræmdastar. Það má að vísu segja, að þetta sé ekki eins stórt mál hjá okkur eins og t.d. hjá Svíum, en samt sem áður er þetta vaxandi vandamál, eftir því sem samgöngurnar aukast og eftir því sem tíminn liður.

Það er fært fram sem rök gegn því að taka upp hægri handar umferð, að í því fyrirkomulagi, sem nú er á staðsetningu stýris í bifreiðum, — þ.e.a.s. að stýrið er í meginþorra allra bifreiða hér á landi staðsett fyrir hægri handar umferð, — sé talsvert öryggi. Menn segja sem svo, að þetta sé til öryggis fyrir þá, sem þurfa að mætast á þröngum vegum og fara út á vegbrún. Það er í sjálfu sér alveg rétt, að það er nokkurt öryggi í þessu. En á hitt er svo að líta, að vegakerfið fer stöðugt batnandi og það verður stöðugt meiri umferð í þéttbýli á tiltölulega greiðförnum végum. Að dómi þeirra, sem ég tel að mest vit hafi á þessu, er það meira um vert, að stýri sé staðsett nálægt vegarmiðju, þegar bílar mætast, þannig að bílstjórarnir sjái hvor til annars, því að það er talið, að það séu verstu umferðarslysin, sem verða með þeim hætti, að tveir bílar rekast á á fullri ferð. Þau hafi í flestum tilfellum alvarlegri afleiðingar en jafnvel útafkeyrslur og bílveltur.

Annað atriði, sem mikið hefur verið gert úr af þeim, sem mæla á móti breytingunni, er það, að breytingunni sjálfri muni fylgja mikil slysahætta og þeir, sem ætli sér að samþykkja lagabreytingu eins og þessa, kunni að hafa mörg mannslíf á samvizkunni. Þetta mál hefur verið gaumgæfilega rannsakað af þeim, sem undirbjuggu frv., og í þeim gögnum, sem höfundar frv. hafa aflað sér, er hvergi að finna upplýsingar um, að nein veruleg slysahætta hafi verið samfara breytingunni, þegar hún var gerð, þar sem hún hefur verið nægilega undirbúin með fræðslu og áróðri og með eftirliti fyrstu dagana, á meðan menn voru að venjast breytingunni. Víðast hvar, eins og rakið er í nál., þar sem þessi breyting hefur verið gerð, hefur umferðin verið komin í samt lag eftir 2—3 daga, frá því að breytingin tók gildi.

Á fundi allshn. var n., sem samdi frv., spurð að því, hvort hún hefði kynnt sér afstöðu tryggingarfélaga til breytingarinnar. Einn af nm., Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari varð fyrir svörum og upplýsti, að tryggingarfélögin teldu sig ekki þurfa að hækka tryggingariðgjöld vegna þessarar breytingar, þótt hún næði fram að ganga, og það mundi hvergi hafa valdið neinni hækkun á tryggingariðgjöldum, þó að ákveðið hafi verið að breyta úr vinstri í hægri handar umferð.

Þetta held ég, að tali greinilega sínu máli um slysahættuna, sem menn telja að breytingunni sé samfara. Tryggingarfélög víðast hvar í heiminum fylgjast mjög nákvæmlega með slysatíðninni og halda glöggar skýrslur um slysin og orsakir þeirra. Það er enginn vafi á því, að ef slysatryggingarfélögin teldu, að sú breyting, sem frv. gerir ráð fyrir, væri stórkostlega hættuleg, mundu þau hiklaust láta það koma fram í hækkuðum iðgjöldum. En eftir þeim upplýsingum, sem allshn. hefur fengið, hefur það hvergi átt sér stað, og þarf væntanlega ekki að eiga sér stað hér á landi, ef breytingin er nægilega vel undirbúin, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Eins og ég gat um áðan, er í raun og veru ágreiningur á milli okkar, sem stöndum að þessu nál., aðeins um það, hvernig afla skuli fjár til að standa undir kostnaðinum við breytinguna. Í frv. er lagt til, að lagt sé gjald á bifreiðar á árunum 1966–1969, sem verði mismunandi hátt eftir árum. Það verði lægst fyrsta árið, en hæst árið 1968, þegar breytingin á að fara fram, en lækki svo aftur árið 1969. Þetta gjald á eftir till. frv. að geta numið frá 200 kr. á ári til 400 kr. á ári á hverja bifreið, og verð ég að segja sem mína skoðun, að ég tel þetta ekki þungan skatt, og ég hygg, að ef siðar ætti að framkvæma þá breytingu, sem frv. fjallar um, mundi leggjast meiri skattur á þjóðina en þarna er gert ráð fyrir. Mín skoðun er líka sú, að þessi skattlagningaraðferð hafi þann kost, að þarna sé í eitt skipti fyrir öll lagður á skattur, sem síðan eigi ekki eftir að festast, ef svo mætti segja, sem almennur skattur. Sú hætta hygg ég að geti verið fyrir hendi, ef farin er sú leið að láta borga kostnaðinn vegna breytingarinnar beint úr ríkissjóði af venjulegum almennum sköttum.

Eins og fram er tekið í nál., er það sameiginleg skoðun okkar, sem að því stöndum, að það atriði, hvernig kostnaðurinn sé greiddur, sé í raun og veru ekki aðalatriðið, heldur hitt, að nú þegar sé tekin ákvörðun um að gera þá breytingu, sem lögð er til í frv., þ.e.a.s. að tekin verði upp hægri handar umferð hér á landi í stað vinstri handar umferðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að fara um þetta mál fleiri orðum. Málið hefur verið mjög vandlega undirbúið, eins og ég tók fram í upphafi, af mönnum með staðgóða þekkingu á þeim hlutum, sem um er fjallað, og undir meðferð málsins á ýmsum stigum hafa aðilar um það fjallað eins og vegamálastjóri, Landssamband vörubifreiðastjóra, umferðarnefnd Reykjavíkur, en í henni eiga sæti kjörnir fulltrúar borgarráðs, lögreglustjórinn í Reykjavík, borgarverkfræðingur, fulltrúar Slysavarnafélags Íslands, Félags ísl. bifreiðaeigenda, Félags vörubifreiðastjóra, Frama, félags leigubifreiðastjóra, og fulltrúar Strætisvagna Reykjavíkur. Ég hygg, að segja megi, að þessir aðilar eigi öðrum fremur að kunna góð skil á umferðarmálum, og þeir hafa allir lýst sig fylgjandi breytingunni.

Ég leyfi mér að svo mæltu, herra forseti, að leggja til fyrir hönd meiri hl. allshn., að frv. verði samþ.