22.03.1966
Neðri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

72. mál, hægri handar umferð

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. allshn. tók fram í ræðu sinni, höfum við 3 nm. skrifað undir nál. á þskj. 331 með fyrirvara.

Í IV. kafla þessa frv. eru ákvæði um nýjan skatt. Þar er lagt til, að á árunum 1966–1969 skuli greiða í ríkissjóð sérstakan skatt af bifreiðum. Það er áætlað í athugasemdum með frv., að skattur þessi muni alls nema 51.8 millj. kr., og til þess er ætlazt, að þessi skattur fari til þess að mæta kostnaði ríkissjóðs af þeirri breytingu á umferðarreglum, sem lagt er til í frv. að gerð verði.

Fyrirvari minn og hv. 4. þm. Sunnl. er um þennan IV. kafla. Við erum mótfallnir því að leggja þennan aukaskatt á bifreiðaeigendur. Benda má á, að ríkissjóður hefur mjög miklar tekjur af bifreiðum skv. sérstökum lögum og einnig tolla og söluskatt af innfluttum bifreiðum og hlutum til þeirra. Þetta nemur allt háum fjárhæðum, sem bifreiðaeigendur nú þurfa að borga. Enn er á það að benda, að ríkissjóður er nú hættur að leggja fram fé til vegagerðar, en áður var fjárframlag til vegagerðar alistór liður í fjárlögum ríkisins ár hvert.

Í einni gr. vegalaganna, sem sett voru í árslok 1963, segir þó, að til greiðslu kostnaðar skv. vegalögunum skuli veita árlegt sérstakt framlag á fjárlögum, sem komi til tekna vegasjóði til viðbótar innflutningsgjaldi af benzíni, tekjum af þungaskatti og gúmmígjaldi, sem nú rennur til vegasjóðsins. En þrátt fyrir þetta ákvæði í vegalögunum, að árlega skuli veita sérstakt framlag á fjárlögum til vegasjóðs, er það nú, eins og ég áðan sagði, niður fallið.

Í fjárlögum ársins 1966 er undir liðnum vegamál í 13. gr. aðeins veittur styrkur til að halda uppi byggð og gistingu handa ferðamönnum, 220 þús., og til nýbýlavega, 160 þús. þetta er allt og sumt, sem ætlað er til vegamála úr ríkissjóði á árinu 1966.

Árið 1965 var hins vegar á fjárlögum 47 millj. kr. fjárveiting til vegamála, og skv. ríkisreikningi fyrir árið 1964 var það ár veitt úr ríkissjóði 47.1 millj. til vegamála.

Í umr. um vegamálin á Alþ. hafði hæstv. ríkisstj. gefið fyrirheit um, að ríkisframlagið til vegamála skyldi ekki fara niður fyrir 47 millj. En það fyrirheit reyndist einskis virði. Ríkisstj. stóð ekki við þetta loforð um framlag úr ríkissjóði til vegagerða, eins og kunnugt er af umr., sem fóru fram um þetta mál fyrr á þessu þingi. Hún felldi þetta framlag niður úr fjárlögunum 1966, eins og ég hef þegar gert grein fyrir, en hækkaði benzínskattinn stórlega í staðinn.

Þegar á þetta er litið, háa skatta og tolla, sem bifreiðanotendur þurfa að borga nú þegar, og mjög mikla hækkun á benzínskatti, sem nýlega hefur orðið, má vissulega segja, að mælirinn sé orðinn fullur. Við teljum því mjög ósanngjarnt að lögfesta þann nýja skatt af bifreiðum, sem frv. gerir ráð fyrir, og við höfum lagt fram brtt. á þskj. 354, ég og hv. 4. þm. Sunnl., um það, að IV. kafli frv., þ.e.a.s. 12.–15. gr. þess, verði felldur niður.

Það er að vísu ekki gert ráð fyrir neinum útgjöldum af þessu á fjárlagafrv. fyrir 1966, enda ekki við því að búast, því að þá var ekki þetta frv. komið fram, hvað þá orðið að l. En þetta á ekki að koma að neinni sök, vegna þess að þótt frv. verði samþ., á breytingin, sem þar er gert ráð fyrir, ekki að koma til framkvæmda fyrr en á vordögum 1968, og því er nægur tími að gera ráð fyrir útgjöldum ríkisins af framkvæmd laganna á fjárlögum fyrir þann tíma. Má líka á það benda, að skv. IV. kafla frv. er aðeins gert ráð fyrir því, að lítill hluti af skattinum verði greiddur á þessu ári. Það er því auðvelt að koma þessum gjöldum fyrir á fjárlögum í tæka tíð, áður en til þess þarf að taka að borga þau gjöld, sem verða samfara þessari breytingu.

Að samþykktri þessari till. okkar leggjum við svo til, að frv. verði samþykkt.

Þá er það aðeins ábending til hæstv. forseta um meðferð málsins. Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl., var einn maður í allshn., hv. 4. þm. Norðurl. v., sem lýsti sig andvígan málinu. Nú hefur hann fjarvistarleyfi og hefur tafizt vegna ófærðar og er ekki hér staddur í dag, og ég vildi skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann teldi ekki rétt að fresta nú umr., þannig að hv. 4. þm. Norðurl. v. geti gert grein fyrir áliti sínu og skilað því, eins og venjulegt er við 2. umr. Væntanlega verður hann kominn hingað til þings næst þegar fundur verður haldinn í hv. þd.