15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2196 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

72. mál, hægri handar umferð

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þegar umr. um þetta mál var frestað s.l. mánudag, óskaði hæstv. dómsmrh. eftir því, að allshn. tæki til endurskoðunar till. frv. um gjald það, sem leggja skal á bifreiðar til þess að standa undir kostnaði við breytinguna úr vinstri handar umferð í hægri handar umferð, ef frv. verður að lögum. Allshn. bárust aths. rn. við frv. varðandi þetta atriði í morgun, og meiri hl. n. afgreiddi brtt., sem því miður hefur ekki enn þá unnizt tími til að útbýta, en er í prentun og verður væntanlega innan tíðar útbýtt í hv. d. Til þess að gera grein fyrir þessari till., verð ég því, með leyfi hæstv. forseta, að leggja hana hér fram skriflega.

Í frv. um hægri handar umferð er gert ráð fyrir, að lagður verði á bifreiðar sérstakur skattur til að standa undir kostnaði þeim, sem ríkissjóður á að greiða vegna breytingar úr vinstri í hægri handar umferð, og kostnaðurinn er áætlaður 49 4 millj. kr. Frv. gerir ráð fyrir því, að skatturinn greiðist á 4 árum, 1966–1969. Bifreiðum er í frv. skipt í tvo flokka, annars vegar fólksbifreiðar 1–8 farþega og hins vegar aðrar bifreiðar og er skatturinn mismunandi hár eftir þessum flokkum. Einnig gerir frv. ráð fyrir því, að skatturinn verði mismunandi hár eftir árum. Miðað við áætlun Efnahagsstofnunarinnar um bifreiðafjölda, var í frv. áætlað, að skatturinn gæti orðið sem hér segir: Árið 1966 8.320.000 kr., en þá hefði gjaldið fyrir 1–8 farþega bifreiðar verið 200 kr. og fyrir aðrar bifreiðar 350 kr. Árið 1967 13.960.000 kr. Gjaldið hefði þá verið fyrir 1–8 farþega bifreiðar 300 kr., en fyrir aðrar bifreiðar 550 kr. Árið 1968 hefði skatturinn numið 19.360.000 kr., gjaldið verið 400 kr. fyrir minni bifreiðarnar og 750 kr. fyrir aðrar bifreiðar. Árið 1969 var svo ráðgert, að skatturinn yrði 10.160.000 kr., en gjaldið næmi 200 kr. af minni bifreiðunum en 350 kr. af þeim stærri.

Það hefur komið í ljós við nánari athugun á þessum till. frv., að vegna þess að gjalddagi bifreiðaskatts er 1. janúar og eindagi 1. apríl, er ekki hægt eða a.m.k. örðugleikum bundið að innheimta skattinn á þessu ári. Er þess vegna um það að ræða, að í stað þess, að skatturinn greiðist á árunum 1966–1969, greiðist hann annað hvort á árunum 1967–1969 eða á árunum 1967–1970.

Jafnframt því að benda á þennan annmarka á innheimlu skattsins hefur tollstjóri lagt á það ríka áherzlu, að um þennan skatt giltu að öllu leyti sömu ákvæði og um aðra bifreiðaskatta, þ.e.a.s. þannig, að um endurgreiðslu geti verið að ræða, ef bifreið er ekki í notkun. Var ekki gert ráð fyrir því í frv. Nú hefur dómsmrn. reiknað út, eða látið reikna út, hvernig þessi skattur mundi skiptast, í fyrsta lagi, ef gert væri ráð fyrir því, að hann greiðist á árunum 1967–1970. Til þess að gera þetta sem stytzt, vil ég taka það fram strax, að það er siðari kosturinn, sem meiri hl. allshn. leggur til að valinn verði, þ.e.a.s. að gjaldið greiðist á árunum 1967–1970 í staðinn fyrir að frv. gerir ráð fyrir, að það greiðist á árunum 1966–1969. Þetta færist þannig fram um eitt ár. Jafnframt eru gerðar lítils háttar breytingar á gjaldinu vegna ábendinga tollstjóra um það, að um skattinn gildi sömu reglur og um aðra bifreiðaskatta, og er þá gert ráð fyrir að vegna innistöðu bifreiða geti verið um 8–9% endurgreiðslur á skattinum að ræða árlega. Í samræmi við þetta er gjaldið hækkað lítið eitt, og enn fremur er gerð sú breyting, að gjaldið er hækkað frá till. frv. fyrstu árin, en lækkað seinni tvö árin. Í samræmi við þetta leggur meiri hl. allshn. í fyrsta lagi til breytingu við 12. gr. um það, að gr. orðist svo:

„Á árunum 1967–1970 skal greiða í ríkissjóð sérstakan skatt af bifreiðum sem hér segir:

a) Af fólksbifreiðum 1–8 farþega 240 kr. árið 1967, 360 kr. árið 1968, 360 kr. árið 1969 og 180 kr. árið 1970. b) Af öðrum bifreiðum 420 kr. árið 1967, 660 kr. árið 1968, 660 kr. árið 1969 og 300 kr. árið 1970.“

2. brtt. allshn. er við 13. gr. og er á þessa leið: „Gr. orðist svo:

Skattur þessi skal innheimtur með bifreiðagjöldum, og skulu gilda um innheimtu hans sömu reglur og um bifreiðaskatt, þ. á m. ákvæðin um frádrátt á gjaldi vegna innlegu skráningarmerkis, um lögtaksrétt og lögveð.“

Og 3. brtt., sem leiðir af hinum fyrri, er við 15. gr. Greinin falli niður, og breytist greinatalan samkv. því. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þessum brtt. meiri hl. allshn. og leyfi mér að leggja þær fram skrifl. og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þeim.