28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2189 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

72. mál, hægri handar umferð

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti. Það má vafalaust lengi deila um það, hvort taka eigi upp hér á Íslandi hægri handar umferð eða halda sig við hina svonefndu vinstri handar umferð, sem ríkt hefur. Ég tel, að það þurfi nokkuð sterk rök fyrir því að fara út í þá breytingu, sem hér er fyrirhuguð. Ég sé ekki neina sérstaka nauðsyn bera til þess, að hér á Íslandi verði hægri handar akstur lögleiddur og í því sambandi færðar þær fórnir, sem óhjákvæmilega hljóta að vera því samfara, bæði í miklum fjármunum og ekki síður í mikilli slysahættu, a.m.k. um nokkurt skeið. Rökin, sem færð eru fram og síðasti ræðumaður ræddi allrækilega um, eru m.a. þau, að Íslendingar, sem eru á ferðalagi erlendis, þurfi að vera vanir hægri handar akstri, þar sem það sé meginreglan, a.m.k. í Evrópu, og útlendingar, sem koma til Íslands, þurfi einnig að geta ekið eftir sömu reglu og þeir eru vanir í heimalandi sínu, þ.e.a.s. hægri handar reglunni. Ég get ekki séð, að þetta séu nægileg rök til þess að taka þá örlagaríku breytingu, sem hér er fyrirhuguð, og mér finnst satt að segja, að þetta sé hálfgerður undirlægjuháttur við útlendar þjóðir, svo að ekki sé meira sagt.

Svíar eru að undirbúa hægri handar akstur. Eins og öllum er kunnugt um, er það land umkringt öðrum löndum, sem smátt og smátt hafa samræmt sínar umferðarreglur öðrum löndum í Evrópu og orðið að laka upp hægri handar aksturinn. Það er vitanlega nauðsynlegt fyrir þjóðir, sem liggja saman, eins og þjóðir á meginlandi Evrópu, að hafa sömu reglu í þessum efnum, alveg á sama hátt og ef tvær eða fleiri reglur giltu á Íslandi. Ef Norðlendingar hefðu hægri handar akstur en Sunnlendingar vinstri handar akstur, er vitanlega nauðsynlegt að samræma þetta og taka aðra hvora regluna upp um allt landið. Það er vitanlega jafnnauðsynlegt að þjóðir, sem liggja saman, hafi sömu reglu í þessum efnum. Þess vegna hefur sú regla þróazt í Evrópu smátt og smátt, eins og hér hefur verið rætt um, að hægri handar aksturinn hefur orðið þar ofan á, og æ fleiri lönd hafa þar tekið þá reglu upp. Menn þurfa þar að sjálfsögðu að aka land úr landi, og samskipti þjóða á milli fara vaxandi. Þess vegna þurfum við ekkert að vera undrandi á því, þó að þessi regla ryðji sér til rúms æ meira. En ég held, að það væri rétt fyrir okkur Íslendinga að bíða a.m.k. nokkuð, doka við og sjá, hvernig þetta fer fram í Svíþjóð. Svíar ætla á næsta ári að stíga þetta skref, og það er lengur búið að bíða en þó að dokað væri við næsta ár til að sjá, hver áhrif þetta hefur og hver reynsla Svía verður af þessari breytingu. Þessu liggur ekki svo mikið á hér, og ég tel, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að lofa Svíum að ljúka þessu máli, og þá væri hægt að taka málið upp aftur, ef svo verkast vildi.

Bretar hafa enn ekki breytt til, og síðasti ræðumaður sagði, að þeir fylgdust vel með þeim hreyfingum, sem ættu sér stað frá vinstri til hægri og myndu framkvæma hægri regluna, þegar jarðgöng væru komin undir Ermarsund. Ég tel, að þetta séu ágæt rök gegn hægri leiðinni og það sé algerlega ástæðulaust að breyta úr vinstri í hægri. Mér er ekki kunnugt um það, að hér séu uppi neinar skoðanir eða till., að jarðgöng verði gerð frá Íslandi til meginlands Evrópu, og ef það eru þau einustu rök, sem gilda í þessum efnum, held ég, að við Íslendingar getum haldið okkur áfram við hina svonefndu vinstri handar reglu. Og meðan Bretar halda vinstri handar reglunni, — og þeir munu áreiðanlega gera það, jafnvel þó að jarðgöng komi undir Ermarsund, — held ég, að okkur Íslendingum sé það óhætt.

Ræðumaður nefndi einnig nokkur ríki í Afríku, sem eru að taka upp hægrí handar akstur, og það fer vitanlega eftir sömu reglu og um önnur lönd á meginlandi Evrópu, að þar sem ein regla hefur orðið ofan á í samfelldum löndum, er ekki nema eðlilegt, að hún ryðji sér þar til rúms. En um eylönd gegnir öðru máli, eins og Breta, Íslendinga, Japani og fleiri eylönd, sem hafa vinstri handar aksturinn. Við þetta er einnig það að athuga, að breytingin um akstursreglu er einfaldari erlendis, þar sem vegir þar eru yfirleitt einstefnuakstursbrautir, en hér á Íslandi er því ekki til að dreifa. Hér eru vegirnir mjóir, krókóttir og þröngir og munu verða það í ríkum mæli um alllanga framtíð. Aðstaða Íslendinga til þessara breytinga er því verri en Svía, sem hafa mikið af vegum með beinan einstefnuakstur, og á slíkum vegum er hættan í umferðinni vitanlega miklu minni.

Þá vil ég benda á það, að undirbúningur þessa máls hefur verið með þeim hætti, að þar hefur verið um nokkurs konar einstefnuakstur að ræða. Það hefur t.d. ekki verið leitað álits leigubílstjóra, þeirra sem aka leigubílum, t.d. hér í Reykjavík og víða úti um land. Álits þeirra hefur ekki verið leitað í þessu máli. Heilar stéttir, sem hafa atvinnu sína af akstri, hafa þess vegna ekki fengið tækifæri til þess að segja álit sitt í þessu máli. Ég fullyrði það, að almennt er í landinu vaxandi andúð gegn þessu frv., sem hér er á dagskrá. Það fullyrði ég alveg hiklaust. Og til dæmis vil ég geta þess, að 153 bifreiðastjórar frá Akranesi hafa falið mér að leggja fram mótmæli hér á lestrarsal Alþingis gegn þessu frv., og hef ég að sjálfsögðu gert það með mikilli ánægju.

Ég tel þess vegna og vil segja það að lokum, að hægri handar akstur hefur enga yfirburði umfram vinstri handar akstur. Og meðan engin slík rök eru lögð fram í málinu, er ekki ástæða fyrir okkur Íslendinga að breyta til, og allra sízt er ástæða til að gera það, áður en Svíar hafa komið þessum málum í framkvæmd. Þess vegna mun ég standa að því, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði fellt, því að ég tel það algerlega ástæðulaust og ótímabært.