19.04.1966
Efri deild: 66. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

72. mál, hægri handar umferð

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla ekki á þessu stigi að ræða neitt um efni þessa máls, ég ætla aðeins að gera stutta athugasemd um málsmeðferðina. Sú athugasemd er fram sett vegna síðustu ummæla hæstv. dómsmrh., en hann lauk máli sínu eitthvað á þá lund, að hann legði áherzlu á, að Alþ. tæki afstöðu til þessa máls. Að gefnu því tilefni vil ég rifja það upp og benda á, að þessu frv. var útbýtt í Nd. og það lagt þar fram 18. nóv. s.l. Það hefur síðan verið að velkjast í Nd., og Nd. hefur því haft 5 mánuði til þess að athuga þetta mál. Nú er það komið hingað til Ed., og þá er ætlazt til þess, að Ed. afgreiði það á þeim tíma, sem eftir er þingtímans, sem líklega má gera ráð fyrir, að fari ekki mikið fram úr hálfum mánuði a.m.k. Samtímis liggja svo hér fyrir Ed. mörg önnur stórmál, að ógleymdu því stærsta máli, sem til Ed. kemur væntanlega í næstu viku. Ég verð þess vegna að líta svo á, að Ed. sé ætlaður ákaflega naumur tími og alveg óhæfilega naumur tími til að fjalla um þetta mál, miðað við þann tíma, sem Nd. hefur haft það til meðferðar. Ég verð í sjálfu sér að átelja þessi vinnubrögð. Hæstv. ráðh. gæti að vísu svarað því til, að það væri ekki við sig að sakast í þessu efni, þar sem Nd. hefði haft málið til meðferðar svona lengi. En í raun og veru er það ekki gild afsökun, því að vitaskuld eiga ráðh. að fylgast með þeim málum, sem þeir leggja fram á þingi, og gæta þess, hvernig þau eru afgreidd, og sjá til þess, að báðar d. fái nægilega rúman tíma til að athuga mál.

En hvað sem menn vilja segja um þetta mál, er ljóst, að það er mikið prinsip-mál, sem þarna er um að ræða. Það er ljóst, að skoðanir eru mjög skiptar um það, og m.a. rignir yfir Alþingi, að ég held, mótmælum gegn samþykkt þessa frv. Aðrir aftur á móti telja nauðsyn á samþykkt þess, og það eru þeir, eins og hæstv. ráðh. benti á, sem standa að samningu þessa frv. og má kannske að sumu leyti telja sérfróða í þeim efnum, þó að ég haldi nú, að það sé fullstórt til orða tekið um þá.

Loks er gert ráð fyrir því, eins og hæstv. síðasti ræðumaður vék að, að sú breyt., sem þetta frv. hefur í för með sér, kosti mjög mikið fé, og það er gert ráð fyrir fjáröflun í þessu frv. til að vega upp á móti þeim útgjöldum. Allt þetta leiðir til þess, að það er fullkomin ástæða til þess fyrir þessa hv. d. og alveg sérstaklega þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, að athuga það gaumgæfilega, og ég verð að segja það, af því að ég á sæti í þeirri n., sem lagt er til að frv. fari í, að þá mun ég alveg hiklaust gera kröfu til þess, að þeir, sem þetta frv. hafa samið, verði með sama hætti kvaddir á fund n. í Ed., eins og þeir voru á sínum tíma kvaddir á fund n. í Nd., þannig að n. í Ed. hafi í öllu tilliti sömu aðstöðu til að fylgjast með í þessu máli og kynna sér það frá rótum og n. í Nd. hafði. Og þegar tillit er tekið til þess, sé ég fyrir mitt leyti litla möguleika á því, að þetta frv. verði með sæmilegum hætti afgreitt á þessu þingi, enda fæ ég ekki séð, að það geri neitt til, þó að það dragist til næsta þings, að menn taki afstöðu til þess.

Það var einmitt þetta, sem ég vildi undirstrika núna strax vegna þeirra orða, sem ráðh. lét falla og eiginlega verða ekki skilin á aðra lund en þá, að hann legði áherzlu á, að á þessum stutta starfstíma, sem eftir er, tæki Ed. afstöðu til málsins og afgreiddi það. Ef hæstv. ráðh. hefði verið hér viðstaddur, hefði ég einmilt viljað nú beina þeim tilmælum til hans, að hann lýsti því yfir, að hann fyrir sitt leyti legði það algerlega í vald d. og þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, hvort hún afgreiddi það að svo stöddu, en hann fyrir sitt leyti legði ekki neina áherzlu á, að þetta Alþingi tæki afstöðu til málsins.

Það var þessi athugasemd, sem ég vildi koma á framfæri hér. Auðvitað hefði þessi aths. mátt koma fram og náttúrlega enn þá frekar í sambandi við það mál, sem rætt var um hér skömmu áður,verðtryggingu sparifjár,sem var lagt fram miklu fyrr á þinginu og er 20. mál þingsins og Nd. hefur haft til meðferðar allan þingtímann. þangað til það nú loks er komið upp í Ed. og Ed. ætlar að afgreiða það mikla mál líka á tveimur vikum í hæsta lagi, um leið og henni er ætlað að fjalla um önnur þau stórmál, sem hún á að afgreiða á þessum tíma. Þetta eru náttúrlega ekki nokkur vinnubrögð, og þeir, sem stjórna þessum málum, ættu að íhuga það alvarlega, hvort hér þarf ekki að ráða einhverja bót á og gæta þess, að málin séu ekki höfð óhæfilega lengi til meðferðar í annarri deild og svo sé þeirri, sem síðar fær málið til meðferðar, ætlað það hlutskipti að afgreiða það á örskömmum tíma og þá auðvitað án þess, að það gefist tími til fyrir hana að athuga það, úr því að menn eru á annað borð að halda í þessa deildaskiptingu, sem ég fyrir mitt leyti tel mjög mikið umhugsunarefni, hvort nokkur ástæða er til.

Það, sem ég sem sagt vildi, — af því að hæstv. ráðh. er kominn, — og var raunverulega tilefni til, að ég stóð upp, voru þessi orð hans, að hann legði áherzlu á, að Alþingi tæki afstöðu til málsins. En með tilliti til þess, hvernig þetta allt er vaxið, hefði ég eiginlega viljað mælast til þess, að hann lýsti því nú yfir, að hann legði fyrir sitt leyti enga áherzlu á, að málið yrði afgreitt á þessu þingi, enda skildist mér það á honum, og hann tók það fram, að þetta væri ekki neitt stjórnarmál í eiginlegum skilningi, og mér skilst, að þeir hafi breytt þarna skattgjaldinu í Nd. á lokastigi, þannig að það á ekki að innheimta þetta ár, svo að ég fæ ekki séð, að það sé neinu spillt, þó að þetta mál dragist til næsta þings. Og það, sem ég vildi nú eiginlega fá fram, var það, að af ráðh. hálfu yrði ekkert ýtt á eftir n., sem fær þetta til meðferðar, þannig að hún fái alveg sömu möguleika og n. í Nd. til að kalla á sinn fund þá sérfræðinga, sem fjallað hafa um þetta mál, og til að kynna sér það ítarlega á alla lund.