02.05.1966
Efri deild: 78. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

72. mál, hægri handar umferð

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., sem ég vil gera svolitla aths. við.

Hann minntist á, að ein af meginröksemdum fyrir þessari breyt., sem frv. geri ráð fyrir, sé aukin slysahætta, þ.e.a.s. að með vaxandi ferðalögum Íslendinga til útlanda og vaxandi ferðamannastraumi hingað til landsins hafi það í för með sér aukna slysahættu að halda áfram að hafa hér vinstri handar umferð. Þetta er ekki í samræmi við það, sem n. fékk upplýsingar um. Á fundi n. mætti m.a. lögreglustjórinn í Reykjavík. Hann var spurður að því, hvort það hefði skapað vandræði í umferðinni, að hér hefur síðustu áratugina verið fjölmennt bandarískt setulið. Hann svaraði þeirri spurningu afdráttarlaust neitandi, enda þótt í Bandaríkjunum sé hægri handar umferð, en hér vinstri handar, hafi það ekki skapað nein vandræði hér, að þúsundir manna frá Bandaríkjunum hafi verið hér í umferðinni. Þetta voru þær upplýsingar, sem lögreglustjórinn í Reykjavík gaf hv. allshn., svo að hér getur ekki verið um nein sterk rök að ræða, að það sé aukin slysahætta í sambandi við það atriði málsins.

Þá minntist hv. frsm. á miklar vegaframkvæmdir, sem fyrirhugaðar væru á Kópavogshálsi. Þær hafi orðið að bíða og raunar gert ráð fyrir í teikningum, að þar yrði um hægri handar regluna að ræða. Vegamálastjórinn var staddur á fundi hv. allshn., og hann sýndi skýringarmynd af þessu hverfi í sambandi við framkvæmdirnar í Kópavogi. Af þeirri skýringarmynd sannfærðist ég um, að það er óhætt að byrja á þessum framkvæmdum, óhætt að fullgera þessar framkvæmdir, hvenær sem er, því að það skiptir engu máli í sambandi við þær framkvæmdir, hvort heldur er hægri handar eða vinstri handar umferð. Þetta gat maður raunar sagt sér sjálfur, því að öll vegagerð, sómasamleg vegagerð, smá eða stór, er þess eðlis, að það má breyta frá vinstri til hægri eða öfugt án þess að kollvarpa öllu kerfinu. Þetta er staðreynd, einnig í Kópavogi, og ég sannfærist um það af þeirri skýringarmynd, sem vegamálastjóri lagði fram á fundi hv. allshn.

Mín skoðun er sú, að Alþ. eigi ekki að taka ákvörðun um hægri handar akstur að þessu sinni. Breytingin hefur, eins og allir viðurkenna, ef ekki slysahættu í för með sér, þá óþægindi og töluverðan kostnað. Í þetta væri þó alls ekki horfandi að mínum dómi, ef þörfin væri augljós og knýjandi. En það virðist hún alls ekki vera, og á meðan svo er, tel ég ekki rétt að ráðast í þetta fyrirtæki. Að mínu áliti er miklu betra að bíða með þessa breytingu. Hver verður skoðun manna eftir svo sem 20 ár, árið 1985? Hv. frsm. meiri hl. nefndi það ártal. Hver verður skoðun Íslendinga þá á þessu máli? Kannske verður hún þá sú og studd þungvægum rökum; að breyta skuli til í þessu efni. En hún getur líka allt eins orðið sú, að það sé hreinn óþarfi. Ég sé enga knýjandi ástæðu til að snúa sér að þessu verkefni nú, svo vafasamt sem það er.