19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

72. mál, hægri handar umferð

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hleyp í þessa umr. hérna, en hef verið nokkuð bundinn við Nd., en það er nú aðallega til þess, að það tefjist ekki, að málið fái afgreiðslu.

Þetta mál er orðið nokkuð mikið umrætt og sennilega þegar töluvert kunnugt hv. þdm. Eins og fram mun koma í grg., var þetta frv. á sínum tíma undirbúið í samræmi við ályktun, sem gerð var hér á Alþ.,ríkisstj. léti kanna aðstöðu til þess að breyta til, taka upp hægri handar akstur í staðinn fyrir vinstri handar akstur og leggja þá fyrir þingið till. um það að undangenginni þeirri könnun. Og frv., sem hér liggur fyrir, er ávöxtur af þeim rannsóknum og athugunum, sem ríkisstj. lét fram fara, og er nánar gerð grein fyrir því í grg. frv. Um þetta fjölluðu ýmsir aðilar, sem helzt hafa sérfræðilega þekkingu í sambandi við umferðina, og þeir hafa, — ég held það sé rétt hjá mér, — allir lagt til eða mælt með því, að hægri handar umferð væri upp tekin. Svo eru ýmsar hugleiðingar í grg. almennt um vinstri handar og hægri handar akstur, og ég held, að niðurstöður um það verði ekki sagðar aðrar en það sé í sjálfu sér eða út af fyrir sig sama, hvorum megin vegarmiðju keyrt er, að önnur leiðin þar hafi ekki kosti í sjálfu sér umfram hina. Það er þá helzt fært til rökstuðnings því að taka upp hægri handar akstur, að það sé í heild í samræmi við það, sem langflestar þjóðir hafa nú og í vaxandi mæli. Það er að vísu svo, að töluvert margar þjóðir hafa haft vinstri handar akstur en hafa horfið frá því, og það virðist vera tilhneiging til þess að breyta til í þessum efnum. Nærtækasta dæmið núna, sem á döfinni er, eru Svíar, eins og kunnugt er, sem eru að undirbúa að taka upp hægri handar akstur hjá sér. Það hefur réttilega verið bent á, að það er nokkuð öðruvísi ástatt hjá okkur, við erum eyland langt norður í hafi, en land þeirra liggur að landamærum Noregs og örstutt til Danmerkur og annarra nágrannaríkja, og menn, sem ferðast á ökutækjum, hverfa þá mjög snögglega frá einu til annars, frá vinstri handar akstrinum til hægri handar akstursins. Verður náttúrlega að fallast á, að þetta er nokkuð sitt hvað.

Ég get líka fallizt á, að það er eðlilegt, að menn hafi mismunandi skoðanir á þessu máli eftir því, hvar menn eru búsettir hér á landi, og það verður að telja harla litla nauðsyn á að breyta til í dreifbýlinu og víðast hvar úti um landið, og jafnvel má færa rök fyrir því, að sums staðar sé öllu betra kannske að keyra, þar sem lélegir og þröngir vegir eru, á vinstri kanti heldur en á hægri kanti. En um hitt held ég að verði varla deilt, að þar sem umferðin er mikil og vaxandi, þ.e. fyrst og fremst í Reykjavik og bæjunum hér í kring og á þessu þéttbýlissvæði hér við Faxaflóann, þá hygg ég, að það verði samt sem áður yfirleitt taldir fremur kostir að taka upp hægri handar aksturinn, og að það er lagt til núna að taka upp hægri handar akstur, er m.a., og ég vil að menn taki eftir því, m.a. vegna þess, að þannig stendur á, að það er verið að skipuleggja mjög umfangsmiklar umferðaræðar í Reykjavík, út úr Reykjavík og í nágrenni Reykjavíkur, sem stundum er kallað Stór-Reykjavík, og það hefur verulega mikla þýðingu í sambandi við þessa skipulagningu að vita, að hverju er stefnt, hvort á að taka hér upp hægri handar akstur eða ekki. Á sama hátt hefur það verulega þýðingu fyrir aðila, sérstaklega í sambandi við stærri bíla, að vita það, þegar málið er komið á dagskrá, að hverju er stefnt í þessu, enda munu menn þegar gera ráðstafanir í sambandi við pantanir á bílum, miðað við það, hvað menn teldu, að hér yrði ofan á.

Ég veit, að menn hafa nokkuð miklað fyrir sér hættuna í sambandi við e.t.v. alvarleg umferðarslys, sem af því kann að leiða að breyta til eins og hér er talað um. Reynsla annarra þjóða af þessu virðist ekki vera sú, að við þurfum að óttast verulega mikið í því sambandi. Og á hitt er bent í leiðinni, að öll sú mikla aðgæzla og eftirlit, sem nauðsynlegt verður í sambandi við breytingar, ef að því ráði yrði hnigið, það mundi sjálfsagt eima nokkuð lengi eftir af því og veitir ekkert af, þetta yrði verulegur skóli í umferðarkennslu, ef svo mætti segja, og umferðareftirliti, þegar slík breyting á sér stað, og það er lagt dálítið upp úr því af þeim, sem til þekkja, að það út af fyrir sig hefði líka mikið gildi, bæði meðan á því stendur og mundi í nánustu framtíð a.m.k. þar á eftir geta haft verulega þýðingu til þess að sporna við umferðarslysum. Þróunin er svo ör í þessum efnum, að þeir, sem hafa ökuskírteini, fylgjast oft og tíðum tæplega með, og undan því hefur verið kvartað, kynna sér ekki nógu vel hinar nýju umferðarreglur, ný umferðarmerki og allt því um líkt. En slík breyting eins og þessi hefur verulega þýðingu til þess, að menn taki sig alvarlega á og hressi upp á þekkingu sína, eldri þekkingu á umferðarlögum og umferðarreglum og umferðarmerkjum og öðru slíku.

En til þess að lengja ekki mál mitt um of hér, vil ég taka fram, að þegar ég lagði þetta mál fyrir Nd., tók ég það fram, að af hálfu ríkisstj. væri málið flutt vegna ályktunar þingsins og einstakir ráðh. væru óbundnir í málinu af þeim sökum, það er ekki flutt sem stjórnarfrv. í þeim venjulega skilningi. Hitt er svo annað mál, að ég lýsti því sem minni persónulegu skoðun, að ég teldi, að það væri rétt að huga að þessu ráði núna og ekki seinna vænna, og mér er það ljóst, að ef þetta verður ekki gert nú, þá verður það ekki í nánustu framtíð, sem breyting verður á þessu, sjálfsagt ekki í okkar tíð. Við því er kannske ekkert að segja. En ég vil þó benda á það, að við erum ákaflega ört vaxandi, og ef við aðeins lítum svolitið til baka, sjáum við, að gífurleg þróun hefur átt sér stað í umferðarmálum og meðferð ökutækja. Nú erum við innan við 200 þús. manns, og er gert ráð fyrir. að við verðum um 400 þús. manns um aldamótin, sem á ekki svo langt í land, og það er gert ráð fyrir, að Íslendingar verði um 1 milljón um árið 2050–2057 er það áætlað, held ég, og 3 millj. Íslendinga um 2118. Það er því ekki nema innan við 100 ár, þar til við erum taldir verða um 1 millj., og 200 ár eða svo, þangað til íslendingar eru orðnir um 3 millj. Þetta finnst mér allt leiða frekar til þess, að það muni fyrr eða síðar koma að því, að við semjum okkur að háttum annarra þjóða í þessu, því að það er ekki aðeins, að menn ferðist með sin farartæki með sér til útlanda, heldur er, eins og kunnugt er, orðið mjög algengt, að menn, sem eru erlendis, leigja sér bifreiðar þar, og ferðir Íslendinga erlendis aukast stöðugt, og einnig mætti vænta þess, að með betri vegum hér og ýmissi annarri aðstöðu yrði Ísland kannske í ríkum mæli ferðamannaland, sem mundi laða til sín ferðamenn á ökutækjum. Sem sagt, þegar horft er dálítið fram í tímann, virðast mér æ sterkari rök mæla með því en ella, að að þessu muni síðar koma. Ef við höfum það hugboð og nokkra sannfæringu fyrir,að svo muni verða, finnst mér hiklaust, að við eigum að reyna að taka skrefið núna og að þeir, sem á eftir koma, mundu hafa af því mikla erfiðleika einmitt, ef þetta yrði látið hjá líða. En ég skal ekki hafa uppi neinn áróður í sambandi við málið. Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég hef lagt á það áherzlu, að Alþ. taki afstöðu til málsins til eða frá, svo að það liggi ljóst fyrir, hvað verða vill í málinu, eflir að þessu þingi lýkur.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til hv. allshn.