15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

72. mál, hægri handar umferð

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög fáorður. Ég vil aðeins vekja athygli á því til þess að koma í veg fyrir misskilning í sambandi við það, sem hv. 2. landsk. sagði, að í ræðu minni áðan mælti ég ekki gegn þessu frv. efnislega. Ég mælti gegn því, að það yrði samþ. á þessu þingi, og lét í ljós þá ósk, sem fram kemur í dagskrártill., sem ég bar fram, að því yrði frestað,þannig að þjóðin fengi ráðrúm til þess að kynna sér málið nánar og ræða það á milli þinga. Ég lét ekki heldur þau orð falla, að þeir, sem gefið hefðu umsögn um þetta mál, væri eingöngu fulltrúar þeirra, sem búsettir eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég sagði, að þeir embættismenn og aðrir, sem þessar umsagnir hafa gefið, væru starfandi hér á þessu svæði, þar sem umferðin er nokkuð með öðrum hætti en annars staðar á landinu, og mér hefur sýnzt ekki útilokað, að það kynni að hafa verið þessum aðilum ríkara í huga, sem þeir hafa fyrir augunum dag hvern, heldur en hitt, sem fjarlægara er. Ég hef auðvitað engin gögn fyrir því hér, en ég hef rætt við allmarga menn um þetta mál, sérstaklega fólk, sem á heima annars staðar á landinu, og ég hef ástæðu til þess að ætla, að a.m.k. á þessu stigi sé allmikil andstaða meðal almennings gegn þessu máli. En ef hér á að verða breyting á, verður hún auðvitað að framkvæmast með samstarfi yfirvaldanna og almennings í landinu. Það skiptir ekki litlu máti, að almenningur sé sama sinnis og þeir, sem slíka löggjöf setja, ef það verður gert. Og ég fæ ekki séð, að eitt ár til eða frá skipti máli í þessu sambandi. Hér er talað um, að það verði alltaf dýrara og dýrara með ári hverju, miklu dýrara nú en það hafi verið fyrir 20 árum að breyta til. Þetta er auðvitað rétt í krónum talið, en krónurnar eru ekki sambærilegar nú og fyrir 20 árum, og jafnvel þó að þetta drægist eitthvað og yrði gert síðar og þá nokkru dýrara, mætti e.t.v. ætla, að þjóðin yrði þess þá einnig betur umkomin að standa straum af því, þannig að slíkur talnasamanburður um kostnað hefur a.m.k. takmarkað gildi.

Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég held, að hér geti verið um töluvert mismunandi sjónarmið að ræða eftir því, hvort menn hafa í huga þá umferð, sem hér er t.d. á höfuðborgarsvæðinu og líkleg til að verða þar, þegar hraðbrautirnar verða byggðar, og svo aftur hitt, sem því miður er enn þá miklu algengara hér á þessu landi. Hv. 2. landsk. nefndi áðan umferðina á lélegum og mjóum vegum, þar sem töluverð hætta getur að sjálfsögðu stafað af því, að menn fari of nærri vegarbrún. Og mér koma í hug í því sambandi einmitt ýmsir vegir, sem hv. þm. er sérstaklega kunnugur á Vestfjörðum, vegir sem liggja í hliðbratta, í bröttum fjallahlíðum og slíkir vegir eru víðar á landinu. Ég held, að þar sem svo stendur á, þurfi að hafa töluverða aðgæzlu á vegarbrúninni, og oft verður maður þess var, þegar bifreiðar fara um slíka vegi, kannske í misjafnri færð, að bifreiðarstjórinn horfir út um gluggann vinstra megin til að fylgjast með vegarbrúninni, það getur hann ekki gert, ef hann situr hinum megin í bílnum. Þetta hygg ég, að ég segi á réttan hátt, þó að ég sé ekki vel að mér um bifreiðaakstur.

Að lokum aðeins þetta: Ég er ekki að mæla með eða móti þessu frv. efnislega. Ég er aðeins að óska eftir fresti. Mér finnst, að sá frestur væri sambærilegur við ýmislegt, sem áður hefur gerzt hér á þingi, þegar komið hafa fram vandasöm mál, sem þó varða allan almenning í framkvæmd. Þá eru þau gjarnan látin bíða og höfð í athugun á milli þinga. Um það er dagskrártill. mín í þessu máli.