15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

72. mál, hægri handar umferð

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir til 3. umr., á þskj. 87, um hægri handar akstur, var flutt snemma á þessu þingi. Því var útbýtt, að ég ætla, til þm. 18. nóv. og skömmu síðar vísað til n. hér í þessari hv. d. Svo leið langur tími eða fram í miðjan marzmánuð og lengur, þannig að málið var ekki afgreitt úr n., og ég ætla, að margir þm. hafi litið svo á, að ekki væri til þess ætlazt, að málið yrði afgreitt á þessu þingi, þar sem það hefur legið svo lengi í n., og þá ekki sízt vegna þess, að vart hefur orðið töluverðrar andúðar hjá almenningi í sambandi við þetta mál, sem komið hefur fram á ýmsan hátt, m.a. í blöðum. Nú fór hins vegar svo, að eftir að komið var nokkuð langt fram í marzmánuð, var það afgreitt frá n. þannig, að meiri hl. n. mælti með frv., en minni hl. mælti því í gegn, og hefur það síðan verið samþ. við 2. umr.

Ég hef gert mér nokkurt far um að kynna mér þau gögn, sem legið hafa fyrir í sambandi við þetta mál, í grg. þeirri, sem fylgdi frv., frá þeim, sem að því hafa unnið að undirbúa það, og í nál., sem fyrir lágu við 2. umr., og þá m.a. þær upplýsingar, sem eru í þessum plöggum um fyrirkomulag þessara mála í öðrum löndum. Ég hef saknað þess, að þær upplýsingar um fyrirkomulag þessara mála í öðrum löndum eru ekki svo ítarlegar sem mér hefur virzt að þær ættu að vera, því að mér sýnist, að það hefði verið eðlilegt, að þeir, sem unnu að undirbúningi þessa máls, hefðu látið frv. fylgja upplýsingar um umferðarreglur hjá öllum öðrum þjóðum. Sjálfstæð ríki í veröldinni eru ekki fleiri en svo, að það hefði átt að vera auðvelt að afla upplýsinga um þetta efni, eins og nú er ástatt, þar sem þær upplýsingar hljóta að sjálfsögðu að vera fyrir hendi og auðvelt að afla þeirra, t.d. á vettvangi Hinna sameinuðu þjóða. Þetta hefur ekki verið gert, heldur eru hér tilgreind nokkur dæmi um umferðarreglurnar annars staðar í heiminum og almennt frá því sagt, að þróun gangi í þá átt að taka upp hægri handar akstur í staðinn fyrir vinstri handar akstur. Þó kemur það fram í þessum upplýsingum, að tvö af stærstu eyríkjum heims, þ.e.a.s. Japan og Stóra-Bretland, hafa enn vinstri handar umferð, og það kemur enn fremur fram í upplýsingunum, að öll eyríki í norðurálfu hafi enn vinstri handar umferð. Ef þetta frv. verður samþ. hér á Alþ., verður Ísland þannig fyrst eyríkjanna í norðurálfu til þess að breyta sínum umferðarreglum. Ég veit ekki, hvort það yrði fyrsta eyríki í heimi, því að til þess skortir upplýsingar, að hægt sé að komast að raun um, hvort svo er. Meðan svo er ástatt, að ekkert eyríki hér í álfu hefur séð ástæðu til þess að breyta sínum reglum, sýnist mér a.m.k., að það orki tvímælis, að frekar sé ástæða til þess fyrir Ísland að gera það, og að sú röksemd geti ekki haldið í því máli, að ekki sé hægt að fá bifreiðar, sem henti fyrir vinstri handar umferð. Einhvern veginn hljóta þær tvær stórþjóðir, sem ég nefndi áðan og samtals telja 150 millj. manna, að eiga þess kost að fá þær bifreiðar, sem bezt eru taldar henta fyrir vinstri handar akstur.

Nú vil ég segja það að öðru leyti, að mér virðist það einnig koma til álita í sambandi við þetta mál, hvort ekki væri ástæða fyrir Íslendinga til þess að bíða þess, að í ljós komi, hver reynsla Svía verður af því að skipta um umferðarreglur, en það er alveg að því komið, að þeir geri það, og ekki langt þess að biða, að það komi í ljós, hver reynslan verður af þeirri breytingu þar í landi. Mér sýnist, að það gæti ekki skipt mjög miklu máli að bíða þess, þannig að það komi vissulega til álits að gera það.

Enn fremur vil ég vekja athygli á því, að þeir, sem látið hafa í té umsagnir um þetta mál, eru, að ég ætla, eingöngu embættismenn eða fulltrúar stofnana, sem eru staðsettar hér í höfuðborginni. Það hefur ekki verið leitað sérstaklega umsagnar aðila, sem staðseltir eru annars staðar á landinu, um þetta mál. En mér kemur þetta svo fyrir sjónir, að það kunni að vera dálítið mismunandi sjónarmið hjá aðilum og hjá almenningi um þetta mál eftir því, hvar menn eru búsettir á landinu, og að þessi áhugi fyrir því að breyta hér um umferðarreglur kunni að vera nokkuð mikið miðaður við það ástand, sem hér er í Reykjavík og umhverfi hennar, að vegir eru tiltölulega nokkuð góðir miðað við það. sem annars staðar er, og líkur til þess, að vegakerfið breytist til hins betra. Og ég er ekki viss um, að ýmsar þær röksemdir, sem hafa komið fram hér í umr. fyrir því að breyta úr vinstri handar akstri yfir í hægri handar akstur, fái staðizt jafnvel, ef þær eru skoðaðar sérstaklega með tilliti til ástands veganna, eins og það er víðast hvar í landinu. Vissulega sýnist leikmanni eins og mér í þessum málum, sem kann ekki að aka bifreið og á sjálfsagt ekki eftir að læra það, að það hljóti að vera við nokkuð önnur vandamál að stríða fyrir þá, sem eru í umferðinni á fullkomnum nýtízkuvegum annars vegar og hins vegar á þeim vegum, sem algengastir eru hér á landi. Ég vil hins vegar ekki hætta mér langt út í að ræða þau mál af skiljanlegum ástæðum, því að ég tel mig skorta þekkingu og reynslu á því sviði, en þetta kemur mér þannig fyrir sjónir.

Sú niðurstaða, sem ég kemst að í sambandi við þessar hugleiðingar, hefur leitt til þess, að við 2. umr. greiddi ég ekki atkv. um þetta mál, og, nú, þegar að því er komið, að málið verði tekið til endanlegrar afgreiðslu í d., sýnist mér, að æskilegt væri, að almenningi gæfist þess kostur að kynna sér betur þetta mál og ræða það. Það er mjög algengt, að slík mál sem þessi séu ekki afgreidd á fyrsta þingi, sem þau eru flutt, heldur látin bíða milli þinga, til þess að ráðrúm gefist fyrir almenning til þess að átta sig betur á þeim.

Ég vil leyfa mér að leggja hér fram till. til rökstuddrar dagskrár, sem ég mun afhenda hæstv. forseta og hljóðar svo:

„Með því að æskilegt er, að þjóðin fái ráðrúm til þess að kynna sér málið og ræða það milli þinga, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“